Færsluflokkur: Dægurmál

Við hróflum ekki við klukkunni

Ég hef aldrei upplifað þessa hröðu birtuaukningu eins og nú. Trekk í trekk finnst mér ég hafa sofið yfir mig þegar ég vakna. Svei mér ef mér finnst ekki að við ættum bara að gera eins og hinar þjóðirnar, færa klukkuna til, plata tímann.

Tölvan mín sýndi það sjálfstæði um síðustu helgi.

Þá væri ég allt annars staðar stödd núna.


29% - tæp 40% - upp - niður - út og suður - RÚMUR HELMINGUR SVARAÐI

Ætli allar þessar skoðanakannanir sem eru reknar upp að augunum á okkur flesta morgna eða troðið í hlustir okkar með morgunkaffinu - nema hvort tveggja sé - séu í þökk okkar? Ég er náttúrlega abbó af því að aldrei er hringt í mig og ég fæ engin tækifæri til að mynda ríkisstjórn í símann, en er í alvörunni nokkur þörf á þessum tíðu skoðanakönnunum? Og svo eru þær sjaldnast marktækar því að yfirleitt er úrtakið 800 manns og þar af gefur sig upp rúmur helmingur.

Þetta er bara vísindaskáldskapur.

En samt skoðanamyndandi, við vitum það.

Ég þykist vita að u.þ.b. 300 þúsund íbúar séu mér sammála um þetta, flestir aðrir en starfsmenn Capacents og svo þeir útlendingar sem leggja ekki eyrun við.

Það væri samt gaman að sjá skoðanakönnun meðal þeirra sem horfðu á Húsvíkinginn tala í Silfri Egils á sunnudaginn var ...


Þjóðareign hvað?

Ef allar náttúruauðlindir verða þjóðareign, úps, eru þjóðareign og bara verið að staðfesta það og geirnegla í stjórnarskrá og mannauðurinn er auðlind er þá nokkur útúrsnúningur að segja að þú og ég séum í þjóðareign?

Nei, var bara að velta fyrir mér þessu tuggnu orðum.


Gáta

Og lausnina er ekki að finna fyrir neðan mitti voru skilaboð frá sendanda:

Konurnar eiga sér hús
grátt og loðið sem mús.
Enginn kemst þar inn
nema eineygði biskupinn.
 
Fylgja honum riddarar tveir.
blindir eru báðir þeir.
Þeir leiða hann út og inn

eineygða herrann sinn.

Ég er alveg liðónýt í svona orðaleikjum.

Bókakaup hafa í för með sér bókaeign

Og þar er treginn.

Nei, tregi er fullstórt orð fyrir þetta. Bara kolvitlaust orð reyndar.

Stundum langar mig til að kaupa bækur til að styrkja þann sem skrifaði eða gaf út, aldrei samt aðrar bækur en þær sem mig langar líka til að lesa. Og það er gott að hafa bækur í sem flestum skúmaskotum, eða þannig. Þegar ég kem inn á annarra manna heimili verð ég yfirtaksmikill dóni og leggst á kilina, fer að skoða bókakostinn. Alveg ferleg.

Ég treindi það fram á síðasta klukkutíma að fara á bókamarkaðinn í Perlunni og fór í gær kl. 17:15. Keypti tvær bækur og hlakka til að lesa þær báðar. Á erfiðar minningar um þau skipti þegar ég keypti 22 bækur - og kom því vitaskuld ekki í verk að lesa þær. Einu sinni keypti ég Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar eftir Þórberg Þórðarson í þremur bindum - hún er enn í plastinu.

Jú, víst er vandasamt að eignast margar bækur. Ég er nefnilega miklu duglegri að lesa lánsbækur, þá vofir yfir skiladagurinn. Bókasafnið er sniðið að þörfum mínum.

Ég er samt byrjuð á Stelpunni frá Stokkseyri og ætla að klára hana fyrir 29. mars.


Mjólkurlítrinn á 130 kr. í sjoppu

Og hvað getur neytandi gert kl. 22 á sunnudagskvöldi, neytandi sem þráir ekkert heitara en flóaða mjólk en á enga aðra mjólk - á enga mjólk? Síðasti söludagur var meira að segja þennan sama dag. Þetta var ekki ég, ég á mjög auðvelt með að ulla á móti.

Álagningin er frjáls.


Berfætt á sandölum

Sem ég hjólaði í reykvísku vonskuveðri milli hverfa 107 og 101 áðan - og bölvaði hraustlega meðan lak úr nefinu á mér - ákvað ég að kveikja á útvarpinu í símanum mínum. Fyrir valinu varð Útvarp Saga og umsvifalaust komu Sigurður G. Tómasson og Guðmundur Ólafsson mér í gott skap með rússneskum sögum og öðrum.

Ræræræ.


Debetkort fermingarbarna

Bankarnir mega gefa út debetkort á 14 ára gömul börn, segir í Blaðinu í dag, og foreldrarnir þurfa hvergi að koma þar nærri. Lögfræðingar segja lögin alveg skýr og einhverjir benda á að svona geta foreldrar ekki misnotað fé barna sinna. Ég veit ekki hversu algengt það er.

Spurning mín er: Hvað gerist ef börnin fara yfir inneignina - þrátt fyrir að debetkort séu með betri stoppara en ávísanaheftin voru eru þess engu að síður dæmi að menn eyði umfram efni - og steypa sér í skuldir? Hvern ætla bankarnir að rukka? Eða lengja þeir þá bara í taumnum til að tryggja sér átthagabundna framtíðarviðskiptavini?

Lagagreinin sem Blaðið vísar í, 75. grein lögræðislaga, talar bara um sjálfsafla- og gjafafé, ekki aðferðina við að koma því út. Mér finnst ekki eins og minni hagsmunum sé þarna fórnað fyrir meiri.


Ég held að launaleyndin skipti ekki alltaf alla öllu máli

Fyrir tæpum tveimur árum bað ég þá ferðaskrifstofu sem ég vann mest fyrir um launahækkun. Eigandinn sagðist því miður ekki geta hækkað tímakaupið mitt því að þá þyrfti hann að hækka líka hjá hinum og þessum sem hann nafngreindi. Og ég sagði: Og?

Ég veit að sjálfshælni er ekki til fyrirmyndar en það er kannski í lagi að vita hverjar eru manns sterku hliðar. Og ég henta brjálæðislega vel í skipin (þori ekki út í nákvæmt hrós). En eigandinn vildi ekki hækka kaupið sem var þá rúmar 1.200 kr. í dagvinnu - með orlofi, desemberuppbót, undirbúningstíma, bóka- og fatagjaldi. Atvinnuöryggi er í lágmarki og leiðsögumenn eru teknir af launaskrá á milli ferða ef þær eru tvær stuttar sama daginn, ef við erum t.d. beðin að fara með hóp í útreiðartúr kl. 12 og vera til kl. 16 og svo aftur með hópinn í mat kl. 19 til kl. 23. Dagurinn er undirlagður frá morgni til miðnættis en leiðsögumaðurinn er á kaupi í 2 x 4 tíma. Og ferðarekandanum gæti þótt rausnarlegt af sér að borga manni fyrir að fara út að borða með hópnum.

Eigandinn vildi sem sagt ekki hækka kaupið mitt þótt ég sannarlega vissi um styrkleika minn og færi fram á hækkun. Hann spurði ekki hvað ég gæti sætt mig við, reyndi ekki að koma til móts við mig en sagðist samt vona að ég héldi áfram. Hann spurði því ekki heldur hvort ég myndi þegja yfir því ef svo bæri undir - en það get ég svarið að ég hefði ekki gert það. Ég hefði viljað segja það öllum.

Ég myndi sem sagt vilja hafa frelsi til að aflétta launaleyndinni af sjálfri mér. Núverandi taxti leiðsögumanna er hvort eð er á netinu - og það er greitt eftir honum. Samt er ferðaþjónustan að verða næststærsti atvinnuvegur landsins. En leiðsögumenn og rútubílstjórar eru á skammarlegu kaupi og bera hitann og þungann af starfinu ásamt þjónum, hótelfólki, landvörðum og ýmsu öðru fólki sem á bara að finnast gaman að mæta í vinnuna.

Ekki að ég sé neitt stúrin ... ég vil bara gjarnan aflétta launaleyndinni og fá samanburðinn upp á borðið.


Feti og spínat

Ég er ekki nógu trygglynd - ég sé það núna - til að kaupa sömu vörurnar, sömu merkin, sama magnið aftur og aftur. Það eina sem ég get borið saman núna er kryddolíufetaostur sem hefur lækkað úr 167 í 156 (6,6% lækkun) og 200 g af spínati úr 267 í 248 (7,1% lækkun). Tilfinning mín er sú að þetta sé lækkunin á svona vöru, og meiri á óhollustu.

Hins vegar fór ég í Nóatún í vikunni og þar fannst mér verð hátt, meira að segja á pasta. Og kílóverð á appelsínugulri papriku var 469 kr., humm. Hins vegar keypti ég gómsætt normalbrauð á 324 kr. hleifinn og það var etið upp til agna. Sumt lætur maður fúslega eftir sér, hehe.

Sem ég sit við þessi ritstörf sé ég að Sölvi Tryggvason hefur fengið sömu hugmynd í Íslandi í dag, hehe, og kemst líka að svipaðri niðurstöðu. Það er ekki alveg allt sem lækkaði við virðisaukaskattsbreytinguna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband