Færsluflokkur: Dægurmál

Úr 1.450 kr. í 1.556 - mest úr býtum?

Eða hvað þýðir þetta? Þegar maður skoðar með þessu?

Mér sýnist tímakaupið upp á 1.450 kr. (með orlofi og undirbúningi) fara í kr. 1.556 ef ég legg 18.000 kr. við tímakaupið sinnum 170 tímar. Ef einhver nennir að lesa allan samninginn á vef ASÍ og endursegja í aðalatriðum það sem kemur leiðsögumönnum við væri það vel þegið.

Í augnablikinu skil ég ekki gleðidansinn.

Man þó að á morgun er alþjóðlegur dagur leiðsögumanna. Líklega valinn af því að þá er hvað minnst að gera hjá leiðsögumönnum.

 


Þetta er ígildi auglýsingar - neikvæðrar??

Þar sem ég er gefin fyrir ís - og nú er byrjað að hlýna - stökk ég á hugmyndina um nýjan sælgætisís frá Nóa-Síríus og kippti einum Pippís með í Bónus í gær. Hann kostaði (minnir mig) 339 kr., mögulega allt að 379 (ég finn ekki strimilinn).

Mér þótti hann bragðast of mikið eins og piparmynta.

Svo lá leið mín í hús í grennd við Nóatún í dag og ég ákvað að prófa annað bragð, Bananasprengjuís. Sama magn af honum kostaði 589 kr. (ég á enn strimilinn). Hugsanlega er hann dýrari í framleiðslu - annars er verðmunurinn aðeins of mikill milli verslana.

Ekki undir 50% verðmun. Huggun er að ísinn mæltist vel fyrir.


Er þetta ný frétt? - Asbest og útivist

Ég man ekki hvort það var síðasta eða þarsíðasta sumar - kannski bæði - sem ég gekk um Elliðaárdalinn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í fylgd Stefáns Pálssonar sem sagði okkur undan og ofan af tíðindum í dalnum. Meðal tíðinda var einmitt að lending væri fundin fyrir Toppstöðina (kölluð svo af því að hún annaði toppunum, sem sagt vararafstöð á álagstímum) og ég skildi hann þannig að samkomulag væri komið um hver skyldi rífa hana og bera af því kostnað. Ég hefði giskað á að það væri einmitt Landsvirkjun en skal viðurkenna að ég man ekki hver fékk þann kaleik. Nú er borgin komin með hann í hendurnar

Það verður nefnilega stórmál að rífa þessa asbesthlöðnu byggingu. Ætli borgin fagni þessu verkefni?

Hins vegar verður indælt að stækka útivistarsvæðið.


mbl.is Gaf borginni vararafstöðina í Elliðaárdalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láti gott á vita

Jónmundur er auðvitað ekki fyrsti maðurinn til að benda á hið augljósa en vonandi breytist nú kúrsinn. Vonandi ná menn að líta upp úr steypunni og horfa á starfið og manneskjuna sem gegnir því. Vonandi hætta menn að miða við lægsta samnefnara - auðvitað eru slakir kennarar innan um - og fara að horfa til heildarinnar.

Ég þekki að vísu betur til í framhaldsskólum en grunnskólum þannig að ég ætla að spara allar yfirlýsingar um skólastigið sem heyrir undir sveitarstjórnarstigið en ég ætla að rifja upp að kennarar sem taka starfið alvarlega, eru vaknir og sofnir [hlýtur að vera svona í fleirtölu], nota öll möguleg tækifæri til að viða að sér efni og hugsa upp leiðir til að gera námsefnið forvitnilegt og skemmtilegt, brydda upp á nýjungum og prófa nýjar aðferðir. Þeir setja sig inn í námsefnið, auðvitað, reyna að nálgast það frá sjónarhóli nemandans líka og krydda með jaðarefni. Þeir nota eigin fyrirlestra, láta nemendur flytja fyrirlestra, semja verkefni, fara í hlutverkaleiki, nota spil, fara í vettvangsferðir, kynda undir ímyndunaraflinu.

Með breyttu samfélagi lenda líka félagsleg umhugsunarefni í fangi kennarans. Ég vona að ég brjóti ekki trúnað með því að segja að vinkona mín sem er hætt að kenna veitti því eftirtekt í fari vel gefins nemanda síns að hún var farin að slá slöku við. Vinkona mín gekk á hana og fékk hana til að segja sér frá ofbeldi sem hún hafði orðið fyrir, þess konar ofbeldi sem braut niður sjálfsmyndina. Þessi vinkona mín sat með nemandanum stundirnar langar, fékk hana til að leita sér faglegrar aðstoðar og kom henni á réttan kjöl. Þessi vinkona mín gafst á endanum upp á 270.000 kr. mánaðarlaunum og starfi sem hún fór alltaf með heim í lok dags, fékk vinnu með vinnutíma 8-4 og hækkaði í launum um 55%. Hún notar enn háskólamenntunina. Heppin.

Ég veit að hnífurinn stendur dálítið í þeirri kú að kennarastéttin er fjölmenn. Launagreiðendur verða samt að líta upp úr steypunni og hætta að horfa bara út um gluggana, líta líka inn á við og spyrja sig hvað skipti máli.

Að svo mæltu lýsi ég því yfir að ég vildi stokka miklu meira upp í skólunum, hafa betri vinnuaðstöðu í húsnæði skólans og skikka - já, segi og skrifa - kennara til að vera á staðnum á ákveðnum tíma, t.d. 8-4, svo að hægt sé að vera með meiri samvinnu. Mér þótti sjálfri best að kenna í þeim skóla þar sem ég gat gengið að samkennurum mínum á dagvinnutíma og rætt hugmyndir fram og til baka. Á því græddi ég og á því held ég að nemendur græði. Starf einyrkjans er svo lýjandi.


mbl.is Vill hækka laun kennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil búa í 102 Reykjavík

Seðlabankinn hjálpar mér með háum stýrivöxtum að stækka aurasjóðinn sem ég eignaðist þegar ég seldi íbúð og keypti ekki aðra. Þess vegna er ég viss um að ég muni hafa efni á að kaupa í Vatnsmýrinni þegar íbúðabyggingar verða risnar þar. Ég var að stúdera vinningsteikningarnar OG ÞAÐ ER EKKI GERT RÁÐ FYRIR SUNDLAUG. Mikill harmur er að mér kveðinn. Gert er ráð fyrir tveimur grunnskólum og einum framhaldsskóla - sem er gott - og mér sýnist m.a.s. vera tenging við miðbæinn sem einhverjir töluðu um að væri ekki næg.

Ég vil fá sundlaug í 102 Reykjavík. Það er áreiðanlega ekki of seint að koma þessu á framfæri.


Heyrt á Bylgjunni í morgunsárið

Spurt: Finnst þér laun kennara nógu há?

Svarað: Mér finnst margar stéttir of illa launaðar.

Spurt: Finnst þér verjandi að börn fái ekki lögbundna kennslu?

Svarað: Mér finnst ekki gott að gamalt fólk fái ekki umönnun.

Spurt: Hvað finnst þér um að kennarar sem eru að útskrifast vilja frekar halda áfram í námi en fara í illa launaða kennslu?

Svarað: Kannski eru námslánin orðin of góð.

Spurt: Finnst þér í lagi að fólk hrökklist úr kennslu til að vinna við afgreiðslu í bönkum?

Svarað: Þetta er þensla. Viljið þið frekar 10% atvinnuleysi eins og víða er í Evrópu?

---

Endurtakist í tilbrigðum eftir þörfum í 10 mínútur. Ég hafði áhyggjur af að Heimir Karlsson spryngi í loft upp og þá hefði verið grátið á mínu heimili. Eftir fáum útvarpsmönnum sæi ég meira en Heimi.


Þarf virkilega virkilega virkilega VIRKILEGA ekki að auglýsa stöðu forstöðumanns Þjóðmenningarhúss?

Ég trúi ekki mínum eigin augum.


Sólarferð Guðmundar Steinssonar

Ég sá forsýningu í fullum sal Þjóðleikhússins og var ekki eins hrifin og ég gerði mér vonir um. Vissulega á sýningin eftir að þéttast - og vissulega hló ég samt oft. Ég sat líka á milli Ásgerðar hláturpoka og annars Guðmundar Steinssonar og þau smituðu mig með gleði sinni. Búningar og leikmunir voru svo eitís (jafnvel seventís?) að við féllum alveg í stafi, það vantaði ekkert upp á lúkkið. Ég hafði gaman af leikurunum - efasemdir mínar snúast um leikritið.

Tvenn hjón fara til Mæjorku að njóta sólar og ódýrra áfengra drykkja (ekki pina colada, ekki tia maria, þeir hétu eitthvað annað). Við dveljumst mikið inni í herbergi Stefáns og Nínu og mikið óskaplega lifa þau innantómu lífi, a.m.k. í þessu sumarfríi. Svona voru sólarferðirnar er manni sagt, lúxusinn var að komast í sólarfrí þar sem ekkert átti að gera annað en að sóla sig, brenna hæfilega og svala þorsta sínum í áfengum drykkjum.

Þegar önnum kafið fólk lítur upp úr önnum sínum uppgötvar það stundum að það á ekki það sameiginlegt sem það hafði talið. Það getur verið kjörlendi fyrir leikrit; samtöl, stefnubreytingar, uppgjör. Mér þótti ekki nóg af þessu.

Kannski var ég móttækilegri þegar Stundarfriður fór á svið. Það leikrit þótti mér snerta kviku og ég vonaðist eftir svipaðri upplifun. Ég er líklega bara orðin svo assgoti heimtufrek - því að mér þótti samt gaman á sýningunni. Ég efast bara um að ég vakni í fyrramálið með hana í kollinum.


Hvar er annars samstaðan?

Ég tek ofan fyrir VGK og vonandi taka önnur fyrirtæki hið sama til athugunar. Auðvitað er fúlt að eldsneytisverðið hefur hækkað en ég hef ekki síður áhyggjur af aukinni mengun og meiri slysahættu.

Í gær frétti ég af stofnun sem gefur sig út fyrir að vera umhverfisvæn en sendir starfsfólk sitt í leigubíl frekar en strætó ef eitthvað er. Er það tíminn sem verið er að spara? Er það leigubílastarfsemin sem verið er að styðja (mér finnast þær almenningssamgöngur líka mikilvægar)?

Við megum ekki fljóta um sofandi, við berum sjálf ábyrgð - og VGK skilur það.


mbl.is Starfsmenn ferðist ekki einir í bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sálfræði auglýsinganna virkar ekki á mig

Væntanlega halda margir því fram að þeim takist að leiða auglýsingar hjá sér. Ég held því sannarlega fram. Þó veit ég að sumar þeirra hafa neikvæð áhrif á mig.

Ég myndi t.d. ekki skipta við Remax ef ég kæmist hjá því. Allt jaríjaríið um áramótin var neikvæð upplifun. Þegar ég las síðan um eigandann sem er að láta byggja 800 fermetra einbýlishús fyrir sig sannfærðist ég frekar. Sú frétt var á við fínustu neikvæða auglýsingu.

Kaupþing skorar mjög magurt. Reyndar finnst mér vanta mjög á almenna og almennilega samkeppni á bankamarkaði en að sinni get ég unað við sparisjóðinn. Þó hlakka ég mikið til þegar vextir verða orðnir mannsæmandi og mönnum bjóðandi. Það gerist áður en ég hrekk upp af og þá njóta þess næstu kynslóðir. Maður verður að hugsa stórt.

Renningarnir á blogginu trufla mig ekki nema þegar þeim fylgir hljóð. Það var um tíma á fasteignavefnum. Sem betur fer hætti sá auglýsandi að hefta.

Aðalauglýsingarnar eru í blöðunum. Og nú get ég staðið við fullyrðinguna í fyrirsögninni. Ég veit aldrei hvað verið er að auglýsa. Stundum finnst mér það m.a.s. frekar fúlt því að einstaka auglýsingar hafa upplýsingagildi sem ég kann að meta. Mig langaði að sjá hvaða 100 konur auglýstu eftir stjórnarformennsku um daginn en þar sem ég les næstum aldrei hægri síðuna í framhluta blaðanna fór ég á mis við þær upplýsingar.

Ég hugsa að svona sé komið fyrir fleirum. Ef auglýsendur læsu þessa hugleiðingu mættu þeir vel velta fyrir sér hvort markaðssetningin er ekki svolítið farin út um gluggann.

Besta auglýsingin er alltaf ánægður kúnni.

Orðsporið rokkar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband