Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 29. febrúar 2008
Fátt um manninn - en góðmennt
Aðalfundur Félags leiðsögumanna var haldinn á Kaffi Reykjavík í kvöld, fimmtudagskvöld. Ég var svo heppin að vera bæði kosin fundarritari og síðan í ritstjórn. Ég veit nú þegar upp á hvaða handleggi ég ætla að snúa og hvað ég vil láta skrifa um. Að auki er ég búin að ákveða ýmislegt um framtíðarfjármálin. Þetta er allt önnur tilfinning en þegar ég var kosin formaður um árið ...
Um 40 manns mættu (á sjöunda hundrað eru í félaginu) þannig að það er alltaf bara lítill meirihluti sem ákveður fyrir hönd hins stóra meirihluta. Þetta er að hluta til vegna þess að sumir eru óvirkir eða lítt virkir, sumir áhugalitlir og sumir fjarri góðu gamni af því að þeir búa úti á landi, jafnvel erlendis.
Við gerðum nokkrar lagabreytingar, kusum í allar nefndir og öll ráð, þráttuðum dálítið og síðan sagði Skúli Möller okkur undan og ofan af kjaramálum. Loks varpaði Jón Lárusson skemmtilegri hugmynd út í loftið, ræræræ.
Mér finnst gaman að vera í Félagi leiðsögumanna. Mér finnst líka gaman að vera leiðsögumaður. Mér finnst hins vegar hundleiðinlegt að horfa á launaseðilinn. Þar á verður kannski fljótlega breyting.
Og leiðsögumenn drekka ekki kaffi með lokaðan munninn:
Ég mismælti mig í gær þegar ég sagðist ekki finna myndirnar mínar af álfunum, ég var bara ekki búin að taka þær ...
Fleiri álfamyndir síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 27. febrúar 2008
Álfar í Offenbach
Aldrei fór það svo að dálæti mitt á álfum fleytti mér ekki suður í lönd. Nú er hvatahópur sem er væntanlegur til landsins í júní búinn að panta undirritaða til útlandsins til að segja nokkur spakleg og þýðversk orð á sviði. Rútan verður óvenjulega stór, sem sagt salur, og aldrei þessu vant mun ég snúa að fólkinu og ná jafnvel augnsambandi.
Þetta verður 10 mínútna sjónarspil sem ég hlakka mikið til því að mér leiðist aldrei að tala. Þetta á sér langan aðdraganda því að hvatahópurinn hefur þegar fengið póstkort sem er undirskrifað af einhverri Berglindi sem mun síðan öllum að óvörum birtast á sviðinu í Offenbach - og staðfesta bestu grunsemdir manna um álfa á Íslandi!
Hahha.
Ég er búin að hlæja síðan ég las tölvupóstinn með staðfestingunni sem barst í dag. Þýski forstjórinn þarf nefnilega að læra setningu á íslensku og svo á ég að segja nokkrar til viðbótar sem hann á að kinka kolli við og jánka með innfjálgum íslenskum orðum eins og einmitt, frábært, fyrirtak o.þ.h.
Einhverra hluta vegna finn ég hvorki myndirnar mínar af álfunum né tröllunum ... Ég bæti þeim kannski við seinna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Matthísurnar setja stefnuna á óvissuferð
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Skásti peningabankinn
Um síðustu mánaðamót gleymdi ég að borga greiðslukortsreikning upp á 94.148 kr. þegar ég fór yfir hann í heimabankanum. Tæpri viku síðar fékk ég höfnun þegar ég ætlaði að nota kortið í fyrsta skipti í mánuðinum. Þá fór ég í heimabankann og borgaði reikninginn. Tveimur dögum seinna fékk ég í löturpósti ítrekun um að borga. Dagsetningin var dagsetning greiðsludagsins. Það kostaði mig 525 kr. Núna fæ ég reikninginn og þá þarf ég líka að borga vexti upp á 588 kr. fyrir utan auðvitað meint útskriftargjald fyrir reikning sem bankinn neitar að senda mér bara rafrænt.
Þessar 1.113 kr. má ég borga fyrir að skulda bankanum 94.148 kr. í slétta viku. Frá þóknun bankans verður auðvitað að draga póstburðargjald og pappírskostnað. En bankanum hefur ekki orðið skotaskuld úr að senda mér rafrænt alls kyns skilaboð út af einhverri meintri nýrri þjónustu.
Og þessi banki hefur komið skást út í skoðun minni á samkeppni bankanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Bankinn sem maður vill frekar leggja inn í en taka út úr
Í dag var hringt í mig og ég boðin á aðalfund Blóðgjafafélags Íslands. Mér skildist að til stæði að viðurkenna mig fyrir margháttaðar blóðgjafir (og engar úttektir, hmm). Ég varð því miður að afþakka því að ég hef þegar tekið að mér trúnaðarstarf á aðalfundi Félags leiðsögumanna!
Annars hvet ég fólk eindregið til blóðgjafa ef það getur. Það er gott að láta eitthvað af hendi (úr hendi!) rakna og svo er hvert skipti ígildi minniháttar læknisskoðunar, blóðrauði er mældur, sömuleiðis ... eitthvað annað. Ég er a.m.k. alltaf sannfærðari eftir heimsóknirnar um að ég sé heil heilsu og eigi 100 ár ólifuð (eitthvað svo krakkaleg, hehe).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Á tímamótum ber að fagna
Jóhanna átti afmæli og bauð 100 nánustu vinum sínum. Hér er hún með spúsa sínum, Frank frá Liechtenstein:
Ég kom í þessum vafasama félagsskap:
En sem betur fer í fylgd fleiri vinkvenna:
Í fylgd með þessu dularfulla gjafaborði:
Hér búnar að faðma afmælisbarnið.
Og þá var að blanda geði:
Laugarvatnsbandið gerði sig gildandi með söng og borðaúthlutunum:
Og þessi er í sérstöku uppáhaldi:
Hann vogaði sér samt ekki í karaókí.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 23. febrúar 2008
Að græða eða ekki að græða í spilum
Mér finnst gaman að spila vist og gúrku, ás-tvist og kleppara, pictionary og fimbulfamb, rakka, kasínu, rommí og gosa - allt eftir aðstæðum og félagsskap. Mér finnst póker jafn óspennandi og spilakassarnir í sjoppunum. Og ég skil ekki stóra muninn á þeim og póker. Ég man frá því að ég vann í sjoppum bróður míns þar sem voru peningaspilakassar að einstaka spilarar prentuðu út feita vinninga og fóru út með dálitlar summur sem þeir eyddu margir hverjir aftur síðar, oft skömmu síðar.
Getur það ekki líka gerst í póker, að menn tapi gróðanum? Var gengið eftir því að Rauðakrossgróðinn væri talinn fram?
Ég held ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Gefandi spjall um gúmmíhanska
Ég geri ráð fyrir að mitt heimili sé eitt af þeim síðustu í landinu þar sem ekki er uppþvottavél. Á mínu heimili er vaskað upp í höndunum og með svo heitu vatni að gúmmíhanska er þörf. Ég hef ekki tölu á hversu mörg gúmmíhanskapör hafa safnast til uppruna síns undanfarið en þau eru ærin því að þau detta snarlega út í götum.
Kannast nokkur við vandamálið?
Ég hef keypt allar fáanlegar tegundir í Bónus og Krónunni. Þarf ég að kanna lagerinn í Nóatúni líka?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 20. febrúar 2008
Hvað þýða ,,versnandi atvinnuhorfur"?
Nú er þrálátur orðrómur um að farið verði að segja upp í bönkunum og að það fari að dragast saman í atvinnulífinu. Þýðir það að viðskiptafræðingar, lögfræðingar og tölvufræðingar missi vinnuna?
Ég heyrði á Bylgjunni í morgun merkilegt viðtal við Magnús Baldursson, fræðslustjóra Hafnarfjarðar, sem sagði að bankafólkið skyldi endilega sækja um á leikskólum, það yrði vel tekið á móti því. Mig rak í rogastans, ætli sérhæfing talnafræðings komi að miklu gagni í uppeldisstörfum? Finnst leikskælingum starfi þeirra sýnd næg virðing þegar víurnar eru svona bornar í fólk sem hefur menntað sig til allt annarra starfa? Eru launin sambærileg?
Ef menn væru að tala um atvinnuástandið í þorskinum sem var skorinn niður og loðnunni sem var skorin burt gæti ég skilið að menn hefðu áhyggjur. Að menn hafi áhyggjur. Mér rennur til rifja hvernig sumum plássum fjarri suðvesturhorninu blæðir. Ég hitti Stöðfirðing nýlega sem sagði að fólk sogaðist þaðan í burtu með þurrð á fiski, annað hvort til Reykjavíkur eða Reyðarfjarðar. Þótt Austurland dafni sums staðar er hert að annars staðar. Og íbúum þeirra staða er ekki skemmt.
Ég gæti sum sé skilið ef menn hefðu áhyggjur af þessum atvinnuhorfum. En mér heyrast áhyggjurnar snúast um bankana og útrásina. Þýðir það - ef svo illa fer - að obbinn af fólki fari að vinna bara 100% vinnu?
Ég þekki nefnilega varla manneskju sem vinnur ekki mun meira en fulla vinnu. Sjálf er ég ágætt dæmi, ég hef ekki undan að banda frá mér skemmtilegum verkefnum meðfram fastri vinnu. Sum tek ég að mér, kennslu í íslensku fyrir útlendinga, prófarkalestur, þýðingar, leiðsögn. Ef þrengist að gæti verið að ég yrði að láta mér 100% duga - og er það ekki í lagi?
Útlendingar sem ég þekki furða sig mikið á aukastörfum Íslendinga. Þeir spyrja hvort við eigum engin áhugamál. Erum við ekki svona andvaralaus og ligeglad af því að við hlaupum svo hratt í lífsgæðakapphlaupinu - og út af þenslunni?
Á hverjum mun kreppan bitna?? Á hverjum hefur þenslan bitnað?
Best að hugsa málið yfir skemmtilegu þýðingaverkefni frá Alþjóðahúsi ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 18. febrúar 2008
Úr 1.450 kr. í 1.556 - mest úr býtum?
Eða hvað þýðir þetta? Þegar maður skoðar með þessu?
Mér sýnist tímakaupið upp á 1.450 kr. (með orlofi og undirbúningi) fara í kr. 1.556 ef ég legg 18.000 kr. við tímakaupið sinnum 170 tímar. Ef einhver nennir að lesa allan samninginn á vef ASÍ og endursegja í aðalatriðum það sem kemur leiðsögumönnum við væri það vel þegið.
Í augnablikinu skil ég ekki gleðidansinn.
Man þó að á morgun er alþjóðlegur dagur leiðsögumanna. Líklega valinn af því að þá er hvað minnst að gera hjá leiðsögumönnum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)