Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 8. maí 2022
Léttlest til Keflavíkur og innanlandsflugið með, takk
Ég var að lesa merkilegan þráð hjá Hallgrími Helgasyni. Hann er ólæstur þannig að allir Facebook-notendur geta lesið hann.
Ég hef ekki farið til útlanda í tvö ár og þrjá mánuði en fór þá á bíl og skildi eftir á langtímastæði. Þar áður tók ég einmitt strætó af því að ég ferðaðist á dagvinnutíma. Ferðalagið tók drjúgan tíma með löngum rúnti um Reykjanesbæ og svo var endastöðin einhvers staðar í góðri fjarlægð frá flugstöðinni.
Seinna var mér sagt (án ábyrgðar) að það væri vegna þess að Strætó mætti ekki keppa við Kynnisferðir. Ef maður ætlar að nota almenningssamgöngur úr höfuðborginni til alþjóðaflugvallar skal maður skipta við eina fyrirtækið sem má auglýsa ferðir sínar (ég veit samt af Airport Direct). Önnur leiðin kostar 3.500 krónur.
Í kringum mig verð ég vör við að fólk skutlar og lætur skutla sér og þá ekki síður sækja sig og ég hef sannarlega verið í þeim sporum sjálf. Áætlun áætlunarrútuferðanna er mjög óábyggileg og kostar sum sé drjúgan pening.
Ég geri ráð fyrir að lagning léttlestar og rekstur hennar kosti slatta en það er ekki bara hægt að meta kostnað í þeim krónum eða evrum sem kostar að koma verkefninu á koppinn. Ýmsar aðrar breytur skipta máli, eins og bílastæðaflæmið, augljóslega tími fólks og svo vegurinn sjálfur sem þyrfti þá minna viðhald. Með því fylgir þá hugsunin um minna svifryk, færri slys og almennt minni mengun.
Og innanlandsflugið - á fáu hef ég haft eins skýra og óbreytta skoðun í áratugi. Innanlandsflugvöllur á ekkert erindi í Vatnsmýrinni. Vatnsmýrin má verða byggingarland eða friðað land mín vegna (vegna vistkerfis þá) og flugvélar ættu ekki að fljúga yfir miðbæinn í gríð og erg.
Ég er farin að halda að einkahagsmunir Kynnisferða (og hverjir eiga fyrirtækið?) ráði ÖLLU í þessu máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. maí 2022
Merking eftir Fríðu Ísberg
Ég er ekki nema hálfnuð með bókina. Mér finnst hún mögnuð og hún vekur með mér hroll. Viljum við brennimerkja siðlausa fólkið og gera svo kannski mistök í góðri trú og gefa skotleyfi á vandaða manneskju? Eða jafnvel óvandaða?
Bókin er alveg einstök en vekur hugrenningatengsl við aðrar bækur. Tvær helst, annars vegar LoveStar eftir Andra Snæ (sem á líka tilvitnun á kápunni) og svo bók eftir suður-afríska höfundinn Deon Mayer. Ég held að það sé bókin Sjö dagar en sé það ekki af lýsingunni til að vera viss. Söguþráðurinn sem ég man eftir er af morðingja sem drepur vonda fólkið í röðum, hugsar það sem landhreinsun og fær mikið klapp fyrir. Hann er auðvitað nafnlaus og lögreglan leitar hans.
En hver er þess umkominn að dæma af fréttaflutningi og sögusögnum hver er sekur og/eða vondur?
Viljum við ekki að fólk fái að verja sig? Viljum við dauðhreinsa samfélagið þangað til aðeins hinir siðprúðu og samviskusömu verði eftir? Er það yfirleitt hægt? Og minnir það ekki líka á það þegar þungun er rofin ef litningar eru óhagstæðir? Eru fatlaðir verri einstaklingar/þjóðfélagsþegnar?
Er það siðlegt að aflífa fólk sem ekki er siðferðinu þóknanlegt? Og ég er ekki að tala um meinta aflífun á samfélagsmiðlum.
Merking eftir Fríðu setur alls konar hugsanir í gang en ég get ekki lesið lengi í einu. Það eru meðmæli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. maí 2022
Lokum kjörstöðum kl. 18
Ég heyrði í útvarpinu í morgun að það gengi illa að manna kjörstaðina vegna sveitarstjórnarkosninganna 14. maí. Nýjar reglur banna mægðir og skyldleika, kunningsskap og vensl og kennsl og ég veit ekki hvað við frambjóðendur þannig að margir reynsluboltar eru útilokaðir frá starfinu. Svo hafa víst sumir gefið kost á sér með fyrirvara um að íslenska lagið komist á lokakvöldið í Eurovision.
Þá fæddist frábær hugmynd í kollinum á mér: Látum duga að hafa opið kl. 9-18. Fólk getur kosið utan kjörfundar ef það kemst ekki á þessu bili sem ég legg til. Næst, þ.e. í alþingiskosningum 2025 (eða fyrr), mun ég síðan leggja til rafræna kosningu.
Ég vil gjarnan telja atkvæðin sem verða greidd framboðunum (hef aldrei gert það en vann nokkrum sinnum í kjördeild) og þá byrja í björtu.
Ég fékk þessa snilldarhugmynd í morgun en hafði ekki tíma til að skrifa hana niður fyrr en núna. Ég er viss um að hún marineraðist vel hjá mér.
Jæja, ætlar borgin að bjóða mér vinnu við að telja?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. apríl 2022
Smættun
Ég heyrði hvorki né las fréttir til klukkan rúmlega fjögur í dag. Þá heyrði ég viðtal við Ingu Sæland, formann Tomma.
Mér kemur heldur ekki við hver sængar hjá hverjum en mér blöskrar langar leiðir að nokkur maður skuli vísa til meintrar hjásvæfu með þyngdartölu. Þetta er hlutgerving og ég fæ hroll.
Svo las ég nokkrar fréttir á Vísi þar sem flestir virtust líta svo á að þessi frétt hefði komist í umferð til að afvegaleiða umræðuna frá Íslandsbankasölunni.
Er það þá þannig að við getum bara hugsað um eina frétt eða einn atburð í einu? Er það allt og sumt sem íslenska hugvitið ræður við?
Ég er miður mín yfir að nokkur maður tali svona um nokkra aðra manneskju og að svona margt fólk verji rétt manns til að hlutgera manneskju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. apríl 2022
Hún bað um það ...
Ef kona sem er í flegnum bol bað um að verða fyrir ofbeldi, hvað biður þá konan með matarsmekkinn um? Eða konan í buxnadragtinni? Eða kallinn í fótboltabolnum? Horfið á myndbandið og hugsið það sama og ég.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 22. apríl 2022
Stóra plokkið - fyrirfram eða eftir á?
Mér finnst mín hugmynd a.m.k. jafn góð og hugmynd Einars Bárðarsonar um stóra plokkdaginn. Hendum ekki rusli á göturnar eða annars staðar í náttúrunni. Pössum okkur þegar við tökum buffið eða símann úr vasanum að snýtubréfið fjúki ekki burt. Sveitarfélögin tæmi tunnurnar og endurnýi eftir þörfum þannig að botninn detti ekki úr.
Í einu orði: Forvarnir.
Ég tek upp tilfallandi rusl þegar ég er á gangi. Að sjálfsögðu. En ég ætla ekki út með poka á sunnudaginn til að tína upp sígarettustubba sem reykingamenn hafa meðvitað hent frá sér á víðavangi eða hundaskít sem hundaeigendur hafa látið undir höfuð leggjast að taka með sér.
Hirðum ruslið fyrirfram en ekki eftir á.
Auðvitað geta orðið slys en ef fólk passaði sig væri miklu minna rusl að tína upp. Og ef sveitarfélög byðu upp á fleiri ruslafötur væri auðveldara að henda sælgætisbréfinu eða kókómjólkurfernunni jafnóðum en ekki troða í vasa eða stinga í töskur og missa svo kannski frá sér í vindinum.
Forvarnir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. apríl 2022
Dyngja eftir Sigrúnu Páls (2021)
Bókasöfn eru dýrð og dásemd. Af bókasafninu get ég gripið með mér tilfallandi bækur sem ég þarf ekki að eiga hillur undir um aldur og ævi. Ég hef samt keypt bækur til að lesa og síðan gefið áfram.
Nóg um það. Ég greip Dyngju með mér rétt fyrir páska en byrjaði ekki á henni fyrr en í fyrrakvöld. Ég varð alveg hugfangin. Sjaldan orðið sem maður getur varla lagt frá sér bækur. Teddý kom mér stöðugt á óvart og það eru mikil gæði að verða hissa í sífellu, flissa og brynna svo músum skömmu síðar.
Líf Teddýjar er markað tilviljunum og leyndardómum. Mæli mikið með og hlakka svo sjálf til að ná mér í fleiri bækur eftir sama höfund.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. apríl 2022
Dís árið 2000
Ég þykist muna að ég hafi lesið bókina Dís þegar hún kom út en myndina sá ég ekki fyrr en núna um páskana. Hún var á streymisveitunni fínu RÚV og í alla staði mjög páskaleg þótt hún gerist um sumar.
Dís er 23 ára og alveg kenguppgefin á að vera ekki góð í neinu. Þótt ég sé nú orðin snöggtum eldri man ég líka þá brjálæðislegu vonleysistilfinningu á sama aldri yfir að ekkert lægi eftir mig.
Svo er sérstakur bónus að rifja upp miðbæjardjammið eins og það leit út um aldamótin. Ég hefði helst viljað hafa Ilmi Kristjánsdóttur í öllum kvenhlutverkunum en hinir leikararnir voru líka fínir.
Mæli allan daginn með þessari þægilegu bíómynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. apríl 2022
Bensín(verð)
Ég á bíl. Ég fer flesta daga stuttar vegalengdir. Ég vel að hjóla eða ganga og vel vandlega þá daga sem ég fer úr Hlíðunum í t.d. Hafnarfjörð. Ég þarf ekki að bera þunga hluti heim á hjólinu.
Mér finnst þetta næs og átta mig á að fullt af fólki hefur ekki þetta val. En við vitum samt vel að fullt af fólki hefur þetta val en velur að keyra alla sína kílómetra. Gott og vel.
Í dag keypti ég bensín, 32,85 lítra á 268,89 kr./lítrann. Það er afsláttarverð eins og þar stendur (á reikningnum). Ég var að gá hvenær ég hefði síðast keypt bensín. Það var 19. desember 2021. Þá kostaði lítrinn 233,90 en kann að hafa verið önnur dælustöð.
Bensínverð hefur hækkað. Svar okkar neytenda er að nota minna af því ef við getum - þau okkar sem geta.
Gleðilega páska.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. apríl 2022
Aftökur? Á samfélagsmiðlum? Í alvöru?
Ég er ekki þolandi og ég veit ekki um þá þolendur sem ég þekki. Þá meina ég að þolendur í mínum umgangshóp hafa ekki stigið fram. Ég ímynda mér líka að það sé ofboðslega erfitt að segja frá vegna þess að þá finnst fólki það vera að játa á sig dómgreindarbrest. Þolendur hafa margir treyst sínum nánustu, í fyrsta lagi treyst þeim sem fólki og svo treyst þeim fyrir sögum sinum og upplifunum.
Það er miklu auðveldara að vera keikur og segja að ekkert sé að. Kynslóð eftir kynslóð hefur tekið þann pólinn í hæðina. Um leið og maður ber sig illa er maður orðinn fórnarlamb og á svo á hættu að vera sakaður um uppspuna, athyglissýki - og að taka geranda sinn af lífi þegar þolandinn fær opinberan stuðning.
Það er erfitt að skrifa um þetta, hvort sem maður er áhorfandi eða í hlutverki. Ég finn að ég kem þessu sennilega ekki skýrt frá mér en ég finn svo innilega til með þolendum og óttast á sama tíma mína eigin gerendameðvirkni því að í þeim efnum er líka nóg framboð og margir pyttir að falla í.
Um daginn sagði góð kona í mín eyru: Hvað ætlum við að vera með marga gerendur á framfæri hins opinbera? Þá hafði einhver gerandi stigið út úr starfi sínu og sviðsljósinu.
Ég get alveg tekið undir með henni, en hvað með alla þá þolendur sem eru á örorku með kvíðaraskanir og ofanda þegar gerendurnir eru alls staðar sýnilegir?
Ég vil að fólk hegði sér. Af hverju verður fólk stjórnlaust og beitir ofbeldi? Er það geðslag, uppeldi eða fíkniefni?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)