Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 1. febrúar 2008
Hvernig eignir seldust? Og hvenær voru þær seldar ef þeim var þinglýst í síðustu viku?
Mér finnst svo mörgum spurningum ósvarað um fasteignamarkaðinn.
Ég hef heyrt því fleygt að byggingaverktakar kaupi hver af öðrum til að halda veltutölunum uppi. Kostar það þá ekki pening ef satt er? Ætli eitthvað sé til í þessu? Ég hef líka heyrt að það taki stundum mánuði að ljúka sölu með þinglýsingu. Eru þá núna margar vikur síðan kólnunin hófst? Ætla bankarnir aftur að fara að lána? Halda þeir tímabundið að sér höndum vegna nýbygginga? Er þeim stætt á að standa ekki við loforð til venjulegs fólks sem hefur ætlað að fjármagna eigin húsbyggingu með bankalánum? Voru það kannski engin loforð, trúði fólk því bara í grandaleysi? Hvernig ætlar t.d. Landsbanki sem græddi 40 milljarða á síðasta ári (eða voru þeir 60?) að láta viðskiptavinina njóta þess?
Langar blaðamenn ekki að vita þetta? Langar blaðamenn ekki að miðla svörum til lesenda?
Í sumum öðrum löndum er núna mikil niðursveifla á fasteignamarkaði. Eru einhver teikn um að það gerist hér? Eða má bara segja frá því eftir á?
Eina fólkið sem blaðamenn spyrja er fasteignasalar og starfsmenn greiningardeilda bankanna. Þrátt fyrir ágæti þess fólks trúi ég bara ekki alveg því sem það segir. Eru hvergi til sjálfstætt starfandi hagsögufræðingar? Trúverðugir.
![]() |
Fasteignakaupsamningum fækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 30. janúar 2008
Skemmtileg myndabók
Ég eignaðist myndabók í kvöld sem ég hef blaðað í síðasta klukkutímann eða svo. Gamall samháskælingur minn og bloggvinur, Sigurgeir Orri, á hluta af heiðri kápunnar. Sá heiður er mikill því að kápan er firnaflott. Ég gratúlera, Orri.
Og bókin - skemmtilesning sem ég hefði viljað setja kommupúkann á. Myndirnar tala og tala og tala ... hins vegar. Myndefnið til 60 ára er auðþekkjanlegt allan tímann.
Ég er að reyna að tala í gátum en held að þær séu of auðleystar samt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 30. janúar 2008
Leiklistardómar(ar)
Nú mætti rota mig með fjöðurstaf. Í þremur blöðum eru í dag dómar um Höllu og Kára sem ég sá á sunnudag. Sýningin olli mér vonbrigðum, einkum fyrir að vera klisjukennd og laus við nýstárleika. Þá meina ég fyrst og fremst handritið. Ég get vel fallist á að leikurinn hafi verið nokkuð góður og einkum var gaman að sjá til Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur sem ég komst að í dag að væri dóttir Páls Baldvins Baldvinssonar.
Tveir af þremur dómurum eru mjög hrifnir af stykkinu og þá held ég að þau hljóti að hafa verið á annarri leiksýningu en ég. Á minni sýningu var Jón Valur Jónsson og við vorum grátlega sammála um skort á gæðum. Ef elsku Hafnarfjarðarleikhúsið sem hefur í áranna rás átt stórkostlega - og nýstárlega - spretti, t.d. ógleymanlegt Himnaríki, Sellófan, Síðasta bæinn í dalnum, ætlar að gera sér vonir um frekari styrki þarf það að taka sig á. Sessunautar mínir voru sammála mér, ætli bara við höfum séð í gegnum klisjurnar um neysluhyggjuna, sjónvarpssölumanninn, fátæka þjófinn og draumsýn útlendinga?
Ég vona að enginn komi með fjöðurstafinn og slái mig í hausinn, ég á svo margt ógert í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 30. janúar 2008
Hive eða jarðstrengur
Heimasíminn var að heiman í alla nótt. Netið var líka í dvala í alla nótt. Skyldi það vera Hive að kenna eða hjó einhver með skóflu heimtaugina mína í sundur kl. 23:03 í gærkvöldi og tjaslaði saman kl. 8:30 í morgun?
Hvað segir Ásinn? Er tímabært að skipta yfir í Vodafone?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Smekkur verður ekki endilega rökstuddur
Í trausti þess að aðeins Ásinn og e.t.v. Tvisturinn lesi þessa færslu ætla ég að opinbera smekk minn fyrir Spaugstofunni. Hann hefur verið mikill, ég missi ógjarnan af þætti. Það breyttist ekki eftir áhorf síðasta þáttar. Mér þótti að sönnu togna á hnífasettabrandaranum, en Spaugstofan gerir út á ystu nöfina. Þá sjaldan Spaugstofan hefur verið með þemu, eins og geim-eitthvað eða Richard Attenborough (homo islandicus), hefur mig tekið að syfja.
Mér finnst alveg magnað hvað '89 af stöðinni eins og Spaugstofan hét í árdaga hefur elst vel, hvað þessir gaurar sem nú eru að sönnu orðnir miðaldra ná að halda dampi, viðhalda ástríðunni og hafa gaman af þessu.
Ég er aðdáandi og þarf svo sem ekki að rökstyðja það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 28. janúar 2008
Nú er illt í efni - auðkennislykillinn gaf upp öndina
Ég hef ekki komið fram við auðkennislykilinn öðruvísi en af stakri kurteisi og elskulegheitum. Fyrir allnokkru datt endinn af þannig að ég brá teygju um stykkið allt til að endinn (hulsan) tapaðist ekki. Áðan skráði ég mig svo inn í heimabanka með fulltingi númers úr lyklinum. Korteri síðar var lykillinn allur.
Og það þori ég að hengja mig í hæsta gálga upp á að fleiri hafa sömu sögu að segja. Hvernig fer ég nú að?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 27. janúar 2008
Ása sá sól og Óla róla og hjóla
Fyrirsögnin er kannski ekki sérlega lýsandi fyrir Kára og Höllu sem ég sá í Hafnarfjarðarleikhúsinu í kvöld. Hún var samt notuð til að túlka kennslu fyrir útlendinga.
Það var smekkfullt á 2. sýningu þessa kolsvarta gamanleiks eins og sýningin er kynnt - og salurinn hló sárasjaldan. Mér finnst svolítið sárt að hugsa til þess vegna þess að ég hef séð verk eftir Hávar sem ég hef verið mjög hrifin af.
Hann meinar vel, deilir á neysluhyggju og útlendingafordóma en því miður með svo svakalegum klisjum að mér var aldrei komið á óvart, engin ný sýn, ekkert nýtt sjónarhorn. Persónurnar voru mjög brokkgengar, ýmist algjörlega heiladauðar eða skyndilega býsna skynsamar.
Búningar voru allir gráir og lífguðu ekki mikið upp á.
Þetta fannst mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 25. janúar 2008
Bernskan rifjast upp
Þegar maður vinnur þægilega innivinnu heldur maður stundum að úti geisi óveður ef vindurinn guðar á gluggann. Svoleiðis fór fyrir mér í morgun enn einu sinni þennan veturinn. Að vísu beit vindurinn í kinnarnar þegar ég skeiðaði milli húsa en veðrið var tæpast óveður.
Svo sá ég að Hellisheiðinni hafði verið lokað.
Snjóköst bernskuáranna rifjast upp. Útivera, skíðaferðir jafnvel, heilbrigð átök við vindinn og stundum pati af þrumum. Óleiðinlegar minningar.
En nú hleypur á snærið hjá minni. Ef veður og færð lofar fer ég nefnilega með útlendinga um Hellisheiðina á morgun. Og það má mikið vera ef ég dríf ekki alla út úr rútunni til að leggjast í snjóinn og búa til engla. Hnoða kannski nokkra snjóbolta í leiðinni. Bý mig bara vel.
![]() |
Hellisheiði ekki opnuð í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 23. janúar 2008
Leiðsögumenn bíða eftir að stóru félögin semji
Það önuga við biðina er að félögin sem eru leiðandi í baráttunni eru ekki nú þegar með lausa samninga - en það erum við. Við fengum ekki einu sinni 2% hækkun um áramótin (sem kæmi til útborgunar um næstu mánaðamót hjá þeim sem starfa við fagið yfir vetrarmánuðina).
Félag leiðsögumanna var með kjarafund í kvöld. Samninganefndin kynnti þær viðræður sem þegar hafa átt sér stað og kallaði eftir viðbrögðum og athugasemdum. Kynningin var góð og viðbrögðin líka. Gagnlegur fundur, leyfi ég mér að segja. Og ekki leiddist mér - enda talaði ég þegar mér sýndist (ekki alveg) og mátti sussa á hina þegar svo bar undir ...
Við leggjum ofuráherslu á laun. Ef þau hækka ekki missum við fólk úr stéttinni. Svo er stefnan tekin á löggildingu. Stefán minnti á að sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundi sínum ályktun um að greiða þessa götu leiðsögumanna (Ályktun um ferðamál):
Tryggja þarf lögverndun starfheitis [svo] leiðsögumanna og annarra sem sótt hafa sérmenntun til að gegna afmörkuðum störfum í ferðaþjónustu.
Og nú er Össur ráðherra ferðamála og einhverjum hafði skilist að hann væri ekki frábitinn sömu hugmynd. Tveir flokkar í ráðandi ríkisstjórn hljóta að geta þokað þessum málum áfram með okkar góðu hjálp.
Gistirými var rætt, dagpeningar, vinnutími (hvenær hefst vinnan í langferðum?), farsímanotkun, sýnileiki leiðsögumanna (má merkja rúturnar með fagmenntuðum leiðsögumönnum?), öryggi (hænuprikin sem okkur er stundum gert að sitja á til hliðar við bílstjórann), munurinn á kynningu afþreyingar og sölumennsku, uppsagnarákvæði, tími á milli stuttra ferða á sama degi (sumar ferðaskrifstofur hafa skirrst við að borga þann tíma), matarinnkaup og matseld, launaseðlar og vinnuskýrslur.
Hmm, ég gleymi einhverju - já, ÖKULEIÐSÖGN var rædd.
Og í lokin reifaði Magnús í samninganefndinni hugmyndir um verndun náttúrunnar og aukið aðhald frá m.a. leiðsögumönnum.
Þrátt fyrir kaffiskort fannst mér ógnargaman. Og stend heils hugar með samninganefndinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 22. janúar 2008
Dekur í 101 Reykjavík
Nú er klukkan á tólfta tímanum og 24 stundir eru komnar í hús. Ég held að það hafi aldrei brugðist að blaðið hafi verið komið þegar ég hef átt leið um útidyrnar á þessum tíma. Mér heyrist á öðrum sem ég þekki að atlætið sé ekki svo gott á þeim heimilum.
Því hallast ég að því að Þinghyltingar séu fordekraðir.
Eins gott að auglýsendur frétti þetta ekki ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)