Færsluflokkur: Dægurmál

Nokkrir brullaupsgestir í tjaldinu 1. september

Hrafnhildur Steingrímsdóttir sem ekki sagði orð ...

Hrafnhildur fékk ekki að vera brúðarmær í brúðkaupi foreldra sinna en hún fékk að vera með og ÞAGÐI YFIR ÞVÍ Í HEILAN MÁNUÐ. Mamma hennar og pabbi líka og það gengur líka kraftaverki næst. Gáfust þó góð tækifæri til að tala af sér, t.d. þegar Habbý spurði Steingrím í partíinu hjá Matta 13. júlí hvort þau færu ekki bráðum að láta verða af þessu, fólk væri farið að gleyma hvenær trúlofunin hefði átt sér stað. Þá kvað Steingrímur hafa sagt: „Tíminn er svo afstæður, kannski gerðist þetta bara í gær.“

Mér láðist að taka mynd af matnum eftir að hann var reiddur fram þannig að ég hef hér með mynd af matnum áður en hann varð alveg frambærilegur. 

Undirbúningur að matnum

Guðrún og Þorgerður skáru og söxuðu af móð - eldmóð.

Guðrún og Þorgerður draga ekki af sér

Kolla „systir“ tók langtum fleiri myndir en ég, ég veit bara ekki hvar hún lúrir á þeim.

Kolbrún Mjöll Hrafnsdóttir

Melkorka las ræðu frá föður sínum, Óskari Guðmundssyni, sem sat fastur yfir hundspotti í Borgarfirðinum. Hún var flott og ég sé Steingrím í allt öðru fataljósi - og þó, ljósi Sævars Karls hafði einu sinni áður verið brugðið yfir Steingrím. Best að láta allt frekara kyrrt liggja, Steingrímur vann þá á Þjóðviljanum ...

Melkorka Óskarsdóttir

Móðurbróðir Marínar, hann Stebbi, spjallaði við ljósmyndarann.

Stebbi „frændi“

Palli og Liv

Matti og Berglind Laufey komu seint og um síðir og varla nema til hálfs.

Smjattpattar

Habbý er sem betur fer sjálfri sér lík.

Habbý fann ber (held ég)

Högni entist til hálftólf og sagði að skilnaði: Ég verð hálftíma lengur næst. - Ætli hann haldi að Marín og Steingrímur ætli að gifta sig aftur?

Ásgerður og Högni

Arna og Himmi sátu sem fastast í tjaldinu eins og plön gerðu ráð fyrir. Þær voru ekki svo fáar, spekúlasjónirnar um hvernig hægt yrði að láta alla passa þar inn. Svo rættist svo fáránlega vel úr veðrinu. En Arna og Himmi vissu hvað gjöra skyldi.

Arna og Himmi

Auður ritari bæjarstjóra og Kalli á Byggðasafninu héldu Örnu og Himma selskap. Og fleirum. Kalli, Auður og svo Steinunn og Árni komu í lögreglufylgd á staðinn og fóru í sömu fylgd ... dammdaradamm. Athugasemdir heimilar í þar til gerðu athugasemdakerfi.

Auður og Kalli

Ég þekkti ekki alla

Orri, María, Marín, Dagný, Habbý hér fyrir neðan.

Krád

Snorri og Laufey

Brúðhjónin og Gullú „systir“

Þessa mynd varð ég að taka löngu eftir miðnætti, Steingrímur hafði nefnilega áhyggjur af að stönglarnir myndu ekki endast í pinnamatinn. Á daginn kom auðvitað að við erum upp til hópa soddan óhemjur að við brúkum puttana en ekki einhverja snyrtipinna (téhé).

Stönglarnir sem eftir urðu

Núna um helgina varð ég vitni að því að fólk í götunni minni var að bjástra við að koma upp samkvæmistjaldi. Fyrst sá ég þegar það átti við himininn, svo klukkutíma síðar sá ég hliðarnar smella í og um kvöldið þegar ég kom heim sá ég og heyrði gleðilætin.


The Incentive Saga (Hvatasagan)

Þetta ljóð birtist mér, skriflega, um helgina. Breskir ferðamenn, bændur, fengu það verkefni að yrkja um Ísland meðfram því sem þeir óku um torfærur.

Iceland is an island

It's surrounded by the sea

If you like steam and ice

It's the place to be.

 

The vikings came and found it first

And gave the place its name

There's lots of things to do and see

If you don't, it will be a shame.

 

Head up to the Langjökull

Ski-doo and have some fun

Be careful at the geysirs

They're so hot, you could burn your bum!

 

The booze is quite expensive

But the "Lecky" is very cheap

It's made using the hot water

That's ....'. from way down deep.

 

Not all the water is so hot

As it flows from higher ground

At the awesome Gullfoss waterfalls

It makes a crashing sound!

 

Iceland is quite striking

Thrilling and diverse

We've run out of things to say

So this is the last verse!

Höfundar skírðu sig í átt til íslensks veruleika: Erik "the viking" Rippingaleson, Sven "the axe" Plumbson, Tim "norse-hammer" Doeson og Derik "ice bum" Peckson.


Af hverju lækkar matvælaverðið hjá okkur við að ganga í Evrópusambandið?

Kemst þá á eitthvert evrópskt jafnaðarverð? Getur Ísland sótt um styrki? Lækkar álagning kaupmannanna?

Af hverju lækka útlánsvextir við að ganga í Evrópusambandið?

Ég þykist vita að þetta gangi að einhverju leyti út á samninga og samkomulag en ég sé ekki beinu línuna milli þess að ganga í Evrópusambandið og að allt verðlag skáni hér.

Ef þetta snýst að einhverju leyti um álagningu kaupmanna fá þeir annað hvort alltof mikið í vasann núna eða munu fá alltof lítið eftir hugsanlega breytingu.

Hver missir spón úr aski sínum þegar verð lækkar og vaxtamunur minnkar? Milliliðir? Verður ódýrara að flytja frakt? Mér þætti gaman að komast að því.


Undarleg forgangsröðun hitamála

Ég skil ekki af hverju fólk æsir sig yfir leikinni auglýsingu Símans sem er í fyrsta lagi (greinilega) hugsuð til að espa fólk og fá það til að tala um auglýsinguna sem eykur auglýsingagildi hennar og í öðru lagi aldeilis hreint frábær leikþáttur og í mínum augum öllu öðru fremra sem Jón Gnarr hefur komið nálægt.

Fólk ætti frekar að tala með þunga um seðilgjöld og mínútugjöld, ósanngjarna viðskiptahætti og lélega þjónustu. Eða öllu heldur hætta viðskiptum við fyrirtæki sem veitir meðalslaka þjónustu og er með ógagnsæja reikninga.

Svo auglýsi ég eftir raunverulegri samkeppni á símamarkaði, bensínmarkaði, bankamarkaði og flugleiðum. Og vil að Anton drekni vinur minn fái vinnuna sína aftur.


Þetta er aldrei búið ...

Við Þorgerður fengum það hlutverk framan af laugardeginum að græja þvottahúsið sem barlíki. Okkur fannst við þvílíkt hafa hitt í mark þegar við ákváðum trjáskreytinguna í glugganum. Úti sést inn í tjaldið:

Á barnum

Hér sést Þorgerður á kafi í undirbúningnum:

Þorgerður hlynnir að skreytingunniÞorgerður og trjáglugginn

 

 

 

 

 

Þarna átti enn eftir að breyta uppröðuninni talsvert, færa til borð og hugsa fyrir hljómsveit - ásamt því að kaupa í matinn OG ELDA. Kannski átta klukkutímar þangað til von var á prúðbúnu fólki.

Marín að morgni laugardagsins 1. september

 

Guðrún við ísskápinn Þarna er þó búið að kaupa rjómann í fiskisúpuna og Guðrún dregur ekki af sér í að ganga frá aðföngunum.

Marín gerir að Marín sker laukinn af móð. Hvað töluðu þau um, þrjú eða fjögur kíló af skæluefni í súpuna? Þetta tók tíma, það get ég a.m.k. staðfest.

Steingrímur brúðgumi Maður sá aldrei framan í Steingrím meðan á matseldinni stóð. Hann þurfti líka pínkulítið að halda á spöðunum þar sem hann átti von á 60-70 svöngum gestum eftir sjö tíma. Það var fiskisúpa með fiski, lauk, papriku í öllum litum og áreiðanlega meiru sem mér skýst yfir núna. Svo ætlaði hann líka að steikja þorsk upp úr hveiti og kryddi. Og reiða fram saltfiskbollur. Finna skötuselinn. Konfektið, hella upp á kaffi. Steingrímur var áreiðanlega illa sofinn og allt stefndi í svefnlitla helgi.

Við Þorgerður stóðum í þeirri meiningu að við gætum kælt drykkjarföng í rigningunni! Og Marín rýmdi til í gjafakoju þegar ég var búin að suða um gjafaborð í marga daga.

Veigar

Gjafakojan, aka gjafaborð

 

 

 

 

 

Í næsta versi verða gestir kvöldsins. Nóg er að gert að sinni.


Og teitið lukkaðist hið besta á laugardaginn

Marín + Steingrímur = hjónasæng

Steingrímur + Marín laugardaginn 1. september 2007

Ég get svarið að það rigndi til kl. 19 á laugardaginn en þegar gestirnir komu í tjaldið (og húsið sem fylgdi) hafði ekki bara stytt upp heldur var sólin næstum farin að banka á. Gestir gátu því verið veisluklæddir og rápað út og inn án þess að vökna að utan.

Marín sem er margt til lista lagt flutti bæði ræðu um tildrög hjónabands þeirra Steingríms og söng síðan með hljómsveitinni (sem er í skugga hennar á myndinni). Steingrímur sem er líka myndarlegur til orðs og æðis eldaði matinn, fiskisúpu sem gat mettað alla götuna og steikti þorsk sem var hvort tveggja hreinasta sælgæti. Og svo að ég deili því líka með lesandanum var allt ógert kl. 17 á laugardaginn en allt tilbúið kl. 20. Það minnti hreinlega á frumsýningu í leikfélaginu mínu (og öðrum geri ég ráð fyrir).

Að öðrum aðkomendum málsins ólöstuðum verð ég líklega að geta þess að Guðrún og Ingólfur Steingrímsbörn sem gengu um beina stóðu sig alveg fáránlega vel (ekki komin með prófið eða neitt). Hér er ein mynd af hvoru:

Guðrún SteingrímsdóttirIngólfur Hersir Steingrímsson 

Ég skemmti mér konunglega og geri ekki ráð fyrir að öðrum hafi leiðst. Ég á eftir að sortera boðlegar myndir í safninu mínu og mun mjög trúlega deila nokkrum þeirra á næstu dögum með blogginu mínu ... bara sjálfri mér til upprifjunar.

 


Ég féll á sjálfrarmínstrætóprófinu

Mig vantaði handfrjálsan búnað við símann minn, fór út miðdegis og ætlaði að taka strætó í Kringluna. En nei, þegar til átti að taka nennti ég ekki að bíða eftir strætó og labbaði þangað. Þá ætlaði ég að taka strætó úr Kringlunni og í Laugardalinn en nennti ekki að kynna mér málið. Og loks úr Mánatúni og aftur í Þingholtin - gekk. Allan tímann með strætókortið góða í hægri vasanum. Og geymdi hjólið heima.

Ég þarf að vinna betri heimavinnu og vita tímana áður en ég legg af stað. Mér skal takast að nýta mér strætó.

Góðkunningi minn sem gæti átt svona námsmannastrætókort neitar að sækja það af því að hann á bíl, hefur efni á því að eiga hann og efni á að kaupa bensín. Þrjóska hans elur á þrjósku minni því að mér finnst það ekki einkamál hvers og eins hvort hann hefur efni á að reka bíl. Ekki er ég spurð hvort ég vilji borga slitið á götunum af hans völdum.

Ekki svo að skilja að ég andskotist almennt út í bíleigendur ... Mér hefur oft boðist far (á ögurstundu), m.a.s. alla leið vestur í Stykkishólm. Nei, mér finnst bara að almenningssamgöngur eigi að vera nýtilegri og betur nýttar.


Er ég verri kúnni í bankanum af því að ég stend í skilum?!?

Nú ollu sparisjóðirnir mér vonbrigðum, tvisvar á einni viku. Á sunnudaginn heyrði til míns friðar að borga hótelreikning upp á tæpar 80.000 krónur og sveiflaði ég því e-kortinu (fyrrum) góða. Það fékk höfnun (ekki ég). Hótelstarfsmaðurinn hringdi og fékk heimild í gegnum síma og ég talaði við hr. e-kort á Íslandi sem bauðst til að hækka heimildina mína í 400.000.

Ég ætti auðvitað ekki að leggja á lesandann svona smánarlega lágar upphæðir en heimildin mín var upp á 300.000 og ég var hvergi nærri búin að nýta hana. Ekki einu sinni þegar fyrra tímabil var lagt við, það tímabil sem var búið en ekki gjaldfallið (en sparisjóðirnir leggja þetta saman sem hefur einu sinni áður komið sér illa í lok mánaðar). Merkilegur andskoti. Samtals var ég vissulega farin að nálgast 300.000 króna múrinn en ekki rjúfa hann.

Og hr. e-kort hækkaði heimildina í 400.000, bauðst til þess. Almennilegt af honum.

Svo var ég í búð áðan, keypti fyrir slatta og rétti fram kortið sem hefur líka dugað alla vikuna. En nei, það fékk höfnun. Við hringdum í Kreditkort hf. og var sagt að hringja í sparisjóðina (550-1200) af því að þar væri enn opið. Þar fengum við líka það svar að ekki væri hægt að gera neitt, ekki væri heimild til að hækka heimildina um það sem hr. e-kort hækkaði hana um um síðustu helgi! Nú var 400.000-kallinn þak (minnir mig).

Stúlkan í búðinni var algjör snillingur (ég er að meina það). Hún spurði pollróleg frk. sparisjóð hvort hún væri bara að svara í símann en ætti ekki að veita þjónustu. Þá fauk í frökenina.

Ég endaði með að borga með debetkortinu og kvaddi búðarstúlkuna með handabandi.

Og nú væri skemmtilegt að hugsa sér að vegna framboðs af vondri þjónustu og eftirspurnar eftir góðri þjónustu ætti ég að flytja viðskiptin. Ég er því miður bara ekki viss um að aðrir veiti betri þjónustu. Þó hef ég enn ekki verið tuktuð af Landsbankanum. Björgólfur Guðmundsson er viðkunnanlegur. En kannski vilja bankarnir frekar að maður skuldi og borgi of seint, lendi á FIT og haldi bönkunum uppi. Mig langar ekki til þess.

Þegar ég var komin heim með góssið fór ég beint út aftur og keypti HVÍTT HÖFUÐFAT sem mig bráðvantaði líka, ákvað að taka gleði mína á ný og byrja aftur að hlakka til morgundagsins.

Næsti kafli hefst síðan á mánudag þegar ég hringi í hr. yfirsparisjóð og reyni að veiða upp úr honum svör við þeirri spurningu hvers vegna ég fái ekki að nota úttektarheimildina sem hr. undirsparisjóður veitti mér.


Undirbúningur að veisluhöldum

Það verður garðveisla - og veðrið verður gott - annað kvöld. Helsta áhyggjuefni brúðgumans er að óvandaðir renni á hljóðið (það verður hljómsveit) og ætli að smygla sér í boðið. Ég hef boðist til að vera varðhundur, ganga um og spyrja: Hvort þeirra þekkirðu? ásamt því að segja í sífellu: Það er smáhalli í grasinu, passið ykkur á stögunum og kamarinn er þarna til suðausturs. Eftir veisluna verður moltutunnan sett yfir hauginn, hehe.

Í gær tók ég nokkrar myndir, var við heimildamyndagerð meðan aðrir lyftu tjöldum og mátuðu súlur.

Laufey og Oddur

Hér er tjaldhiminninn útbreiddur nokkuð.

Oddur og Snorri

Og hér lengra til vesturs.

Kamarflutningar

Marín, Snorri, Laufey og Þorgerður leggja gjörva hönd á plóg.

Frekari kamarflutningar ...

Ekkert lát á þessu

 

 

 

 

 

Marín á gægjum

Það þarf að styðja súlurnar, jájá.

Mynd að komast á tjaldið

Framhald á góðu

Tjaldið er 6*9 metrar

Og ég segi ekki hvaðan tjaldið kemur

Það er eins og mig minni að þetta hafi farið að gerast meðan ég var send í Melabúðina.

Litu kamrarnir nokkuð betur út en svona?

Ef einhverjum skyldi verða brátt í ... . Nei, djók, þá sendum við fólk í næstu hús. Svo er sjoppa við hliðina - til vesturs.

Þorgerður hamrar

Stögunum er komið fyrir alls staðar, líka þar sem það er ekki hægt.

Laufey runnaskreytir

Og við gætum þess að innan tjaldsins verði þessi fína runnaskreyting. En hljómsveitin ...?

Allir úr skónum

Allir inn að borða pulsur, úr skónum á meðan, nema hvað.

Tjaldveggir eins og hráviði

En upp fóru tjaldveggirnir þótt pulsugengið vildi helst ekki upp úr meltunni.

Að lokum byrjaði að rökkva

Og svona mun það líta út annað kvöld, dimmt og ókennilegt, múhhahaha.


Það þarf að prófa mat í öðrum löndum

Langlúran

Við fórum fjórar saman út að borða í Stokkhólmi í síðustu viku á aldeilis hreint fráleitum og óspennandi veitingastað. Þar var samt að finna langlúru sem ég ákvað að prófa. Úff, hvílík vonbrigði, löðrandi í smjöri og minnti helst á sérrétti Katalóníu (eftir því sem mér skildist alltént á sínum tíma) sem voru allir smjörlegnir, líka eftirréttirnir.

Og hér eru sessunautar dagsins:

Sigga og Hildur

Sigga hefur eitthvað misskilið bendingar mínar, hélt að hún rúmaðist ekki innan rammans. Og svo bætist Arna við á hinum endanum:

Hildur og Arna

Og loks verð ég að leggja með eina mynd af forréttunum (já, í fleirtölu) sem við Hildur pöntuðum við annað tækifæri. Þá héldum við að við fengjum blöndu á einn disk af forréttunum sem voru í boði (vorum ekki svangar nefnilega) en fengum hins vegar alla forrétti hússins á fjöldamörgum diskum. Borði var bætt við borðið svo að allt kæmist fyrir:

Bragð af forréttum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband