Færsluflokkur: Dægurmál

Þórsdóttir þjóðminjavarðar

Hér er tvennt sem ég skil ekki.

Ég skil auðvitað ekki hvernig nokkrum ráðamanni getur dottið í hug að ráða í svona starf án þess að auglýsa það. Hvernig má það vera? Ég segi eins og fleiri hafa sagt, sú sem var ráðin getur verið alls góðs makleg en það sannar ekki að hún hafi verið besti kosturinn. Margir aðrir kostir biðu þess með óþreyju að fá mælingu á möguleikum sínum í starfið.

Svo skil ég alls ekki hvernig almannafréttaveita sem er rekin af skattfé og hefur alla burði til að hafa nægan mannskap til að sinna verkunum getur ekki haft föðurnafn hinnar nýráðnu rétt, þótt vísað sé í fréttinni á frétt þar sem hún er réttilega skrifuð Þórsdóttir og það sé á flestra vitorði að faðir hennar sé Þór Magnússon, áður þjóðminjavörður.

Nú er kominn rúmur sólarhringur síðan fréttin var birt en enginn með aðgang að vef RÚV hefur hnotið um þetta.


Með iðnaðarmenn í vinnu

Ég man að þegar iðnaðarmenn voru að störfum hjá mömmu og pabba (fædd 1927 og 1921) eldaði mamma, bakaði og hellti upp á kaffi í gríð og erg.

Nú er ég stundum með iðnaðarmenn í vinnu, geri ekkert af þessu en er með nagandi samviskubit.

Er fólk almennt að gefa smiðunum sínum að borða?


Lolo með Julie Delpy

Fyrsta franska bíómyndin sem ég man eftir að hafa ekki getað slitið mig frá. Ég er ein af þessum fáu sem enn horfa á línulega dagskrá og ég horfði á myndina á útsendingartíma í gærkvöldi mér til óblandinnar ánægju.

Söguefnið er ekkert frumlegt, stálpaður sonur vill einoka móður sína, en allt annað var frumlegt og á dýptina.


HeHe

Já, ég byrja færsluna (fyrirsögn) á svarinu við spurningunni:

Hvað sagði vísindamaðurinn þegar hann fann tvær helíumfrumeindir?

 

                             HeHe


Vaxtamunur

Ég skil ekki að stjórnvöld grípi ekki í taumana. Ég man ekki óðaverðbólguna á sjöunda áratugnum þegar fólk komst ekki heim með útborguðu launin sín um mánaðamót áður en verðgildið byrjaði að rýrna. Ég hef heyrt að fólk hafi keypt og keypt drasl eins og hvað annað því að ekki þýddi að safna. Peningurinn fuðraði upp.

En núna er staðan þannig að Seðlabankinn gefur út að verðbólgan sé 9,9% og meginvextir 4,75%, sbr. skjáskotið.

vextir

 

 

 

 

Hvar eru þessi meginvextir? Þetta eru ekki meðalvextir, þetta eru hæstu innlánsvextir sem ég hef séð á óbundið sparifé.

Tökum dæmi: Ég á milljón og geymi hana í ár á meginvöxtunum. Ég fæ 47.500 - 20% fjármagnstekjuskatt í vexti þannig að ári síðar verður milljónin 1.038.000 en bíllinn sem ég hefði getað keypt fyrir milljónina kostar núna 1.099.000 kr.

Hvernig á að vera hægt að spara í þessu árferði? Hvernig á að vera hægt að hvetja unga fólkið til að leggja fyrir svo það geti keypt sér bíl eða íbúð?


Grútskýringar

Dýrlegt nýyrðatungumál, íslenskan. Nú býr Helgi Seljan til orðið grútskýringar sem kallast á við hrútskýringar og strútskýringar, öll orðin augljósrar merkingar.


Ég trúi á huldufólk

Ég á tvö hlaupaúr og stundum nota ég bæði í einu, þá þannig að ég kveiki á öðru þegar ég fer hjólandi í Nauthólsvík til að synda og hinu í sundinu og held síðan áfram að trakka hjólið á fyrra úrinu þegar ég er búin í sundinu. 

Ég týni aldrei neinu nema vettlingum stöku sinnum og núna upp á síðkastið hleðslusnúrunum með úrunum. Ég hef snúið öllu við til að leita að þeim, tel mig muna í smáatriðunum hvar snúran hafi síðast verið en allt komið fyrir ekki. En núna er ég búin að gera samkomulag við huldufólkið, það fær að nota snúrurnar þegar það þarf og svo finn ég þær aftur þegar ég þarf að nota þær. Önnur snúran lá til dæmis allt í einu undir rúmi í morgun ...


Aubry Andrews = Edda Falak?

Einhver á Twitter lækaði færslu hjá Aubry Andrews um daginn og ég fór að vakta færslurnar hennar. Hún fær greinilega sendar færslur hvaðanæva að sem sýna glöggt sjálfsmiðun ótrúlega margra einstaklinga, flestra karlkyns en vegna enskunnar er stundum ekki hægt að vera viss.

Dæmi: 35 ára karl sendir 19 ára stelpu sem hann þekkir ekkert tilboð um að hittast eða guð-má-vita hvað, tekur fram að hann sé nice guy og í vinnu. Augljóslega að fara á fjörurnar við hana en þegar hún segir skýrt nei, að hún þekki hann ekki og hafi ekki áhuga ... og t.d. ekki á myndum sem hann vill senda eða fá ... snýst hann í roðinu og úthúðar henni.

Hljómar þetta eitthvað kunnuglega?

Aubry er Knúz, Öfgar og Edda Falak Bandaríkjanna og skíthælar og hálfvitar eru alls staðar til þannig að þessir hópar og einstaklingar hafa því miður nóg að gera við að svara þeim. 

Nú opna ég aldrei Twitter án þess að sjá og lesa a.m.k. þrjá þræði hjá Aubry og þrátt fyrir ljótleikann og ógeðið hjá sumum einstaklingunum (ég veit að ófyrirleitna fólkið er ekki alveg allt af karlkyni) er þetta holl lesning og svo stækkar orðaforðinn hjá mér glettilega mikið, ekki síst hvað varðar slangrið og merkingu skammstafana.


Okrið í Bláa lóninu

Ég er ekki blönk og get alveg séð af 1.290 kr. í vitleysu. Sum vitleysa ríður þó ekki við einteyming og gerir manni gramt í geði.

Ég lét, í miklu hallæri ferðaþjónustunnar, til leiðast að fara sem leiðsögumaður í ágæta ferð með fína Bandaríkjamenn. Ég er leiðsöguskólagengin og með 20 ára reynslu en gafst upp á sprungnum innviðum áður en Covid bankaði á. Hallærið sem ég vísa í er að fólk fæst ekki til starfa sem stafar sjálfsagt af ýmsu, m.a. miklu vinnuálagi og afleitum kjörum.

Hæsti umsamdi taxti leiðsögumanna er sem hér segir:

Dagvinnutími: 2.748

Eftirvinnutími: 4.638

Hátíðartími: 6.141

Tek fram að þetta er launþegataxti en ekki verktakataxti sem gerir þetta sjónarmun skárra af því að ofan á þetta leggst orlof og leiðsögumaður er tryggður af þeim sem ræður hann í vinnu.

Í dag fór ég með gestina í Bláa lónið. Ég var í mínu fyrra lífi hætt að fara ofan í en þetta er þannig hópur að ég og við bæði tvö sem erum með hópinn fórum í lónið. Kostur var að lónið var ekki eins þétt setið og mér fannst á árum áður og það var ekki brjálæðislega heitt. Sólin skein og hópurinn var skemmtilegur. Innifalið í miðanum, sem kostar skv. heimasíðu Bláa lónsins, 12.990 kr. var maski (kísillinn) og drykkur. Ég fékk mér lítið glas af spínatdrykk enda klukkan orðin 14:30 og ég hafði bara borðað tvær brauðsneiðar í morgunmat heima hjá mér og drukkið vatn með og reyndar borðað einn ís með farþegunum kl. 11. Annars búin að vera á hraðri siglingu frá kl. 8:15.

Þegar við fórum upp úr lóninu átti að rukka mig fyrir spínatdrykkinn. Ég og hinn leiðsögumaðurinn útskýrðum fyrir starfsmanninum að við værum með hóp og okkar miði væri þegar greiddur. En, nei, það var ekki tauti komandi við starfsmanninn og frekar en að vera með uppistand sem kostaði korter borgaði ég drykkinn. Hann kostaði 1.290 kr. og var fjórir sopar, ekki einu sinni gúlsopar. Ágætlega bragðgóður drykkur en stóð ekki undir neinu.

Bláa lónið OKUR

Ég er öskureið og tek það út hér en ekki á mínum góðu túristum. Af skömmum mínum skokkaði ég snarlega upp í staffakaffið sem áður var og þar voru fjórar samanherptar brauðsneiðar og botnfylli af tómatsúpu.

Ég er á því að maður eigi að borga fyrir matinn sinn og rukka ferðaskrifstofuna, en þarna var ég í þeirri góðu trú að ég mætti fá mér drykk með farþegunum sem ég fylgdi. Græðgin, sbr. verðlagninguna, held ég að verði ferðaþjónustunni að falli og þegar skortur á fagmennstu leggst ofan á er það næsta öruggt. Ég er 99,9% viss um að ég mun aftur bakka út úr ferðaþjónustunni úr því að innviðauppbyggingin miðar öll að því að hámarka gróða nokkurra eigenda.

Annars bara spræk og sólkysst eftir daginn.


Brúin yfir Tangagötu

Maður minn, hvað Brúin yfir Tangagötu var spennandi saga um mann sem kemur engu í verk. Ég byrjaði á að lesa bara einn kafla í einu og smjatta vel á honum en þegar á leið gat ég ekki hamið mig og las síðustu 160 blaðsíðurnar í næstum einum rykk.

Bókin er engu lík sem ég hef áður lesið og punkturinn yfir i-ið er eftirmálinn sem ég ætla ekki að skemma fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina. 

Mig blóðlangar að sjá kvikmynd gerða eftir þessari ástarsögu en hef ekki hugmynd um hvaða leikara ég myndi velja í hlutverk Halldórs og Gyðu. Útlitslýsingar eru af skornum skammti þannig að við yrðum að vinna með uppburðarleysi Halldórs og félagslyndi Gyðu. Og geta ekki allir leikarar gert sér það upp sem þarf til að vera trúverðug persóna?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband