Í gagnasafni Moggans kennir ýmissa grasa ...

Listaháskólann í Hafnarfjörð?

Berglind Steinsdóttir
Berglind Steinsdóttir
Umhverfið sjálft er tignarlegt, segir Berglind Steinsdóttir, sjórinn á aðra hönd og hraunið á hina.


SÉRHVERT lýðræðislegt bæjarfélag hlýtur að hafa að leiðarljósi að setja meiri hagsmuni ofar hinum minni, taka mið af sjónarmiði heildarinnar frekar en einstakra einstaklinga. Þess vegna skiptir ekki máli hvað einstökum nemendum í Listaháskóla Íslands finnst um staðsetningu skólans í nálægri og fjarlægri framtíð. Það skiptir hins vegar máli hvað fjölda nemenda og kennara í skólanum finnst. Ef þau sjónarmið eru hins vegar fyrst og fremst tilfinningalegs eðlis hljóta þau að missa nokkurs marks. Þótt tilfinningar kunni að vera talsverður drifkraftur í sköpun megum við ekki horfa framhjá fræðilega þættinum. Ég er að vísu ekki listaskólagengin en seint skal ég trúa því að listaskólanemendur ætli að sækja innblástur einan í nám sitt. Ég þekki líf nemans prýðilega og veit að margt gagnlegt hlýst af því að eiga samneyti við samskælinga sína, og það á kaffistofunni, en hvatinn að slíku kemur einlægt úr uppfræðslu af einhverju tagi. Eru ekki komin 10 ár eða svo síðan átti að fara að sjást fyrir endann á húsnæðishraki stofnunarinnar? Sá tími í mannkynssögunni er skammur en sami árafjöldi í lífi eins listnema spannar auðveldlega allt námið. Og hvernig verður nú best hlúð að nemendum? Er það ekki með góðum aðbúnaði til að stunda nám sitt? Er ekki góður aðbúnaður að vera í vel hönnuðu húsnæði á stað sem uppfyllir obbann af kröfum notenda? Ef góð birgðastaða líkamlegs fóðurs er veigamesti ávinningurinn af því að vera í miðborg Reykjavíkur finnst mér sú röksemd heldur snautleg. Stendur ekki til að teikna upp nothæfa kaffistofu í bygginguna hvar sem hún rís? Annars er í Hafnarfirði svo sem enginn hörgull á kaffihúsum, veitingastöðum, bakaríum, bensínstöðvum, bönkum, verslunum og sundlaugum til að menn geti lagt í þarfapíramída Maslows.

Nálægð menningarstöðva er sjónarmið sem ég skil. Hitt veit ég ekki hversu oft menn fara - eða færu - á vettvang á skólatíma. Stökkva myndlistarnemar kannski alltaf eftir hádegi á fimmtudögum í listasöfnin með fræðara sínum og teyga í sig skilaboð olíunnar, vatnslitanna, þráðanna, útskurðarins, meitilsins? Hlaupa leikaraefnin inn í Þjóðleikhús tvo morgna í viku og fylgjast með æfingum? Skunda flautunemarnir á tónleika í Salnum (ahh, hann er í Kópavogi) eða á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveitinni á skólatíma? Eða stunda nemar þetta framboð menningar í frítíma sínum? Á kvöldin? Af því að námið fer saman við áhuga þeirra á listinni?

Mér finnst ég oftar hafa heyrt nemendur stynja undan aðstöðuleysi í skólanum sjálfum. Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða nægilegt pláss á fallegum stað sem getur ekki annað en blásið mönnum anda í brjóst. Umhverfið sjálft er tignarlegt, sjórinn á aðra hönd og hraunið á hina. Þegar veður leyfir sitja menn í hraunbollum og teikna; höggva í pappír eins og fjölþjóðlegir listamenn hafa höggvið í málm verkin sem standa á Víðistaðatúni. Menn horfa nær og fjær eða spjalla við næsta mann og víst er það stundum næringin sem dugir. Þrátt fyrir allt sækir maður líka sitthvað inn á við, í eigin kviku.

Einhver öflugasta hönnunardeild landsins er starfrækt við Iðnskóla Hafnarfjarðar. Tónlistarlíf blómstrar með þeim ágætum að nánast hver Hafnfirðingur er í kór, og margir í fleiri en einum. Í Bókasafni Hafnarfjarðar er tónlistardeild sem slær flestum öðrum við. Safnið flyst bráðum um set, og verður þá steinsnar frá norðurbakkanum, staðnum sem Listaháskólanum býðst. Í bókasafninu verður miðstöð upplýsingatækni með tugum tölva og þar verða til listaverkabækur og fagtímarit. Á norðurbakkanum er núna eitthvert nýstárlegasta atvinnuleikhús landsins, Hermóður og Háðvör, og jafnframt áhugaleikfélag sem verður 75 ára á næsta ári. Þau voru einmitt að frumsýna Koss köngulóarkonunnar, og þar er unglingadeild sem mark er á takandi. Núna er verið að taka upp bíómyndina Mávahlátur í því húsi sem mun víkja fyrir Listaháskólanum ef hann ratar í Fjörðinn. Þá eru ótaldir allir einyrkjarnir meðal listamanna í Hafnarfirði sem hafa ekki hátt; sem og Ljósaklif, Hafnarborg, Straumur, Kvikmyndasafn Íslands og Bæjarbíó.

Hafnarfjörður hefur sérstöðu og hún stendur Listaháskóla Íslands til boða. Gleymum ekki að nemendur skólans og framtíðarkennarar koma ekki allir úr 101 Reykjavík. Sumir gætu verið í Reykjanesbæ að leita sér að vettvangi núna.

Við þurfum ekki að mála skrattann á vegginn. Við þurfum að vinna saman. Var svo ekki einhver að tala um að höfuðborgarsvæðið ætti að verða eitt?

Höfundur er menningarfulltrúi Hafnarfjarðar. 

-Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2001 (og ég er ánægð með allt nema myndina, hvert einasta orð).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú mátt líka vera ánægð með þessa grein, og reyndar með myndina líka. kvitta fyrir lesturinn.

Þórhildur (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 22:46

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jájá, merkilegt þegar maður dettur inn á svona heimildir um sjálfið sitt. Jájá. Og finnur myndir líka frá löngu liðnum árshátíðum. Jájá.

Berglind Steinsdóttir, 1.3.2008 kl. 00:27

3 identicon

Býrð þú í Hafnarfirði?

Tóti (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 00:57

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nei, og bjó ekki heldur þá. Best að taka fram að þetta er fyrrverandi starf, ég leysti þarna af í rúmt ár. Er Tóti ekki sammála hverju orði?

Berglind Steinsdóttir, 1.3.2008 kl. 09:13

5 identicon

Hver er þetta á myndinni? Yngri systir þín kannski.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 17:42

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, kannski barnung útgáfa að auki ... kjeeeedlingin.

Berglind Steinsdóttir, 1.3.2008 kl. 17:52

7 identicon

Nei

Tóti (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband