Færsluflokkur: Dægurmál

Vændi sér til afþreyingar

Ég fæ ekki betur heyrt en að vændi sér til framfærslu (206. gr.) sé bannað. Hugsanlega merkir það í reynd að þriðji aðili megi ekki hagnast á sölu líkama annars en ég gæti allt eins gagnályktað að vændi væri aðeins leyft sér til gamans, ef maður vildi safna sér fyrir utanlandsferð - eða kannski háskólanámi.

Svo er maður orðinn samdauna orðalaginu að ég hef aldrei fyrr veitt þessu athygli þótt það hafi iðulega borist um.


Nú er mér allri lokið

Veðrið gerir mér lífið leitt. Ég veit að ég má ekki kvarta í Reykjavík af því að það er meiri vetur í öðrum landshlutum, en mér finnst samt hábölvað að hjóla þegar rigningin er lárétt. Það er í raun ekkert sem hvetur mann til að sýna umhverfisvænleika sinn í verki - nema náttúrlega þrjóskan. Skjól og stígar gætu hvatt mig - og styrkt í mér þrjóskuna.

Í gærkvöldi hefur einhver sent á mig vúdú því að ég vistaði merkilegt skjal sem ég er að þýða á tempi og fann það alls ekki aftur, alls ekki, og er ég þó talsvert lunkin við það. Vúdú.

Undanfarið hef ég líka haft svo mikið að gera að ég hlunnfór mig í meira en viku um mínar reglulegu sundferðir sem er hábölvað.

Lengra geng ég ekki í ragninu og er þó af nógu að taka. Hnuss.

                                    http://lrrc3.sas.upenn.edu/popcult/cartoons/DISNEY/                                                                               


Ég er stoltur líffæragjafi

Reyndar vona ég að ekki reyni á það næstu 70 árin eða svo, hehe, en ég nálgaðist líffæragjafakort hjá landlækni fyrir nokkrum árum. Ég er með öndvegisheila, lítið notaðan, milta, bris, lungu og lifur sem ég hef reynt að fara vel með.

Maður á ekki að gantast með svona. Það sem ég vildi sagt hafa er að ég hafði lengi hugleitt að fá mér svona auðkenni ef ég skyldi hálfhrökkva upp af en skilja eftir nothæf líffæri. Fyrir nokkrum árum hringdi ég sem sagt í heilbrigðisráðuneytið, Blóðbankann, á heilsugæslustöð og ugglaust fleiri áður en mér var vísað á landlækni. Þá hringdi ég í landlækni og sú sem varð fyrir svörum ætlaði að senda mér svona kort. Það barst samt ekki þannig að á endanum gerði ég mér ferð út á Seltjarnarnes, hékk í lobbíinu lengi lengi (þetta var í hádegi og kannski allir í mat) en sá svo mér til talsverðrar gleði að svona spjald var í rekka hjá afgreiðsluborðinu og bjargaði mér eftir það sjálf.

Sá stóri galli er á gjöf njarðar að kortið er úr bara sæmilega hörðum pappír og endist þess vegna ekki sérlega vel.

Ergo: ég man ekki hvernig tillagan er sem flogið hefur fyrir undanfarið en spyrjum fólk sem tekur bílpróf hvort það sé til í að vera líffæragjafar og skráum svo svarið í skírteinið. Þannig eru öll kort vel plöstuð og geymd á vísum stað.

Samt vonast ég til að eiga a.m.k. 130 góð ár eftir.


Íslenskunám kennaranema skorið niður

Þetta er aðalfyrirsögnin á Fréttablaðinu í dag.

Mér er minnisstæð saga sem ein vinkona mín sagði mér af starfi sínu í leikskóla. Hún er núna leikskólakennari en var þá ófaglærður starfsmaður (eða hvað ætli það heiti?). Leikskólastjórinn las sögu fyrir börnin þar sem m.a. stóð eitthvað á þessa leið: Anna hlakkaði til að ... en svo hætti leikskólastjórinn að lesa og breytti í: *Önnu hlakkaði svo til ...

Samt heyrist manni yfirleitt fólk treysta í blindni hinu skrifaða orði.

Allir kennarar eru íslenskukennarar þótt þeir kenni önnur fög. Plís, ekki draga úr íslenskukennslunni.


Ég versla ekki við Vífilfell

Hallærisgangur Vífilfells hefur engin áhrif á drykkjar- eða verslunarvenjur mínar. Ég versla ekki við Vífilfell, hætti því mjög meðvitað og markvisst fyrir mörgum árum þegar bróðir minn, sjoppueigandinn, varð fyrir barðinu á fyrirtækinu. Reikningarnir voru svo flóknir að í minningunni var heildsöluverð og svo bættist við skilagjald, vitaskuld virðisaukaskattur, kannski vörugjöld, dróst frá afsláttur og bættist við mánudagsgjald þannig að sæmilega greint fólk sem var vant að reikna út úr svona reikningum til að finna útsöluverðið gafst upp og athugaði verðið í næstu sjoppu. Vífilfell svínaði á honum, kannski bara honum ... því að hann átti að fá sérstakan þriggja tonna afslátt sem við fundum aldrei á nótunum. Flókið, já, og við höfum reynt að gleyma þessu. Sumt gleymist bara ekki alveg.

En reyndar finnst sjálfri mér kók ekki gott á bragðið sem hefur vissulega haft áhrif á drykkjarvenjur mínar.

 Ölgerðin var hins vegar með mjög skiljanlega reikninga.


Jöklarnir toppa allt

Mér þykja fallegustu svæði landsins þau sem skarta jöklum, Skaftafell, Þórsmörk, Snæfellsnes. Nándin er töfrum líkust. Sem leiðsögumaður hef ég líka farið í óteljandi sleðaferðir á Langjökul og siglt á Jökulsárlóninu og hef af hvorugu verið svikin. Einhver eftirminnilegasta tilfinningin er samt þegar ég kom í Þórsmörk í fyrsta skipti eftir að hafa gengið Laugaveginn milli Landamannalauga og Þórsmerkur. Ég hafði heyrt að þetta væri frábær staður þannig að ég deildi í yfirlýsingar manna með svona 50 - en Þórsmörk að áliðnum sumardegi var heillandi.

Þannig var Ísland, og þannig er Ísland, heillandi land.

Því gefur augaleið að ég fagna nýjum Vatnajökulsþjóðgarði - - - en hvers vegna eru 27 í stjórninni yfir garðinum? Verður þetta ekki bara eitthvert ógurlegt kraðak? Í Þingvallanefnd sitja þrír menn og eru þó Þingvellir ekkert slor! Ég hef talsverðar áhyggjur af að þetta verði óskilvirkt og jafnvel of kostnaðarsamt.

Áfram Vatnajökull (áður en hann bráðnar vegna hlýnunar jarðar)!

 

Langisjór


,,Við skulum ekki vera í kjól með vörulit`` - Class 2002

Í trausti þess að Þórhildur lesi þetta í Bush-landi ætla ég að telja upp þá heiðursleiðsögumenn sem slógu saman á létta strengi í gærkvöldi: Magnús Oddsson (ekki ferðamálastjóri), Leifur Björnsson, Virpi Jokinen, Ragnheiður Ármannsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Ursula Giger, Sesselja Árnadóttir, Bryndís Kristjánsdóttir sem lagði til húsnæði og gúmmulaði og fær sérstaka orðu fyrir það, ég sjálf og svo kom síðar Margrét Einarsdóttir og enn síðar Gunnar Guðjónsson.

Heiðursfélagi var Valdimar Leifsson, enda lagði hann ekki aðeins til húsnæði heldur tók líka þátt í að elda matinn.

Og maturinn, jömmí, var mexíkósk súpa sem við muldum nachos út í, dreifðum rifnum osti yfir, slumpuðum sýrðum rjóma í og fleira. Ég geri mér vonir um uppskrift vegna þess að þetta var herramanns matur. Og frúarmanns líka. Og að öðru leyti var líka vel gert við okkur.

Af því að þetta er aðallega rapport um kvöldið tíunda ég það hér að við horfðum aftur (og sumir í þriðja sinn) á myndina sem Bryndís tók í útskriftarferðinni og við hlógum okkur til óbóta. Þar rifjuðust upp Orfie, Atli, Matthieu, Emilie, Beggi, Ólöf, Hermann, Árný, Rakel, Heiða, Reynir, Áslaug, Meike, Óli fimmti, Kristbjörg, Ulf, Per - og Hildibrandur var með síendurtekið hlutverk, hahha. Anna Lydia og Guðný Harbour eru heldur ekki gleymdar.

Svo töluðum við faglega, ehemm, um rútuferðir, gönguferðir, hvataferðir og annað sem ekki má birtast.

Og hér með færist til bókar að Sesselja býðst til að vera í árshátíðarnefnd (aftur) með Gunna og Ursulu. Myndavélin gleymdist heima.

Sjáumst!


Bónus fellur á verðlagseftirlitsprófi Berglindar

Svekk.

Ég ætlaði ekki að kaupa risahraun frá Góu en ég tók samt eftir að það er aftur komið upp í 49 kr. Það kostaði það fyrir lækkun, lækkaði niður í 42 kr. en er sem sagt hálfum mánuði síðar búið að ná fyrri hæð á ný.

Ég bætti appelsínum í appelsínupokann í staðinn í þessari innkaupaferð. Og kílóverð á rauðri papriku er 232 kr. Hvað kostaði aftur paprikan í Krónunni um daginn?


Ég heiti Auðbjörn, er tvítugur töffari - mjór, mjórmjór eða mjórmjórmjór?

Einhverra hluta vegna datt þetta lag í kollinn á mér á Legi Hugleiks Dagssonar í kvöld. Ekki svo að skilja að maður detti 20 ár til baka, þvert á móti er manni fleygt til þess tíma þegar búið er að byggja tívólí við Kárahnjúka og útlenskur auðhringur búinn að sölsa allt Ísland undir sig. Nei, Auðbjörn er gamla útgáfan af nýju staðalmyndinni sem stóð á fjölunum í kvöld, útlitið fyrir mestu og um að gera að pissa í skóna sína fyrir skammvinnan vermi. Vel gert, sannarlega, og tæknimöguleikar í leikmynd og búningum ævintýranlega vel nýttir.

Það var gaman.

En þar sem ég er ekki lengur menntskæla, enginn sérstakur áhugamaður um tónlist eða dansa hafði ég óneitanlega mest gaman af umhverfispólitísku pillunum sem voru notaðar hóflega. Og ég hló sannarlega ekki á sömu stöðum og salurinn.

Lína kvöldsins: Æ, þarna kallinn á borði 5, Júdas!

Leikfélagið mitt heitir Hugleikur. Tilviljun? Aldeilis ekki!


Við hróflum ekki við klukkunni

Ég hef aldrei upplifað þessa hröðu birtuaukningu eins og nú. Trekk í trekk finnst mér ég hafa sofið yfir mig þegar ég vakna. Svei mér ef mér finnst ekki að við ættum bara að gera eins og hinar þjóðirnar, færa klukkuna til, plata tímann.

Tölvan mín sýndi það sjálfstæði um síðustu helgi.

Þá væri ég allt annars staðar stödd núna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband