Færsluflokkur: Dægurmál

Af hverju ættu kaupendur að eign nr. 2 að halda að sér höndum?

Ég skil ekki þessa stífluspá og enn síður spá um stíflubrot eftir afnám stimpilgjalda hjá þeim sem kaupa fyrstu eignina. Það er fjöldinn allur af stórum eignum í sölu sem eru ekki dæmigerð fyrstu kaup.

Lánin sem fást út á brunabótamat eru fjarri markaðsverði. Mun það breytast? Sparnaður upp á 400.000 þegar fólk kaupir 25 milljóna króna eign er vissulega mikilsverður en ef fólk þarf að brúa 10 milljónir og bankarnir lána ekki nema með 7,15% vöxtum er áfram verið að átthagafjötra fólk. Bankarnir ættu að andskotast til að sjá að sér. Þeir græða ekkert á að setja fólk út á klakann.

Ásett verð hefur ekki lækkað þar sem ég hef skoðað. Ég veit ekkert hvað er hægt að bjóða mikið niður en það er öllum til hagsbóta að halda flæðinu áfram. Það er alveg fáránlegt að höndl með heimili fólks lendi í frosti og að misvitrir spámenn ráðskist með svo mikla hagsmuni. Það er stórmál þegar fólk er búið að kaupa - af því að fólki var ráðlagt að kaupa áður en það seldi - og svo getur það ekki selt af því að allt í einu eru aðstæður óhagstæðar.

Þetta er ekkert grín.


mbl.is Óttast stíflu á fasteignamarkaði fram til 1. júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínverð

Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að spjalla um bensínverð og aðgerðir vöru-, sendi- og leigubílstjóra. Að sumu leyti er ég ánægð með að neytendur láti í sér heyra og rísi upp á afturlappirnar - en ég get ekki að því gert að mér finnst byrjað á öfugum enda. Ég get auðvitað trútt um talað sem vel að eiga ekki bíl, a.m.k. ekki í bili, og hef allt í göngu-, hjóla- eða strætófæri.

Ég vildi sjá fólk ybba sig yfir lélegum almenningssamgöngum. Til þess að geta lagt bílnum þarf fólk að hafa alvöruval. Og Ikea sem sýnir núna gott fordæmi með því að hækka ekki vöruverð er svo úrleiðis fyrir mig að Ikea er ekki raunverulegt val ef ég þarf að mublera upp hjá mér. Nema ég get auðvitað tekið leigubíl ... hmm.

Og mér er alveg sama þótt kaupmenn móðgist þegar ýjað er að því að þeir hafi hækkað vöruverð miklu meira en þörf krefur - af því að þeir geta það. Af hverju sniðgöngum við ekki þær vörur sem sannanlega hafa hækkað í helberu gróðaskyni? Af hverju erum við ekki upplýst um þær vörutegundir? Hvar er gagnrýna fréttamennskan?

Nei, þess í stað keyrir fólk langar vegalengdir til að kaupa ódýrari bensínlítra á Bústaðaveginum og stormar inn í Vodafone til að kaupa iPhone. Þegar upp er staðið erum það við neytendur sem berum heilmikla ábyrgð á því hvernig komið er fram við okkur, við þurfum að standa í ístaðinu og neita að láta misbjóða okkur.

Var nokkuð of mikið að borga 217 krónur fyrir 20 paratabs-töflur?


Er meiningin að láta okkur hlaupa apríl í kringum Björn Inga?

Ég er ekki mjög áhrifagjörn og þótt ég hefði átt bíl og séð fram á að keyra Bústaðaveginn á bilinu 7:30 til 9:30 hefði mér aldrei dottið í hug að reyna að komast í ódýra bensínið. Og það er heldur ljótur hrekkur á tímabili hins brjálaða verðs - nema þeim hafi verið alvara.

Hins vegar get ég ekki betur séð en að tveimur hafi dottið í hug að láta fólk elta Björn Inga. Mér heyrðist í útvarpinu sem hann ætlaði að árita bók sína um REI-málið í Eymundsson. Allir þangað. Svo sá ég í 24stundum að hann tæki við ritstjórn þess blaðs en að til tíðinda drægi hjá Ólafi Stephensen í Ráðhúsinu í dag kl. 14. Allir þangað.

Alltaf gaman að þessum samsæriskenningum.


Er miðbærinn í gíslingu?

Þórður Magnússon, talsmaður Torfusamtakanna, sýndi Agli Helgasyni og áhorfendum Silfursins í dag myndir, bæði ljósmyndir og teiknaðar, úr miðbænum. Þessa umræðu hef ég auðvitað orðið vör við og verð að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af stöðu miðbæjarins. Ég geng oft Laugaveginn, bæði á eigin vegum og stundum með útlendinga, og hef skammast mín fyrir tómlega glugga og hálfkarað viðhald. Ég hef verið ótrúlega sinnulaus um veggjakrot og næstum algjörlega dofin fyrir því sem virðist nú vera staðreynd, að fjársterkir kaupi eignir vegna lóðanna og ætli síðan að halda að sér höndum í öllu tilliti og bíða þess að geta selt lóðirnar undir gríðarleg háhýsi.

Ég er hlynnt þéttingu byggðar heilt yfir en það er einhver ógeðug lykt af þessu máli, ekki samfélagsleg vitund um þéttingu byggðar byggðarinnar vegna og íbúanna, heldur einstakra gráðugra verktaka. Og miðbærinn á ekki frekar en nokkurt hverfi skilið að verða bráð neinna manna sem hafa eigin hag einan að leiðarljósi.

Ég hef haft rúmlega annað augað á fasteignaauglýsingum í alllangan tíma og þá helst litið til 101, 105 og 107 - en mér hefur algjörlega yfirsést þessi auglýsing sem Þórður vakti athygli áhorfenda á. Reiknar seljandinn með að 47 fm einbýlishús seljist á verði sem er einhvers staðar nálægt 71 milljón? Hvað vakir annars fyrir honum? Já, í stað kofa sem hægt væri að gera huggulegan og viðhalda götumyndinni stendur til að tildra upp sex íbúða húsi. Engin mynd fylgir og ég veit ekki hvaða hús þetta er en það þarf engan eldflaugafræðing til að sjá að götumyndin muni - myndi - breytast.  

Og hvernig ætlar nú borgin að tryggja það að miðbærinn nái sér á strik?


Hækkar verðið í matvöruverslunum eftir kl. fimm?

Ég var í boði í gær þar sem því var haldið fram að verðið í Bónus og Krónunni væri hærra kl. 17 en t.d. kl. 14 þar sem verðkannanir færu fram skömmu eftir hádegi. Ég hélt að ég væri sæmilega meðvituð um verðlag og ég geri stundum innkaup í hádeginu en ég hef ekki alveg tekið eftir þessu.

Svo var líka talað um að alltaf þyrfti að leiðrétta eitthvað sem væri dýrara á kassanum en í hillunni. Ég lendi stundum í því en ekki í hvert skipti.

Loks var glænýtt dæmi um battarí sem ein ætlaði að kaupa á bensínstöð í hjólaluktina sína. Á hillu stóð 560 eða svo, a.m.k. innan við 600, en í búðarkassanum stóð um 1.200. Væntanlegur kaupandi neitaði að greiða tvisvar sinnum hærra verð fyrir vöruna og fór án battaríanna. Afgreiðslustúlkan varð fúl - en skyldi fólk annars vera nógu duglegt að neita okrinu? 


,,Á eigin vegum"

Það var ekki seinlegt að lesa bókina hennar Kristínar Steins um ekkjuna Sigþrúði sem víst elskaði manninn sinn en saknar hans ekki neitt heldur lætur eftir sér allar einföldu lystisemdir lífsins sem hann hafði engan áhuga á, eins og að fara á upplestra, mæta í jarðarfarir og opin hús til sölu. Til að byrja með þótti mér ásælni hennar í jarðarfarir - og vissulega erfidrykkjur - vafasöm en þegar á líður kemur á daginn að það er engin kökugræðgi sem ræður ferðum hennar. Hún er áhugasöm um fólk og blandar hraustlega geði þegar athöfnunum er lokið.

Krúttleg saga um fullorðna konu sem spinnur þráðinn þegar margur myndi hnýta enda dauðans.


Vinnuföt leiðsögumanna

Eru þetta góð kaup?

Sænskur krimmi í danska sjónvarpinu

Ég sem er lestrarhestur að upplagi nenni ekki að lesa margar sakamálasögur. Ég las reyndar Aftureldingu þegar hún kom út og skemmti mér konunglega yfir fyrsta þættinum eftir bókinni sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöldi.

Svo datt ég inn á DR1 eftir það og sá sænsku spennumyndina Niðurtalningu - með dönskum texta. Gat ekki slitið mig frá henni. Og hún er byggð á sögu eftir hina hundleiðinlegu Lizu Marklund, eða kannski hefur mér bara mislíkað þýðingin þegar ég reyndi að lesa hana. Kannski reyndi ég bara einu sinni að lesa bók eftir Lizu og þegar sænski ráðherrann var búinn að keyra 90 mílur frá París og kominn langleiðina til Stokkhólms fauk svo í mig að ég henti bókinni í fjærhornið og sór að gera ekki frekari tilraunir til að lesa höfundinn. 90 sænskar mílur eru u.þ.b. 900 (íslenskir) kílómetrar.

Þýðingin eyðilagði lesturinn fyrir mér en danska sjónvarpið bjargaði sögunni, þ.e. einhverri sögu eftir Lizu Marklund sem ég gef kannski annan séns núna.

Nedtælling


,,Foreldrar"

Húrra fyrir Ragnari Bragasyni og Vesturporti - aftur. Þessi mynd er engu síðri en Börn. Ég held að það liggi mest í handritinu. Söguþráðurinn er alveg skýr en textinn er áreiðanlega spunninn - og þvílíkir meistaraleikarar. Mér fannst óþægilegt að hafa myndina svart-hvíta, en tilgangurinn var heldur ekki að láta mér líða vel.

Meira af svona, takk.


Gáum að hjólreiðamönnum - um páska þegar strætó byrjar ekki að keyra fyrr en kl. 14


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband