Færsluflokkur: Dægurmál

Berglind hjá bókara

Ég hitti bókara í dag og varð mikils vísari. 

Virtus er með reiknivél þar sem maður getur prófað ýmislegt.

Á vef BHM er líka reiknivél þar sem maður getur notað alls kyns forsendur.

Sjálfstæður atvinnurekandi (les: verktaki) borgar 6,35% af laununum sínum í tryggingagjald.

Hann þarf að gera ráð fyrir 4% gjaldi í lífeyrissjóð sem launþegi og 8% sem launagreiðandi (sinn eigin).

Og skatturinn er nálægt 40%.

Ef maður er leiðsögumaður þarf maður eiginlega að kaupa sér tryggingu vegna þess að ef maður lendir í slysi er maður ekki tryggður nema maður hafi keypt sér tryggingu fyrir sig sem launþega. Ég hef ekki skoðað hvað hún kostar eða hvað ég þyrfti að draga af framlegðinni til að mæta því.

Þegar allt er tekið saman fær verktakinn u.þ.b. 45% af reikningnum í eigin vasa. Og er launalaus í veikindum og sumarfríi.

Og rúsínan í mínum pylsuenda er að ég gáði hjá Skattinum hvort ég væri komin á virðisaukaskattsskrá. Já, ég er það - en sem ferðaskipuleggjandi. Ferðaskipuleggjandi! Aðal! Ekkert getur Skatturinn gert rétt. Ég svaraði spurningunni um hvað ég gerði sem verktaki og ég sagðist vera prófarkalesari, hljóðbókalesari og leiðsögumaður. Alls ekki ferðaskipuleggjandi. Og ég hef sem leiðsögumaður ekki einu sinni þegið svo mikið sem krónu í laun á árinu sem verktaki, heldur bara verið launþegi þótt það eigi sjálfsagt eftir að breytast. 

vsk mynd


Að leka eða ekki að leka

Ef ég væri í pólitík og hefði haft umdeilda skýrslu undir höndum myndi ég ekki leka henni í fjölmiðla NEMA ÉG VILDI AÐ UMRÆÐAN SNERIST FYRST OG FREMST UM LEKANN. Ef fleiri eru á þessu máli er augljóst hver hefur hag af því að leka skýrslum.


Ekki nema 1,4 milljónir

Atriðið þegar forstjóri Bankasýslunnar opnar í fimmtungsgátt verður ekki hægt að setja betur á svið en hann gerði sjálfur.

Lofað gagnsæi Bankasýslunnar felur greinilega ekki í sér upplýsingagjöf, heldur að horfa í gegnum litlu gáttina.

Enginn hefði getað skáldað þessa atburðarás upp.

En enginn hefur heldur sagt mér fyrr en ég fletti því upp að forstjóri Bankasýslunnar er með 1.400.000 kr. í mánaðarlaun. Eins og rektorar, skólameistarar og sýslumenn. 


Félagið EAB

Um daginn sat ég á spjalli við kunningjakonu í heita pottinum í Nauthólsvík og hún sagðist vera í félaginu EAB sem fundaði aldrei, hefði engin félagsgjöld og gæfi aldrei út ársskýrslur. Skammstöfunin EAB reyndist standa fyrir Eyðum arfi barnanna

Þessi kona er núna rúmlega sextug, ánægð í vinnu, í ástríku hjónabandi og á uppkomin börn. Hún ætlar að hætta að vinna löngu fyrir 67 ára aldurinn og nota þriðja æviskeiðið, sem ég held að megi kalla lífsgjöf þeirra sem ekki falla frá of snemma, til að ferðast og njóta lífsins með eiginmanninum sem líka verður þá hættur að vinna. Reyndar er hann núna leiðsögumaður og getur unnið suma mánuði ef hann vill, sleppt úr ári og komið aftur eða bara hvað sem er.

Mér datt þetta í hug þegar ég las gott viðtal við Tryggva Pálsson um þriðja æviskeiðið. Fólk lifir núna að meðaltali lengur og börn þeirra sem verða 100 ára eru þá sjálf orðin rígfullorðin þegar foreldrarnir falla frá. 

Nú er stemning með því að skapa minningar frekar en að eignast endalausa hluti. Ég er hlynnt því að við lifum lífinu meðan það endist og er einmitt sjálf farin að minnka við mig vinnu.


Orkestret á RÚV

Ég hámhorfði um helgina á Hljómsveitina (Sinfóníuhljómsveitina) sem er sýnd í línulegri dagskrá á þriðjudagskvöldum en 10 þátta serían er líka komin eins og hún leggur sig í spilarann.

Ég er hvorki með Netflix né Viaplay og þaðan af síður Stöð 2 enda hef ég oftast ekki undan að horfa á áhugaverða þætti og myndir á RÚV. Og allamalla, hvað Hljómsveitin var skemmtileg þáttaröð. Sumt er vissulega dálítið ótrúverðugt hjá fullorðnu fólki en ekkert í líkingu við Trúðinn (Klovn, sem ég hlæ eiginlega aldrei að svo það komi líka fram).

Aðalpersónan Jeppe er marglaga. Hann vill gera öllum til hæfis og gerir þess vegna engum til hæfis. Hann er hinn fullkomni eiginmaður og faðir í fyrsta lagi en konan hans ekki hin fullkomna eiginkona. Í vinnu er hann stimamýktin uppmáluð og á erfitt með að taka skýra afstöðu og skera úr um mál. En svo breytist það ...

Aðalpersónan Bo er sturlað skemmtilegur. Hann er uppstökkur og dálítið sér á báti en svakalega góður klarinettuleikari. En hvað finnst hinum í hljómsveitinni um hann? Hvernig er að skara fram úr?

Og allt hitt fólkið var svo skemmtilegar týpur líka. 

Danir og danskt sjónvarpsefni rokkar. Kannski ég fái mér á endanum Viaplay enda heyrði ég líka um helgina vel látið af Badehotellet.


Ég man árið 2004

Árið 2004 var bönkunum hleypt út á íbúðalánamarkaðinn. Bankar eru á markaði og þeirra heilaga skylda er að hámarka arð fyrir eigendur sína. Eigendur hætta, a.m.k. að nafninu til, eigin fé og gera þannig mikla ávöxtunarkröfu. Svona skil ég stöðuna.

Eins og ég man atburðarásina 2004 fengu bankarnir síðan hagstæð lán hjá Íbúðalánasjóði og lántakendur hjá bönkunum fengu hagstæðari lán en Íbúðalánasjóður bauð upp á á þeim tíma þannig að allt í einu sat Íbúðalánasjóður uppi með mikið af atvinnulausu fé sem hann gat sem sagt ekki ávaxtað á eðlilegan hátt.

Árið 2004 giskaði ég á að illa færi.

Árið 2022 kemur það á daginn.

Ég er að horfa á Silfur Egils. Sigríður Hagalín var að enda við að spyrja fulltrúa Framsóknarflokksins hvort Framsóknarflokkurinn hefði tilhneigingu til að lofa upp í ermina á sér.

Hún skilur málið eins og ég.

En ég er með aukaspurningu sem ég er ekki búin að finna svarið við: Ef við, almenningur, töpum upp til hópa - hver græðir?


Ferðafélag Íslands

Ég var búin að kaupa leikhúsmiða fyrir gærkvöldið, annars hefði ég mætt á félagsfund í Ferðafélagi Íslands. Ég hef skýrar skoðanir á ofbeldi en þekki ekki til í stjórn félagsins og get bara gert upp við mig hver mér finnst trúverðug(ur) af umtalinu. Þess vegna hefði verið gott að komast á fundinn en vonandi kemst ég á aðalfundinn í mars. Ég er alltént ekki búin að segja mig úr félaginu.

Þótt ég sé ekki innan búðar í FÍ ætla ég að viðra þá skoðun að þegar fólk vill ekki ræða málin hefur það sennilega eitthvað að fela. Og ef það er rétt sem flogið hefur fyrir, að framkvæmdastjórinn sé með 2 milljónir í mánaðarlaun, finnst mér þurfa að rökstyðja þá upphæð. Mér finnst einhvern veginn eins og hann hafi slegið sér á brjóst fyrir að leiða fimm snemmmorgunsgöngur í maí ókeypis. En kannski misminnir mig. 


Kvennaverkfallsdagurinn

24. október er árviss merkisdagur. Í morgun sat ég fyrri hluta ráðstefnu hjá BHM (hin dýrlega aukaafurð sveigjanlegs vinnutíma, þ.e. að geta mætt) þar sem m.a. var sýnt með útreikningum að ef x velur sér hart starf (lögfræði/verkfræði/viðskiptafræði) mun x líklega hafa 138 milljónum meiri ævitekjur en x sem velur sér mjúkt starf (umönnunarstörf/kennslu). Í útreikningunum voru störf borin saman og í raun hefði mátt sleppa kynjabreytunni. Það er löngu vitað að störf við að gæta peninga (og í sumum tilfellum illa) eru langtum verðmeiri en störf við að gæta fólks, gera við fólk og mennta fólk, þ.m.t. einstaklingana sem enda í hörðu störfunum.

Við eigum enn langt í land. Það er staðreynd.

En á þessum tímamótum var ákveðið að vígja nýjan vef um Rauðsokkahreyfinguna og aðeins vegna harðfengis míns fann ég núna slóðina. Vefurinn er vistaður hjá Kvennasögusafninu en enginn miðill sem ég fletti í leit minni sagði frá slóðinni eða neinum hagnýtum upplýsingum.

Þið þakkið mér bara við tækifæri. 

laughing


Afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá

Ég kom við á Austurvelli áðan til að halda upp á 10 ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá, fékk mér kökusneið og kaffi og stakk þúsundkalli í bauk. Meðan ég staldraði við átti ég gott spjall við þrjá aðra afmælisgesti.

En ég ætla að minnast þessa dags fyrir annað í prívatlífi mínu. Ég sendi nefnilega Skattinum beiðni um virðisaukaskattsnúmer og reikna nú með að þurfa að bíða í minnst þrjár vikur eftir svari og ég óttast líka að svarið verði fyrsta kastið: Þetta vantar ...

Ég vil alls ekki fá þetta númer en mér er nauðugur sá kostur ef ég vil halda áfram að prófarkalesa skýrslur sem ég er fær í og hef óskaplega gaman af. Eins og staðan er hentar öllum betur, þ.m.t. mér, að ég vinni fyrir ýmsa frekar en að vera í föstu 100% starfi hjá einum aðila - eins og ég gerði þó í 19 ár.

20. október 2022 verður sem sé afmælisdagur þessa dramatíska skrefs míns.


Fyrirtækjaskrá - áreiðanleiki?

Ég fletti upp nokkrum fyrirtækjum eða stofnunum í fyrirtækjaskrá eftir að mér var bent á að raunverulegir eigendur þeirra væru eitthvað spúkí (mitt orðalag). Ég gat ekki séð að bankarnir væru með skráða (raunverulega) eigendur (eins og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda), ekki Landsvirkjun, ekki ráðuneytin (ekki skráð) og ekki ríkissjóður Íslands.

Hins vegar fann ég sjálfa mig sem stjórnarformann, hvorki meira né minna, í afskráðu félagi. 

Babel

Þá rifjaðist upp fyrir mér óttalegt havarí fyrir nokkrum árum, líklega tveimur, þegar ég þurfti að svara spurningum frá líklega fyrirtækjaskrá út af einhverju ponsulitlu nemendafélagi sem var stofnað 2005 og starfaði aldrei í raun. En ég var skráð formaður. Og ég fékk þrálát bréf með spurningum um það.

Tilfinning mín er sú að fyrirtækjaskrá og einhverjar aðrar stofnanir eyði miklum tíma í að eltast við hjóm í stað þess að sinna stóru málunum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband