Færsluflokkur: Dægurmál

Sif Vígþórsdóttir og Norðlingaskóli

Ég las umfjöllun um skólann og starfsemi hans í Mogganum í flugvél fyrir helgina. Það hríslaðist alveg um mig af gleði yfir þessum metnaði og ég var næstum farin að tala við útlenskan sessunaut minn.

Það er svooooo mikilvægt að stíga skref í skólunum, mér liggur við að segja skref til breytinga breytinganna vegna. Það er til hellingur af metnaðarfullum kennurum og stjórnendum líka og það þarf að beina sjónum að þeim og styrkja vilja þeirra til framfara. Þetta sem mér sýnist Sif hafa gert með því m.a. að binda viðveruna er að auka samvinnuna. Það er einmitt einyrkjaþátturinn sem gerir mörgum erfitt fyrir í kennslu, að geta ekki borið sig saman, að vera aldrei að vinna saman að framförum nemenda, vera ekki í samvinnu. Þess saknaði ég mest meðan ég var í kennslu. Þess sakna ég líka svolítið í leiðsögninni.

Ég hitti í Þórbergssmiðjunni í dag góðkunningja minn í kennarastétt. Hann kennir íslensku bæði í menntaskóla og háskóla og honum finnst hann alltaf vera að fara yfir ritgerðir. Hann staldraði skemur við í dag en hann hefði viljað af því að heima beið hans bunki. Og menn vilja alltaf grynnka á bunkanum. Stundum þvælist hégómlegt smáatriði fyrir manni við yfirferð ritgerða af því að maður getur ekki leitað til neins sem staðfestir skilning manns í snatri.

Jæja, þetta er kannski ekki röklega framsett hjá mér - en þótt einstaka fólk kunni best við 100% einveru við undirbúning kennslu trúi ég að obbinn vilji samvinnu. Og væri ekki ráð að láta reyna á? Það virðist gefa góða raun hjá Sif Vígþórsdóttur, skólastjóra Norðlingaskóla.

Og vonandi lætur ekki forysta Kennarasambandsins steyta á bókun fimm sem hefur í hennar augum svona eða hinsegin skírskotun, grrr. Leyfum framförunum að taka á rás.


Já, takk við sem mestri sjálfsafgreiðslu

Ég kinka hér með kolli til Flugleiða (og Antons) því að öll svona flýtiþjónusta styttir ferðatímann og gerir léttbærari þann hluta ferðalagsins sem er leiðinlegur. Þær eru ófáar, hinar minniháttar rimmur sem ég hef háð við ferðafélaga um brottfararstund vegna flugs.

Svo er líka mikil spenna fólgin í því, sem hefur reyndar tíðkast um hríð, að geta valið sér sæti, reynt að sirka út hvar fer best um mann. Ég flaug þrisvar núna um helgina og í öll skiptin skráði ég mig með bókunarnúmeri í sjálfsafgreiðsluvél á vellinum - í framtíðinni get ég gert það við borðstofuborðið.

Húrra.


mbl.is Flugfélög bjóða upp á netinnritun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriggja landa sýn

Mér er svo minnisstætt þegar systir mín fór í sólarlandaferð forðum daga og hún kallaðist þriggja landa sýn. Afskaplega ógeðug tilhugsun þótti mér. Ég vildi helst ekki fara til útlanda fyrir minna en mánuð, setja mig niður í einni borg og þæfa hana sem mest. Best auðvitað að vera í heilt ár, læra tungumálið, finna bestu búðirnar, kynnast nágrönnunum, þefa af staðarmenningunni, skilja stjórnunina - kynnast heimamönnum. Ekki sjá bara túristamiðuðu staðina.

Fyrir nokkrum árum var ég nokkra daga í London, spurði heimamann hvort ekki væri ráð að skella sér til Stonehenge en hann ranghvolfdi í sér augunum og sagði að það væru bara nokkrir steinar sem hefði verið raðað í hring. Ég fór hvergi.

Í gær fékk ég mína þriggja landa sýn. Ég flaug frá Frankfurt árla morguns og meðan ég beið á flugvellinum las ég um frú Ypsilanti. Ég man reyndar ekki lengur hvort hún var völd að spillingu eða hvort hún einmitt upprætti hana. Og vel að merkja, ég vandaði mig við að koma hálftíma of seint á flugvöllinn, tékkaði mig inn í einni af þessum dásemdarsjálfsafgreiðsluvélum, kom af mér farangrinum og slugsaði svo eftir hinum alræmdu Frankfurtar-göngum. Samt - samt gafst mér tími til að setja mig illa inn í mál frú Ypsilanti í Frankfurter Allgemeine og spjalla við afgreiðslustúlkuna um það hvort farangurinn minn færi alla leið til Íslands eða hvort ég þyrfti að taka hann af bandinu í Kaupmannahöfn og tékka hann aftur inn.

Ég ætla bara að muna það tryggilega að þessi hverkvaðning með tveggja tíma (og sums staðar þriggja, sbr. Stokkhólm) fyrirvara er markaðssetning fríhafnanna til að sem flestir eyði peningum í fatalufsur og gleraugu og farða og bækur og sælgæti sem þeir eru síðan ævina á enda óánægðir með. (Kannski samt fulldramatískt að segja að fólk sé alla ævi óánægt með að hafa keypt brezel og bók.)

Í vélinni á leið til Kaupmannahafnar las ég síðan í Berlingske tidende viðtal við Villy Søvndal, formann SF (sem ég finn alls ekki hvað stendur fyrir, skammstöfunin, sé þó að þetta er sósíalistaflokkur). Villy boðar herför gegn mørkemænd og mér sýnist hann vera að tala um heittrúaða múslima. Á næstu dögum mun ég lesa aðeins meira í blaðinu, ég komst svo lítið áleiðis með það í vélinni.

Í Flugleiðavélinni fékk ég DV í hendurnar og þar var ítarleg umfjöllun um Vilmund Jónsson, fyrrum landlækni og landslagasmið, og gjörðir hans gagnvart þeim sem hann úrskurðaði fávita. Fólk sem var metið eftir einhverjum dularfullum mælikvörðum langt undir meðalgreind var sumt hvert tekið úr sambandi, vanað, og það án eigin vitundar. Það er og hefur greinilega víða verið pottur brotinn.

Þriggja landa sýn - æsir bara í mér útlandaþorstann og rifjar upp fyrir mér að það er löngu tímabært að hleypa heimdraganum á ný.

Dvölin í Frankfurt er annarrar messu virði en ég er að hugsa um að halda henni fyrir mig.

Í gær, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, átti frænkusponsið mitt afmæli að vanda. Ég náði að hitta á hana, smella á hana afmæliskossi og henda í hana afmælisgjöf en fyrir vikið ekki senda henni rafræna kveðju, ehemm. Addýpaddý frænkuspons, til hamingju með enn eitt árið. Með þessu áframhaldi verðurðu hundgömul. Og Davíð, stóribróðir frænkusponsins, pælum í Indlandi ...


Auf der Bühne

Eg er buin ad komast ad thvi - mer til litt blandinnar gledi - ad eg verd a svidinu obbann af eftirmiddeginum. Ekki leidist mer su tilhugsun, spurningum um Island verdur laett inn a milli annarra dagskrarlida, verdlauna og thess hattar. Ef illa gengur a mer svo sem eftir ad leidast thad, en hingad til hefur ekki verid leidinlegt ad spjalla vid Desimo sem er stjornandi gledinnar. Hann er mikill humoristi - og helt ad Berglind vaeri svidsnafn!


Eru álfar bjálfar?

Eða kannski þeir sem á þá trúa?

Það er langt síðan ég kom mér upp velþóknun á huldufólki. Árið 1998 var ég búðastjóri í CISV-búðum á Kjalarnesi. Við sem skipulögðum og stjórnuðum þessum búðum kölluðum þær Huldufólksbúðir, Hidden People Village, vorum fáliðuð en fengum drjúga aðstoð frá stjórnarmanni sem hét Falinn Hulduson. Þátttakendum í búðunum sögðum við alltaf að hann væri annað hvort nýfarinn eða rétt ókominn. Búðirnar stóðu í mánuð og a.m.k. hálfar búðirnar trúði hver maður að Falinn væri til. Og hver láir honum (hverjum manni) ...? 

Mér finnst alltaf gaman að segja frá huldufólki, hvernig þjóðtrúin hafði ofan af fyrir fólki, hvernig enn þann dag í dag er tekið tillit til álfabyggðar og vegir lagðir á skjön við eðlilegt verklag, þúfnablettir látnir í friði og götur skírðar eftir álfum.

Ég hlustaði einu sinni á Magnús Skarphéðinsson flytja forvitnilegan fyrirlestur um alls konar álagabletti og segja sögur af fólki sem hafði séð og fundið fyrir álfum. Hey, ég er ekki svo heppin - en hvernig ætti ég að vera þess umkomin að afskrifa möguleikann á álfum eða öðrum guðum?

Obbinn af Íslendingum mun ekki jafna hól við jörðu ef honum er talin trú um að í hólnum búi álfar, ég tala nú ekki um ef einhver tæki og tól eru þegar farin að gjalda fyrir með virkni sinni.

Ó, þér hindurvitni ...

Svo er ég byrjuð að lesa ferðasögu Unnar Jökulsdóttur sem Lára Hanna mælti með, Hefurðu séð huldufólk? Undirbúningur fyrir ferðalagið fer fram í huganum.


Síðunni barst kvörtun vegna kiljuklúbbs Máls og menningar

Hún var svona:

Einu sinni fékk ég fjórar bækur, svo stundum fjórar og stundum þrjár, svo alltaf þrjár, svo stundum þrjár og stundum tvær og nú alltaf tvær.

Mér var sagt að við síðasta niðurskurð yrði sakamálasaga ávallt önnur þessara tveggja bóka en það hefur nú verið svikið.

Síðasti þriggja bóka pakki kostaði 1860 í júlí á síðasta ári, nú kostar tveggja bóka pakki 1995 krónur - GARG.

Ég vil ekki að pakkinn hækki tvisvar á einu ári. Ég vil alltaf fá sakamálasögu því klúbburinn er búinn að venja mig á að það sé gott. Það er bannað að ala mann upp í góðum siðum og skemma þá svo.

Ég sagði auðvitað stúlkunni hjá kiljuklúbbnum að brátt fengi ég stundum eina bók og stundum tvær og loks fengi ég bara eina bók í hverjum pakka. Henni fannst ákaflega ólíklegt að sú yrði þróunin.

Ég benti henni á að á sínum tíma þegar sendar voru fjórar bækur hefði starfsmaður kiljuklúbbsins sjálfsagt talið fráleitt að í framtíðinni yrðu bara sendar út tvær bækur.

Til að bíta höfuðið af skömminni var mér sagt að aðalástæða þess að fækka bókunum úr þremur í tvær væri ... að þá væri auðveldara að koma þeim inn um bréfalúguna.

En nei, ástæðan var bara sú að það yrði auðveldara að hækka verðið, án þess þó að fara upp fyrir 2000 krónur.

Og auðvitað klykkti konan út með því að eftir sem áður væri þetta miklu ódýrara en úti í búð - vá fréttir. Til hvers annars að vera í svona klúbbi nema til að fá þetta ódýrara og VEL VALIÐ lesefni?

Skyldi hún vinkona mín segja áskriftinni upp?  


Handtöskuserían

Stílbrot er lítil bókaútgáfa sem Sif Sigmarsdóttir heldur úti. Metnaður hennar stendur til þess að gefa út vandaðar metsölubækur sem hún þefar uppi í London þar sem hún heldur til þessi misserin. Mér er málið skylt að því leyti til að ég var að prófarkalesa nýjustu bókina sem kemur út í Handtöskuseríunni, Brick Lane eftir Monicu Ali frá Bangladess.

Brick Lane er gatan sem sagan hnitast um. Nazneen er frá Bangladess, gift samlenskum manni en þau búa í London. Hún hlutaðist ekki til um hjónabandið, heldur var það ákveðið af öðrum í fjölskyldunni að múslimskum sið. Þar sem þau hjónin búa fjarri heimalandinu er hins vegar óhjákvæmilegt að þau dragi dám af kringumstæðum sínum, einkum þar sem fyrirhuguð heimför dregst á langinn. Og þegar líður að bókarlokum dregur verulega til tíðinda ...

Brick Lane


Hvað er samkeppni?

Það er gaman að sitja í heita pottinum og spjalla við (hálf)ókunnugt fólk. Í gær spjallaði ég við starfsmann Kaupþings sem er áreiðanlega mætur starfsmaður og dugandi. Þetta hugsa ég ekki sem háð. Hins vegar mislíkaði mér hvernig hann kallaði allt sem ég sagði um bankana - of mikinn vaxtamun, há þjónustugjöld, ofurlaun stjórnenda - lap upp úr öðrum, sagði að ég væri að lepja upp það sem áður hefði ranglega komið fram annars staðar.

Í mínum viðskiptabanka er algengur vaxtamunur á inn- og útlánsvöxtum debetkorta um 5 prósentustig, inn 12,8% og út 18,7%. Er það ekki vaxtamunur? Og er hann ekki hærri en gengur og gerist meðal hinna frægu þjóða-sem-við-berum-okkur-gjarnan-saman-við?

Hann sagði að í Bretlandi þyrfti að borga fyrir að stofna reikning og borga fyrir að loka reikningi. Það er áreiðanlega rétt. Ég man líka eftir því sama þegar ég átti lítinn varasjóð í Þýskalandi þegar ég var þar au-pair. Ég lagði inn 300 mörk til að vera ekki á flæðiskeri stödd ef kastaðist í kekki við au-pair-fjölskylduna. Tæpu ári síðar þegar ég fór heim voru mörkin 300 orðin að 295, einmitt út af þóknun og engum innlánsvöxtum. Það voru bara heldur ekki neinir útlánsvextir að ráði.

Þegar ég gerði tilboð í íbúð fyrir tveimur árum og ætlaði að yfirtaka hagstæða lánið upp á 4,15% hjá KB eins og hann hét þá var mér gert að fara í viðskipti til hans. Ég varð að gera tvennt af þrennu: stofna launareikning, fá mér greiðslukort og/eða fá mér viðbótarlífeyrissparnað. Ella myndu vextirnir af láninu hækka við yfirtökuna, upp í 6,15% minnir mig. Þetta kalla ég að kúga fólk í viðskipti til sín. Ég féll frá tilboðinu en hefði annars tekið lán hjá Íbúðalánasjóði.

Vinkona mín ein er með stórt lán hjá Kaupþingi og ef hún vill flytja sig úr þessari mafíu sem hún kallar svo þarf hún að borga hátt uppgreiðslugjald. Hún kallar að hún sé núna átthagabundin. Ég held að þetta fyrirkomulag sé reyndar víðar.

Við töluðum líka um myntkörfulán, greiðslur í evrum, Andrés Magnússon lækni sem var í Silfrinu á sunnudaginn var - og Gettu betur. Ég legg hvorki á mig né að ... lepja upp allt sem okkur fór á milli. Hins vegar hvíslaði maður í eyrað á mér þegar hann fór upp úr pottinum að ég skyldi spyrja viðmælanda minn hvort íslenskir bankar tækju nokkuð lán hjá Seðlabanka Íslands. Þá vorum við að tala um stýrivexti og verðtygginguna. 

En nú er ég komin að fyrirsögninni: Hvað er samkeppni? Ég skil nefnilega samkeppni svo að fyrirtæki keppi um að gera betur og laða fólk þannig í viðskipti til sín. Umræddur pottverji virtist mér leggja samkeppni út sem auglýsingar, eða öllu heldur viðurkenndi hann að samkeppni bankanna kæmi helst þar fram, þeir eyddu gífurlegu púðri (og væntanlega peningum) í auglýsingar - í samkeppni um viðskiptavini.

Þetta varð mér svo einkar hugleikið þegar ég las viðskiptafrétt um að Glitnir hefði verið valinn markaðsfyrirtæki ársins 2007. Ég held nefnilega að sterkasta innlegg Glitnis í samkeppni um viðskiptavini hafi verið útspil Þorsteins Más Baldvinssonar þegar hann byrjaði stjórnarformennsku sína á að leggja til verulega launalækkun til sjálfs sín og annarra hálaunamanna hjá fyrirtækinu. Til hans verður horft á næstu mánuðum frekar en hvort menn fái áletraða möppu, skál fulla af eplum eða grillspaða í eftirsókn eftir viðskiptum við þá.


Bjúgverpill

Ég fylgdist ekki alveg nógu vel með keppninni milli MR og Versló en voru ekki áhöld um að eitt orð (og þannig svar) hefði verið rétt í hraðaspurningunum? Sjálfri heyrðist mér annað liðið segja kannski bjúgverpur (þýðing á boomerang) og hitt liðið gerði athugasemd við orðið, hvernig sem það nú annars var. Dómarinn útskýrði ekki, sagði bara að rétt hefði verið gefið fyrir. Eftir sat ég með efasemdir.

http://www.adamdorman.com/preview.php?TableName=bryce3d&image=9&page=1

Keppnin var spennandi í lokin. Þetta er frábært útvarps- og sjónvarpsefni þegar vel tekst til.


mbl.is MR í undanúrslit í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í gagnasafni Moggans kennir ýmissa grasa ...

Listaháskólann í Hafnarfjörð?

Berglind Steinsdóttir
Berglind Steinsdóttir
Umhverfið sjálft er tignarlegt, segir Berglind Steinsdóttir, sjórinn á aðra hönd og hraunið á hina.


SÉRHVERT lýðræðislegt bæjarfélag hlýtur að hafa að leiðarljósi að setja meiri hagsmuni ofar hinum minni, taka mið af sjónarmiði heildarinnar frekar en einstakra einstaklinga. Þess vegna skiptir ekki máli hvað einstökum nemendum í Listaháskóla Íslands finnst um staðsetningu skólans í nálægri og fjarlægri framtíð. Það skiptir hins vegar máli hvað fjölda nemenda og kennara í skólanum finnst. Ef þau sjónarmið eru hins vegar fyrst og fremst tilfinningalegs eðlis hljóta þau að missa nokkurs marks. Þótt tilfinningar kunni að vera talsverður drifkraftur í sköpun megum við ekki horfa framhjá fræðilega þættinum. Ég er að vísu ekki listaskólagengin en seint skal ég trúa því að listaskólanemendur ætli að sækja innblástur einan í nám sitt. Ég þekki líf nemans prýðilega og veit að margt gagnlegt hlýst af því að eiga samneyti við samskælinga sína, og það á kaffistofunni, en hvatinn að slíku kemur einlægt úr uppfræðslu af einhverju tagi. Eru ekki komin 10 ár eða svo síðan átti að fara að sjást fyrir endann á húsnæðishraki stofnunarinnar? Sá tími í mannkynssögunni er skammur en sami árafjöldi í lífi eins listnema spannar auðveldlega allt námið. Og hvernig verður nú best hlúð að nemendum? Er það ekki með góðum aðbúnaði til að stunda nám sitt? Er ekki góður aðbúnaður að vera í vel hönnuðu húsnæði á stað sem uppfyllir obbann af kröfum notenda? Ef góð birgðastaða líkamlegs fóðurs er veigamesti ávinningurinn af því að vera í miðborg Reykjavíkur finnst mér sú röksemd heldur snautleg. Stendur ekki til að teikna upp nothæfa kaffistofu í bygginguna hvar sem hún rís? Annars er í Hafnarfirði svo sem enginn hörgull á kaffihúsum, veitingastöðum, bakaríum, bensínstöðvum, bönkum, verslunum og sundlaugum til að menn geti lagt í þarfapíramída Maslows.

Nálægð menningarstöðva er sjónarmið sem ég skil. Hitt veit ég ekki hversu oft menn fara - eða færu - á vettvang á skólatíma. Stökkva myndlistarnemar kannski alltaf eftir hádegi á fimmtudögum í listasöfnin með fræðara sínum og teyga í sig skilaboð olíunnar, vatnslitanna, þráðanna, útskurðarins, meitilsins? Hlaupa leikaraefnin inn í Þjóðleikhús tvo morgna í viku og fylgjast með æfingum? Skunda flautunemarnir á tónleika í Salnum (ahh, hann er í Kópavogi) eða á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveitinni á skólatíma? Eða stunda nemar þetta framboð menningar í frítíma sínum? Á kvöldin? Af því að námið fer saman við áhuga þeirra á listinni?

Mér finnst ég oftar hafa heyrt nemendur stynja undan aðstöðuleysi í skólanum sjálfum. Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða nægilegt pláss á fallegum stað sem getur ekki annað en blásið mönnum anda í brjóst. Umhverfið sjálft er tignarlegt, sjórinn á aðra hönd og hraunið á hina. Þegar veður leyfir sitja menn í hraunbollum og teikna; höggva í pappír eins og fjölþjóðlegir listamenn hafa höggvið í málm verkin sem standa á Víðistaðatúni. Menn horfa nær og fjær eða spjalla við næsta mann og víst er það stundum næringin sem dugir. Þrátt fyrir allt sækir maður líka sitthvað inn á við, í eigin kviku.

Einhver öflugasta hönnunardeild landsins er starfrækt við Iðnskóla Hafnarfjarðar. Tónlistarlíf blómstrar með þeim ágætum að nánast hver Hafnfirðingur er í kór, og margir í fleiri en einum. Í Bókasafni Hafnarfjarðar er tónlistardeild sem slær flestum öðrum við. Safnið flyst bráðum um set, og verður þá steinsnar frá norðurbakkanum, staðnum sem Listaháskólanum býðst. Í bókasafninu verður miðstöð upplýsingatækni með tugum tölva og þar verða til listaverkabækur og fagtímarit. Á norðurbakkanum er núna eitthvert nýstárlegasta atvinnuleikhús landsins, Hermóður og Háðvör, og jafnframt áhugaleikfélag sem verður 75 ára á næsta ári. Þau voru einmitt að frumsýna Koss köngulóarkonunnar, og þar er unglingadeild sem mark er á takandi. Núna er verið að taka upp bíómyndina Mávahlátur í því húsi sem mun víkja fyrir Listaháskólanum ef hann ratar í Fjörðinn. Þá eru ótaldir allir einyrkjarnir meðal listamanna í Hafnarfirði sem hafa ekki hátt; sem og Ljósaklif, Hafnarborg, Straumur, Kvikmyndasafn Íslands og Bæjarbíó.

Hafnarfjörður hefur sérstöðu og hún stendur Listaháskóla Íslands til boða. Gleymum ekki að nemendur skólans og framtíðarkennarar koma ekki allir úr 101 Reykjavík. Sumir gætu verið í Reykjanesbæ að leita sér að vettvangi núna.

Við þurfum ekki að mála skrattann á vegginn. Við þurfum að vinna saman. Var svo ekki einhver að tala um að höfuðborgarsvæðið ætti að verða eitt?

Höfundur er menningarfulltrúi Hafnarfjarðar. 

-Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2001 (og ég er ánægð með allt nema myndina, hvert einasta orð).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband