Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 21. júlí 2022
,,Viltu missa vinnuna?"
Ég hlustaði í gær á Reykjavík síðdegis og inn hringdi maður sem sagðist vera orðinn of fullorðinn til að læra á heimabanka og færi þess vegna í bankaútibú sem fer nú fækkandi. Hann sagði að hann hefði spurt gjaldkerann þegar hún spurði hvort hann væri ekki með heimabanka: Viltu missa vinnuna? og þá hefði gjaldkerinn þagnað.
Ég get alveg skilið að fólki finnist vont að missa útibúin þótt ég finni ekki fyrir því, en að spyrja fólk hvort það vilji ekki halda vinnunni við að gera það sem fólk getur sjálft gert í flestum tilfellum finnst mér jaðra við móðgun.
Fyrir 100 árum báru vatnsberar vatn í hús. Hey var rakað með hrífum. Píanó voru borin á öxlum. Nær í tíma: Talsímaverðir tengdu fólk í gegnum skiptiborð. Starfsfólk á bókasöfnum myndaði bækur lánþeganna. Filmur voru framkallaðar hjá Hans Petersen. Ræður voru skrifaðar handvirkt upp hjá Alþingi.
Listinn gæti verið langtum lengri. Flestir taka framförum fagnandi en sumir staldra svo við sjálfsafgreiðslukassana í stórmörkuðum og gjaldkera í bönkum.
Við höldum ekki útibúum opnum til að starfsfólkið hafi áfram vinnu. Við höfum áfram útibú ef ekki er hægt að þjónusta fólk öðruvísi og betur. Það má vel vera að lokanirnar séu of hraðar en þá á þeim forsendum, ekki þeim að fólk eigi vinnuna sína.
Ég er sjálf launþegi og hef séð breytingar í mínu fagi. Ég hef að sönnu ekki misst vinnu nokkurn tímann en myndi glöð færa mig um set ef til þess kæmi. Maður má ekki festast svo í einu starfi að maður geti aldrei unnið neitt annað og - guð minn góður - ef vél getur gert það sem ég gerði fagna ég bara þeirri svakalegu byltingu. Ég vil fást við meira krefjandi störf en þau sem hægt er að mata vél á.
Ég vil svo að endingu segja að ég er líka leiðsögumaður og ef hægt verður að útbúa vél sem sýnir farþegum áhuga, hlustar ekki síður en talar, leysir vandamál - er það bara fínt, en ég sé ekki að farþegar myndu gera sig ánægða með þá þjónustu að svo komnu máli. Ekki heldur með vélræna mennska leiðsögumenn sem festast í frösum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. júlí 2022
Gaslýsing (1940)
Ég var að horfa á breska bíómynd frá 1940 sem samtíðarmaðurinn Alfred Hitchcock væri fullsæmdur af. Eiginmaður smánar eiginkonu sína í öðru orðinu og segir í hinu orðinu að hún sé fallegasta konan í salnum. Hann felur fyrir henni hluti og telur henni trú um að hún hafi týnt þeim. Hann breytir lýsingu á efri hæð þannig að hún dempast á neðri hæð og þykist ekkert skilja þegar hún talar um breytta GASLÝSINGU.
Hann kúgar hana og beitir andlegu ofbeldi. Á þessum tíma var upplýsingaflæðið ekki eins mikið og núna og hún er dálítið bjargarlaus.
Svo gerist eitthvað ... og ég ætla ekki að skemma fyrir áhugasömum um myndina sem ég hlekkjaði á í efstu línu.
Einu gallarnir tveir voru að ég skildi eiginmanninn ekki nógu vel og að myndin var svarthvít sem er ekki galli í alvörunni, ég er bara hrifnari af lífinu í lit.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. júlí 2022
Breska serían Unforgotten III (Grafin leyndarmál)
Ég horfði í beit á nýju seríuna af Unforgotten sem er í spilara RÚV. Þættirnir eru sex og hver sum sig rúm þrjú korter. Ég byrjaði kl. 20 og kláraði eftir miðnætti. Átti frí daginn eftir og veðurhorfur bara lala. Vá, hvað ég hefði ekki viljað hafa það öðruvísi.
Hef annars yfirleitt bara úthald í einn þátt í einu af hvaða tagi sem er. Þessir leikarar og nákvæmlega þetta efni var bara svo grípandi.
Mæli augljóslega með. Öll serían er bara í spilaranum í tvo mánuði til viðbótar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 10. júlí 2022
Hugmynd í kjarasamninga: Réttur til sanngjarnra launa
Ég dregst stundum aftur úr í blaðalestri og núna var ég loksins að lesa grein Sigmars Vilhjálmssonar í Mogganum þótt ég hafi svo fundið hana á visir.is þegar ég gúglaði.
Hugmynd í kjarasamninga: Fyrstu átta tímar á vakt á dagvinnu
Ég heyrði auðvitað um þetta fyrr í mánuðinum og nú hefur rykið aðeins sest. Þegar ég les loks pistilinn blandast mér ekki hugur um að fyrir þessum atvinnurekanda vakir aðeins eitt og það er að lækka launakostnaðinn hjá sjálfum sér. Það er alveg skiljanlegt að menn vilji draga úr útgjöldum en ekki með því að pakka því inn í einhvern meintan glaðning handa fjölskyldufólki.
Ég var í ferðaþjónustunni á mínum yngri árum. Þetta var reynt þar. Það var ekki löglegt og fyrir því reyndist enginn hljómgrunnur.
Setjum sem svo að Simmi fengi sitt fram og starfsmaðurinn sem mætti til hans kl. 16:15 kæmi beint úr annarri vinnu, ætlaði þá Simmi að borga honum aukaálag fyrir að vinna svona mikið og vera svona lengi að heiman? Ég heyrði engan spyrja hann um það.
Ég er núna að lesa nýja sænska skáldsögu þar sem mansal kemur við sögu, ekki kynlífsþrælkun heldur innfluttar konur sem eru látnar þrífa hús fyrir lítinn pening, ekkert atvinnuöryggi og almennt ekkert öryggi. Þær eru gerðar út með ryksugu og moppu. Ég er svo sannarlega ekki að gera Simma upp slíkar pælingar en þetta er ótrúlegt leiðarminni í norrænum krimmum og sennilega af því að einhver fótur er fyrir þessu vandamáli.
Áar okkar gengu í gegnum hreinasta helvíti við að koma á réttlátara atvinnuumhverfi sem við njótum góðs af í dag. Eftir 50 ár verða afkomendur okkar kannski bit á því hvað við létum bjóða okkur en við sem erum nú á dögum getum a.m.k. ekki liðið afturhvarf til þess tíma þegar atvinnurekendur mökuðu krókinn en launþegar löptu dauðann úr skel.
Að því sögðu vil ég segja - sem launþegi - að ég hef oft samúð með atvinnurekendum af því að þetta er línudans. Hvenær er starfsmannafjöldinn réttur? Hvað eru sanngjörn laun? Hvað getur maður beðið starfsmanninn um mikið og hvenær er maður farinn að ganga á rétt hans?
Við viljum öll sveigjanleika og mér finnst hann skilyrðislaust þurfa að virka í báðar áttir. Við eigum samtöl og símtöl fyrir okkur sjálf á vinnutíma og mér finnst engin frágangssök þótt ég svari í símann stöku sinnum eða lesi nokkra tölvupósta þegar ég er komin heim.
En sú hugmynd að fyrstu átta tímar hvers dags á vinnustaðnum séu á dagvinnutaxta er svo frámunalega langt utan við alla skynsemi að sem betur fer var hún skotin í kaf á fyrstu viku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. júlí 2022
En að banna (næstum) byssur?
Enn berast fréttir af byssuglöðum árásarmanni. Í Bandaríkjum Trumps og fleiri forpokaðra hafa konur ekki sjálfdæmi yfir eigin legi og gildir þá einu í sumum fylkjum þótt þær hafi orðið þungaðar eftir feður sína, afa eða bræður. Þegar börnin eru fædd virðist hinum sömu plebbum alveg sama þótt næsti maður - barnungur þess vegna - kaupi sér byssu og pundi á börnin.
Konum hefur verið drekkt fyrir að þeim var nauðgað. Þið lásuð rétt. Sumir nauðgararnir voru líka teknir af lífi en konunum var gefið lauslæti að sök. Þeim.var.nauðgað.
Róttæk tillaga: Fækkum byssum. Breytum hinu byssuglaða umhverfi. Lágmörkum ofbeldi. Auðvitað tekur það tíma og auðvitað reynir það á, en það er alveg gerlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. júlí 2022
Hvað er drottinn Auðar Haralds að drolla?
Ég lít á mig sem helsta aðdáanda ritverka Auðar Haralds. Ég skrifaði BA-ritgerð um Hvunndagshetjuna 1994. Þá var bókin að sönnu orðin 15 ára og sjálfsagt búin að vera umtöluð hluta þess tíma en ég man ekkert af hverju ég var alveg staðráðin í að skrifa bókmenntafræðiritgerðina mína um hana. Að vísu langaði mig að skrifa um húmor og hann er í ómældu magni en Hvunndagshetjan er líka um sára lífsreynslu.
Nú er komin út ný bók eða kannski 25 ára, miðað við óáreiðanlegar heimildir höfundar. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og skemmti mér konunglega yfir fyrsta kaflanum. Svo súrnaði aðeins í mér þegar miðaldra, firnafyndni bókhaldarinn lognaðist út af í veikindum og rumskaði næst í Miðlöndunum á miðöldum. En svo fjörgaðist ég aftur þegar á leið og húmor höfundarins reyndist óbjagaður með öllu.
Lesendur hafa lagt pestina í bókinni að jöfnu við covid og kannski er eitthvað til í því. Auður hefur lengst af verið á undan samtíma sínum. Mér finnst bókin hins vegar tímalaust góðgæti og skellti oft og mörgum sinnum upp úr.
Átti sum sé dýrlegar kvöldstundir með nýjustu afurð prinsessunnar af Bergþórugötu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. júlí 2022
Freistnivandi feðraveldisins
Ég las grein í Fréttablaðinu áðan. Sá sem skrifar hana notar m.a. þessi orð:
sönnunarbyrði réttarríkisins
dómstóli götunnar
þungi fallaxarinnar
meintum gerendum
aftakan
miskunnarlausa dómstóls
Múgurinn úrskurðar
ofsóknum
tilraun til stærstu fjárkúgunar Íslandssögunnar
hannað atburðarásina
fébætur
Vald alþýðudómstólsins
kúgunarfé
meint, en ósönnuð, kynferðisbrot
reynsluheimi þolendanna
mögulega hinir raunverulegu þolendur
andrúmsloft rétttrúnaðarins
hinir raunverulegu þolendur upploginna saka
skyndiaftökur almannarómsins
Slaufunarmenning samfélagsmiðlanna
Listinn minn varð lengri en ég ætlaði í fyrstu. Lögmaðurinn sem skrifar greinina ber blak af mönnum sem stigu til hliðar þegar meint framkoma þeirra komst í hámæli. Af hverju gerðu þeir það? Af því að þeir höfðu ekki gert það sem á þá var borið?
Meðan ég er að jafna mig á lestrinum bendi ég áhugasömum á tíst á Twitter:
Er það rètt skilið hjá mér að ef gerendur bjôða þolendum peninga til að leysa málin utan við réttarkerfið þá séu það ekki mútur heldur eðlilegir samningar en ef dæmið snýst við þá sé það fjárkúgun?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 28. júní 2022
Rusl í Reykjavík
Í dag er þriðjudagur og ég hélt að búið væri að tæma tunnurnar síðan í síðustu viku. Ég veit ekkert af hverju ég hélt það, ég man alls ekki hvaða daga ruslið er tekið. En ég veit að gráa tunnan - sem er núna í eintölu en var í fleirtölu þangað til í fyrravetur - fyllist aldrei á meðan græna tunnan og bláa tunnan fyllast oft. Ég þarf oft að fresta því að henda flokkuðum pappír og flokkuðu plasti af því að tunnurnar eru fullar. Hér var ég búin að þjappa vel.
Og ég bíð enn mjög spennt eftir lífrænu tunnunni sem í mínum augum yrði meiri bylting en mislæg gatnamót á Bústaðaveginum.
Hvar er lífræna tunnan mín?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. júní 2022
Fálkaorður
Að minnsta kosti einn fálkaorðuhafi var vel að henni kominn í fyrradag, Guðni á Þverlæk. Ég er víst Rangæingur í grunninn eins og Guðni og við Trausti bróðir rákumst á hann þegar við þvældumst um Holtin fyrir tveimur árum. Trausti, sem er talsvert eldri en ég og var mikið í sveit þarna á sínum yngri árum, sagði mér þá undan og ofan af þessu áralanga háttalagi Guðna, að safna dósum - forða þeim frá verri örlögum í leiðinni - og láta hverja einustu krónu renna til ungmennafélagsins. Ég get ekki annað en tekið hatt minn ofan fyrir honum og fagnað því að orðunefnd hafi séð skynsemina í að heiðra hann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. júní 2022
Útgáfa á vef - stafræn framtíð
Ég hnaut um Lögmannablaðið þegar ég var að fletta Facebook áðan. Þar er fjallað um ýmislegt sem ég hef áhuga á, m.a. ráðstefnu sem ég sat, leshring sem ég var þátttakandi í og málþing á Patreksfirði sem ég fór næstum á.
Ég er búin að lesa helminginn og það eru umtalsverðar líkur á að ég lesi það í hinum helmingnum sem höfðar til mín --- af því að ég er með það í tölvunni en ekki sem tímarit á borðinu.
Internetið er til muna yngra en ég þannig að nú ætla ég að taka hatt minn ofan fyrir fjórðu iðnbyltingunni sem hefur sannarlega haldið vel á spöðunum síðustu áratugina. Stundum finnst mér nefnilega sjálfvirknivæðingin of hæg en þá er gott að minna sig á að nýjungar þarf að prófa áður en þær eru settar í umferð. Við getum t.d. hugsað okkur svokallaða réttarvörslugátt sem er á mikilli siglingu en má ekki fara fram úr sér vegna þess að þá gæti orðið uppi réttaróvissa.
Í hnotskurn: Frábær sigling í rafrænni samtíð og framtíð. Frábær samtími!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)