Færsluflokkur: Dægurmál

Smekkfullur fundur hjá Samsonum í Listasafni Íslands í morgun

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég mætti á morgunverðarfundinn í Listasafni Íslands í morgun kl. 8:15. Þrátt fyrir að eiginlegur fundur ætti ekki að byrja fyrr en kl. 8:30 var þegar setið á næstum öllum uppröðuðum stólum í stóra salnum uppi. Og morgunverðarhlaðborðið var ekki til þess fallið að fæla frá.

Erindin sem voru flutt gengu út á það, eins og í Ráðhúsinu í fyrrakvöld, að miðborgin er ekki eins góð og hún gæti verið. Frummælendur, ekki síst danski arkitektinn Jan Gehl sem er hokinn af reynslu í skipulagsmálum, sýndu fram á möguleika.

Ég segi bara aftur: Vitundarvakningin er mikil og ég er full bjartsýni fyrir hönd okkar miðbæjarmúsanna. Mér sýnist sem ég þurfi að fara að hitta Sigurgeir Orra, stórvin minn og mótmælanda, á einkafundi til að spjalla um framtíðarhorfur og fortíðarvanda. Miðbærinn getur ekki bara verið hugsaður fyrir skemmtistaðaeigendur, í honum á að vera blönduð byggð.

Samson styrktaraðili


Ég minnist ára minna í Ingólfsstrætinu með trega

Það er naumast að það hefur orðið vitundarvakning. Ég mætti á borgarafund í Ráðhúsinu og þar hélt hver frummælandinn af öðrum fyrirtakserindi um hvað þarf að bæta í miðborginni, og hvað hægt er að bæta með góðu móti. Ég átti dásemdarár í Ingólfsstrætinu forðum daga en svo spruttu upp skemmtistaðir með leka hljóðveggi og ég hrökklaðist að heiman. Sá tími rifjaðist kirfilega upp fyrir mér á fundinum áðan og árið sem ég gekk milli Pontíusar og Pílatusar að leita úrbóta. Aumingja fólkið sem ég þekkti þá, ég talaði stanslaust í á að giska ár um helvítið sem mér fannst ég búa við. Og þökk sé fólkinu með stáltaugarnar sem hélt tryggð við mig. Úff, ég sé núna úr fjarlægð enn betur hvað þetta var ömurlegt fyrir mig og alla hina líka.

Góðu fréttirnar eru þær að borgarstjóri, lögreglustjóri, íbúar miðborgar og doktorsnemi í skipulagsfræðum eru öll sammála um að nú sé tímabært að snúa þróuninni við. Að öðrum ólöstuðum fannst mér mest gaman að hlusta á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrum fréttamann hjá RÚV og verðandi borgarskipulagsfræðing, þótt hann hafi syndgað feitast upp á náðina. Hann sýndi evrópskar miðborgir með kostum og göllum og það leyndi sér ekki að smekkfullur Tjarnarsalurinn var alfarið á móti einsleitum kumböldum sem þjóna gróða fárra. Það var orðað aðeins öðruvísi.

Við hlógum oft því að erindin voru líka fyndin. Vonandi markar þetta upphafið að bættum miðbæ eins og borgarstjóri lofar. Ég á eftir að una mér enn betur í 101 til framtíðar litið. 


Hver borgar muninn?

Ég veit ekki hvort mér skjöplaðist illilega í áhorfi á fréttir Stöðvar tvö rétt í þessu. Heimir Már Pétursson sagði frétt af flugi frá Bandaríkjunum í gegnum TravelZoo til Íslands með gistingu í tvær nætur á Hótel Loftleiðum. Pakkinn sagði hann að kostaði 36.000 kr. Ég finn bara þetta í fljótu bragði - en ef eitthvað í líkingu við þetta er satt hlýtur maður að spyrja: Hver borgar raunkostnaðinn?

Icelandair er í samkeppni við erlend flugfélög. En hver veitir Icelandair aðhald hér heima, hver er stjórnarandstaða Icelandairs?

Es. Ehemm, Icelandair býður sum sé Bretum að fljúga til Bandaríkjanna með þessari tveggja daga viðdvöl í Reykjavík. Á 36.000 krónur. Ég flaug til New York fyrir rétt tæpu ári og borgaði minn 45.000-kall með tiltölulega glöðu geði með tveggja mánaða fyrirvara. Það sem maður lætur löðrunga sig.


Staðbundnar veðurspár eru veruleiki

Ég trúi því varla en prófaði samt, ég get flett upp staðbundinni veðurspá fyrir Langjökul! Mér kemur málið við og á morgun verður þar virkilega frost og stinningskaldi. Skárra á sunnudag.

Nostalgían gæti hellst yfir

Ju, í dag barst mér partíboð frá kaupanda íbúðarinnar minnar í fyrra. Ég hef ekki séð íbúðina síðan ég flutti. Og varla kaupandann sem þó er vinkona mín. Af því tilefni rifja ég upp dyrabjöllumerkinguna mína sem þó er ekki hálft eins frumleg og dyrabjallan hennar Guðrúnar Friðriks. Á henni stendur efsta bjalla, ómerkt.

Ursula þekkir fullt af dularfullu fólki, það verður áreiðanlega rafmagnað í partíinu.


Ásgerður ætti að heita Stargerður

Og hér sést hvers vegna ég segi það:

Ásgerður og smjattarnir

Upp á þetta var hún búin að þurfa að horfa (aggalítið staðbundið hjá mér):

BL og MG Meira af BL og MG

 

 

 

 

 

 

Og tilefnið var, auðvitað, að M&S höfðu gift sig:

Brúðarvalsinn ... eða þannig


Fura, Grelöð, Arngnýr, Brák

Mannanafnanefnd blessaði ýmis nöfn nýlega og um þau var fjallað í vikunni. Í tilefni af því að stórvinkona mín, Sólveig Ólafsdóttir, á afmæli á þessum drottins dýrðar rigningardegi ætla ég að rifja upp hvað hún ætlaði að skíra börnin sín ef hún eignaðist þau. Strákurinn átti að heita Arngnýr af því að það var svo flott á prenti og stelpa annað hvort Grelöð (sú sem ber fræ) eða Brák (fóstra Egils). Fleiri nöfn flugu fyrir og er mér alltaf minnisstæðast þegar hún sagði pabba sínum að hún vildi skíra stúlku í höfuðið á honum. Hún ætti þá að heita Fura.

Og þá rifjast upp líka þegar Erla, önnur stórvikona, sagði í vinnunni sinni að dóttir hennar hefði verið skírð Halldóra Þöll og ein samstarfskonan rak upp ramakvein og sagði: Skírðirðu barnið TRÖLL?

Eldri dóttir Erlu kom heim úr leikskólanum einn daginn með öndina í hálsinum og sagði: Veistu, mamma, það er kominn nýr strákur í leikskólann og hann heitir BJARNI. - Hún var sko ekki lítið hneyksluð.

En nú er mannanafnanefnd búin að leyfa karlmannsnafnið Álfar. Er það fleirtala eða Ál-far?

Til hamingju með þennan merkisdag, Sólveig.


Íbúð óskast

Kröfur eru hóflegar. Hún skal vera 90-120 fm, á svæðum 101 eða 105, með sólarsvölum (eða verönd) og gjarnan viðhaldsfrí. Fallegt eldhús með t.d. frístandandi eyju skaðar ekki og gott væri ef baðherbergið væri sjálfhreinsandi. Útsýni kemur í mesta lagi í 10. sæti þannig að hæð neðarlega í húsi er hreint ekki fráhrindandi tilhugsun.

Ég vil kaupa. Annars nenni ég bráðum ekki lengur að hokra á skerinu.

 


Krefjandi samskipti

Þetta hugtak komst mjög afgerandi til tals í dag. Hvað eru krefjandi samskipti? Er það ekki þegar reynir á mann? Og þá kemur í ljós úr hverju maður er gerður.

Ef einhver er t.d. mjög latur í nærumhverfi manns eru samskiptin við viðkomandi krefjandi. Og hvað getur maður gert? Leitt letina hjá sér? Þannig leggur maður sig ekki fram heldur kemur sér undan. Rekið hegðunina framan í hinn lata (t.d. á vinnustað)? Þá er ég sjálf orðin gribba og með erfiða framkomu. Huhh.

Ég er líklega þessi erfiða í samskiptum (bara ekki vegna leti) og ætla til öryggis að gráta mig í svefn í kvöld. Verð góð aftur með morgninum.


Icelandair á samkeppnismarkaði?

Ég skil ekki vandræðaganginn hjá Icelandair. Af hverju er flugfélagið í stríði við starfsmennina? Á Icelandair núna Iceland Express, þarf þess vegna ekki að keppa á markaði og heldur að það geti bara ráðið lögum og lofum (loftum)? Ég hallast að því fremur en að flugfreyjum, -þjónum og -mönnum sé alls varnað í heilbrigðum samskiptum.

En ég veit ekki (enn) allt um málið. Fæ nánari fréttir bráðum ... af fundinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband