Þriggja landa sýn

Mér er svo minnisstætt þegar systir mín fór í sólarlandaferð forðum daga og hún kallaðist þriggja landa sýn. Afskaplega ógeðug tilhugsun þótti mér. Ég vildi helst ekki fara til útlanda fyrir minna en mánuð, setja mig niður í einni borg og þæfa hana sem mest. Best auðvitað að vera í heilt ár, læra tungumálið, finna bestu búðirnar, kynnast nágrönnunum, þefa af staðarmenningunni, skilja stjórnunina - kynnast heimamönnum. Ekki sjá bara túristamiðuðu staðina.

Fyrir nokkrum árum var ég nokkra daga í London, spurði heimamann hvort ekki væri ráð að skella sér til Stonehenge en hann ranghvolfdi í sér augunum og sagði að það væru bara nokkrir steinar sem hefði verið raðað í hring. Ég fór hvergi.

Í gær fékk ég mína þriggja landa sýn. Ég flaug frá Frankfurt árla morguns og meðan ég beið á flugvellinum las ég um frú Ypsilanti. Ég man reyndar ekki lengur hvort hún var völd að spillingu eða hvort hún einmitt upprætti hana. Og vel að merkja, ég vandaði mig við að koma hálftíma of seint á flugvöllinn, tékkaði mig inn í einni af þessum dásemdarsjálfsafgreiðsluvélum, kom af mér farangrinum og slugsaði svo eftir hinum alræmdu Frankfurtar-göngum. Samt - samt gafst mér tími til að setja mig illa inn í mál frú Ypsilanti í Frankfurter Allgemeine og spjalla við afgreiðslustúlkuna um það hvort farangurinn minn færi alla leið til Íslands eða hvort ég þyrfti að taka hann af bandinu í Kaupmannahöfn og tékka hann aftur inn.

Ég ætla bara að muna það tryggilega að þessi hverkvaðning með tveggja tíma (og sums staðar þriggja, sbr. Stokkhólm) fyrirvara er markaðssetning fríhafnanna til að sem flestir eyði peningum í fatalufsur og gleraugu og farða og bækur og sælgæti sem þeir eru síðan ævina á enda óánægðir með. (Kannski samt fulldramatískt að segja að fólk sé alla ævi óánægt með að hafa keypt brezel og bók.)

Í vélinni á leið til Kaupmannahafnar las ég síðan í Berlingske tidende viðtal við Villy Søvndal, formann SF (sem ég finn alls ekki hvað stendur fyrir, skammstöfunin, sé þó að þetta er sósíalistaflokkur). Villy boðar herför gegn mørkemænd og mér sýnist hann vera að tala um heittrúaða múslima. Á næstu dögum mun ég lesa aðeins meira í blaðinu, ég komst svo lítið áleiðis með það í vélinni.

Í Flugleiðavélinni fékk ég DV í hendurnar og þar var ítarleg umfjöllun um Vilmund Jónsson, fyrrum landlækni og landslagasmið, og gjörðir hans gagnvart þeim sem hann úrskurðaði fávita. Fólk sem var metið eftir einhverjum dularfullum mælikvörðum langt undir meðalgreind var sumt hvert tekið úr sambandi, vanað, og það án eigin vitundar. Það er og hefur greinilega víða verið pottur brotinn.

Þriggja landa sýn - æsir bara í mér útlandaþorstann og rifjar upp fyrir mér að það er löngu tímabært að hleypa heimdraganum á ný.

Dvölin í Frankfurt er annarrar messu virði en ég er að hugsa um að halda henni fyrir mig.

Í gær, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, átti frænkusponsið mitt afmæli að vanda. Ég náði að hitta á hana, smella á hana afmæliskossi og henda í hana afmælisgjöf en fyrir vikið ekki senda henni rafræna kveðju, ehemm. Addýpaddý frænkuspons, til hamingju með enn eitt árið. Með þessu áframhaldi verðurðu hundgömul. Og Davíð, stóribróðir frænkusponsins, pælum í Indlandi ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég og Högni erum mjög ánægð með peysuna og sokkana sem ég keypti fyrir hann á Kaupmannahafnarflugvelli!

Ég hef alltaf litið á þennan tíma til að skoða fólkið á flugvöllunum .... (þar til ég keypti peysuna góðu)

Ásgerður (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 10:59

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú ert ... grmpffff ... óþolandi jákvæð ... ræræræ.

Berglind Steinsdóttir, 11.3.2008 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband