Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 29. október 2008
Auschwitz
Í tilefni dagsins ...
Í gær hjóluðum við hins vegar um Kraká og létum segja okkur allt. Meðal annars sagði Mike okkur frá leikhúsinu sem var með sína eigin rafstöð, síðan fékk leikhúsið rafmagn og breytti rafstöðinni sinni í nýtt míní-leikhús. Hann leit út fyrir að finnast hugmyndin ómöguleg (og ég hugsað um Smíðaverkstæðið o.fl.) að ég spurði hvað væri að því. Og hann sagði okkur það.
Svo ræddum við kommúnisma, kapítalisma, stúlkuna sem varð kóngur, hundinn sem yfirgaf ekki dánarbeð eigandans, Gorbatsjoff og Reagan, Schindler - og nú hef ég ekki tíma til að muna meira.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. október 2008
2.000 evrur til að vera leiðsögumaður í Póllandi
Við erum svolítill hópur sem röltum um Kraká á sunnudaginn. Þegar við komum að háskólanum fórum við inn í portið og Egill sagði okkur undan og ofan af honum. Þá dreif að einn Pólverja sem vandaði heldur betur um við hann og sagði að það kostaði 2.000 evrur að verða leiðsögumaður.
Og við sneyptumst út.
Við ályktum að hann hafi vísað í leiðsögunám og löggildingu. Það má ekki hvaða kújón sem er, ekki einu sinni þótt hann sé á ferð með 20 nánustu vinum eða samstarfsmönnum, leiðsegja um borgina.
Hvenær fáum við, íslenskir leiðsögumenn, löggildingu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. október 2008
Reykjavíkurmaraþon ... Nýja-Glitnis 22. ágúst 2009?
Ég hef skokkað mína reglulegu 3, 7 eða 10 kílómetra í hlaupi sem upphaflega var aðeins kennt við Reykjavík. Fyrir nokkrum árum var nafninu breytt í Reykjavíkurmaraþon Glitnis vegna þátttöku Glitnis í kostnaðinum og þáverandi bankastjóri æfði og hljóp stoltur með pöpulnum.
Kannski er ég komin svolítið fram úr mér, en ég er farin að velta fyrir mér hvað hlaupið muni heita næst. Mun Birna skokka stolt með okkur hinum? Koma jafn margir útlendingar og venjulega?
Nei, aðallega er ég að velta fyrir mér hvernig Reykjavíkurmaraþon Nýja-Glitnis muni hljóma og taka sig út á rauðu bolunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. október 2008
Finna í stað Finns
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 24. október 2008
Túnfiskur - ránfiskur
Fyrr má nú rota en dauðrota. Ég man ekki nákvæmlega hvað ORA-túnfiskur kostar í öllum búðum en man eftir honum á vel innan við 100 krónur í ónefnanlegu búðinni. Nú bráðvantaði mig túnfisk í morgun og fór í 10-11. Þar kostaði dósin 269 krónur.
Ég hafði því miður ekki geð í mér til að kaupa eitthvað úr alheimshafinu sem var pakkað í íslenskri pökkunarvél og keypti sama magn í útlenskri dós í á 59 krónur - og blöskraði samt.
Þjóðerniskenndin ristir ekki dýpra enda finnst mér hún ekki afsaka ránverð.
Það undarlega er að fólk verslar þarna, sumt daglega, þótt verð sé tugum og sennilega hundruðum prósenta hærra en í öðrum nærliggjandi búðum. Lengri afgreiðslutími útskýrir auðvitað hærra verð að einhverju leyti, en þarna dró ég mörk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 24. október 2008
Lagalegar forsendur
Eru lagalegar forsendur til að svipta smásparendur og/eða nytsama fasteignakaupendur ævitekjunum?
Eru lagalegar forsendur til að rýra eignir auðmanna um e.t.v. 95%, niður í segjum 50 milljónir?
Eru lagalegar forsendur til að taka launahækkun ljósmæðra til baka jafnskjótt og hún varð að veruleika?
Eru lagalegar forsendur til að skerða grunnskólagöngu barna á aldrinum 6-16 ára?
Eru lagalegar forsendur til að svara út í hött skynsamlegum spurningum fólks sem óttast um framtíð sína?
Um hvað erum við að tala?
Ég skil engisprettufaraldur, hitasóttir, sýkingar, e-bólu, skaðleg flóð, snjóflóð og fárviðri, hæggengar tölvutengingar, jafnvel leti og heimóttarskap - en ég skil ekki hvað varð um þessa peninga ef þeir voru einhvern tímann til.
Og ég þori að hengja mig í hæsta gálga upp á að margur er í mínum sporum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Auðvitað streyma hingað ferðamenn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Frjálst útvarp
Minn munaður er útvarp. Morgunútvörpin eru best, finnst mér, og ég vel oftast Bylgjuna af því að hinar stöðvarnar get ég frekar heyrt í endurflutningi. Og auðvitað sætti ég mig við að ég heyri ekki allt.
Herrarnir þrír í síðdegisútvarpi Bylgjunnar kæta mig líka oft með spaklegum ummælum og skapgæðum. Svo spyrja þeir skynsamlegra spurninga sem hægt er að svara á vefnum. Skyldi ekki svolítið vera að marka þessa svörun?
Annars er ég orðin dálítið uggandi um útvarpið, það gengur almennt fyrir auglýsingum og maður hlýtur að spyrja sig hversu lengi fyrirtæki geti auglýst ef þau eru að leggja upp laupana. Og fái útvarpið ekki tekjur er ekki að spyrja að leikslokum. Getur sjálfstætt og óháð útvarp haldið dampi?
Allt í einu rifjast upp fyrir mér skiptið sem ég fór í fréttaviðtal á Stöð 2 sem formaður Félags leiðsögumanna. Við fengum ekki, og fáum líklega ekki, löggildingu og fréttaefnið var námskrá sem leit út fyrir að myndi höggva að undirstöðu námsins. Ég spurði fréttamanninn sem ég man vel hver var hvort hann stæði ekki með okkur í málinu. Hann brosti bara og sagði miðilinn bara alltaf vera í stjórnarandstöðu.
Þetta kemur málinu náttúrlega ekkert við ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. október 2008
Áfallahjálpin
Fyrir hönd þolenda fjármálaóreiðunnar er ég öskureið (öskurreið er réttara). Ég tapa en ég er smáseiði í menginu og skipti litlu máli. Það er nokkur huggun harmi gegn að öllum sem ég heyri í virðist misboðið þótt einstaka reyni að snúa baki saman og taka undir áskorun um að kjassa fjölskylduna og horfa út um framrúðuna.
Ég vil ekki sjá blóð renna, fjarri því, enda er engum greiði gerður með því. Ég vil hins vegar réttlæti, ég þoli ekki tilhugsunina um að þeir sem eiga sök á óreiðunni og vanlíðan fjölda fólks dilli sér við óminn af hrunadansinum, sendi okkur langt nef og noti ævisparnað gamals fólks til að bóna á sér stélið.
Þá verður mér hugarhægara við að blaða í blogginu hans Egils þrátt fyrir að á þeim ritvelli sé misviturt fólk og því miður of margt nafnlaust, hennar Öldu köldu sem skrifar á svo fallegri ensku þótt hún tali líka góða íslensku, auðvitað Láru Hönnu sem hefur heldur betur sett hlutina á hreyfingu og nokkrar fleiri síður.
Og bráðum hljótum við - líka við sem erum værðarleg - að rumska eins og hver annar þurs. Í hverju skúmaskoti er fólk að tuldra og tuldrið verður æ háværara. Fyrir suma er ástandið lífshættulegt, eins og hvert annað banvænt krabbamein, átröskun eða þunglyndi.
Og AF HVERJU er viðskiptaráðherra ekki lengur með virka síðu? Sér hann eftir einhverju sem hann sagði?
Ég ætla ekki að varpa fram spurningum núna, þær eru þekktar og ég hef ekki svörin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. október 2008
Jón Páll til sölu á Prikinu
Dr. Gunni þyrfti að frétta af Prikinu. Þar fékk ég mér dýrindishvítlaukshamborgara í dag á rúmar þúsund krónur í vönduðum félagsskap. Þjónninn var líka stútfullur af húmor. Eini gallinn er að þegar ég lít inn á heimasíðuna sé ég að verðlistinn er lítillega vitlaus, t.d. er hamborgarinn minn ranglega skráður á 900 krónur, er hins vegar u.þ.b. 15% dýrari. Gott verð samt, gamlar og krúttlega lúnar innréttingar og skemmtilegt útsýni (Ásgeir Friðgeirsson gekk tvisvar fyrir gluggann).
Fyndið að hugsa til þess að ég átti heima í næsta nágrenni við Prikið í ein sjö ár og fór þá aldrei þar inn.
Og Jón Páll er víst bragðsterkur matur á Prikinu, en ekki maður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)