Færsluflokkur: Dægurmál

Niður með umferðina

Felum hana, pökkum henni niður, fáum stokk frekar en mislæg gatnamót, Sundagöng frekar en hábrú. Aukum almenningssamgöngur, fækkum einmenningsferðum í bílum.

Ég var að lesa bls. 2 í Fréttablaðinu þar sem formaður íbúasamtakanna í Hlíðunum tjáir sig - enn og aftur. Það ER umhverfisvitundarvakning og ef almenningssamgöngum fer aðeins fram og ef þær verða niðurgreiddar frekar en ný mislæg gatnamót er von til þess að fólk nýti sér þær. Ég hef að vísu aldrei verið ákafur bílisti þannig að ég er kannski ekki gott dæmi um fordæmi, en í vetur hef ég engan bíl átt heldur farið flestra minna ferða á strætókorti sem borgaryfirvöld deildu út til háskælinga. Það er óttalegt puð og hefur alveg verið pirrandi en manni er engin vorkunn ef maður þarf ekki að fara á tvo eða þrjá staði í sömu ferðinni.

Bætum almenningssamgöngur og skoðum helst í alvöru hugmyndir um léttlestakerfi. 


Opið eða lokað um páska

Ég fór í bakarí á Laugaveginum í gær og mætti á leið minni einmana ferðalöngum. Fólkið leit út fyrir að vera útlenskt og í fríi í Reykjavík. Og hvað stendur því til boða á degi sem er í mörgum löndum ósköp venjulegur vinnudagur?

Ég gáði ekki að því en a.m.k. voru flestar verslanir lokaðar, fátt fólk á ferli og hálfeyðilegt yfir öllu. Það er reyndar annað vandamál við Laugaveginn þessa dagana hvað hann er dapurlegur, tómar verslanir og lítið um að vera. Hvernig dettur fólki líka í hug að sérverslun með baðsölt geti borið sig? Ég gerði dauðaleit að kápu á Laugaveginum fyrr í mánuðinum og í þeim tveimur tilfellum sem ég hefði getað orðið ánægð var önnur á 80.000 kr. og hin kom bara í tveimur eintökum í minni stærð - og voru bæði eintökin seld.

Rétt í þessu var frétt á Sky um það að í London geti menn nú gamblað á föstudaginn langa. Sumum finnst það fyrir neðan allar hellur en fólk hefur val um að fara ekki inn ef það vill ekki. Einhverjum er samt misboðið yfir því að aðrir vilji hafa þessa spennu í lífinu ...

Ég man þá hörmungartíma þegar allt var lokað um páska með lögum, líka um hvítasunnuna. Mér þykja þetta skárri tímar en er svo laus við einhvern páskaheilagleika að ég vildi hafa meira opið. Presturinn í fréttinni gagnrýndi 24/7-samfélagið sem við erum farin að lifa og vildi að fólk hefði tíma til að slaka á. Huhh, þurfa allir að slaka á samtímis?

Ég hef oft unnið um páska og átt í staðinn frí á öðrum tímum. Mér þótti það alltaf ágætt og er alveg áreiðanlega ekki ein um það.


Kvef þegar maður má vera að því

Það er segin saga að eftir mikla törn súrnar manni í augum og hálsinn bólgnar. Nú eru framundan fimm góðir dagar af blautum augum og rámum hálsi. Og þegar svona viðrar er von að mann langi að skríða í híði og hitta hina bangsana:

Grátt um páskana, minnir á nóvember 2007

Ég heyktist meira að segja á að fara í búðina og hundskaðist heim í híðið. Var þó nokkur sárabót að hafa snætt og slúðrað með tveimur miðbæingum í hádeginu. Ég fékk mér með kjúklingi og öðru góðu, Laufey með rúkkóla og votti af parmaskinku - en Ásgerður fékk sér pítsu með pestó - sem bakarinn sagði eftir á að hefði verið brandari ... hmmm?

Laufey og Ásgerður - wannabe menntskælingar?


Gott fyrir einhvern?

Eins og gefur að skilja er fólk búið að jesúsa sig úti um allt land í dag. Margir eru búnir að ákveða að fara í alls konar reisur í sumar og velta nú fyrir sér hvort ferðir sem aðeins staðfestingargjald hafi verið greitt fyrir hækki sem nemur þessum prósentum. Ef svo fer velti ég reyndar fyrir mér hvað staðfestingargjald merki.

Ég skil ekki frekar en nokkur í kringum mig hvernig svona getur gerst en hugleiði hvort einhverjum sé hagur í þessu. Útflutningnum? Ég man að þegar dollarinn var vel yfir 100 kr. fyrir nokkrum árum var það sannarlega gósentíð hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem voru þegar búin að verðleggja ferðir það sumarið. En vill einhver hafa þetta viðkvæma sveiflukennda ástand?

Var einhver að tala um mjúka lendingu? Væri ekki nær að tala um vel ofna fallhlíf?


mbl.is Krónan lækkaði um 6,97%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta meðaltal?

Hingað til hefur venjulegur íbúðarkaupandi ekki getað tekið mikið mark á spádómum bankanna (sem þar að auki eru ekki óvilhallir). Og hvað þýðir svo þetta í fréttinni?

Meðalverðbreyting íbúða á árinu, miðað við síðasta ár, verður þó jákvæð vegna grunnáhrifa, en samkvæmt spánni mun íbúðaverð verða að meðaltali 4,5% hærra á þessu ári en í fyrra. Við reiknum með að íbúðaverð lækki á fyrri hluta næsta árs, en taki lítillega við sér á síðari hluta ársins, þannig að verðið verði svipað í ársbyrjun 2009 og við lok þess árs.

Meðalverðbreyting verður þó jákvæð??? Þýðir það að kaupendur stökkvi hæð sína í loft upp? Nei, ef þetta gengur eftir þýðir það að fyrstu-íbúðar-kaupendur ... geta enn ekki orðið það. Fólk sem hefur aldrei keypt íbúð getur áfram ekki keypt íbúð. Fyrir hvern er þessi frétt skrifuð?

Ég lýsi enn eftir almennilegri úttekt á fasteignamarkaðnum, frá fólki sem skilur rauntölur og verðbreytingar - og getur talað um þær á venjulegu mannamáli. Og ef verð lækkar um 3% - að meðaltali hlýtur að vera - hvernig er þá ástandið í Norðlingaholtinu? En miðbænum? Hvað segir samanburður við önnur lönd?

Þegar svona fréttir eru lesnar er enginn nokkru nær um nokkurn hlut.


mbl.is Spá 3% lækkun íbúðaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsla mín af lögreglunni

Hún er sem betur fer næsta lítil. Fyrir sjö árum átti ég svarinn óvin sem hringdi sí og æ til að ergja mig. Það er náttúrlega ekki lögreglumál, en eina nóttina hringdi hann úr óskráðu símanúmeri og hótaði mér ýmsu illu í talhólfinu. Ég geymdi upptökuna eins lengi og ég gat og spilaði hana fyrir lögregluna. Um svipað leyti voru skorin dekkin á bílnum mínum.

Enn er ég á lífi og við góða heilsu þannig að kannski hefur mat lögreglunnar verið rétt þegar hún svo gott sem sagði: Við höfum ekki áhuga. Orðalagið var samt meira eins og: Við höfum ekki mannskap og ekki tækjabúnað til að rekja svona. Láttu hengja númerið upp hjá símanum og þá er *hóst* hægt að rekja það ef viðkomandi hringir aftur.

Skömmu síðar hætti ég í vinnunni sem ég hafði þá gegnt í rúmt ár og ofsóknunum létti. Ég er auðvitað 100% sannfærð um hver maðurinn var en ég gat ekki þá og enn síður núna sannað hið sanna. Og þótt ég hafi ekki beðið óbætanlegt tjón var margur nætursvefninn tekinn af mér og um stundarsakir kom það niður á skapsmunum mínum.

Það er í mér ein taug sem vorkennir lögreglustéttinni sem er áreiðanlega undirmönnuð og sér fram á verri tíð með arfa í haga. Ég held samt að oft bíði borgarar óþarft tjón vegna þess að lögreglan ákveður að eitthvert mál sé óvinnandi. Um það sannfærðist ég þegar ég stóð á skrafi við Hermann á Laugaveginum í dag. Ég vona að hann segi sína sögu hvað úr hverju.


Fasteignaleitin stendur yfir

Leit mín er mjög þröng, helst bara á 101-svæðinu. Kröfurnar nákvæmar, hæð með suðvestursvölum. Nú rakst ég á íbúð sem er verðlögð á 27.900.000 og áhvílandi eru 27.926.736. Fermetraverð þó ekki nema tæplega 290.000 ...

Alveg eins og ég vil eðlilega gera góð kaup vil ég ekki nýta mér það að fólk þurfi að selja til að losa sig út úr skuldum. Fasteignir eru ekki leikföng eins og stundum má túlka sumt annað.

Eins og öðrum þegnum blöskrar mér í hvaða hremmingar fólk er komið. Ég skil ekki þegar ég heyri fólk í fjölmiðlum tala um að engin umræða sé um þetta, mér finnst allir vera að tala um óráðsíu og gönuhlaup, ekki síst bankanna. Er fólk ekki að meina að ráðamenn þegi þegar það segir að enginn sé að tala um vandann?


Hugmyndir okkar um hugmyndir annarra

Frændi minn rápaði um netið og fann þessar setningar:

It was once against the law to have a pet dog in a city in Iceland!

Við getum rifjað upp þegar Albert Guðmundsson átti Lucy og mátti það ekki. Hann var kærður, hótaði að flýja land með tíkina og reglunum var breytt. Hundahald var leyft með skilyrðum.

Svo hnaut Davíð um þessa:

Tourists visiting Iceland should know that tipping at a restaurant is considered an insult!

Og þá var honum aldeilis misboðið. Hann vinnur á veitingastað og veit ekki um neinn sem þætti að sér vegið með þjórfé.

En þessar hugmyndir eru lífseigar.


Þórbergur 119 ára í dag?

Ekki var hann viss um fæðingarár sitt, hann Þórbergur Þórðarson, þannig að það er ekki nema von að ég sé í vafa. Hann var víst fæddur 1888 eða 1889 þannig að það er um að gera að halda upp á það núna til öryggis. Ég mætti í Þórbergssmiðjuna á sunnudaginn en entist ekki mjög lengi. Er nú komin með Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (eftir ÞÞ) í þremur bindum í kallfæri. Í dag er dagurinn, er bara svo grefilli bissí að ég efast um að ég klári þríbindið fyrir helgi.

Meðal þess sem gerðist í smiðjunni á sunnudaginn (fyrir utan að hlusta á erindi og hjala aðeins við Ármann og Kristínu og Ursulu og Hermann og Ragnheiði Margréti og Bergljótu o.fl.) var upptroðsla Baggalúts. Sá með appelsínugulu húfuna söng í lokin sósutexta Þórbergs, sóló. Ég bara vissi ekki fyrr en þá að Þórbergur hefði ort um sósuna sem kom frá vinstri, hægri, að ofan, utan o.s.frv. Veit það núna.

Baggalútur í Þórbergssmiðju

Þá tók við þriggja manna tal á senunni, þeirra Þrastar Helgasonar, Matthíasar Johannessens og Vilborgar Dagbjartsdóttur. Ekki vissi ég fyrr en þau ljóstruðu því upp að Þórbergur hefði verið mikill kvennamaður. Svo sögðu þau hvort sína söguna af því hvernig hann heillaðist af henni Margréti sinni. Þórbergur sagði Vilborgu að hann hefði fallið fyrir því hvernig Margrét notaði þumalinn þegar hún skúraði! Þá skellti Matthías upp úr og sagði að Þórbergur hefði sagt sér að hann hefði vissulega fallið fyrir henni þegar hann sá hana við skúringar, aðkoman hefði bara verið lítils háttar öðruvísi.

Þröstur, Matthías, Vilborg

Svo komu dr. Gunni og Heiða og ætluðu að kenna börnum að meta Þórberg:

Dr. Gunni og Heiða

Og eins og gefur að skilja eru Vilborg og Matthías aftur mætt á sviðið, nú til Egils Helgasonar í sömu erindagjörðum. Gaman að arfinum.


Drallspeni

Eitt af eftirlætisorðum mínum. Mér skilst að ég hafi lært það í Fimbulfambinu, skemmtilegasta spili sem hægt er að hugsa sér. Svo má ég bara ráða hvað það merkir því að ég finn það ekki í orðabók. Mig minnir að við grúppíur Ármanns (meðhöfundar Fimbulfambs) höfum túlkað drallspena sem ónytjung, liðleskju eða gjálífismann. Kannski allt í senn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband