Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 1. janúar 2007
Nokkur fynd áramótaskaupsins
Ég hló oft ofan í mig yfir skaupinu, síst yfir splatterunum þó. Baugsmálið og Bobby Fischer fannst okkur mjög fyndið, mótmælin lukkuðust vel, Árna Johnsen og Eyþóri gerð hæfileg skil. Jóni Gnarr hefði þó mátt henda í heilu lagi - hvað var það eiginlega? Snerist það að einhverju leyti um útlendinga og öryrkja og stjórnmál eða fékk Jón Gnarr bara að fríspila sig? Ég giska á það síðara. Það er betra fyrir Reyni leikstjóra, en slæmt samt.
Svo leyfi ég mér að giska á að skaupið hafi höfðað meira til fólks undir þrítugu en yfir. Tölvugrafík og tilraunaleikhúsið minnti mig á MindCamp sem ég sá hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og margir leikarar þeirrar sýningar voru einmitt í skaupinu.
Ólyginn sagði mér að skaupið yrði endursýnt, aldrei þessu vant. Má ekki setja feitt bíp þar sem Jón Gnarr var? Er, meina ég?
Svo þakka ég Kaupþingi kærlega fyrir að kaupa stórskemmtilegan leikþátt með John Cleese og sýna mér til skemmtunar kl. 22:30 í gærkvöldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Burtkvaðning Saddams Hússeins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 30. desember 2006
Búnaðarbankinn -> KB-banki -> Kaupþing
Það sem ég er fegin að ég forðaði mér úr mínum gamla banka þarna um árið þegar höfðingjarnir Hreiðar Már og Sigurður skömmtuðu sér sína rausnarlegu kaupréttarsamninga. Þeir drógu þá til baka um tíma en hálfu ári síðar eða kannski ári síðar nenntu fjölmiðlar ekki aftur að tala um ófélegheitin og þá skiluðu þeir öngvu aftur, eins og skáldið myndi segja.
Nei, og viti menn, í Blaðinu í dag er frétt um það að Búnaðarbankinn, æ nei, KB, sé byrjaður með og hyggi á frekari auglýsingaherferð vegna nafnbreytingar. Ja svei, og John Cleese tók að sér að leika og - hahhahha - Benedikt upplýsingafulltrúi sem áður var fréttamaður hjá RÚV segir kvikmyndastjörnuna hafa verið hóflega í launakröfum!
Eiginlega veit ég ekki hvernig ég á að koma orðum að því sem mér finnst. Reyndar held ég að allir hljóti að vera sammála mér (nema kannski Benedikt og kó) um að það sé fáránlegt að bankinn fari í auglýsingaherferð til að breyta KB (les: Kaupþingi banka) í Kaupþing, skælandi starfsmenn í einn dag yfir að vera að hætta hjá KB og hlæjandi næsta dag yfir að vera byrjaðir að vinna hjá Kaupþingi.
Áður en Hreiðar og Sigurður skandalíseruðu í mínum augum var ég reyndar byrjuð að flytja mig frá Búnaðarbankanum yfir í Spron en þeir ráku mig endanlega á braut. Og ef þeir hefðu ekki gert það þá hefðu þeir gert það núna. Má fólk ekki frekar fá hærri innlánsvexti, minni almennan vaxtamun og lægri þjónustugjöld en auglýsingamyndir með Monty Python og jólahauspoka á jólunum? Ég vona að bankarnir sem skila æðstu stjórnendum og hluthöfum milljörðum í hagnað fari að fá alvöru aðhald frá viðskiptavinunum sem fá neikvæða vexti og há þjónustugjöld.
Ég held ekki að Spron sé háheilagt fyrirtæki og vafalaust gæti einhvern hneykslað mig með einhverju hneykslanlegu þaðan en Spron borgar mér a.m.k. 12,1% innlánsvexti (Kaupþing 4,5%) og treður ekki upp á mig ávaxtakörfu á jólunum eða grillbursta þegar ég afmæli.
Ég veit um eina manneskju sem ætlar að kveðja KB á þessum tímamótum og skipta yfir í Spron. Vonandi eru samt fleiri búnir að ákveða það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 29. desember 2006
Maðurinn á bak við bláa skjöldinn
Nú er ég búin að eyða dýrmætu föstudagskvöldi í að lesa 1. bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hún varð innlyksa hér um síðustu helgi - ég á sko ekkert í henni - og það tók mig svolítinn tíma að koma mér í verkið. En ég varð sko ekki svikin, hún var meinfyndin, humm humm.
Og það sem er ekki minna fyndið er að skv. bókatíðindum er leiðbeinandi verð 10 kr. en mér skilst að útsöluverð sé 99 kr. Þetta snýst eitthvað um framboð og eftirspurn í markaðshagkerfi, vinsældir vörunnar og hvað fólk er þá tilbúið að borga fyrir hana.
Allt með öllu held ég að lestur 1. bindisins hafi verið góð upphitun fyrir lestur minn á þýðingu HHG á Frelsi og framtaki Friedmans. Ég held að ég geti bara farið að hlakka til.
Merkilega sem lítið hefur verið fjallað um þetta rit í fjölmiðlum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. desember 2006
Lest milli Reykjavíkur og annarra byggðarlaga
Af því að bróðir minn er að íhuga að flytja á Suðurnesin fór ég í enn meira mæli að velta fyrir mér almenningssamgöngum milli landshluta. Við vitum ekki hvernig strætó gengur á milli Keflavíkur og Reykjavíkur en mér skilst að strætó blómstri á milli Akraness og Reykjavíkur. Hreyfir einhver mótmælum við því? Svo geta menn flogið úr Vatnsmýrinni vestur, norður, austur og til Vestmannaeyja (þegar hvorki veður né skortur á flugumferðarstjórum er í veginum). En ansi oft grípa menn til einkabílsins enda er enginn sérstakur hörgull á honum. Einhverju sinni heyrði ég að í Reykjavík væru fleiri bílar en ökuskírteini.
Lausnin er LEST. Af hverju er ekki talað um lestarhugmyndina í neinni alvöru? Fyrir nokkrum árum var unnin skýrsla um kostnað við að koma upp lest milli Keflavíkur(flugvallar) og Reykjavíkur. Ef ég man rétt var kostnaðurinn reiknaður um 6 milljarðar króna og fyrir vikið var hugmyndin slegin út af borðinu. Nú er talan sjálfsagt hærri vegna áranna sem liðið hafa, en kostar ekki eitthvað álíka að bora Héðinsfjarðargöngin? Tvöföldun á vegum kostar líka nokkra aura og telst arðbær til lengri tíma litið. Nú þegar okkur fjölgar svo ört að við gætum verið orðin um 400 þúsund manns árið 2010 verður lestarhugmyndin æ raunhæfari. Það væri hægt að láta lest ganga milli Reykjavíkur og Keflavíkur, Reykjavíkur og Akureyrar o.s.frv. Lest er fljótgeng og veitir öruggt skjól fyrir misvindasömum íslenskum vetrum - já, og sumrum því að ekki hefur verið hægt að treysta á þau nema undanfarin örfá ár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. desember 2006
Sál í Straumi
Ég man eftir menningarmiðstöðinni Straumi. Meðan hún var og hét var hún dægileg og hafði sál. Ég held að hún hafi í sjálfu sér ekki tapað á nágranna sínum, en álverið er hins vegar milli tannanna núna. Að vonum.
Ég verð að játa að ég er hvorki 100% með eða á móti álveri/um. Ég bý heldur ekki í Hafnarfirði og hef ekki atkvæðisrétt í því máli. En mér finnst alveg frámunalega hallærislegt að dreifa Björgvini Halldórssyni í 8.000 eintökum, og alls ekki málefnalegt. Hvernig getur gjöf af þessu tagi verið málefnaleg? En þótt ég sé ekki í aðdáendaklúbbnum hans Bós hækka ég samt í græjunum þegar kemur að Allt fyrir mig á Baggalútsdiskinum.
Ég skil vel að Alcan ætli að skýra sjónarmið sín og reyna að leggja gott inn hjá Hafnfirðingum en með þessari skrýtnu jólagjöf skutu þeir sig í einhverja löppina.
Og ekki orð um jólakveðjuna frá Dómínós.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. desember 2006
Kona tímaflakkarans
Já, hmm, þrátt fyrir að vera ástarsaga náði hún mér. Fyrst er Clare sex ára og Henry þrítugur, næst þegar þau hittast er hún 12 og hann 28 (eða eitthvað í þá veruna), hennar lífi vindur fram í eðlilegu tímaflæði en hann stekkur fram og til baka. Hún veit það sem hún er búin að upplifa og það sem henni hefur verið sagt, hann hins vegar veit stundum meira og stundum minna.
Og endirinn, ma'r, náði mér gjörsamlega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 23. desember 2006
Verst West Ham?
Já nei nei, eins og Kjartan myndi segja, ég hef engan áhuga á knattspyrnu, ekki einu sinni þótt liðið sé í íslenskri eigu. Já nei nei. Hins vegar eru hvorki Kraftavíkingurinn né Sterkasti maður Íslands íþróttagreinar í neinni alvöru og þess vegna getur maður horft á þá þætti. Og það gerði ég núna svikalaust, reyndar fyrir algjöra tilviljun.
Sætur, þessi Georg Ögmundsson, sérstaklega þegar hann kenndi öðrum um. Nei, í alvörunni, hann var rakið krútt. Svo fannst mér mjög rausnarlegt af Sigfúsi Fossdal að taka að sér að tapa, ekki myndu allir fórna sér svona. Og hann var að auki næstum ósýnilegur.
Nú hlakka ég mest til að sjá Vestfjarðavíkinginn og Sterkasta mann heims - verður það ekki örugglega um jólin líka?
Næsta mál á dagskrá er hins vegar FRIÐARGANGAN. Fáum friðsamleg jól og þó án allrar væmni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 22. desember 2006
Meira af auglýsingum
Ég er þeirrar skoðunar að auglýsingar hafi stundum upplýsingagildi. Ég hendi ekki óumbeðnum auglýsingapósti beint í ruslið (les: blaðagáminn). Mér þykja t.d. auglýsingarnar sem eru lesnar rétt fyrir fréttir á RÚV notalegar og tek örugglega eftir sumum. Hins vegar slekk ég á Útvarpi Sögu þegar auglýsingatímarnir hefjast þar, í og með af því að þeir standa yfir mínútum saman. Ég gæti verið í markhópi Útvarps Sögu, a.m.k. sumra dagskrárliðanna, en auglýsingarnar eru mjög hvimleiðar og stíla inn á fólk sem kann hvorki að fletta í pappírssímaskrá né á netinu. Og hverjir eru það? Ég spyr, engan þekki ég. Svo auglýsir stöðin einfaldar, ódýrar og - hvað? - áhrifaríkar! auglýsingar.
Ég skil svoooooooo vel að Útvarp Saga fjármagnar sig með auglýsingum. Það dugir samt ekki til, ég hvorki hlusta né versla við þá sem ná að eintóna símanúmer í eyrun á mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. desember 2006
Bursta tennur AÐ MINNSTA KOSTI tvisvar á dag??
Neeeeeeeeeeeeeei. Hvernig vogar bankinn sér að auglýsa svona? Einhver banki er að reyna að gera foreldrum greiða meðan hann kostar einhvern dagskrárliðinn (kannski tannsmiði) og lætur einhverja fígúru segja að maður verði að bursta tennurnar a.m.k. tvisvar á dag.
Hey, ég gerði þau mistök í eina tíð, burstaði eins og landafjandi væri á hælum mér. Afleiðingin var að ég burstaði hálfan glerunginn af. Tannlæknirinn minn varð ókátur. Við verðum að bursta nóg og alls ekki of mikið.
Ef við burstum meira en nóg verða tennurnar eins og hundur Pavlovs.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)