Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 13. júní 2022
Hjólahvísl
Það er svakalegt að hjólum sé stolið í massavís. Og það er þannig, nú ríkir faraldur. Annars hefði Bjartmar hjólahvíslari ekki orðið svona opinber persóna. Lögreglunni virðist vera alveg sama, er kannski of fáliðuð, of peningasvelt, of áhugalaus eða allt þrennt.
En í dag endurheimti ég hjól sem var stolið frá mér fyrir tæpum mánuði. Þetta var ekki burðugt hjól. Það kostaði 70.000 fyrir þremur árum og hefur verið notað drjúgt í þrjú ár. En það dugir og þess vegna var gott að fá það til baka.
Sá sem fékk það upp í hendurnar auglýsti það á Facebook-síðu, vinkona mín kom auga á það og sendi mér ábendingu. Sá sem var með það var í virkri neyslu þangað til fyrir þremur árum en er nú búinn að snúa við blaðinu, innilega glaður og jákvæður fjölskyldufaðir.
Héðan í frá ætla ég að hafa hjólið oftar inni og ég ætla að kaupa mér betri lás. Auðvitað borgaði ég hjólahvíslaranum fyrir viðvikið en við viljum ekki að hann hafi of mikið að gera við að sortera stolin hjól, auglýsa og geyma heima hjá sér.
En ég fékk ögn meiri trú á hið góða í fólki í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. júní 2022
Stjórn Festar ...
Ég er ogguponsusvekkt yfir RÚV sem er útvarp og sjónvarp í almannaeigu. Í kvöldfréttum særðu fréttamenn ítrekað í mér eyrun með því að beygja Festi Festis í eignarfalli. Ég var úti á gangi og hugsaði að ég hefði aldeilis skriplað á skötunni ef þetta væri eftir málstaðli. Svo leit ég inn á Vísi.is sem er miðill á markaði og þar er Festi Festar í eignarfalli, eins og beygingarlýsing íslensks nútímamáls útleggur sem rétt.
Af hverju ætti Festi að vera hvorugkyns? Af hverju gá ekki fréttamenn RÚV sem puðra þessu orði út ítrekað áður en þau byrja að puðra? Hvað með málfarsráðgjöf?
Ég er ekki viðkvæm fyrir málbreytingum og þoli ágætlega einstaka villur. Ég geri bara meiri kröfur til ríkisútvarpsins sem er á fjárlögum og kostar skattgreiðendur mikla peninga. Piff.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. júní 2022
Strætó eða fluglest
Ég tók einu sinni strætó úr Hlíðunum og til Keflavíkur á útleið og heim aftur nokkrum dögum seinna. Það tók lungann úr deginum í báðum tilfellum og var þó einungis gerlegt af því að flugtíminn var á björtum vetrardegi.
Ég skil ekki, hef ekki skilið og mun ekki skilja þennan fortakslausa skort á áhuga á að koma til móts við markaðinn. Við viljum ekki öll láta skutla okkur á einkabíl og við viljum heldur ekki bíða óratíma eftir að 60 sæta rúta fyllist. Og það er óboðlegt að strætó feli sig í fjarlægri götu og rúnti tómur um götur Njarðvíkur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. júní 2022
Fasteignamatið
Mér blöskrar ekki þótt ég þurfi að borga 20% hærri fasteignagjöld. Mér svíður hins vegar ábyrgðartryggingin á bílnum sem hefur örugglega hækkað mun meira en þetta með einhverjum hliðargjöldum sem óinnvígðir átta sig ekki á. Og, takið eftir, þrátt fyrir fjölda tryggingafyrirtækja er ENGIN VIRK SAMKEPPNI milli þeirra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. maí 2022
Skatturinn er í stríði
Ég
vil
borga
skatta.
Skatturinn dregur núna um mánaðamótin 75% af annars útborguðum launum mínum af því að ég var með verktakatekjur í fyrra. Ég hakaði við að ég vildi borga allan verktakaskattinn 1. júní en reiknaði með að fá rukkun, jafnvel sundurliðaða, í heimabankann.
Skatturinn hefur áður gert þetta og það þótt ég hafi verið skuldlaus og hann þurft að hundskast til að endurgreiða mér. Þetta er mikil orkusuga og tímasóun, bæði hjá mér og nokkrum starfsmönnum Skattsins.
Ég ítreka að
ég
vil
borga
skatta
til samneyslunnar
en ég bið um gagnsæi og upplýsingar. Það er Skattinum ofviða.
Mikið vildi ég óska þess að annað fólk stigi fram og segði sína sögu. Það er útilokað að ég sé ein um þetta.
Ef ég er með yfir 450.000 kr. í verktakatekjur yfir árið á ég að skila skatti í hverjum mánuði. En verktakatekjurnar eru mjög tilfallandi af því að ég vinn venjulega dagvinnu og mér finnst ekki óeðlilegt að fá að gera upp einu sinni á ári.
En Skatturinn gerir mér lífið eins erfitt og honum er unnt.
Fyrirvaralaust fæ ég 196.000 kr. útborgaðar 1. júní. Inni í heildarlaunum fyrir maí eru 25 yfirvinnutímar (auðvitað unnir) og 77 tímar af bakvakt.
Ég get líklega þakkað fyrir að þurfa ekki að kljást við Útlendingastofnun eða Tryggingastofnun. Ég er fullfrísk, vel læs á texta og ágætlega læs á tölur en stend oftast á gati yfir meintum leiðbeiningum Skattsins.
Mig langar alveg að arga en ég hef ekkert upp úr því. Ég þarf bara að móast við og reyna að koma vitinu fyrir Skattinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. maí 2022
Stóryrði - trúgirni
Ég er smáyrt og ein af þeim sem sest ekki við lyklaborðið fyrr en ég er búin að heyra mörg sjónarmið í umdeildum málum.
Eitt umdeilt mál er núna hvort, hvernig og hvenær eigi að endursenda allt að 300 flóttamenn og láta sig einu varða þótt það fólk endi á grísku götunni.
Prestur í Laugarnesi vandaði ekki ríkisstjórninni kveðjurnar af þessu tilefni, biskup veitti prestinum tiltal og annar prestur setti ofan í við biskup.
Þetta vita allir sem fylgjast með. En hvar er samanburðurinn á orðræðu framhaldsskólakennarans í Garðabæ sem tekur iðulega upp hanskann fyrir þá sem geta vel varið sig sjálfir?
Eða samanburðurinn við grunnskólakennarann á Akureyri sem gerði lítið úr samkynhneigð og samkynhneigðum? Honum var sagt upp, hann kærði uppsögnina og dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hefði verið ólögleg.
Tjáningarfrelsið er mjög ríkt og mér finnst að það eigi að vera það. Þeir sem fara samt OF frjálslega með það gjalda fyrir með trúverðugleika sínum þannig að ég segi eins og margir gáfaðir hafa sagt á undan mér: Öndum í kviðinn og flýtum okkur hægt þegar við ætlum að vera með í umræðu um eldfim efni.
Svo er annað mál að sumir sjálfskipaðir álitsgjafar eru ekkert endilega að flýta sér í hita leiksins heldur hafa einfaldlega þá bjargföstu skoðun að samkynhneigð sé óeðli eða að nauðgun sé ekki endilega nauðgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. maí 2022
Vitjanir á RÚV
Ég á ekki til orð. Nú eru búnir sex af átta þáttum í sjónvarpinu og Með Vitjanir á heilanum kominn í spilarann. Í kvöld varð hjartslátturinn hjá mér enn örari en yfir hinum þáttunum. Enn ein ógeðslega sannfærandi sagan um siðleysingjann sem slær ryki í augun á sínum nánustu.
Er ég skrímsli? spyr pabbinn.
Einmitt.
Er ég skrímsli?
Einmitt. Nei, allir hafa margar hliðar og ofbeldismenn koma stundum vel fyrir. Og þeir komast lengur upp með ofbeldið þegar aðrir í fjölskyldunni hamast við að bera af þeim blak, verja þá, ljúga fyrir þá, trúa þeim, trúa þeim til góðra verka, trúa að þeir breytist, trúa að þeir hafi ekki ætlað að gera það sem þeir gerðu.
Það geta allir misst stjórn á skapi sínu.
Einmitt. Og þá er gott að hafa belti innan seilingar til að þurfa ekki að leita lengi þegar maður missir óvart og óvænt stjórn á skapi sínu. Einmitt.
Ragnar, þú getur ekki sett bróður þinn í fangelsi.
Mamma! Mamman! Mamman dreifir gölluðum genum, sjálfhverfu, alkóhólisma og ofbeldishneigð, móðurlega milli barnanna sinna.
Af þessari upptalningu mætti næstum skilja að öllum hápunktum væri hrúgað í eina þáttaröð og jafnvel einn þátt en það er ekki þannig. Nú eru bara þræðirnir að rakna í sundur. Geðveiki er ekki glæpur en ofbeldi er það.
Get ekki beðið eftir síðustu tveimur þáttunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. maí 2022
Konan hans Sverris - vá
Ég er frekar skælin þegar ég horfi á eða les eitthvað hjartaskerandi. En nú er ég búin að lesa skáldsögu(?) um heimilisofbeldi sem er skrifuð af svo mikilli yfirvegun að augun í mér stóðu á stilkum og ég gaf mér ekki ráðrúm til að beygja af. Ég er ekki að segja að það sé kostur að gráta ekki með sársaukanum en ég kann sannarlega að meta þennan frásagnarstíl. Hann er náttúrlega líka í stíl við aðferðafræðina sem Hildur tileinkar sér til að reyna að hafa í fullu tré við siðleysingjann sem hún býr með í 17 ár og losnar svo alls ekki við þegar hún skilur loks við hann.
Ég vil ekki falla í gryfju mælginnar heldur vera hófstillt í anda bókarinnar. Ég hef sjálf ekki átt í svona tilfinningaríku ofbeldissambandi en er ansi hrædd um að það sé illa falið í fortíð fjölskyldu minnar og kannski í vinahópnum. Ég vildi að ég vissi hvernig ég ætti að verða að liði ef ég vissi af svona meðvirkni í kringum mig en spilling og meðvirkni þrífst í skugganum af þögn og þegjandahætti. Og það er helvítis vítahringur sem er erfitt að rjúfa vegna þess að þögnin og vitundarleysið er þægilegra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. maí 2022
Af hverju ekki rafrænar kosningar?
Ég held að ég muni það rétt að atkvæðagreiðslan um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, svo snemma sem 2001, hafi verið rafræn. Af hverju hefur slík kosning ekki verið endurtekin á 20 árum? Það er ekki bráðnauðsynlegt að fólk kjósi heima hjá sér, mín vegna má alveg gera kröfu um mætingu (til að tryggja leynilegar kosningar, skilst mér), en á tímum gervigreindar ættum við að vera komin lengra.
Og þá hefði mátt loka kl. 18 á laugardaginn, byrja að telja kl. 18:01 og segja okkur fyrstu tölur kl. 22.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. maí 2022
Kosningar 2022
Afsakið athyglissýkina í mér. Mig langar bara að minna fólk á að kjósa um allt land. Ég kaus eins og mig langaði mest, ekki eitthvað strategískt, og nú bíð ég spennt eftir að klukkan verði Óli og Bogi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)