Færsluflokkur: Dægurmál

Fæ ekki evrurnar mínar greiddar!

Detti mér allar dauðar lýs úr höfði. Ég átti undir lok mánaðarins von á greiðslu frá Frakklandi vegna verkefnis sem ég skilaði af mér í ágúst. Í dag fékk ég þennan tölvupóst frá fyrirtækinu:

Dear Berglind,
Our bank has informed us that bank transfers to your country are very difficult (and not recommended) for the time being.
Do you have another bank account in the Euro Zone to which we can send you your invoice payments?
We are very sorry for this inconvenience.
Ég sá þetta ekki fyrr en að loknum bankaafgreiðslutíma þannig að ég get ekki hringt í bankann fyrr en á morgun til að spyrja hví hann fúlsi við evrum - og það einum 500! Mér sýnist hann neita að þíða/þýða/þýðast greiðsluna - nema frönsku fyrirtæki sé ráðið frá því greiða inn á íslenska reikninga yfirleitt. Kemst að því á morgun.

Hvað seldust margar eignir?

Ég er hrædd um að ekki sé mikið að marka þessa útreikninga. Halda menn að verð hjaðni núna aðeins um hlutfall af prósenti? Hafa einhverjar eignir hreyfst síðustu vikurnar og jafnvel nokkra mánuðina? Er ekki vísitalan reiknuð út frá einu eigninni sem seldist í hverjum stærðarflokki í hverju póstnúmeri?

Og hvert verður framhaldið núna?


mbl.is Fasteignaverð lækkaði um 0,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsókn á innherjaviðskiptum, takk

Mér er sama hvaðan gott kemur. Það er ekki hægt að jarma lengur um að leita ekki að sökudólgum. Kannski valda sökudólgarnir frekara tjóni ef ekki er komist til botns í því hvernig skúturnar stóru gátu siglt í strand. Orðrómur er um að fólki hafi verið ráðið eindregið að leggja peninga inn í sjóði sem voru vafasamir og núna kannski tómir vegna þess að háttsettir menn hafi þegar áformað að stinga þeim undan. Ef það er satt þarf að sækja peningana og ef það er ósatt þarf að hreinsa þá af áburðinum. Og ekkert let them deny it-kjaftæði, það er eðlilegt að menn tali svona. Ég veit um eina sem fór 1. október, tveimur dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis, í Glitni til að taka út úr sjóði 9 og henni var ráðlagt svo afdráttarlaust að gera þetta ekki, þetta væri besta ávöxtunin, að hún þurfti nánast að beita ráðgjafann hörðu til að fá að taka út sparnaðinn sinn.

Þetta er ekki ráðgjöf, a.m.k. ekki nein sem byggjandi er á.

Og sjálf er ég enn í óvissu með peningamarkaðssjóðinn minn þannig að vissulega er ég hlutdræg svo að ég haldi þeirri þekkingu ekki fyrir mig.


Endurheimtum kvótann

Rökin fyrir að taka ekki fiskikvótann til baka frá hinum fáu og færa hinum mörgu voru háværust þau að það kostaði svo mikið. Nú þegar skuldirnar af sjávarútveginum eru hvort eð er komnar í eigu ríkisins - er það kannski ekki satt? - er lag að fá kvótann aftur í almenningseigu.

Nú er lag.

Ég vildi að ég væri fyrsta gáfumennið sem fengi þessa hugmynd en ég las þetta t.d. hjá Ragnheiði Davíðs alveg nýlega. Hugmyndin verður bara stanslaust betri. Og veiðum svo meira en við höfum gert hingað til, sjómenn segja að það sé nóg af þorski og það sé hreinlega erfitt að komast framhjá honum þegar veitt er upp í ýsukvótann.

Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?


Hvar er Tryggvi Þór Herbertsson?

Það síðasta sem ég man eftir að hafa séð haft eftir honum var að það væri neyðarbrauð að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hjálp. Hvað skyldi hann hafa meint? Og hvar er núna þessi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar með þá skoðun og aðrar?

,,Það sá þetta enginn fyrir"

GVAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA, hvernig vogar Jón Ásgeir sér að segja að enginn hafi séð þetta fyrir þegar Egill Helgason var að enda við að kveðja Ragnar Önundarson sem EINMITT SÁ ÞETTA FYRIR? Og hann er ekki sá eini sem sá þetta fyrir. Fullt af venjulegu vinnandi fólki vissi að bólan spryngi. Fullt.

Og ég vil fá Jón Daníelsson sem seðlabankastjóra. Þótt hann sé vinur Jóns Þórs Sturlusonar.


Haustfundur leiðsögumanna á fimmtudaginn

Mikið svakalega er ég fegin að hafa ekki þurft að segja útlendingum frá Íslandi alveg upp á síðkastið. Og mikið hlakka ég til að hitta aðra leiðsögumenn og heyra hvernig þeim hefur farnast. Vonandi komast Lára Hanna og Steingerður í þetta sinn ...

,,Þetta eru bara peningar"

Dr. Gunni er mikill húmoristi og mér finnst mikið til hans koma. Í morgun var hann í útvarpinu að tala um kreppuna og hvatti fólk til að taka eftir að Esjan væri á sínum stað, himinninn líka, engin slagsmál um mat í Kringlunni o.s.frv. Þetta eru bara peningar sem hafa tapast og munu tapast. Peningar eru svakalega óefnisleg gæði af því að peningar eru bara ávísun, hitamælir minnir mig að Steingrímur J. sagt um krónuna um daginn, gjaldmiðill. Og ég er alveg hjartanlega sammála. Svoleiðis.

Ég hef hins vegar hugsað oft í þessari viku þegar ég heyri afkáralegar auglýsingar um fjármálaráðgjöf, bestu ávöxtunarmöguleikana, snyrtinámskeið og allt hitt sem ég get hvort eð er aldrei munað hvað þetta eru hégómleg gæði. Þessar auglýsingar borga samt fyrir rekstur margra fjölmiðla. Og ég viðurkenni skýlaust að útvarpshlustun er mér mikilvæg. Ég vil talmál og mikið af því. Ég fer bráðum að vilja hlusta á Gufuna en ennþá er það Rás 2, Útvarp Saga, Bylgjan og stundum Rás 1, vissir þættir á öllum rásum. Hvernig á að endurnýja búnað og borga þáttagerðarmönnum laun ef ekkert fé kemur inn á miðlana?

Sjálfri er mér alveg sama þótt dagblöðum fækki um helming - nei, ekki satt, ég fagna því, en blaðamenn á 24stundum sem mér þykja hafa staðið sig vel þurfa nú að finna sér nýjan vettvang til að njóta sín á. Þeirra gæði voru fólgin í því að vera í skemmtilegri vinnu sem þeim fannst skipta máli.

Ég vorkenni engum að geta ekki endurnýjað bílinn, flatskjáinn, fartölvuna og gsm-símann á hverju ári. Ég vorkenni engum að þurfa að fljúga með farþegaflugi. Ég vorkenni engum að borða hafragraut. Ég held að margir komi til með að kunna betur að meta hið smáa þegar við réttum aðeins úr kútnum. En efnahagur ýmissa íbúðakaupenda var orðinn þannig áður en bankarnir voru ríkisvæddir að var farinn að ganga nærri heilsu fólks. Og hún er dýrmæt.

Mér finnst of mikil einföldun að tala um bara peninga andspænis öðrum gæðum.


Cold War - Cod War - nýenskir tímar?

Kalda stríðið, þorskastríðið, bankastríðið, forsætisráðherrastríðið - og öll getum við fylgst með næstum hverju símtali. En munum við þokast í burtu frá enskunni á næstu árum og taka upp norsku ... eða rússnesku? Einu sinni vorum við næstum orðin amt í Danmörku. Skulle vi måske snarere snakke dansk?

Ekkert lát á auglýsingum

Þetta eru skrýtnir tímar. Allir í kringum mig þekkja einhvern sem fær skell í fjármálafárinu. Menn reyna að anda með nefinu, hugsa að hafi þessi verðmæti yfirleitt verið til lendi þau einhvers staðar. Kannski voru þessi verðmæti bara loftbólur, kannski þurfum við að byrja aftur á botninum og fikra okkur upp.

Kannski kemur ýmislegt gott út úr þessu.

En nú sit ég og bíð eftir Kastljósinu á RÚV+ og biðin er löng því að auglýsingarnar eru endalausar. Einhvern veginn hefði ég kannski giskað á að það drægi úr þeim, a.m.k. bankaauglýsingum, en óekkí. Þar sér kreppunnar ekki stað.

Og bráðum færi ég nokkrar launa-evrur inn í landið. Er ég ekki bjargvættur ...?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband