Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 1. október 2007
Ýkjur og öfgar í þýðingum á einu og sama kvöldinu
Ef ég reyti hár mitt öllu frekar í kvöld verð ég sköllótt. Ég er að glíma við verkefni í þýðingafræðinni sem er svona:
Regular Expressions
Lýsing:
Skráin Vulgata.txt er textaskrá sem inniheldur hluta Gamla testamentisins á latínu. Búið til regexp-streng sem breytir skjalinu þannig að hvert vers sé í einni línu. Línan á að byrja á númeri versins.Best er að nota textaritþór á borð við TextPad, EditPlus, UltraEdit-32. Þetta er hægt í Word, en þá er notast við þeirra eigin mállýsku sem er aðeins frábrugðin.
Reynið að leysa þetta með því að búa til regexp-lýsingu, þeas. strenginn sem settur er í search and replace". Ef ykkur tekst það ekki getið þið skrifað með orðum hvernig hægt væri að leysa þetta. Það á þá að vera stutt lýsing.
Ef mér hefði tekist að mæta í tíma væri ég kannski með lausnina. Ég er búin að reyna að hlaða niður þessum textaritþórum (Ásgerður, sem sagt þágufall með sögninni að hlaða!) en alltaf þegar TextPad, EditPlus eða UltraEdit-32 voru að ná höfn átti ég aftur að samþykkja uppsetningu. Svo sýndist mér ég helst eiga að borga líka.
Þá reyndi ég að möndla við þetta í word. En hey, hvert er leyndarmálið við það að geta slöngvað 52.000 tölum fremst í línu í einni aðgerð? Um það snýst málið. Og geðheilsa mín. Ég er einstaklega vel gefin en ég get þetta ekki ...
Að þessu sögðu skæli ég líka af gleði yfir því að wordfast-forritið (þýðingaminni) sem ég keypti fyrir rúmu ári og hef hingað til geymt í glatkistunni er ekki rykfallnara en svo að það virkar! Og það sparar tíma. Eykur nákvæmnina. Jibbí. Samvinnan blívur. Blífur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 30. september 2007
Prófarkalas útlendingur bíómiðann?
Ég er því miður ekki sjálf búin að sjá Ratatouille en önnur viðkvæm augu ráku sig í þennan texta á bíómiða sem keyptur var inn á sýninguna:
Sýningin er með ýsl. tali
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 30. september 2007
Hollendingar eiga engan þjóðarrétt
Ég sat á skrafi við Hollendinga í gær. Eins og jafnan fer maður í netta landkynningu, og m.a. hældi ég lambakjötinu okkar, talaði um að mjólkurafurðir væru orðnar að útflutningsvöru og tæpti aðeins á hvalkjöti og hákarli ásamt harðfiski. Svo spurði ég hver væri þjóðarréttur Hollendinga því að ég myndi bara eftir tréklossum og túlípönum, hugsanlega ostum.
Þau sátu tvö á móti mér þegar þetta var og urðu bæði mjög stúrin á svip þegar ég spurði um þjóðarrétt Hollendinga. Hann væri nefnilega enginn, þau væru með kóresk eldhús, japönsk, kínversk, víetnömsk og þau vissu ekki hvað og hvað - en enga eigin þjóðarrétti, ekkert hollenskt eldhús, ekkert til að státa sig af - nema hugsanlega einhverja osta.
Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að Ásgerður bjó í Hollandi í eina tíð og var óskaplega hrifin af Leonidas-súkkulaði. Nei, það er belgískt. Alveg rétt.
Og ég held að ég hafi farið langt með að eyðileggja fyrir þeim kvöldið því að þau héldu áfram að rifja upp fyrir hvað Holland væri frægt úr því að það ætti enga matarhefð. Það eru eiturlyf og rauða hverfið sem er einmitt svo löglegt að starfsmenn þess eru með eigið stéttarfélag og hafa verkfallsrétt!
Samúð mín var óskipt (en ég fór ekkert að segja þeim að hjá Transparency International erum við hrunin úr fyrsta sæti þjóða með litla spillingu í stjórnsýslunni og ofan í það sjötta).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 28. september 2007
Er rautt litur munkanna?
Í gær fékk ég sms:
In support of our incredibly brave friends in Burma: May all people around the world wear a red shirt on Friday, September 28. Please forward!
Ég áframsendi aldrei neitt, það er regla, en það er ekki ofverkið mitt að vera í rauðri skyrtu í dag. Er ekki annars búið að breyta nafninu í Myanmar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 25. september 2007
Laun í erlendum gjaldeyri
Í gær var mér boðin tveggja klukkustunda vinna við að gáta þýðingu á handbók um eitthvert vinnutæki. Í lok tölvupóstsins sem barst frá New York var ég beðin um að verðleggja vinnu mína. Ég er ekki vön að vinna milli landa þótt ég þekki það aðeins líka þannig að ég varð svolítið hugsi. Það að vinnan sé til tveggja tíma þýðir aldrei minna en þriggja tíma framlag, m.a. þarf að lesa póstinn, skoða verkefnið, samþykkja það, koma á samningi, skrifa loks reikning, senda hann, bíða eftir að hann verði greiddur og jafnvel ganga eftir því.
Ég sagðist því verða að rukka 100 dollara á tímann, verktakalaun.
Ég fékk bréf um hæl hvar í stóð:
Hi Berglind,
Thank you for your email.
Unfortunately, I am afraid your rate is beyond our budget. Most our linguists charge between $25-$50 an hour.
Thank you for your interest though!
Nú stendur dollarinn í 62 krónum. Fyrir örfáum árum var hann um 110. Ég þakka fyrir að viðskiptavinir mínir eru allajafna ekki búsettir í útlöndum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 24. september 2007
Fundur í Iðnó í hádeginu
Herdrengurinn sem var gert að bera vopn og beita því á aldrinum 13-16 ára las úr bók sinni í Iðnó í hádeginu. Eða svo sagði auglýsingin. Ég ætlaði að mæta og hlýða en komst ekki inn úr anddyrinu. Það er út af fyrir sig gott að svo margir hafi áhuga á að heyra sjónarmið hans en samt held ég að áherslan á hádegissúpu hafi verið fullfyrirferðarmikil. Ég missi af kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna en bíð annars forviða eftir að heyra meira af hremmingum hans.
Ég er nú einu sinni heimsforeldri hjá Unicef.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 23. september 2007
Meira af verðlagseftirliti
Ég er mikið að letjast við að fylgjast með verðlagi einstakra vöruflokka. Það eru meiri möguleikar að ég geti borið saman eða bara býsnast. Og nú hljóp á snærið hjá hneykslaranum í mér.
AB-mjólk, 1 lítri, kostar 177 kr. í 10-11 en í Bónus, skv. strimli sem hafði orðið innlyksa í buddunni, kr. 127.
Í bakaríinu var mér gert að borga 635 kr. fyrir tvær kjallarabollur, tvö birkirúnnstykki, einn snúð og eitt sérbakað vínarbrauð. Mér þykir það mikið þótt ég sé borgunarmaður fyrir því. Huggun var að afgreiðslan var á íslensku. Ég þurfti ekki að þýða rúnnstykki - eða sérbakað. Það var reyndar gaman einu sinni þegar Steingrímur ætlaði að þýða sérbakað í Danmörku en það er allt önnur og hálfútlensk saga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22. september 2007
Ódýrir tannlæknar
Einu sinni útskýrði fyrir mér maður að ódýrt væri það sem maður borgaði lægra verð fyrir en sanngjarnt. Talan ein og sér segir ekki til um hvort varan sé dýr eða ekki, ef hins vegar er miklu meira rukkað fyrir hana en eðlilegt má teljast í ljósi framleiðslukostnaðar og e.t.v. framboðs og eftirspurnar er hún dýr þótt talan sé kannski 100 kr.
Á Útvarpi Sögu var auglýst eftir ódýrum tannlæknum í vikunni, og víðar sé ég núna talað um verðbirtingu hjá tannlæknum, t.d. ætla Svíar að auglýsa verð sinna tannlækna á netinu.
Í mínum augum er þá ódýr tannlæknir næstum ómerkilegur og óvandaður (sbr. cheap, ekki satt?) og varla eftirsóknarverður. Ég hef því miður reynslu af dýrum tannlækni eins og ég skil málið enn. Fyrir allmörgum árum var ég með svo heiftarlegan tannverk á laugardagsmorgni að ekkert annað kom til greina en bráðavakt tannlækna. Ég komst að hjá bráðatannlækninum sem fjarlægði sársaukann, ekki vandann heldur bara verkinn, og svo fór ég til tannlæknis á mánudeginum til að komast fyrir uppsprettu vandans. Fyrir þetta tók hann 12.000 krónur og mér þótti það rán. Mér finnst það enn. Sá tannlæknir var með skæslega biðstofu með fallegum afrískum munum og íslenskum eðalmálverkum á veggjunum. Sjálfsagt hefur hann keypt bæði Moggann og Mannlíf en ég naut þess þá í engu - frekar en yfirbyggingar í listaverkaeign.
Ég man alveg hvað hann heitir, þessi ágæti maður.
Tannlæknirinn sem ég ven komur mínar til er vandaður og vel uppfærður, tekst á við glímuna sem viðgerðirnar eru með sjáanlegum áhuga og rukkar hóflega. Hann er yfirgengilega minnugur á landslag gómsins og hver heimsókn er hin fínasta skemmtun. Krónan mín kostaði hjá honum 80.000 krónur en kjálkasérfræðingurinn sem ég þurfti að fara til líka kostaði hins vegar 120.000 - rán.
Ég var hins vegar forðum daga hjá ódýrum tannlækni sem þurfti endalaust að vera að tjasla saman eldri viðgerðum sínum. Nú er ég alveg hætt að sýna trúnað trúnaðarins vegna. Ég er hjá vönduðum tannlækni sem rukkar sanngjarnt en ég vildi ekki sjá að vera hjá ódýrum tannlækni.
Kannski snýst umræðan um máltilfinningu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. september 2007
Ágengum bankaráðgjafa verður ekki ágengt með útlendan eiganda fasteignar á Íslandi
Vinkona mín ein, útlensk, var véluð á fund með bankaráðgjafa um daginn. Hún (S) lýsti samtalinu lauslega ... á þessa lund (í tölvupósti):
Ég hitti bankaráðgjafa í morgun, og hann reyndi allt að fá mig að skrifa undir nokkurt dót, en það tókst ekki, huauaua.
Ráðgjafi: Hvar er bíllinn þinn tryggður?
S: Hjá TM.
R: Og hvað borgar þú míkið?
S: Ég held svona 50'000 plús þungaskatt plús jeppaaukagjald.
R: Nú, áttu jeppa? Flottan? Hvernig?
S: Jú, hann er æðislegur flottur og frábær. Alvöru jeppi, sko! Þetta er gamall Landrover, svona ekta drusla.
R (irriteraður, fattar ekki neitt): Já nú, er það? Jahá. Þá er kannski stutt í bílalán, ha! Við erum með fínt tilboð hérna, sérðu...
S: Nei, mig vantar ekki bíl, hann er hægur og stundum í vondu skapi, en hann mun alveg lifa 20 ár í viðbót. Og ef það er Guðs vilji að hann mun drepast á næstunni, þá á ég hjól.
R (ennþá meira pirraður): Og hvað, ætlarðu þá að hjóla eða hvað?
S: Já, það er það sem ég geri mest hvort sem er.
R: (fattar ekki neitt, en er búinn að skipta um umræðuefni og er að tala um aukalífeyrissjóð)
R: Sko, þegar þú gerir þetta og þetta, þá ertu komin með nokkrar miljónir þegar þú ert yfir 60.
S: Hvað ef ég drepst fyrr? (nei, hugsaði ég bara, sagði það samt ekki) Og ég má ekki taka út peninga áður?
R: Ekki áður en þú ert orðin 60.
S: Nei, ég nenni ekki að hugsa svo langt í tíma, og meira en það er ég með aukaellislífseyrisdót í Sviss.
R: Já, þú ert frá Sviss. Ertu þá líka með peninga úti?
S: Jújú, auðvitað á ég svissneskan bankareikning.
R: Og þú ert ekki að spá í að færa peningana hingað?
S: Guð nei, ég treysti ekki íslenskum bönkum, þetta helvítis goppedígopp og upp og niður, þá veit ég maður ekki hvað sem verður á morgun, betra að hafa það þar.
R: (ekki smá pirraður) Já, ähem, en heldur þú að þú færð eins góða vextir þar eins og á Íslandi?
S: Örugglega ekki í augnablíkinu. En sko, ég hugsa ekki bara um núna, ég er búin að eiga bankareikning úti síðan afi gaf mér þúsundkall daginn þegar ég fæddist. Og þúsundkallinn hefur nú gert sitt síðan, því það er ekki svo míkið goppedigopp og hummumhæ úti eins og hérna. Kannski eruð þið með hærri vexti núna, en góðir hlutir gerast hægt!
R (andar djúpt að sér): Já, hvað um sparnað, sko, Íslendingar í dag (!!!) hugsa svolítið mikið um sparnað. Og ef þú mundir til dæmis geyma svona 5'000 kr. á mánuði... þá blablabla...
S: Já, ég veit, þetta er grundvallarhugmyndin hjá svissnesskum bönkum, mér var kennt að spara þegar ég fékk fyrsta vasapeninginn minn.
R: Og hvað um skuldir, viltu ekki borga af þeim?
S: Ég er ekki með neinar skuldir nema íbúðina. Á ég kannski að borga af íbúðin hraðar?
R: Neinei, það borgar sig ekki. Já, ert ekki með skuldir? Já, en hvað um tryggingar....
(þá fann hann eitthvert tryggingatilboð sem mundi henda mér, einstæður einstaklingur á gömlum bíl og blablabla)
Já hérna, líst þér ekki vel um það, ætlum við ekki bara ganga frá þessu? Hérna er penni, þú þarft bara að skrifa undir hérna niðri.
S: Nei, ég skrifa ekki undir svona dót sem ég er ekki búin að hugsa um eina nótt með því að sofa yfir það. Og meira en það þarf ég fyrst að tjekka á tryggingar úti, en ég get gert það á næstunni, því ég fer til Sviss bráðum.
R: Villdu þá kannski panta tíma hjá mér í oktober og við göngum frá þessu næst?
S: Nei, ég held ekki.
Búahahaha, það tókst honom ekki, hihihi.
Og ég er svo ánægð með að þekkja svona manneskju sem stendur í ístaðinu, lætur ekki selja sér eitthvað sem hana vantar ekki og hún vill ekki. Er nóg af svoleiðis fólki í kringum okkur? Ég held ekki. Svo fannst mér lýsingin of skemmtileg til að ég tímdi að geyma hana í tölvupóstinum mínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 19. september 2007
Hús flytur lögheimili sitt
Ég fylgdist ekki með heilu nóttina þegar stóð til að flytja Hverfisgötuhúsið í Bergstaðastrætið, hins vegar sá ég í gærkvöldi framhaldið og í morgun þegar húsið var komið á grunninn. Og viti menn, er það ekki bara hálfkarað. Var þetta þess virði ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)