Færsluflokkur: Dægurmál

spron.is - vonandi er fjármálastarfið ekki jafn óskýrt og textinn á heimasíðunni

Endurhverf viðskipti SPRON við Seðlabanka Íslands

Í ljósi umfjöllunar um beiðni Seðlabanka Íslands um auknar tryggingar frá SPRON vegna endurhverfra viðskipta vill SPRON koma því á framfæri að félagið hefur átt takmörkuð viðskipti með skuldabréf annarra fjármálastofnana og hefur gert ráð fyrir því að aukinna trygginga yrði óskað.

SPRON vill jafnframt koma því á framfæri að öll innlend greiðslumiðlun hefur um árabil farið í gegnum Seðlabanka íslands án milligöngu Sparisjóðabanka Íslands.

En auðvitað ætti ég að tala varlega, þetta er þrátt fyrir allt viðskiptabanki minn og dafnar vonandi á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum. Þori ekki að hugsa lengra.


Nú hlýtur hann að fara að éta út úr sér

Eitt ljós í myrkrinu er útvarp. Ein spurningin á laugardaginn í þættinum Orð skulu standa var um orðatiltækið að éta út úr sér. Skemmtilegt. Og nú kýs ég að trúa því - höll undir hið nývinsæla [ekki misritun] myndmál - að hann hljóti að fara að éta út úr sér.

Meðfram horfi ég uppgefin á Kompás í opinni dagskrá. Augljós sannindi um andvaraleysi í bland við galgopahátt og fjárglæpsamlegan ásetning bæta ekki líðan mína núna. Þótt ég sé sjálf reyndar ekki í lífshættu er ástandið lífshættulegt fyrir suma.

En hann hlýtur að fara að éta út úr sér ...


Eftirlit vannýtt auðlind

Man ég ekki rétt að þegar Síminn var í sölumeðferð á sínum tíma - og seldist fyrir 66,5 milljarða króna (vá! fannst mér þá) - kom í ljós eftir dúk og disk að aðalgjaldkerinn hafði fríspilað með einhverja peninga? Ef ég man rétt kom það ekki í ljós fyrr en eiginlega of seint. Eftirlitsaðilinn sá það ekki þótt öll fjármál væru undir í sölumeðferðinni. Og tapaði ekki Síminn umtalsverðum fjármunum á vafasömum fjárfestingum erlendis? Á hverjum bitnaði það?

Fyrsta frétt sem ég fékk í google þegar ég sló inn sölumeðferð Símans var viðskiptaannáll 2006 sem er sjálfstætt forvitnileg lesning.

Ekki er því að undra mikinn áhuga fjárfesta á hlutafjárútboði Íslandsbanka í byrjun ársins þar sem selt var nýtt hlutafé fyrir 19 milljarða króna í lokuðu útboði til fagfjárfesta. Bjarni Ármannsson forstjóri keypti fyrir 930 milljónir og Karl Wernersson fyrir þrjá milljarða.

Febrúar

Mánuðurinn byrjaði á neikvæðum skrifum erlendra greiningardeilda um stöðu bankanna. Bankarnir sögðu gagnrýnina á misskilningi byggða og bjuggust til að bæta upplýsingagjöf til erlendra fjárfesta með von um skjóta úrlausn. Nánar er fjallað um bankaóróann í sérstökum kafla hér til hliðar.

Í byrjun mánaðarins gaf Kaupþing banki svo út svokölluð „sérvarin skuldabréf" til að fjármagna húsnæðislán sín. Bankinn fékk toppeinkunn, AAA hjá Moody‘s, á bréfin, en það er sama einkunn og ríkið og í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki fékk slíka einkunn án ríkisábyrgðar.

„Alveg klárt er að um bankana gildir ekki að illt umtal sé betra en ekkert."
Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, 8. febrúar.

Mars

Umræða um krónuna var lífleg í mars, enda stóð hún höllum fæti í hafsjó erfiðrar umræðu um íslenskt efnahagslíf. 21. mars kom út „svarta skýrslan um Ísland" hjá Danske bank.

Maí

Í maí varð viðsnúningur í umræðu um íslenskt efnahagslíf og stöðu bankanna þegar hagfræðingarnir Frederic Mishkin og Tryggvi Þór Herbertsson birtu skýrslu sína. Útskriftarnemar á Bifröst kynntu einnig ritgerð þar sem bornir voru saman íslenskir og útlenskur bankar. Nemarnir voru bit á vinnubrögðum erlendra greiningardeilda. Þá var í undirbúningi ráðstefna Economist hér á landi og kvað við nokkuð hófstilltan tón í umræðu hagfræðings greiningardeildar Economist fyrir fundinn.

Um miðjan mánuðinn bættist svo við álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn kallaði eftir fastmótuðum reglum um fjárlagagerð sem hjálpað gætu stjórnvöldum að standast útgjaldaþrýsting á þenslutímum. Þá taldi sjóðurinn brýnt að gera breytingar á Íbúðalánasjóði, sem hefði af „þarflausu grafið undan peningastefnu Seðlabankans, aukið ójafnvægi í hagkerfinu og ógnað fjármálastöðugleika". Undir lok mánaðarins tókust svo á sjónarmið bankanna og stýrihóps félagsmálaráðherra sem skila átti tillögum um framtíð Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn var og er enn pólitískt bitbein í hálsi hagkerfisins. Þá voru bankarnir í mánuðinum teknir að tipla á bremsuna í útlánum sínum, gerðu auknar kröfur og lækkuðu hámarkshlutfall lána.

Júlí

Í júlí taldi greiningardeild Kaupþings í efnahagsspá að niðursveifla væri byrjuð í efnahagslífinu og spáði raunvirðislækkun fasteigna um sjö til átta prósent næsta árið.

Straumur-Burðarás kom á óvart í afkomutölum og græddi 300 milljónir þegar spár höfðu gert ráð fyrir milljarðatapi.

Viðskiptaráð gaf út skýrslu sína Krónan eða atvinnulífið í lok mánaðarins. Þar voru sagðir tveir raunhæfir kostir í framtíðarskipan gengismála. Annað hvort að halda krónunni og fljótandi gengi, eða ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. „Til þess að Íslendingar geti átt raunhæft val milli þessara tveggja kosta þarf skipan og stjórn efnahagsmála að vera með þeim hætti að hún sé til þess fallin að stuðla hér að jafnvægi," sagði Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hann fór fyrir hópnum sem skrifaði skýrsluna.

Ágúst

Viðskiptabankarnir þrír sögðust langt komnir með fjármögnun næsta árs og virtust hafa greiðan aðgang að lánsfjármagni. Endurfjármögnunarþörf Landsbankans fyrir næsta ár var sögð nema 2,6 milljörðum evra, Kaupþings um 4 milljörðum evra og Glitnir sagðist hafa lokið fjármögnun næsta árs með útgáfu skuldabréfa fyrir yfir 2,7 milljarða evra.

Október

Stærsta arðgreiðsla Íslandssögunnar fór fram í mánuðinum þegar Kaupþing greiddi hluthöfum sínum 20 milljarða í formi hlutafjár í Exista.

„Hér eru aðstæður almennt góðar en örmyntin helst til trafala. Ég tel að atvinnulífið muni stíga enn frekari skref út úr krónunni og við það veikist miðlunarkerfi Seðlabankans enn frekar."
Árni Oddur Þórðarson stjórnarformaður Marels, á morgun-
verðarfundi Viðskiptaráðs um stöðu krónunnar 3. október.

Desember

Glitnir var svo í mánuðinum fyrstur íslenskra banka til að opna útibú í Asíu, en hann er með útibú í Sjanghæ. Fjármálaeftirlitið kynnti nýja samninga við eftirlit annarra landa í mánuðinum. Væntanlega þrýsta umsvif Glitnis í Asíu á að tekið verðu upp samstarf við fjármálaeftirlitið í Kína.

Straumur-Burðarás sendi svo gárur um þjóðfélagið þegar bankinn ákvað að færa uppgjör sitt í evrum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði engum hafa dottið í hug að fjármálafyrirtæki færðu bókhald í evrum þótt lögfest hefði verði heimild til fyrirtækja um að gera það. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 25 punkta á aukavaxtaákvörðunardegi fyrir jól. Þar með eru vextirnir 14,25 prósent, en sérfræðingar telja að þar með sé lokið hækkunarferli stýrivaxta og þeir taki jafnvel að lækka á fyrri hluta næsta árs.

Mikið eru þrjú ár langur tími.


Kostnaður við sundferðir

Mér varð litið inn á síðuna hans dr. Gunna og sá einhvern kvarta undan stöku gjaldi í sund:

#1383    Ég og kærastan fórum í sund um daginn, nánar tiltekið í Vesturbæjarlauginni. Fyrir okkur tvö kostaði það 720 krónur, eða um 360 krónur á mann! Er þetta eðlilegt? Mér finnst þetta allavega vera heldur mikið!
Óskar nafnleyndar
(nb. Tja, hvað er eðlilegt? Keyptu þér bara 10 sinnum kort, það kostar miklu minna)

Mér er svo óskaplega minnisstætt þegar sundgjaldið var hækkað fyrir tæpum tveimur árum með þeim rökum þáverandi borgarstjóra að útlendingum þætti svo hlægilega ódýrt í sund. Svona man maður miklu betur þegar maður hefur skrifað það hjá sér. (Reyndar finnst mér okurábendingin dálítið slöpp, það kostar ekkert um 360 krónur, það bara kostar 360 krónur á mann.)

Sumarið 2010 á ég líka vel eftir að geta rifjað upp hvar ég var kl. 15 laugardaginn 18. október 2008. Máttur orðsins er mikill, hins talaða sem og hins skrifaða.


Halla á Bylgjunni í morgun

Halla Tómasdóttir frá Auði Capital talaði við árrisula þáttarstjórnendur á Bylgjunni í morgun (meðan ég losaði rólega svefninn) um jafnvægi milli kynjanna, sagði mikilvægt að stjórnendur veldu fólk sem vægi þá sjálfa upp - algengasta villan í mannaráðningum væri að velja fólk sem er svipað og það sjálft. Þessi umræða tengdist kvennaráðningum í bankastjórastöður og hún er svo þörf, svo þörf. Ég er einmitt logandi hrædd við tilhugsunina um bara áhættufælna stjórnendur, rétt eins og bara áhættusækna.

Og rifjast þá upp það sem ég heyrði í vikunni og gekk svo langt fram af mér að ég tapaði því um hríð. Almenni lífeyrissjóðurinn er sjóður okkar leiðsögumanna meðal annarra. Hann er geymdur hjá Glitni og hefur ekki reitt vel af þar núna. Og í stjórn sjóðsins míns er Bjarni Ármannsson hinn áferðarfallegi. Að vonum er hætta á tapi hjá okkur.

Og ég frábið mér allar ávirðingar um nornaveiðar, sökudólga eða baksýnisspegla. Þessi maður er einfaldlega meðal þeirra þegna landsins sem tók meira en honum bar og skildi aðra eftir með skuldirnar - og ábyrgðina.


Ekki spara - bara eyða

Seðlabankastjóri sagði í einhverju viðtali fyrir löngu síðan (af því að það var fyrir fall bankanna) (kannski tveimur mánuðum) að ef sparnaður fólks yrði tekinn af því yrði tekinn burtu hvatinn til að spara í 30-40 ár. Vegna allrar óvissunnar er ég að reyna að temja mér óhóf og skal að mér heilli og lifandi éta hval í hádeginu í dag. Og pólskt gúmmulaði í öll mál eftir viku eða svo.

Reynslusaga mín

Ég á peningamarkaðssjóðsbréf. Sá sjóður hefur verið frosinn frá 3. október en þegar ég hringdi í síðustu viku fékk ég þær upplýsingar að a.m.k. 7% væru töpuð af því að þau hefðu verið í Stoðum. Er það þá ólöglegt? Ef já, hvað gerist næst?

Eru „rekstrarfélög verðbréfasjóða“ einhver dulkóðun? Mátti minn sjóður þetta kannski? Mikið væri nú vel þegið að fá svona fréttir á mannamáli.


mbl.is Engin hlutabréf í eignasafni peningamarkaðssjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið í öryggisráðið eftir hádegi á morgun

Kannski er öllum sama um kosninguna, en ég ætla hér og nú og ylja mér við minninguna um veru mína á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Við náðum ekki inn í öryggisráðsherbergið í þeirri heimsókn, skyldi það nú tákna eitthvað ...?

Sæti úti í sal

Og hér eru Íslendingar búnir að ná sæti á allsherjarþinginu, gott ef ekki yfirráðum:

Habbý, Laufey, Marín og svo Mattinn

Og er þetta ekki úr hinu fyrirheitna öryggisráði?

Tómur salur öryggisráðsins sem 192 þjóðir velja tvær nýjar þjóðir til setu í á morgun


Haustfundur Félags leiðsögumanna í kvöld kl. 20

Á dagskrá er arfaleiðinlegt efni en afar mikilvægt:

Sjóðir FL hugsanlega glataðir

 


Eiríkur Bergmann hækkaði á mér risið

Vörn og sókn Eiríks Bergmanns í Guardian gerði mig aftur stolta af því sem við eigum. Hann svarar breskum árásum fullum hálsi með rökum og í mestu vinsemd. Meira svona, takk, til að peppa okkur upp.

Ég heyrði í dag viðtal við íslenska konu sem býr í litlu bresku þorpi og hún vogaði sér ekki að leyfa níu ára gamalli dóttur sinni að vera úti að leika vegna ónota sem hún varð fyrir. Stelpan orðaði það svo að þetta credit crunch hefði eyðilagt líf sitt.

Það er sannarlega ástæða til að Eiríkur skrifi fleiri beittar greinar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband