Færsluflokkur: Dægurmál

Alsæll með 170 þúsund á mánuði

Ég hitti í gær í góða veðrinu kunningja fjölskyldunnar á fimmtugsaldri sem hafði verið atvinnulaus um hríð. Hann sagðist núna vera kominn með vinnu á lager og var alsæll með 170 þúsund króna grunnlaun á mánuði. Áður vann hann á spítala fyrir 110 þúsund. Honum fannst verra að mega ekki vinna yfirvinnu nema náttúrlega í gær fannst honum fínt að vera búinn kl. þrjú og „verða“ að fara út í sólina.

Hann sagðist reyndar verða fyrir kynþáttafordómum á nýja staðnum sem er honum ný reynsla. Ég hirði ekki um að tilgreina uppnefni víetnamska yfirmannsins.

Þessi fjölskylduvinur er af íslensku bergi brotinn.


Hugleikararnir mínir

Mér hlýnar alveg við þessa frétt. Ég þekki flesta meðlimina úr leikfélaginu mínu, Hugleik, hinir hljóta að vera rétt ókomnir í það. Margt má um Ljótu hálfvitana segja en fyrst og fremst eru þeir sprúðlandi húmoristar og ég er öldungis viss um að góða veðrið í Öskjuhlíðinni var þeim að þakka. Sólin getur ekki annað en glott út í bæði.
mbl.is Hálfvitaleg plata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið fullkomna atvinnuóöryggi lausráðinna leiðsögumanna

Á mánudaginn var hringt í mig frá ferðaþjónustufyrirtæki sem vildi ráða mig í vinnu á laugardaginn. Ég sagði (eftir hina hefðbundnu kynningu erindis og svona): Við náum ekki saman um kaup, ég set upp 3.500 kr. á tímann sem verktaki. Ég kaupi það, var sagt á hinum endanum, ég er fegin að geta tryggt mér þig. Og með okkur tókust samningar.

Ég hef áður unnið fyrir þetta fyrirtæki og það var tregt til að borga taxtann minn.

Í dag var síðan hringt og ég afboðuð með þeim orðum að bókanir hefðu orðið minni en reiknað var með. Viðkomandi var fyrir mína hönd ógurlega ánægð með að ég slyppi við þetta ferðalag.

Þetta gera ferðaþjónustufyrirtæki, tryggja sér leiðsögumenn vissa stóra daga og segja síðan upp dögum með þeim stutta fyrirvara sem kjarasamningar leiðsögumanna leyfa.

Ég get eiðsvarið að mér var ekki hafnað vegna þess að ég væri slakur leiðsögumaður, heldur af því að ég geri launakröfur sem eru eðlilegar en margir leiðsögumenn skirrast við að gera vegna þess að þeim FINNST SVO GAMAN AÐ FERÐAST OG FÁ MEIRA AÐ SEGJA BORGAÐ FYRIR ÞAÐ. Meðan leiðsögumenn bukka sig í auðmýkt fyrir að fá yfirleitt borgað fyrir að vinna höldum við áfram að skrapa botninn. Þessir hobbíleiðsögumenn gera sér heldur ekki grein fyrir að menn reyna að lifa af tekjum sínum.

Ég hef ábyggilega margar reglur en þær tvær sem ég vil taka fram hér og nú eru að ég legg mig alltaf 100% fram og ég hef aldrei tvíbókað daga til þess að hafa eitthvað í bakhöndinni ef ég missi daga. Þegar ég hef tekið eitthvað að mér stend ég við það. Það gerði þetta fyrirtæki ekki. Það vildi bara tryggja sér mig - þrátt fyrir taxtann - ef til kæmi.


Skýjamyndir

Netjuskýin sjálf 24. júní 2007Þessa skýjamynd tók ég í Henglinum þriðjudaginn 26. júní, og Guðríður plöntufræðingur og annar fylgdarmanna hópsins kallaði það vindskafið netjuský (leiðrétting frá síðustu færslu), sem sagt góðviðrisský enda var veðrið einstakt allan þann dag (dálítill vindur samt).

 

 

 

 

Bleiku skýin eftir miðnætti 27. júní

Og þessi er tekin úr stofuglugganum í Þingholtunum rúmlega sólarhring síðar.


Landmannalaugar í slyddu

Maður leggur af stað í sólskini og endar daginn í sólskini. Í milli er maður í Landmannalaugum í snjókomu. Svona er Ísland. Og núna er komið vel yfir miðnætti, glaðir Svisslendingar lagstir til hvílu og ég get ekki hætt að horfa á bleik vindskafin nepjuský á vesturhimninum.

Það er ekki lítið, lánið yfir manni.


Vinir mínir, atvinnubílstjórarnir

Sem leiðsögumaður hef ég ferðast með ótölulegum fjölda atvinnubílstjóra. Ég man varla eftir óöruggum eða slökum bílstjóra, þau eru þvert á móti örugg, gamansöm og þjónustulunduð heilt yfir (fáar konur en nokkrar samt).

Ekki alls fyrir löngu komst til tals í vinahópi mínum hvað það myndi kosta ferðamenn að leigja fjallajeppa með bílstjóra til að fara á jökul. Ég sagðist halda að það væri 70-100 þúsund kr. fyrir daginn. Og viðmælendur mínir supu hveljur. Svo fórum við að velta fyrir okkur hvernig verðið er fundið út.

Það er erfitt að verðleggja svona svo að sanngjarnt sé fyrir báða aðila. Jeppabílstjórinn á bílinn sinn sem kostaði kannski 5 milljónir (varlega áætlað) og þarf að breyta honum, stækka, lengja eða eitthvað (og hvað kostar það?). Svo þarf hann búnað eins og áttavita og gps - og þokkalegar hljómflutningsgræjur því að hluti af stuðinu í tveggja tíma keyrslu í bæinn eftir jökulferðina er að spila skemmtilega tónlist (a.m.k. oft) og þá þarf líka að eiga nokkra diska.

Ég er komin út í smáatriðin og skal aftur snúa mér að meiri aðalatriðum - eins og tryggingum. Econoliner (held að þeir heiti það) þarf að tryggja fyrir 400 þúsund á ári, bara bílinn, svo þarf að tryggja alls konar fylgihluti. Það þarf að halda bílnum við, flikka upp á, þrífa (sem getur verið skrambi tímafrekt) - og hefur einhver hugmynd um hvað eldsneyti kostar?

Og til þess að kúnninn geti fengið bíl og bílstjóra á laugardegi þegar honum hentar stendur bíllinn kannski ónotaður flesta mánudaga og þriðjudaga = dauður tími.

Ég er viss um að ég gleymi einhverjum breytum enda er ég ekki jeppaeigandi og veit ekki um alla kima eignarinnar. Ég bara veit það að sumir þessara flinku og geðugu bílstjóra fá ekki nema 20-25 þúsund kr. fyrir 10 tíma laugardag - sem verktakar. Hækkum laun bílstjóra! Höfum líka hugfast að farmurinn er dýrmætur, fólk og meira fólk.

Ísland er dýrt land og það er eitt af því sem fólk sem kemur hingað sættir sig við. Hótel og veitingastaðir hækka verðskrá sína á háannatíma, flugleiðirnar sömuleiðis - af hverju ekki bílstjórar og leiðsögumenn? Mig langar að skella mér til New York, ég leit á vef Icelandair og sá að ég fæ ekki flug í júlí eða ágúst fyrir minna en 70 þúsund kr. Í september í fyrra flaug ég þó fyrir 45 þúsund og fannst það alveg nóg.

Hækkum laun í bílstjórastéttinni. Lækkum verð á því sem fólk getur allt eins keypt heima hjá sér, eins og áfengi og nýlenduvörum (hef sérstakt dálæti á þessu orði). Jöklaferðir eru einstakar og þær verður að verðleggja sem slíkar, annars missum við á endanum fagfólkið úr stéttinni. 

Blair kveður - og heilsar Brown

Það er skrýtið að detta inn á Sky og sjá Tony Blair kveðja leiðtogasæti sitt í Verkamannaflokknum og bjóða Gordon Brown velkominn eftir að hafa lesið um ágreining og undirferli þeirra undanfarið í blöðunum. Það virðist stutt í tárin hjá þeim báðum.

Brown er fjandakornið ekki eins mælskur og Blair. Ekki heldur eins mikið fiðrildi að sjá. Það verður spennandi að fylgjast með honum samt. Hmm, Gordon Brown er með sigin munnvik, hafa menn tekið eftir því?


Fjölga akreinum eða fækka bílum?

Gæti verið að mögulega hefði hugsanlega verið hægt að hafa fleiri í einhverjum bílanna? Hugsanlega, ef til vill og mögulega?

Ég sting upp á hjóli, þá kemst maður alltaf meðfram kyrrstæðu bílunum.


mbl.is Samfelld röð bíla frá Rauðavatni að Selfossi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið er ungs manns gaman

Ég hnaut um þetta lag á annarri bloggsíðu og þegar ég horfði á það (og hlustaði) vöknuðu ýmsar minningar þótt ég kannist svo sem ekki við þessa útgáfu. Sterkasta minningin varð um nemandann (sem ég veit ekki hver er) sem skrifaði nafnlaust á kennaramat í Kvennó: Hún hefur hlustað of oft á Always look at the bright side of life. Ég hef að vísu grun um hver hann muni vera og hvað hann hélt ranglega að mér fyndist um hann.

   Duló ...


Heiðra skal maður föður sinn og móður

Og mér hefur alltaf fundist assgoti smart af pabba að eiga afmæli á kvenfrelsisdaginn (ha, kvenréttindadaginn?). Hin síðustu ár er hann líka farinn að versla, elda og ganga frá. Batnandi mönnum er best að lifa og megi hann lifa sem lengst. 

Pabbi á besta aldri 

Hér er hann í bústað í Snæfokslandi í Vaðnesi, alla afmælisvikuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband