Færsluflokkur: Dægurmál
Laugardagur, 15. október 2022
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda - raunverulegur eigandi?
Ég fékk rukkun í heimabankann á þriðjudaginn vegna lífeyrisgreiðslna sem ég hafði ekki staðið skil á sem verktaki. Sjálfsagt alveg rétt og ég er búin að borga hana - með 15% vöxtum sem SL finnst tilhlýðilegt (og sjálfsagt löglegt) að leggja ofan á miðað við gjalddaga sem SL valdi. Ég vona að það sé þá hin almenna ávöxtun sem ég njóti góðs af þegar ég fer að taka lífeyri.
Áður en ég sættist við þetta, samt með eftirgangsmunum, skoðaði ég SL í fyrirtækjaskrá. Manneskja sem ég tek mark á segir að SL sé ekki illa rekinn sjóður þannig að ég er alveg sæmilega róleg og held ekki að ég hafi kastað innborguninni á eldinn, en mér finnst grunsamlegt að SKRÁÐUR RAUNVERULEGUR EIGANDI (svo skráð) sé einstaklingur.
Ég hafði orð á þessu við starfsmann á þriðjudaginn og mér var sagt að skráði eigandinn væri framkvæmdastjóri. Gott og vel, ætti þá ekki raunverulegur eigandi að vera skráður undir þeirri yfirskrift? Eftir helgi ætla ég að splæsa í annað símtal eða tölvupóst og reyna að fá úr þessu skorið. Erum við sem greiðum í sjóðinn kannski hinir raunverulegu eigendur? Getur sjóðurinn farið á hausinn? Er þetta áhætturekstur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 11. október 2022
Lúxusvandamál hins vinnandi verktaka
Á síðasta ári var ég með á fjórðu milljón í verktakalaun. Af þeim borga ég skatt með glöðu geði en finnst leiðinlegt að reikna það út þannig að það hefur bara gerst með skattframtalinu árið á eftir.
Í dag fékk ég fyrirvaralaust inn í heimabankann minn rukkun upp á 457.987 kr. og útgefandi þess reiknings var Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Ég skil alveg að einhver hugsi að óttalega sé ég nú vitlaus að hafa ekki borgað jafnóðum í lífeyrissjóð en ég hef mér til afbötunar að verktakagreiðslur mínar í fyrra voru óvenjuháar og fyrri ár hafði ég endurskoðanda sem nú er orðinn fullorðinn og hættur störfum og ég hélt að allt væri forskráð og fyrirhafnarlaust.
Ég leyfi mér að ítreka að mér finnst mjög leiðinlegt að hugsa um bókhald en er ansi góð í sumu öðru, t.d. því sem verkkaupar borga mér fyrir að gera.
Ég var svo lánsöm að ná sambandi við skrifstofu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda áður en henni var lokað og þar var eitt og annað útskýrt fyrir mér. Það sem þau gátu ekki sagt mér var hvers vegna Sigurbjörn Sigurbjörnsson, fæddur í ágúst 1965, er skráður eini raunverulegi eigandi - hvers? Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda! Sjá skjáskot:
Af upphæðinni, sem var gjaldfelld og sett á eindaga 10. janúar sl., eru 34.454 kr. dráttarvextir og 16.160 kr. annar kostnaður. Og ég fæ enga sundurliðun fyrr en Póstinum þóknast að bera út til mín umslag með þessum upplýsingum. Það er nefnilega ekki hægt að hnippa í mig fyrr en krafan hefur verið stofnuð og þá er hægt að prenta út sundurliðaðan reikning, setja hann í umslag, fara með á pósthúsið og láta bera út til mín - í þarnæstu götu.
Það verður ekki á kerfið logið.
Og fyrir hvað er ég að borga tæplega hálfa milljón? Rétt til að taka úr lífeyrissjóði þegar ég kemst á lífeyristökualdur ... en þó því aðeins að lífeyrissjóðunum - já, eða Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda - takist að ávaxta peningana mína.
Er annars býsna spræk og á fyrir þessum óvæntu útgjöldum enda bæði vinnusöm og hagsýn.
Dægurmál | Breytt 15.10.2022 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. október 2022
Ferðafélag Íslands og Menntaskólinn við Hamrahlíð
Ég er alin upp af feðraveldinu. Þegar ég var barn þótti ekkert tiltökumál þótt þessi eða hinn klipi eða klappaði á hina og þessa staði á ókunnugu og vandalausu fólki. Ég á engar minningar um það sjálf en kannski hef ég bara grafið þær, ég hef oft sagt að ég muni ekkert frá fyrstu 15 árum ævi minnar.
Fyrir svo sem 12 árum var ég leiðsögumaður í tæpa viku með lítinn hóp. Bílstjórinn var mjög ágengur við mig og ég vil meina að hann hafi skemmt ferðina. Hann skildi ekki nei og þótt mér hafi tekist að forða mér hafði framkoma hans áhrif á alla ferðina. Þegar við vorum komin í bæinn sagði ég frá þessu á ferðaskrifstofunni. Þeim var alveg sama. Þegar ég sagði öðrum frá þessu, sjálfsagt ekki sérlega mörgum, var öxlum almennt yppt. Í kringum 2010 var ekki enn orðið viðurkennt að hegðun gæti verið ósæmileg, óviðeigandi og til þess fallin að skapa ónot.
Ég hef ekki unnið aftur fyrir þessa ferðaskrifstofu en það mætti segja mér að bílstjórinn væri þar enn og það mætti segja mér að hann hefði haldið áfram að strjúka leiðsögukonum um vangana. Ég gaf honum alls enga ástæðu til að hegða sér eins og hann gerði.
Ég er í Ferðafélagi Íslands, kannski mest styrktaraðili sum árin, en ég fékk tölvupóst frá settum forseta fyrir rúmri viku þegar kjörinn forseti sagði sig frá embættinu og úr félaginu. Ég veit ekkert hvað er satt í þessu máli - ekki neitt - ég veit ekki hvort einhver hefur reynt að fá einhvern aftur inn í stjórn eða hvaða fararstjóri hefur farið yfir mörk. Ég veit bara það að núverandi forseti er út frá lífaldri sínum alin upp af feðraveldinu eins og ég og bréfið sem ég fékk lyktaði langar leiðir af því veldi.
Ég er að reyna að ala sjálfa mig upp í anda nýrra tíma og þarf sannarlega að minna mig á að sumt þarf ekki að líðast. Og ég var himinsæl með að ég skyldi hágráta yfir fréttatímanum þegar MH-ingar sögðu: Við erum kynslóðin sem ætlar að breyta þessu.
Mér finnst stundum svolítil slagsíða í baráttunni, yngsta kynslóðin gera miklar kröfur áður en hún sannar sig á nokkurn hátt, en þá klíp ég mig í kinnina og minni mig á að vogin þarf að fara niður hinum megin áður en hún getur rétt sig af.
Og hér er tölvupóstur sem ég skrifaði um hugleiðingar mínar eftir FÍ-málið:
Ég veit heldur ekkert meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum þannig að ég get bara valið hverju/m ég trúi. Mér finnst ofsalega langsótt að Anna Dóra, sem þótti gríðarlegur happafengur fyrir FÍ, sé að skálda þetta og hreinlega ljúga upp á Tómas Guðbjartsson. Þangað til annað kemur í ljós trúi ég frekar Önnu Dóru en Sigrúnu Valbergs - af því að meðvirkni með feðraveldinu er enn svo assgoti landlæg. Ég þarf stundum að hnippa í sjálfa mig, t.d. þegar ég hlusta á yfirheyrslur yfir mönnum sem er búið að sanna kynferðisglæpi á - og ég vorkenni þeim! Ég hugsa: Hann var þunglyndur, hann var vinalaus, hann átti hvergi heima ... eða: Hann hefur svo breitt og fallegt bros.
Ég er að segja ykkur það: Meðvirknin er svo sjúklega ísmeygileg að við erum öll í hættu. Sumt ungt fólk, 20-30 ára kannski, finnst mér stundum öfgakennt en þá þarf ég líka að minna mig á að jafnvægisvogin þarf að hallast hraustlega í hina áttina áður en hún nær jafnvægi.
Já, þetta hugsaði ég eftir að lesa pistil Sigrúnar og viðbragð þitt, [...]. En ég átta mig líka á að ég veit ekki nærri allt um þetta mál þannig að kannski þarf ég einhvern tímann að éta ofan í mig trú mína á Önnu Dóru.
Ég vona innilega að aldamótakynslóðin snúi misréttið niður en við megum ekki láta hana eina um það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. október 2022
Einkaneysla ... eða ekki
Ég skil ekki orð Seðlabankastjóra. Hann hvetur okkur til að eyða ekki peningum. Ég veit að hann er ekki að biðja okkur um að svelta, en þótt við einstaklingarnir gætum látið á móti okkur bíó, leikhús, handsnyrtingu, þríréttað í Perlunni og þrjár vikur á Tenerife er samt fólk sem rekur fyrirtæki og veitir stofnunum forstöðu sem hafa boðið upp á þjónustu sem eftirspurn er eftir. Ef við tækjum mark á Ásgeiri og héldum að okkur höndum færu fyrirtæki á vonarvöl og eigendur og starfsfólk sömuleiðis. Færu þau þá ekki á framfæri ríkisins - og ER ÞAÐ GOTT FYRIR stýrivextina?
Ég hefði skilið ef hann hefði reynt að bremsa af hækkun fasteignaverðs eða stinga á verðbréfabrasksbóluna en ég skil ekki þegar fólk sem er kannski ekki blankt er beðið um að eyða ekki peningum. Nógu margir hafa ekki peninga til að eyða, en svo eru hinir sem hanga ekki á horriminni.
Ha? Skiljið þið þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. september 2022
Strætó strunsar á dyr
Ef ég ætti um nógu langan veg að fara á hverjum degi tæki ég strætó en mín daglega leið, samtals, er 4-12 kílómetrar. Í og úr aðalvinnu eru samtals 4 kílómetrar en ef ég fer líka í hina vinnuna bætast u.þ.b. 8 kílómetrar við. Þetta fer ég á hjólinu mínu í öllum veðrum á hælaskóm og með engan hjálm.
Sönn saga.
Ég hef aldrei lent í slysi og ætla ekki að nota hjálm enda ekki ólöglegt að vera hjálmlaus frá 15 ára aldri. Mig langar reglulega að hrósa fólki fyrir að hjóla hjálmlaust. Það er meiri áhætta að sitja í bíl með engan hjálm en að hjóla á skikkanlegum hraða utan stofnbrauta án hjálms.
Ef ég færi daglega 8-12 kílómetra aðra leið og strætisvagninn færi þá leið sem hentaði mér færi ég á strætó. Ég á bíl og man stundum ekki hvar ég lagði honum.
Ég er auðvitað forréttindapési en við erum fleiri sem búum svo vel að geta valið hjól eða tvo jafnfljóta.
Núna opnar strætó skrifstofudyrnar sínar enn á ný, gólar út að hann reki sig með tapi OG HÆKKAR EININGAVERÐ. Afsakið mig, hefur einhver reynt að reikna út hvað skattgreiðendur borga með öllum vegaframkvæmdunum sem þjóna einkabílunum? Einkabíllinn er með tvö stæði, annað heima og hitt í vinnunni. Ég hjóla af og til um hin ýmsu hverfi höfuðborgarsvæðisins og þið vitið það eins vel og ég að í öllum hverfum þar sem eru stofnanir eða fyrirtæki eru BREIÐUR AF TÓMUM BÍLASTÆÐUM um helgar. Vegna þess að einkabíllinn mætir ekki í vinnuna um helgar.
Ég veit ekki til þess að Akureyrarbær hafi ákveðið að byrja aftur að rukka í strætó. Þar kostar ekkert að taka strætó - og það er gert af viðskiptaástæðum. Bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins tók þá ákvörðun á sínum tíma.
Strætó bs. rukkar þar að auki SAMA EININGAVERÐ fyrir stakan miða og einn miða af 10 miða korti. Ha? Er enginn með viðskiptavit að reikna út miðaverð hjá Strætó? Hver kaupir 10 kókflöskur á 1.000 kr. ef ein kókflaska kostar 100 kr.?
Nei, hinn einbeitti vilji Strætós er að leggja sig niður og koma öllum fyrri ... þjónustuþegum sínum í einkabílinn sem sporar miklu meira en stóri bíllinn ef hann er vel nýttur.
#aðförin
Es. Já, ég er nett brjáluð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 24. september 2022
Útvarpsþing RÚV 2022 í streymi á Vísi
RÚV var með málþing um stöðu sína, stefnu og framtíð á fimmtudagsmorgun. Það hlýtur að hafa verið illa auglýst fyrir almenningi vegna þess að ég, sem áhugasamur almenningur, heyrði aðeins á skotspónum um það í dægurmálaþætti RÚV á miðvikudaginn. Ég hefði kannski ekki komist en ég komst a.m.k. ekki með svona stuttum fyrirvara og hugsaði mér þá gott til glóðarinnar að hlusta á það eftir á.
En þá finn ég það bara hjá hinum frjálsa miðli, samkeppnisaðilanum.
Og úr því að ég er byrjuð að gagnrýna RÚV - því að ég er að gagnrýna þessa frammistöðu - verð ég líka að segja að útvarpsstöðvar RÚV heyrast til muna verr heima hjá mér í Hlíðunum en Bylgjan. Það hlýtur að liggja hjá sendinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. september 2022
Eddan
Já, ég var að horfa á Edduna. Sumt var skemmtilegt en ekkert eins skemmtilegt og Gríman var um daginn (eða kannski í vor).
Ég óska auðvitað vinningshöfum og öllu skapandi fólki til hamingju með uppskeruna og með það að hætta ýmsu til til að kæta okkur hin, en miðað við þakkarávörpin hlýt ég að álykta að sjónvarp Símans komi sterkast inn og út úr þessu geimi, svo oft var Pálma Guðmundssyni þakkað.
En ég verð að nöldra fyrir hönd málfræðihjartans sem í mér býr. Af hverju voru verðlaunin veitt *nefnifall?
Þau voru sum tilnefnd fyrir *Katla en akkúrat í ár var ég þakklát fyrir Dýrið sem er eins í nefnifalli og þolfalli.
Og sérstaklega fagnaði ég því að Vika Gísla Marteins fékk verðlaun - út af örfáum háværum niðurrifsröddum. Ég er sem sagt ekki ein í aðdáendaklúbbnum.
Ég á greinilega eftir að sjá fullt af góðum bíómyndum - ég held að ég hafi enn enga séð af þeim sem voru til umræðu í Háskólabíói áðan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. september 2022
*Hinn alvondi kapítalismi
Nei, hann er ekki alvondur og langt þvi frá. Pabbi minn var kapítalisti og hugsaði í lausnum, rak fyrirtæki vel, hélst vel á mönnum í vinnu og var vel liðinn meðal viðskiptavina. Hann hætti eigin fé, lagði mikla vinnu í uppbyggingu fyrirtækisins en naut líka góðs af á endanum - eins og fleiri.
Svo eru til þeir sem hætta annarra manna fé og ætla bara að hirða ávinninginn. Þeir koma óorði á a) heilbrigða samkeppni, b) heilbrigðan kapítalisma.
Sif Sigmarsdóttir er með góða bollaleggingu um þetta á laugardagsmorgni - án þess þó að hafa þekkt pabba minn!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. september 2022
Ferðaþjónustudagurinn 2022
Fjármálaráðherra lagði til á ferðaþjónustudegi SAF í dag að fyrsti vinnuklukkutími vikunnar, t.d. hjá skólafólki, væri greiddur í dagvinnu og væntanlega er hann þá að hugsa um fyrstu 7,5 klukkutíma dagsins/kvöldsins. Þetta væri þá óháð þeim ólaunaða vinnutíma sem námsmenn verja í nám sitt (þótt hann segði það að sjálfsögðu ekki).
Þetta kallast á við bullið í Sigmari í veitingaþjónustunni sem ég hélt að væri einn um þá hálfvitalegu skoðun að skólafólk væri ekki í vinnu í náminu og væri ekki í vinnu fyrr en það mætti á veitingahúsið kl. 17 eða 18 eða guð má vita hvenær. En ráðherra fékk dúndrandi lófaklapp á þessi ummæli á ferðaþjónustudeginum þannig að veitingageirinn hefur mætt vel á fundinn.
Vídeóviðtölin sem voru birt á fundinum voru mjög fín og upplýsandi innlegg í umræðu um ferðaþjónustu, ekki síst mönnun sem er mjög erfið. Friðrik Pálsson á Hótel Rangá kom alveg sérstaklega skemmtilega á óvart. Hann virtist hliðhollur starfsfólki. Kannski hefur hann alltaf talað þannig en ég misst af því, hann tók a.m.k. skýra afstöðu með launafólki í dag og það var flott hjá honum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. september 2022
Annað útilokar ekki hitt
Lærifaðir minn úr háskólanum er Eiríkur Rögnvaldsson (og Höskuldur Þráinsson en hann hefur sig ekki mikið í frammi í opinberri umræðu). Nú leggur hann til að atvinnurekendum verði gert skylt að bjóða erlendu starfsfólki sínu að læra íslensku á vinnutíma.
Verkalýðsleiðtogi ræðst á hann og kallar elítu.
Ég hef aldrei lapið dauðann úr skel (nema kannski á árshátíð Mímis og þá í gríni) og veit ekki hvernig er að berjast í bökkum. Ég er meðvitaður forréttindapési en held að ég geti samt leyft mér að fullyrða að íslenskunám á vinnutíma þarf ekki að útiloka launakjarabaráttu.
Ef ég væri með útlent fólk í vinnu myndi ég vilja að það tileinkaði sér lágmarksfærni í tungumálinu sem er talað í landinu, mér og mínu fyrirtæki og umræddu starfsfólki til hagsbóta.
Er þetta ekki augljóslega allra hagur?
Ferðamenn held ég að vilji t.d. óskaplega gjarnan heyra einhverja íslensku þegar þeir mæta á hótelin, baðstaðina, lundabúðirnar og fjósin ef þau eru opin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)