Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 18. júní 2007
Þriggja hæða terta úr súkkulaði
Ég hélt að ég hefði tapað myndunum úr símanum mínum um aldur og ævi - en þær komu aftur. Ingólfur og Inga gáfust hvort öðru þann 9. júní sl. eftir níu ára aðlögunartíma þannig að þau telja sig handviss um að hafa gert það rétta.
Gellur Group gratúlera með daginn!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 17. júní 2007
Das Leben der Anderen
Þýska myndin Líf annarra er áhrifarík. Það sem er kannski mest sláandi er að hún gerist svo nálægt okkur í tíma en fjallar samt um hluti sem manni finnast fjarstæðukenndir og fjarlægir. Ég taldi mig reikna rétt að hún byrjaði 1979 en í lýsingu stendur 1984.
Ég veit varla hver ég á að segja að sé aðalpersónan en hallast helst að Gerd Wiesler sem tekur gríðarlegum breytingum í myndinni, breytist frá því að vera pólitískur já-hundur, víkur af einstiginu og uppsker ... eins og Stasi hefur sáð til. Georg Dreyman spilar auðvitað líka mikla rullu sem leikskáldið sem Gerd fylgist svo grannt með og tekur afdrifaríkum breytingum.
Svo féll múrinn 1989 og ekki voru allir á því að það hefði orðið öllum til góðs.
Við þökkuðum fyrir að það var ekkert hlé á sýningunni, hlé eru heldur til óþurftar og skemma (stundum) flæði í sýningum.
Svo var hún miklu fyndnari en gamanmyndin Bless, Lenín. Allur salurinn tók andköf af gleði á köflum. Ég mæli með myndinni ... eða var það annars komið fram?
Es. Ég hló mikið að öðrum Honecker-brandaranum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 16. júní 2007
Dáindisveður í miðborginni
Ég gekk Laugaveginn áðan mér til yndisauka, rápaði inn í Mál og menningu, gramsaði í ferða- og jarðfræðibókum og rakst á annan leiðsögumann. Okkur hættir svolítið til að sækjast eftir að lesa okkur til og langa að vita meira í dag en í gær.
Þegar spjalli okkar um fagið sleppti barst talið að launum, er það ekki raunalegt? Og þessi mæti maður sagði mér býsna hróðugur að hann fengi alltaf umyrðalaust borgaðan reikning hjá tilteknu fyrirtæki, borgað hratt og vel. Svo sagði hann mér að hann sendi verktakareikning fyrir heilum Gullhring upp á kr. 15.000. Ég rukka sama fyrirtæki um 28.000 fyrir sama tíma og fæ líka borgað án vífillengja í sömu viku.
Hann skammtar sér sem sagt vel innan við 1.000 kr. á tímann hvernig sem ég reikna - nema hann stingi undan skatti og launatengdum gjöldum. Hver tapar, hver græðir?
Svo fór ég inn í verslun með leðurfatnað og festist við afhvítan leðurjakka sem ég geri ráð fyrir að festa kaup á í næstu viku þegar hann kemur í minni stærð. Gott að ég þarf ekki að vinna fyrir honum nema í tvo daga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. júní 2007
Gríma príma
Það er alveg ótrúlegt hvað lærðir leikarar eru lélegir spunameistarar. Ég horfi sko ekki á Grímuna en það er nú samt opið fyrir hana. Og Benedikt Erlingsson má reyndar eiga það að hann var býsna áheyrilegur, en skelfilega eru þessir lærðu og æfðu textar og kannski brandarar kynnanna slappir og máttlausir.
Ég vildi að ég gæti sagt að príma í fyrirsögninni væri ekki bara lélegt rím.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Kynbundið hlaup (nei, takk)
Nú sit ég enn með auglýsingu um kvennahlaupið fyrir framan mig. Ég sá ábyggilega auglýsingu í gær og kannski í fyrradag líka, jafnvel um síðustu helgi, og hvergi er dagsetningin búin að vera. Ég veit ekki vel af hverju ég vil vita hvenær það á að vera því að ég fer ekki í kynbundið hlaup. Ég gagnrýni ekki kynbundna hlaupara, auðvitað ekki, en sjálf kýs ég frekar maraþonskokkið.
Í auglýsingunni eru á að giska 80 tímasetningar og kannski finnnst einhverjum segja sig sjálft að hlaupið sé á laugardaginn en ég varð að fara inn á auglýsta vefsíðu til að finna það. Hlaupið tengist kvennadeginum sem er 19. júní og mín vegna hefði getað verið vilji fyrir því að hafa hlaupið á þjóðhátíðardeginum úr því að dagarnir raða sér svona í ár. Finnst skipuleggjendum þetta virkilega svona sjálfgefið eða yfirsást þeim?
Það er samt ekki þetta sleifarlag sem hrindir mér frá hlaupinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Standandi leiðsögumenn í rútum á ferð = algjör glæpur
Ég veit um tvo leiðsögumenn sem heimta að fá að standa í rútunum og snúa að farþegunum á ferð og ég bara verð að segja að ef ég væri bílstjórinn þeirra myndi ég neita að keyra! Ekki einasta er þetta ólöglegt og getur verið hættulegt, þetta gerir það líka að verkum að leiðsögumaðurinn missir af því einstaka sem sést út um gluggann á hverjum tíma. Það er alveg sama hvað maður hefur farið oft einhverja tiltekna leið, það getur alltaf verið nýstárlegt í það og það skiptið eða eitthvað bæst við. Þið vitið hvað ég meina.
Að auki er þetta kjánalegt fyrir þá farþega sem sitja framarlega og finnst þeir kannski verða að fylgjast með lengur og betur en þá langar til. Mér finnst ósköp eðlilegt að fólk taki athyglishlé þótt ég sé að tala ... svo fremi að ég haldi sjálf athyglinni, téhéhé.
Umræddir leiðsögumenn eru samt með áralanga reynslu af starfinu og sinna því ugglaust vel á sinn hátt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Veggjakrot er mengun
Ég er hins vegar óttalega ómeðvituð um hana.
Einn dag í síðustu viku gekk ég fram á konuna á neðri hæðinni þar sem hún var að sprauta yfir veggjakrot á húsinu sem ég bý í. Og ég hafði ekki tekið eftir krotinu.
Svei mér.
Nú er ég farin að opna augun betur og sé þetta úti um allt í miðbænum. Sumt er sossum snoturt en sumt er náttúrlega krass.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Verður ferðaþjónustan krónísk láglaunastétt?
Mér sýnist Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, spyrja þeirrar spurningar í Mogganum í dag.
Ég óttast að svarið verði já, en spyr jafnframt: Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir það?
Ferðamenn sem koma til landsins víla ekki fyrir sér, margir alltént, að borga mikið fyrir gæðavöru sem er einstök, náttúru, upplifun, frábæran mat - en eru ekki eins spenntir fyrir drykkjarföngum sem eru kannski flutt inn frá heimalöndum þeirra, lélegri gistingu og ónýtum rútum.
Það þarf að jafnvægisstilla.
Atvinnugreinin ferðaþjónusta
Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein
Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein: "Það er fagnaðarefni að nú fari ferðaþjónusta undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála..."
MEÐ nýrri stjórn og þeim stjórnarsáttmála sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur gerðu í kjölfar nýliðinna kosninga verða málefni ferðaþjónustunnar flutt undir iðnaðarráðuneytið um næstu áramót. Áður höfðu málefni ferðaþjónustu á Íslandi heyrt undir samgönguráðuneytið. Það sem ég les út úr þessari breytingu er að nú loks er ferðaþjónustan viðurkennd sem tegund iðnaðar, atvinnugrein í sjálfu sér, en ekki aðeins "hliðaráhrif" bættra samgangna.Af þessu tilefni er rétt að árétta að hve miklu leyti ferðaþjónusta (e. tourist industry) er í raun mikilsverður "iðnaður" þjónustuhagkerfisins hér á landi. Til þess er rétt að fara yfir nokkrar grunntölur. Gjaldeyristekjur af erlendu ferðafólki voru á síðasta ári 47 milljarðar sem er vel rúm tvöföldun á tíu ára tímabili, en 1997 voru þær um 21 milljarður. Gjaldeyristekjur sem þessar má leggja að jöfnu við útflutning og í því samhengi nema gjaldeyristekjur íslenskrar ferðaþjónustu 20% af heildar vöruútflutningi á Íslandi 2006 (fob-verð). Til samanburðar var ál flutt út að verðmæti 57 milljarðar króna árið 2006. Þess er rétt að geta að ég hef verðmæti þjónustuútflutnings, þ.ám. ferðaþjónustu, ekki inni í tölum um heildarvöruútflutning. Er það með ráðum gert til að sýna að þjónustugrein líkt og ferðaþjónusta er í raun "iðnaður" í hagkerfi þar sem um 75% starfa er í þjónustugreinum. Hins vegar ber að taka tekjutölum í ferðaþjónustu með varúð þar sem þær segja ekki allt. Bjarni Harðarson alþingismaður lýsti um daginn skoðunum sínum að ferðaþjónusta væri ekki af hinu góða og vísaði til reynslu foreldra sinna af Kanaríeyjum, þar sem einu birtingarmyndir ferðaþjónustu eru í lágt launuðum þjónustustörfum. Þannig má ekki fara hér og því verður að gæta þess að þær tekjur sem af greininni hljótast séu að standa undir blómlegu atvinnulífi, þar sem fólk getur skapað arð af hugmyndum sínum. Sjálfur hef ég bent á að ferðaþjónusta geti verið sú fátækragildra sem Bjarni lýsir, en það er aðeins ef ekki er rétt á málum haldið. Það er því fagnaðarefni að nú fari þessi málaflokkur undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála, allavega er þá pólitískt rétt komið fyrir ferðaþjónustu.
Með pólitískri viðurkenningu greinarinnar er næst að gera gangskör í rannsóknum, til að tryggja að rétt verði á málum haldið með þessa atvinnugrein. Þær atvinnugreinar sem eitthvað að kveður á Íslandi hafa allar sér til fulltingis öflugar rannsóknarstofnanir. Sjávarútvegurinn hefur Hafrannsóknastofnun, Álið og orkan Orkustofnun, ÍSOR og öflugar rannsóknir Landsvirkjunar og ýmissa annarra. Landbúnaðurinn hefur RALA, nú Landbúnaðarháskólann. Iðnaður í landinu hefur Iðntæknistofnun og rannsóknarstofnun byggingariðnaðar. Ferðaþjónustan hefur hins vegar eina opinbera stofnun sem sinnir rannsóknum fyrir greinina, Ferðamálasetur Íslands. Þar eru 6 starfsmenn og opinber framlög nema um 10 milljónum króna. Ekki þarf að taka fram að með þennan mannafla, þó góður sé, og með þennan pening er lítið hægt að gera og ekki hægt að standa undir nauðsynlegum grundvallarrannsóknum á t.a.m. áhrif ferðaþjónustu á hagkerfi, menningu og umhverfi. Hver atvinnugrein þarf öflugt rannsóknarbakland og með pólitískri viðurkenningu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar þarf nú að tryggja að hægt sé að standa að öflugum rannsóknum á greininni til að forðast t.d. örlög margra smáríkja með sól, sand og sjó.
Höfundur er forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 11. júní 2007
Meintur söluhagnaður af sölu fasteignar
Ég seldi íbúð í fyrra sem ég var búin að eiga í átta ár og síðan hefur fólk verið óþreytandi við að minna mig á að kaupa mér nýja íbúð, m.a. til að þurfa ekki að borga skatt af meintum hagnaði.
Í morgun kom ég því loksins í verk að hringja í ríkisskattstjóra til að spyrja hvort það ætti við rök að styðjast, hvort ég þyrfti raunverulega að borga skatt (og þá af hvaða upphæð) ef ég ekki keypti aðra íbúð í síðasta lagi á næsta ári. Jón Ingi (hvurn ég ekki þekki) hló bara dátt og sagði að maður þyrfti að hafa átt íbúð skemur en í tvö ár og, nei, ég þyrfti ekki að borga skatt af mismuninum þótt ég keypti ekki íbúð á næsta ári.
Ég ætla samt að hringja aftur í næstu viku til að vera alveg viss. Eða hefur einhver annar átt svona símtal nýlega?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 11. júní 2007
Fermetraverð elliblokkanna
Ég sá á forsíðu Fréttablaðsins í morgun að fermetraverðið á íbúðum fyrir aldraða í Vogahverfinu ætti að kosta upp undir 500 þúsund kr. fermetrinn. Og allir í borgarkerfinu klóra sér í höfðinu og botna ekkert í þessu ef marka má fréttina sjálfa.
Ég spyr bara: Þarf einhver að kaupa þetta? Ef nýbyggingarnar eru of hátt verðlagðar seljast þær bara ekki, er ekki svo? Eða ætlar borgin að kaupa, er hún búin að lofa því? Ég hef svo sem ekki leitað að umfjöllun um þessa frétt en ég hef heldur ekkert heyrt um þetta.
Er hátt verðlag að verða eitthvert lögmál? Er OF hátt verðlag að verða eitthvert lögmál?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)