Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 9. mars 2007
Skilningarvitin
Þegar ég var hálfgerður krakki var ég að vinna hjá SS í Glæsibæ. Mér þótti það fjölmennur vinnustaður og stundum var ærandi hávaði í kaffitímunum. Og ég man að einu sinni hugsaði ég og sagði svo: Ég vildi að ég væri heyrnarlaus. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir vanþakklæti mínu og auðvitað var mér engin alvara. Ég lét þessi orð samt falla.
Nú nenni ég ekki að sjá eftir þessu, enda eru bernskubrekin til þess fallin að vaxa upp úr þeim. Og ég vildi sannarlega ekki vera heyrnarlaus, hvorki þá né nú.
Þetta vekst upp fyrir mér af því að fyrir Alþingi liggur forvitnilegt frumvarp um réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Heill hellingur þingmanna styður það með því að vera meðflutningsmenn og nú er ég mjög spennt að sjá hvernig því vindur fram á næstu dögum. Í gær spjallaði ég um stund við Fransmenn sem hafa verið hér í viku og þeir spurðu mig út í táknmálsfréttirnar sem eru rétt fyrir kl. sex í sjónvarpinu og undruðust mjög að ekki væri talað með því. Þessi 10 mínútna fréttatími er það eina sem heyrnarlausum stendur til boða - fyrir utan þegar verið er að fjalla um mál þeirra sjálfra, þá er túlkað og/eða textað. Eins og heyrnarlausir hafi ómögulega áhuga á öðrum málum þjóðlífsins ...
Enn fremur hef ég kynnst störfum táknmálstúlka undanfarin ár þar sem þeir hafa túlkað bæði þar sem ég hef verið að kenna og þar sem ég hef sjálf verið í námi. Þetta er einfaldlega allt annað tungumál, það er eins og að vera í tíma í þýðingafræðum sem fer fram á japönsku - maður skilur bara ekkert. Og þá er maður útundan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Farsæld til framtíðar?
Fiskur og ferðamenn - sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Stóriðja. Fjármálaumsvif.
Eru þetta ekki lykilhugtökin í atvinnu- og þjóðlífi nánustu framtíðar? Eitthvað þessu líkt er á dagskrá Iðnþings 2007 á morgun en ég er svo óáttuð að ég sé alls engan fulltrúa frá ferðaþjónustunni, engan frá hinu meintu nýju framboðum til Alþingis og gott ef það vantar ekki fleiri fulltrúa.
En kannski á iðnþingið ekki að endurspegla neina breidd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Ætli ég vinni í kosningunum í vor?
Nú er mér mikill vandi á höndum. Í dag barst mér bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar þar sem hann óskar eftir starfskröftum mínum í undirkjörstjórn á kjörstað sem næst heimili mínu í alþingiskosningunum 12. maí.
Ég hef lagt Reykjavíkurborg lið nokkrum sinnum, framan af mér til óblandinnar ánægju en síðustu tvö skipti hef ég verið óheppin með samstarfsfólk í kjördeild. Þetta er nefnilega ekki svo einfalt að maður bara rétti fram lúkuna eftir persónuskilríkjum, það þarf að leiðbeina sumum kjósendum, fylgja fram í yfirkjörstjórn, merkja rétt í bókina, 0 fyrir konur og X fyrir karla (eða öfugt) í réttan dálk og stemma af - stemma af - stemma af og passa að öllum tölum beri saman. Og nógu slæmt er að vera í samfloti með fólki sem kann þetta ekki, enn verra er þegar það heldur að það geti og kunni - en kann hvorki né getur.
Þóknunin fyrir setu í undirkjörstjórn er 23.000. Þótt upphæðin sé lág fyrir 14-15 tíma laugardag hefur mér þótt það hégómi enda er þetta í eðli sínu þegnskylduvinna. Og ef það er gaman ...
Spurningin frá mér til mín er bara hvort nú sé nóg að gert. Ég ætti kannski að finna mér annan og félegri félagsskap þann 12. maí næstkomandi.
Að auki finnst mér óþarfi að skrifstofa borgarstjórnar biðji mann að tilkynna um þáttöku eða forföll. Hvort myndi ég þá aka þátt eða taka þát?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Digital Ísland rukkar enn 14% virðisaukaskatt
Það þýðir áreiðanlega langdregið símtal á eftir. Því til viðbótar er ég tvisvar búin að biðja um að fá ekki sendan seðil heim og að þurfa ekki að borga seðilgjald upp á 250 krónur. Fyrir utan að ég er búin að biðja um það og mér hefur verið lofað því - að sleppa við þetta - skilst mér nú að það séu einhver áhöld um hvort yfirleitt megi rukka mann um sendingarkostnað sem maður skrifaði ekki undir og bað ekki um.
Ég var til í að borga 3.895 kr. fyrir svokallaðan stóra pakka - í honum var allt nema Stöð 2 og sérstakar íþróttarásir - en er rukkuð um 4.145. Og RÚV lækkaði virðisaukaskattinn hjá sér núna um mánaðamótin og af hverju ekki Digital Ísland?
Ohh, ég nenni helst ekki að hringja og tala við einhvern sem bara vinnur þarna. En það þarf að gera fleira en gott þykir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Umhverfisvinir í raun
Sjálf missti ég af kvöldfréttum en síðunni barst þessi sending frá æstum umhverfisvini, og reyndar systur hjólreiðamanns Íslands nr. 1:
Hvað er að mönnum! Það tala allir um mengun og það að Íslendingar verði að fara að breyta bílaflotanum, minnka notkun einkabíla og blablabla en svo á að setja allt í stokk fyrir marga milljarða króna í stað þess að fara fram á það að fólk breyti lífi sínu og fari út í refsiaðgerðir (eins og t.d. hefur verið gert í mörg ár í Sviss); leyfa eingöngu bílum með slétta tölu í enda bílnúmers að aka á mánud., miðvd. og föstd., en bílar með oddatölunúmer í enda mega aka á þri., fim., lau. Banna nagladekk innan borgarmarka.
Endurskipuleggja og hafa ódýrara í strætó (eða ókeypis), búa til hjólastíga út um allt (það er t.d. létt að hjóla milli Garðabæjar og Háskólans í Reykjavík því þar eru fáar brekkur en það er hins vegar lífshættulegt að hjóla þar á milli eins og staðan er núna - með engan hjólastíg). Það væri hægt að tolla bíla hærra eftir því sem þeir eyða meira o.s.frv. o.s.frv.
Möguleikarnir til þess að minnka umferð í borginni (og þar með leggja okkar af mörkum til minnkandi mengunar í heiminum) eru endalausir en menn eru eins og hálfvitar og gagga bara: STOKK - STOKK - STOKK!
bless! Á
E.s. Japanir og Kínverjar ganga ekki endilega með grisju fyrir andlitinu vegna mengunar heldur vilja þeir ekki smita aðra af t.d. kvefi (ef þeir eru kvefaðir!). Svona eru þeir nú kurteisir!! Íslendingar sjá hins vegar bara manneskju með grímu og halda auðvitað að þeir séu að verja sig en ekki aðra - enda ekki til hjá okkur þessi tillitssemi!!
Eru ekki líka til einhvers konar loftbóludekk? Ég man ekki betur en að Anton hafi talað um þau. Og hvað er að frétta af vetnistilrauninni? Það myndi hjálpa að vera með umhverfisvænna eldsneyti. Metan?
Og ef til mín sést með grisju fyrir andlitinu er það alls ekki vegna svifryks. Nú ætla ég að verða tillitssami Íslendingurinn og hætta að hnerra framan í næsta mann. Hahha.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Þegar gefa skal matvæli ...
Við Ásgerður (Bergs, ég þekki ekki Ásgerði Flosa) vorum að tala um það í gær hvað okkur sviði þegar vel ætum mat væri hent á haugana og hann nánast urðaður í beinni útsendingu af þeirri einu ástæðu að hann væri kominn fram yfir tilbúna dagsetningu.
Mér finnst auðvitað ekki að nokkur eigi að borða ónýtan mat og alls ekki að einhver eigi að slá sig til riddara með því að gefa öðrum ónýtan mat. En þessar dagsetningar eru ekki heilagar. Ýmis pakkamatur er stimplaður einhver ár fram í tímann. Hvernig má það vera að niðursuðuvara er í lagi 31. mars og svo ónýt 1. apríl?
Er þetta ekki eitthvert gabb? Erum við orðin svo neyslustýrð að við látum alfarið stjórnast af dagsetningum?
Ég veit ekki hvað var í þessum 3,5 tonnum sem voru pressuð, en það þarf enginn að segja mér að rækjuflögur sem eru bestar fyrir 31. desember 2006 séu eitraðar og skaðlegar 1. mars. Þær gætu verið orðnar linar en ég man líka eftir að hafa fengið ólystugar kartöfluflögur upp úr poka löngu fyrir útrunninn tíma. Þetta eru viðmiðunardagsetningar.
Einu sinni vann bróðir minn í ljósmyndavörubúð. Þá voru myndir teknar á filmu og hann var áhugaljósmyndari. Eftir tiltekinn líftíma filmanna var komin reynsla á að þær gætu verið orðnar ónýtar og þá var vitaskuld ekki hægt að selja þær fólki sem ætlaði að varðveita augnablikið. Hann sem áhugaljósmyndari að gera tilraunir og sem framkallaði myndirnar sínar sjálfur gat vel tekið áhættuna og honum voru stundum gefnar filmur.
Er þessi brottkastsárátta ekki bara hluti af markaðshyggjunni?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. mars 2007
Flugfreyjum fækkað í Bandaríkjaflugi
Mér finnst svolítið spaugilegt, eða kannski grátbroslegt, að Jón Karl Helgason hjá Icelandair tilkynnti víst um 20% fækkun flugfreyja í Bandaríkjaflugi í hagræðingarskyni - og sagði jafnframt að þjónustan yrði ekki skert. Hmmm, hvar hef ég heyrt svipað? Jú, alveg rétt, á kvennafrídaginn 2005 voru konur hvattar til að ganga út af vinnustað kl. 14:08 í táknrænni uppreisn gegn kynbundnum launamun kynjanna ... og einhver háttsettur sagði að leitast yrði við að halda uppi sömu þjónustu.
Hmmm? Helmingur starfskraftsins og sama þjónustustig?
Þar og þá var náttúrlega markmiðið að sýna fram á - aftur - að framlag kvenna til atvinnulífsins skiptir miklu máli. Ég veit ekkert hvort þessi aðgerð sannaði það eða hvort einhverjar misráðnar aðgerðir og frestun á verkefnum eyðilagði áætlunina. Vitanlega voru margir þiggjendur þjónustu á Lækjartorgi eða fastir á Skólavörðustígnum.
Þegar til stendur að fækka flugfreyjum og/eða flugþjónum úr fimm í fjórar/fjóra/fjögur hlýtur þjónustan að skerðast - nema fimmti hver starfsmaður/flugfreyr/öryggisvörður hafi verið verklaus í fluginu. Mér hefði fundist mun klókara hjá Jóni Karli að nota tækifærið til að bjóða fólki þjónustuminna flug, t.d. engan mat og enga sölubúð í háloftunum. Mér hefur stundum ekki fundist hægt að þverfóta fyrir starfsfólki á göngunum með matarbakka þegar fólk langar mest að dorma í friði eða komast á klósettið. Og sjálfri finnst mér enginn tímasparnaður að kaupa óþarfa á lofti.
Jæja, eins gott að Anton lesi þetta ekki ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. mars 2007
Ég sá litla mús
Sem ég spókaði mig um Þingholtin í gær gekk ég fram á mús sem snultraði fyrir framan eina bygginguna. Ég er óttalegur rati í dýrafræðum og skimaði því eftir öðru mér fróðara fólki - sem birtist ekki þannig að ég endaði með að taka mynd af henni svo að menn geti séð hvað hún er mikið krútt ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 4. mars 2007
Tilkomulítil sagan, og ekki öll
Nú er ég búin að koma höndum yfir Söguna alla í ritstjórn Illuga Jökulssonar sem ég hef haft dálæti á frá því að hann skrifaði í Þjóðviljann. Enn betur líkaði mér við hann þegar ég fékk að hlusta á hann flytja pistlana sína og allra best þegar ég sá hann líka. Hæfileg uppreisn, skeytingarleysi gagnvart viðteknum gildum í afstöðu og klæðaburði, dekur við skynjun mína.
Og nú er hann sestur í stól ritstjórans, vel í felum fyrir mér. Hann var reyndar í Kastljósinu á sunnudaginn var og sagði einmitt þar frá þessu nýja útgáfustarfi sínu. Þegar ný dagblöð eða tímarit stíga fyrstu skrefin fer ég alltaf að hugsa um markhópinn - fyrir hvern er skrifað? Og þegar ég er búin að fletta vandlega fyrsta tölublaðinu af Sögunni allri hallast ég að því að blaðið sé skrifað fyrir sæmilega forvitna krakka. Ég þykist vita að fyrir Illuga hafi vakað að vera með fróðlega sögu í knöppu formi og veit fyrir víst að fyrirmyndin er sótt til Svíþjóðar.
Hins vegar ættu sæmilega forvitnir krakkar að fá betur stílaðan texta og þá færi líklega best á því að Illugi skrifaði greinarnar sjálfur. En kannski myndirnar allar og glanspappírinn allur höfði til krakka ... ég held samt ekki.
Og hvað varðar svo hégómlegt atriði sem ritstjórn á málfari og stíl finnst mér sérkennilegt að sjá talað um egifskar eitthvað (sem truflar mig ekki neitt en virðist sannarlega meðvituð höfnun á egypskum sem er normið) og síðan Julius Caesar. Vantar ekki eitthvað upp á samræmið? Kannski er það samkvæmnin í blaðinu öllu að vera með uppreisnarlegan rithátt á sumu og afar íhaldssaman á öðru.
Illugi, hefurðu gengið til góðs ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. mars 2007
Samkeppniseftirlitið reiðir til höggs
Ég starfa í ferðaþjónustunni og mér hefur aldrei dottið í hug að ferðaskrifstofur hefðu samráð. Kannski er ég einfeldningur. Ég hef reyndar ekki skoðað sólarlandaferðir og mér sýnist sem rannsóknin beinist einkum að þeim sem selja þær. Ég á samt minningu um uppsprengt verð á útskriftarferð í menntaskóla þannig að ef maður hrærir í minningunum kemur eitthvað upp á yfirborðið.
Eitt sumarið vann ég mikið fyrir Kynnisferðir, og í sölu á ferðum til útlendinga á Íslandi voru Allrahanda engin grið gefin í dagsferðunum. Þessi tvö fyrirtæki kepptu hvort við annað og við sem unnum hjá þeim vorum stundum stúrin yfir því sjálf að ekki væri hægt að samnýta betur starfskrafta og vagna. Kynnisferðir höfðu (og hafa) reyndar aðgang að miklu stærri markaði af því að þær eru tengdar Icelandair og geta kynnt sig strax í flugvélunum sem flytja flesta farþega til landsins.
Ég varð forviða yfir fréttinni og bíð spennt eftir framhaldinu.
![]() |
Segja að ekkert samráð sé meðal ferðaskrifstofa innan SAF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)