Færsluflokkur: Dægurmál

Dekur í 101 Reykjavík

Nú er klukkan á tólfta tímanum og 24 stundir eru komnar í hús. Ég held að það hafi aldrei brugðist að blaðið hafi verið komið þegar ég hef átt leið um útidyrnar á þessum tíma. Mér heyrist á öðrum sem ég þekki að atlætið sé ekki svo gott á þeim heimilum.

Því hallast ég að því að Þinghyltingar séu fordekraðir.

Eins gott að auglýsendur frétti þetta ekki ...


Farþeginn skrifaður af tveimur

Ég las Farþegann um helgina. Framvindan var svo oft svo óvænt að ég hlýt að hugsa hvort höfundarnir tveir hafi komið hvor öðrum á óvart í sífellu. Annar skrifaði kannski 1. kafla og svo tók hinn við og sá skemmtilegar tilvísanir sem sá fyrri ætlaði sér ekkert endilega neitt með. Mér var ágætlega skemmt. Væri til í fleiri tilraunir af þessu tagi.

Jói og Simmi á Bylgjunni

Ég er mikið gefin fyrir talað mál. Sumir í stór-vinahópnum halda að ég vilji endalaust hafa orðið sjálf en það er ekki satt. Þegar ég tek til verður mér óendanlega miklu meira úr verki ef ég hlusta á talað mál. Það má vera í síma. Því miður finnst mér púlsinn á Rás 1 helst til veikur, reikna með að ná þeim þroska síðar, og er svo sem ekki sérlega gefin fyrir upplestur af neinu tagi.

Nú hugsaði ég mér gott til glóðarinnar og kveikti á hinum vinsælu Bylgjupiltum sem segjast halda úti útvarpsþætti frá 9 ei emm til 12 ei emm (allajafna skrifað a.m. eða am, svona skáletrað bera þeir það hins vegar fram). Ég setti svo sem ekki teljarann í gang en mér er til efs að þeir hafi talað í 20 mínútur á fyrsta klukkutímanum. Auglýsingar voru fjölmargar og svo hafa þeir spilað fjöldann allan af lögum. Þeirra eigið talaða mál var brandari um Guðmund í Byrginu, grín um refsingu fyrir hvalavini sem væru hengdir upp í bómur og látnir fylgjast með þegar hvalir væru skornir og lesið (ímyndað?) bréf til 3.000 listamanna út af Laugavegi 4-6 sem þeir upphrópuðu yfir í annarri hverri setningu. Sennilega eitthvert lítilræði til viðbótar sem ég man ekki. Og annar er hófstilltari en hinn.

Mynd með dagskrárlið - Simmi og Jói

Ég er augljóslega ekki í markhópnum. Ég amast ekki við auglýsingum heilt yfir en stilli ekki á sérstakan auglýsingaþátt með illa unnu brandaraívafi. Ég held að þeir séu hinir mætustu menn og mér þætti sjálfri sár raun að þurfa að fara út fyrir kl. 9 alla laugardagsmorgna. Kannski kemur það svona út.

Það verður ekki erfitt að stilla á Vikulokin kl. 11.


Ég ræð ekki við mig

Ég er búin að lesa rökstuðninginn og get ekki að því gert að lítast vel á nýjan ferðamálastjóra. Ég skil áfram þá sem vildu fá starfið og höfðu hugmyndir um ferðaþjónustu til framtíðar en ég trúði strax og trúi enn að Ólöfu fylgi mikill kraftur og vilji til góðra verka.

Hins vegar er ég hugsi yfir því hvernig millinafnið er beygt. Hvernig beygir Steingrímur Sævarr millinafnið sitt? Hvernig beygjum við Stein Steinarr?

Ég veigra mér ...


mbl.is Iðnaðarráðherra rökstyður ráðningu Ólafar Ýrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að spara eyrinn

Fyrir mörgum árum var ég búin að mynda mér skoðun á Sundabraut. Ég las þessa almennu umfjöllun í blöðum, hlustaði á þá sem höfðu þekkingu og skoðanir á málinu og komst að niðurstöðu sem er nú fyrnd. Ég er búin að bíða svo lengi eftir þessari samgöngubót að ég man ekki lengur hvað ég vildi. Þó grunar mig að ég hafi helst hallast að ytri leið og þá vegna þess að innri leið hafi bitnað á lífríki fjarðarins.

Nú þykja mér öll rök hníga að göngum. Ég hef ákveðið að taka mark á Gauta vini mínum og vinum hans, enda er ég afskaplega lítið skotin í hvers konar sýnilegum umferðarmannvirkjum. Kostnaður er líka svo déskoti afstæður, það sem kostar í krónum meira í upphafi getur enst von úr viti. Vel ætti að vanda það sem lengi skal standa (er þessi málsháttur til og hvernig er hann þá réttur?). Ég bið um Sundagöng. 


Enginn læknir í neyðarbílum meir

Ja, ég segi bara það að ég lenti á spjalli við sérhæfðan sjúkraflutningamann um daginn sem sagði að þeir væru farnir að sinna verkum læknanna í útköllum hvort eð er. Í fréttunum eru þeir núna kallaðir bráðatæknar.

Það er víðar háski en í útköllunum. Ég hef engar áhyggjur af atvinnumálum læknanna. Og eftir því sem ég kemst næst þarf ekki að hafa stórfelldar áhyggjur af lífi og heilsu verðandi sjúklinga.

Rangt mat?


Með hljóðum

Ég sit í sófanum mínum og hlusta á ræðu frá Alþingi í tölvunni minni, ræðu sem var flutt á sjötta tímanum í dag. Ég er afar hrifin af þessari tækni. Og mig furðar að þingmaðurinn sem ég hlýði nú á segir tuttugu hundruð og sjö fyrir nýliðið ár. Þetta gat maður ekki áður séð - af því að maður þarf að heyra það.

*prrr*


Sögur af fasteignasölum

Ein fasteignasala segir að síminn hringi varla og að allt hafi verið með afar kyrrum kjörum frá því í haust. Önnur segir að það sé búið að vera mjög líflegt frá áramótum.

Geta báðar sagt satt?

Myndir selja. Myndir hrinda frá. Ef eldhús væri yfirgripsljótt að mínu mati myndi ég ekki hafa fyrir því að fara að skoða því að ekki nenni ég að byrja á breytingum af því tagi. Fasteignasalan sem er mjög borubrött segir að það verði að vera mynd úr svefnherberginu því að annars haldi allir að eitthvað sé að því. Hey, í svefnherberginu geta verið fastir skápar sem er gott að vita um, að öðru leyti hef ég engan áhuga á að sjá rúmbúnað ókunnugs fólks.

Ætli það sé rétt hjá þeirri fasteignasölu að fólk heimti myndir úr svefnherbergjum fólks?

Ég gái að stað, stærð og verði, eftir það einstökum vistarverum. Hins vegar hafa ýmsir gaman af að skoða myndir til þess að skoða myndir. Er það fólkið sem heimtar myndir úr svefnherbergjum?

Og hvað skyldu óháðir aðilar segja um fasteignamarkaðinn; upp, niður eða beint áfram? Allir sem blöðin spyrja eru háðir - bankar, fasteignasalar eða kannski fjárfestar. Hversu mikið er að marka Fasteignamat ríkisins sem er þó sannarlega ekki háð? Hvað kostar fermetrinn í 101?


Shu - shushu

Samkvæmt ævisögunni sem ég er að lesa þýðir þetta tré - skógur sem gleður ógurlega viðfangsefni sögunnar. Þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur.

Það lá að, kínverskan sannar þetta.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er mér að skapi

Ég hef áður heyrt Sigmund tala á borgarafundum og mér líkar vel húmorinn hans í bland við vit á efninu. Hann lýsti í Silfrinu áðan í máli og myndum hvað hefur gefist vel í skipulagsmálum borga - og hvað illa. Það sem stendur til við Laugaveginn núna hefur gefist illa í öðrum löndum; borgir sem leggja áherslu á smágerða og samfellda miðborgarmynd laða til sín ferðamenn og í kjölfarið koma atvinnurekendur og fyrirtæki.

Fyrir kannski rúmu ári fór ég í Nike-búðina til að kaupa mér skó og talaði lengi við eigandann/afgreiðslumanninn. Hann sagði að pólitíkusarnir hefðu ekki lagt leið sína til hans, ekki komið á bak við eða spurt sig álits. Ég er ekki viss um að öll húsin sem sumum var hrófað upp af litlum efnum í eina tíð eigi að standa. Ég er hins vegar handviss um að byggðin við Laugaveg eigi að vera lágreist, að í því sé gæfulegri framtíð en háhýsahótelum. Sem leiðsögumaður hef ég vitaskuld líka þá skoðun því að hvernig ætlum við að koma rútunum að svona hóteli með góðu móti? Nógu er það snúið með fjölmörg önnur hótel í miðbænum.

Í sumum húsanna við Laugaveginn er erfitt að komast inn með barnavagn eða í hjólastól og ég hef engan áhuga á að halda þeim hópum frá miðbænum. Það er ástæða til að laga götuna gjörvalla að breyttum tímum í því tilliti en Sigmundur er fyrir löngu búinn að sannfæra mig um ráðleysi þess að byggja háhýsi í miðbænum.

Það er fagmennska, byggð á skoðun á fjöldamörgum örðum borgum og reynslu þeirra af réttri breytni og rangri. Ég var í Stokkhólmi í fyrsta skipti í ágúst á síðasta ári, gamla stan er heillandi. Þótt veður sé víðast betra en hér er veður stundum ágætt - og arkitektúrinn ætti líka að geta stutt við veðursæld þannig að vindstrengir verði síður og sólinni ekki haldið burtu.

Megi ráðamenn hlusta á Sigmund þegar hann talar um skipulag miðborgarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband