Færsluflokkur: Dægurmál

Skyldumæting í Bónus

Íþróttasúrmjólk kostaði um daginn 111 kr. - nú 104 kr. (6,3%)

200 g af spínati kostuðu 248, kosta nú 233 kr. (6%)

Kílóverð á banönum var 131 kr. en er nú 123 kr. (6,1%)

Risahraun frá Góu lækkaði úr 49 kr. ofan í 42. (14,3%)

Lækkunin á þessum fjórum vörum er úr 539 í 502, sem sagt um tæp 7%. Ef þetta er eitthvert meðaltal þýðir það að karfan getur lækkað úr 10.000 kr. í u.þ.b. 9.300.

Hins vegar ákvað ég að minnka hagvöxtinn í dag, tók strætó í stað þess að taka leigubíl (sem ég hefði ekki einu sinni þurft að borga sjálf). Ég kláraði eldgamalt strætómiðakort fyrir u.þ.b. þremur vikum og fór því í Rebba í Hamraborginni til að kaupa 11 miða kort. Það kostaði 2.500 kr. og mér gjörsamlega láðist að spyrja hvort búið væri að lækka virðisaukaskattinn. Ferðin kostar þá 227 kr. og ég er svo sannarlega ekki of góð til að borga þær, en er ekki nær fyrir okkur að nýta ferðina með stóru vögnunum frekar en að allir setjist upp í litlu einkavagnana sína? Og ég naut þess að horfa út um gluggann meðan ég hlustaði á gæðaþátt í útvarpinu.

En ég dró úr hagvexti, og enn meir dreg ég úr honum ef ég þverskallast við að kaupa mér nýjan bíl.

Þetta var skrásett með Erlu Englending í huga.


Hvar er fjölskyldustefnan?

Ég hef ekki leitað að henni í stefnuskrám flokkanna en Orri lýsti eftir henni í dag. Hann veit ekki hvað hann ætlar að kjósa í vor fyrr en hann finnur fjölskyldustefnuna hjá flokkunum.

Hvað á að gera til að auðvelda foreldrum að eyða meiri tíma með börnunum?

Er ekki allt í lagi með þessa spurningu? En svarið?

Svarið getur vel tengst atvinnustefnu, skattamálum, menntamálum, umhverfismálum ... en hver er fjölskyldustefnan?


Burt með símana úr bílunum

Ég heyrði frétt um að einhver vildi banna alla símanotkun í bílum á ferð, las hana ekki þannig að ég man ekki gjörla hvernig fréttin var. Þá verður líka að banna mönnum að drekka kaffi, snýta börnunum, mála sig, bölva umferðinni og láta hugann reika.

Ég hef reyndar löngum haft efasemdir um að handfrjálsi búnaðurinn bjargi miklu. Ég held að athyglisbresturinn sé í alvörunni stóra vandamálið í akstri.

Ég hef einu sinni lent í árekstri. Það var sannarlegur á-rekstur vegna þess að ég sem annar bíll á ljósum tók lauslega af stað sem fyrsti bíll. Ég held að fremsti bíllinn hafi einmitt verið í hugleiðingum frekar en að hafa hugann við aksturinn. En það var sannarlega ég sem rakst á.

Eftirlitið auðveldast til muna ef símarnir verða bara bannaðir með öllu. Nema hjá farþegunum auðvitað.


Einkafyrirtæki með netaðgang læstan

Vinkona mín sem vinnur við innheimtu hjá einkafyrirtæki kemst ekki á t.d. Moggabloggið í vinnunni. Á það reyndi í gær en annars er hún lítið á rápinu í vinnutímanum. Ég veit ekki hvað fleira henni er bannað, nema það að msn-ið var tekið af öllum starfsmönnum fyrir stuttu af því að einhver misnotaði það. Það tefur fyrir henni því að áður gat hún átt í samskiptum við samstarfsfólk í innheimtu meðan hún var með viðskiptavin í símanum.

Lok lok og læs, allt í stáli. Það virðist vera auðvelt að meina fólki um aðgang.


Raunasaga úr grunnskólastarfi

Ég hef mikla samúð með dugmiklum, metnaðarfullum og hugmyndaríkum kennurum sem eru á lélegu kaupi. Í augnablikinu hef ég samt meiri samúð með systur minni, bekkjarfulltrúanum fyrir hönd foreldra, sem skipulagði leikhúsferð hjá bekk dóttur sinnar, fékk afslátt í leikhúsinu, talaði við kennarann, samdi kynningartexta, talaði aftur við kennarann upp á að senda tölvupóst á alla, sú vísaði á annan kennara sem vísaði á skólastjórann - og í stuttu máli datt ferðin upp fyrir af því að boðleiðirnar urðu of langar og skrykkjóttar.

Systir mín er mjög fylgin sér en hún fékk alltaf þau svör að þetta yrði í lagi og svo var bara ekki gert það sem þurfti að gera.


Alzheimer eða heilabilun

Er það tvennt ólíkt? Eða er þetta eða notað í merkingunni það er? Eigi veit ég svo obbossla gjörla, eins og oft var sagt í áramótaskaupinu eitt árið.

En þetta heyrði ég sagt í dag. Og veit ekki hvað merkir.


118

Atarna var merkilegt, einmitt í kvöld var frétt um álagið á 118. Samt var ég ekkert búin að kvarta ... ætlaði ekki að kvarta en rétt fyrir hádegi í gær reyndum við að hringja í símaskrána og það hringdi út. Það hefur einhver þurft að spjalla um rúgbíleikinn milli Englands og Írlands ... Það svaraði alls ekki og við urðum að finna símanúmerið eftir öðrum leiðum.

Kenning mín um álverskosninguna heldur enn velli

Handahófskennd könnun mín á því hvort Hafnfirðingar muni greiða atkvæði með eða á móti stækkun álversins í Straumsvík heldur enn, þ.e. að hinir eldri séu heldur með og yngri á móti. Þeir sem eru orðnir fimmtugir muna vel hversu mikil lyftistöng álverið var fyrir 40 árum og meta það við það. Þeir sem eru undir þrítugu eru öðruvísi átthagabundnir, sjá fleiri tækifæri í því að halda landinu frá álverinu og endurvinna svæðið eftir kannski 20 ár eða svo þegar álverinu verður mögulega lokað.

Það eru sem sagt tvær firnaspennandi dagsetningar framundan, 1. mars þegar virðisaukaskatturinn verður lækkaður (reyndar byrjaður að lækka nú þegar sem er ánægjulegt) og 31. mars þegar kosið verður í Hafnarfirði.

Svo verður Diplómatti með fyrirlestur bráðum ...


Skólagjöld?

Skólaganga á að verða greidd með sköttum. Það finnst mér í aðalatriðum.

Hins vegar er ég farin að hneigjast til þess að hófleg skólagjöld fyrir framhaldsháskólanám væru í lagi, einkum þegar þau eru ávísun á vel launað starf. Auðvitað er ekkert öryggi í námskránni samt, ég geri mér grein fyrir því.

Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér, og er enn. Sjálf er ég fordekruð og þakka skattgreiðendum fyrir að borga brúsann. Ég var í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og háskóla, allt fyrir lágmarksþóknun. Ég tók meirapróf þegar ég var 19 ára (fékk skírteinið á tvítugsafmælinu) og mér skilst að ég hafi borgað fyrir það nám sjálf. Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands og veit ekki betur en að ég hafi borgað tvo þriðju af kostnaðinum við að mennta mig. Þegar ég hef farið á tölvunámskeið hef ég borgað úr eigin vasa.

Er ekki einhver ósamkvæmni í þessu? Það er það sem ég er að hugsa núna. Leikskólinn er fyrsta skólastigið, menn hafa haft fögur orð um að gjaldfrelsa hann en víðast hefur ekki orðið af því (þó á Súðavík ef mig misminnir ekki). Einkaháskólarnir taka skólagjöld (180-250 þúsund finnst mér ég hafa heyrt) en fá líka úr sarpinum.

Kenning mín er núna sú að ef maður borgar gjöld fyrir námið sitt geri maður meiri kröfur bæði til sjálfs sín og kennara sinna. En þá verður maður líka skýlaust að eiga rétt á lánum fyrir námsgjöldunum - og námið verður að vera metið til launa þegar maður ræður sig starfa þar sem menntunin nýtist.

Núna var ég að hugsa upphátt ... Háskóli Íslands var með útskrift í dag og rektor er með háleitar hugmyndir um að koma HÍ á lista yfir 100 bestu skólana. Gera allir nemendur og kennarar raunhæfar kröfur til sjálfra sín - og standa undir þeim líka?

Við megum ekki vera hrædd við að ræða opinskátt um væntingar okkar í þessum málum og leiðir til að uppfylla þær.


Svo var ég að tala við smið

Hann sagði mér að námið í Iðnskólanum á sínum tíma (fyrir kannski 10 árum) hefði verið ótrúlega þunglamalegt, gamaldags og langt á eftir. Er þetta ekki annars tvöföld endurtekning? Honum var líka talsvert niðri fyrir. Hann heldur að einkavæðing IR gæti orðið til góðs. Ég hef áhyggjur af iðnnámi og áhugaleysi gagnvart því - en þýðir ekki einkavæðing að skólinn fer á markað og kaupendur ætli að græða, óhagkvæmt nám líði undir lok og atvinnulífið verði fátæklegra?

Er það ekki svoleiðis?

Af hverju jókst þá ekki fjölbreytnin í bönkunum, af hverju lækkuðu ekki gjöldin og af hverju stórbatnaði ekki þjónustan? Þar er ég reyndar þakklátust fyrir heimabankann minn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband