Færsluflokkur: Dægurmál

Flugdrekahlaup

Mér er gjörsamlega hulið hvernig flugdrekahlaup getur verið stórmál í einhverju landi. En gott og vel, það vísar út fyrir sig. Nú er ég að lesa Flugdrekahlauparann sem fólk er búið að skæla yfir allt þetta ár og ég skæli frekar lítið. Ég skil alveg að flugdrekinn er táknrænn fyrir voðaatburðinn sem bitnar á Hassan snemma í bókinni en þessi titill getur ekki talist góður til að góma lesendur. Kannski var ég þess vegna svona lengi að taka við mér.

Og ég gafst í fyrra upp á Bóksalanum í Kabúl. Án rökstuðnings.

Sótti mér hagfræði fyrir byrjendur á bókasafnið í gær og geri ráð fyrir að eyða sunnudagskvöldinu í þá lesningu ... Örninn er hættur í sjónvarpinu, hehhe.


Tryggingafélagið svínar á mér

Ég er svo ósátt við að tryggingafélagið er búið að skuldfæra á kortið mitt tryggingar til heils árs án þess að vara mig við. Ég hélt að maður fengi alltaf reikninginn sendan heim með meira en mánaðar fyrirvara til að geta sagt upp hjá því tryggingafélagi ef maður teldi sig geta fengið betri samning annars staðar. Og að minnsta kosti ætti ég að fá sundurliðun. Ég bað um að hafa gjalddagann í janúar.

Ekki að það skipti máli hvort maður verslar við .... eða ... í þessum efnum. Samtryggingin er nógu mikil til að neytandanum blæðir alltaf.

Þannig líður okkur alltént.

Þetta snýst ekki um hvort ég hafi efni á 80 þúsund kallinum ...


12 mánuðir eða ár

Vika eða sjö dagar. Sólarhringur eða 24 tímar. Klukkutími eða 60 mínútur.

Skv. tölvuorðabók er sólarhringur á ensku „24 hours; solar day; calendar day“ og allan sólarhringinn „24 hours, at all hours“. Enskumælandi eiga ekki orð fyrir sólarhring sem þeir nota eins og við gerum. Þeir eiga reyndar orð fyrir klukkutíma og ár en brjóta hugtökin samt upp í þessar smærri einingar. Ég skil það ekki, og enn verr skil ég þegar menn tala um að eitthvað standi yfir í sex mánuði frekar en hálft ár, þ.e. á íslensku.

Á ensku er ekki hægt að segja „við Gummi“ - we Gummi? Nei, það er sem sagt ekki hægt. Ættum við þá endilega að fara að segja á íslensku „ég og Joe“ frekar en „við Joe“?

Það er nóg til af spennandi áhrifum erlendis frá þótt við látum vera að ráðast á grunnkerfi tungumálsins (tuttuguogfjórir sjö, 24-7, twentyfour seven).

Kommon!


Í Grapevine var þetta helst:

Útlendingar.

Ég les alltaf Grapevine sem kemur út tvisvar í mánuði á sumrin en einu sinni á veturna. Og nú hef ég greinilega tekið seint við mér því að nýjasta Grapevine er dagsett 1. desember.

Og ég las það fyrst í gærkvöldi.

Kannski átti það ekki að koma mér á óvart, en það gerði það samt, að uppistaðan var andóf og fordómar gagnvart þeim sem hafa áhyggjur af útlendingum á Íslandi. Ég er búin að vera mjög hugsi yfir stöðu útlendinga síðustu mánuðina og ég þekki engan sem fordæmir útlendinga fyrir að koma til Íslands. Hins vegar hafa ýmsir áhyggjur af aðbúnaði útlendinga, kjörum þeirra og að íslenskir atvinnurekendur svíni á þeim.

Að vísu mislíkar ýmsum að geta ekki talað íslensku við strætóbílstjórann og ég hef heyrt af fólki sem hefur hætt við að taka strætó af því að það fékk ekki svör um hvert vagninn var að fara.

Ég hef líka heyrt af fólki sem finnst leiðinlegt að geta ekki fengið svör í búðum og á veitingastöðum.

En ég hef engan heyrt formæla útlendingunum.

Alveg satt.

Og í síðustu viku lenti ég á spjalli við konu frá Litháen sem hefur búið hér í nokkur ár með litháískum manni sínum. Bæði tala íslensku. Henni var nokkuð niðri fyrir þegar hún sagði að íslensk stjórnvöld yrðu að setja reglur um það að skoða sakavottorð útlendinga sem vildu flytjast hingað því að litháísku glæpamennirnir sem hafa komið hingað hafa komið óorði á hina Litháana.

Eru það fordómar að vilja skoða feril fólks sem vill flytjast til landsins?

Mér finnst Grapevine ómissandi rödd í mínum heimi en ég hef aldrei verið ósammála áherslunum eins og nú.


Hiss vikunnar

Ég opna ekki munninn lengi til að þegja en ég gapti af undrun yfir ólátunum á Nørrebro í Kaupmannahöfn. Í Kaupmannahöfn! Lögreglan þaggaði niður í fólki með táragasi.

Næstu læti hljóta því að verða í ... Hafnarfirði, ha?


Sínum augum lítur hver á silfrið (eða Silfrið eftir atvikum)

Ég er mjög hugsi yfir stækkun þjóðarkökunnar.

Við búum orðið í markaðshagkerfi (ég er samt ekki búin með Hagfræði á 100 mínútum sem Tómas mælir með) og verðlagning ræðst þannig ekki af framleiðslukostnaði vöru, heldur kaupgetu fólks. Ef kakan er stækkuð og allir fá hlutfallslega jafn mikið af henni og meðan hún var minni getum við ímyndað okkur að launamaður með milljón fari upp í eina og hálfa og launamaður með 200 þúsund fari upp í 300 þúsund.

Sitja þeir hlutfallslega við sama borð?

Eða þýðir þetta að verðmyndunin tekur mið af launamanninum sem hækkaði um 50% - æ, það gerðu báðir - sem hækkaði um 50% af milljón?

Bónus segist bjóða betur (betur en hvað?). Ég keypti þar í þarsíðustu viku ósmurða innpakkaða kornstöng á 33 krónur. Hún bragðaðist svo vel að ég ákvað að kaupa mér aðra til smurnings í síðustu viku en þá kostaði hún skyndilega 59 krónur. Og ég keypti hana samt!

Er þetta af því að ég bý í markaðshagkerfi og Bónus veit að ég hef raunverulega efni á að borga 59 krónur fyrir vöru sem kostaði 33 krónur viku áður? Er það stóri bróðir sem fylgist með mér ...?


Nei, ég vil alls ekki vinna milljarð

Ekki bara af því að ég hef gjörsamlega nóg fyrir mig að leggja, nei, ekki bara þess vegna, heldur ekki síður vegna þess að mér finnst yfirtaksheimskulegt að einstaklingur, fjölskylda eða þess vegna ætt græði milljarð. Græði milljarð. Getur maður átt það skilið að græða milljarð? Hvort sem í hlut eiga rúpíur eða krónur.

 

Samt finnst mér svo ásættanlegt að söguhetjan í Viltu vinna milljarð? eignist hann af því að hann græddi hann löglega og af sóðafyrirtæki og svo er a.m.k. látið að því liggja að hann ætli að verja peningunum skynsamlega, gefa með sér og svona.

 

Þetta minnir mig á árið þegar ég síspurði fólk hvað það myndi gera ef það fyndi 35 milljónir í svörtum ruslapoka undir steini í Laugardalnum. Almennt fannst fólki ég heldur tíkarleg, að setja bara 35 milljónir í pokann, ekki veitti af 135 eða þaðan af meira, en ég man ekki betur en að flestir ætluðu að hætta að vinna og fara að lifa í vellystingum praktuglega. Ég vek athygli á að verðgildi hefur heldur daprast síðan þetta var, fermetraverð fasteigna var áreiðanlega almennt ekki orðið 100 þúsund kall.

 

Ég vildi a.m.k. verðskulda milljarðinn minn.

 

Kom vel á vondan

Seint í gærkvöldi hringdi síminn og maðurinn í hinu þráðleysinu sagði: „Ég er að hringja út af þýðingu.“ Hann var nýbyrjaður á Falli Berlínar eftir Anthony Beevor og þar sagði eitthvað á þá leið að jólin hefðu einkennst af ... vafningum?? eða lárviðarlaufum (þetta man ég sannarlega ekki) og svo hinni 'hljóðu nótt'.

Hvernig sem setningin raunverulega hljómaði rak mig engan veginn í rogastans og hélt að það væri bara ekkert að. Þá sagði hann: Vita ekki allir að hin hljóða nótt er Heims um ból?

Ég vildi að ég gæti skákað í því skjólinu að ég er hundheiðin - en ég get það ekki. Þótt ég sé sannarlega ekki kristilega þenkjandi á maður þó að þekkja bókmenntavísanir, einkum og sér í lagi þegar manni finnst aldeilis í lagi að gagnrýna til hægri og vinstri.

O jæja.

Svo ætla ég að plögga eins og Siggalára gerir iðulega. Ég fór á afmælissýningu Leikfélags Hafnarfjarðar í gær og sá Ráðskonu Bakkabræðra. Þar var margt öndvegisfólk sem ég þekkti ekki og ég hló mér til óbóta á sýningunni. Gísli, Eiríkur, Helgi ríða ekki við einteyming og ollu engum viðstöddum vonbrigðum leyfi ég mér að fullyrða. Og þar rakst ég óforvarandis á téða Sigguláru.


Addý frænka

Systurdóttirin Arnfríður
Varð að smella inn einni af henni. Hún fermist næsta vor svo að augljóslega er myndin orðin ansi gömul.

Ég synti kílómetrann í gær

Á leið í sund

Ég syndi oft kílómetra, stundum m.a.s. meira. Ég hafði einu sinni þá reglu að ef ég færi á bíl synti ég kílómetra en ef ég færi gangandi eða hjólandi synti ég bara hálfan. En núna er ég farin að synda helst aldrei minna en heilan. Og fara í gufubaðið á eftir. Og nú hefði ég betur gert það kannski þar sem ég er mjög slæm í mjóbakinu (sem aldrei gerist) og Kolbrún systir mín segir að gufan vinni á svoleiðis þreytuverkjum eftir slímusetur.

Kannski hefði ég frekar átt að fara heim og eyða klukkutímanum í að klára „Viltu vinna milljarð?“. En geri það fljótlega.


Fleiri myndir

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband