Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 8. janúar 2007
Bjálkaorða
Þetta er undarlegt. Allir eru sammála - nema forseti Íslands á hverjum tíma og örfáir orðuhafar - um að orðuveiting sé komin út í öfgar. Nú er ég búin að stúdera listann og sjá að ég þekkti ekki þrjú nöfn. Það er gott, það er þá einhver von til þess að það fólk hafi unnið að þjóðþrifamálum í hljóði og einhverjir orðið vitni að því þótt það hafi farið framhjá mér. Það er verulega indælt.
Hins vegar er verið að veita mönnum orðu fyrir að vinna vinnuna sína. Ef skoðanakönnun yrði gerð myndu jafnvel margir orðuþiggjendur haka við ÓÞARFI þegar kæmi að þessum vegtyllum.
Og auðvitað finnst mér undarlegast - ekki grætilegt því að í raun er mér sama - að Sigurði Einarssyni hjá K-inu þarna sem hefur verið framarlega í því að plokka þjónustugjöld af fólki skuli vera hossað.
Bjálfi, ó bjálki í augum þessara fáu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 7. janúar 2007
Urriðafoss og Ingólfsfjall
Já, þótt mér hafi fram undir þetta þótt Bjarni Harðarson skemmtilegri sagnamaður en pólitíkus get ég ekki annað en kinkað kolli þegar hann talar um Urriðafoss og Ingólfsfjall. Þórustaðanáma (minnir mig að hún heiti) sem er þarna sunnan í fjallinu er hroðalegt umhverfislýti sem enginn hefur talað um annar en Bjarni, a.m.k. svo að mér hafi borist til eyrna. Og Urriðafoss er perla þótt hann sé falinn skammt frá veginum.
Ég á víst ættir að rekja þarna austur eftir þótt ég sé ekki sérlega frændrækin. Hins vegar hef ég auðvitað oft keyrt meðfram Ingólfsfjalli og skemmt mér yfir litla bústaðnum og álfasteinunum. Kannski fyndist mönnum í lagi að farga því af því að umræðan er ekki hávær.
Og nú er svo skemmtilegt að í Silfri Egils er verið að ræða umhverfisvernd - og Alcan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 5. janúar 2007
Burtu með barnabæturnar
Já neinei, áður en Habbý byrjar að skamma mig fyrir neikvæðni ætla ég að flýta mér að segja að ég legg alls ekki til að upphæðinni verði skilað til ríkisvaldsins, alls ekki. Ég veit að í sumum tilfellum er upphæðin ekki svo há hvort eð er. Nei, mér finnst orðið barnabætur fela í sér að einhver hafi orðið fyrir skaða.
Og hver varð fyrir tjóni?
Foreldrarnir fyrir að eignast börnin eða börnin fyrir að eignast foreldra? Þetta er nefnilega fráleitt. Það er ekki fráleitt að tala um örorkubætur því að það er þó nokkur skaði að missa t.d. útlim eða sjón. Það er hins vegar fráleitt að tala um ellibætur eða gamalmennabætur, enda tölum við um ellilífeyri.
Lausnin gæti t.a.m. verið sú að foreldrarnir fengju skattkort, kannski kallað barnaskattkort, með börnum að 18 ára aldri þegar þau verða sjálfráða. Skattleysismörkin fyrir einstakling voru að hækka í 90 þúsund kr. en segjum að þau væru 150 þúsund, þá væri mögulega skynsamlegt að fyrir foreldri eins barns væru þau 200 þúsund, fyrir foreldri tveggja barna 240 þúsund. Þetta er ég reyndar ekki búin að útfæra. Ef foreldrarnir byggju ekki saman og vildu dreifa bótunum fengi hvort um sig skattleysismörkin hækkuð í 175 þúsund.
Næsta vers gæti orðið um meðlag ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 4. janúar 2007
Lengi tekur sjórinn við
Eða svo sögðu menn. Nú vitum við betur.
Merkileg var úttekt Stöðvar tvö á álverinu í Straumsvík. Ítarleg og fróðleg, en að vísu fannst mér fréttamaður hallast að synjun um stækkun. Finnur Ingólfsson var sýndur í því ljósi, hinn ofurkáti iðnaðarráðherra á sínum tíma vegna þess að loks tókst að selja raforkuna. Það var á þeim tíma sem við héldum að sjórinn tæki endalaust við og lögðum líka mest kapp á að selja einhverjum raforkuna.
Mengunarvarnir eru orðnar betri og þess vegna er mengun ekki söm og jöfn og hún var. Hins vegar mengar þessi iðja eins og ýmis önnur, og meira eftir því sem hún verður umfangsmeiri. Landið mætti nota í annað og nú vantar sannarlega ekki vinnu þegar atvinnuleysið er um 1%. Ótraust heimild mín hermir að 1% Hafnfirðinga starfi í álverinu, 250 af 500 starfsmönnum, 250 af 25.000 Hafnfirðingum.
Það var gaman að sjá Ragnar álskalla í fullu fjöri og hann hljómaði skynsamlega. Hann er samt hlynntur stækkun. Og vissulega er á elleftu stundu boðað íbúalýðræði, a.m.k. á elleftu stundu fyrir álrekendur.
En hvernig er svo með landeigendur við Þjórsá? Í blöðum sverja þeir og sárt við leggja að ekki hafi verið ráðgast við þá eða samið en engu að síður er stækkunin komin í farvatn álverslns. Maður hefði haldið að svona stórviðburðir ættu að fara í eitthvert visst ferli, fyrst spurt og samið, svo gert deiliskipulag eða eitthvað, þá farið í framkvæmdir.
Ég hallast að því að ég segði nei ef ég hefði eitthvað um það að segja. Og skilaði Björgvini Halldórssyni til föðurhúsanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 3. janúar 2007
Umhverfisvernd byrjar heima
Að minnsta kosti ætti hver borgari að geta stundað umhverfisvernd, sleppt frauðplasti undir hakkið, skrifað báðum megin á blaðið, skilað dósum og flöskum í Sorpu og breytt kaffikorginum í moltu. Engu að síður vantar góða aðstöðu til að vera umhverfisvænn í Reykjavík. Sorpa er á fáum stöðum og lítið borgað fyrir dósirnar, blaðagámarnir eru stundum fullir eða fjarverandi og engar grænar tunnur til að henda lífrænum úrgangi í. Hjólaleiðir eru fyrir sportista, t.d. er lífshættulegt að hjóla milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og að auki er dýrt í strætó, ferðirnar stopular og óaðgengilegar. Ég er mjög spennt að vita hvernig ókeypis tilraunin á eftir að ganga á Akureyri. Ég er mjög bjartsýn á hana og svo kostar hún bæjarsjóð bara 16 milljónir, held ég að ég hafi tekið rétt eftir.
Svona umhverfisvernd finnst mér skipta máli, ekki síður en Kýótó-ákvæðið.
Og ég verð víst að viðurkenna að í ljósi umhverfisins skil ég ekki almennilega fjaðrafokið út af Alcan-kostuninni á Kryddsíldinni. Ég horfði á hana - nema hvað - og tók ekki eftir kostuninni! Til að kóróna þetta skilst mér að Alcan hafi kostað Kryddsíldina í fyrra líka - augljóslega fé á glæ kastað þar sem fólk leiðir svona auglýsingar hjá sér, hahha.
Ég meina, Alcan er löglegt fyrirtæki, kostun er lögleg og þetta er leiðin sem Stöð tvö fer til að fjármagna útsendingar sínar. Hins vegar er ég enn á því að þetta sé ekki leiðin að jákvæðu viðhorfi Hafnfirðinga og annarra landsmanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 3. janúar 2007
Ofgnótt kaupmáttar og hagvaxtar
Hvað hefur breyst á 10 árum? Jú, kaupmáttur hefur aukist og hjá mörgum svo mjög að stærsti vandinn á jólunum felst í að finna eitthvað sem hægt er að gefa sumum. Einhverjir brugðu á það ráð núna að kaupa geitur hjá kirkjunni til gjafa. Það þýddi auðvitað ekki að pakkinn jarmaði á aðfangadagskvöld, heldur gaf fólk hugmyndina. Hún er svo sem góð.
Í gærkvöldi frétti ég að í Danmörku - þar sem menn eru líka farnir að gefa geitur sökum skorts á skorti - þar sem viðtökulönd eru önnur en á Íslandi hafi menn keypt of margar geitur. Hugmyndin er uppseld. Og hvað er þá til ráða? Að kaupa brunn í fjarlægu landi fyrir 120 þúsund kr. til að vera rausnarlegur við elskuna sína?
Ekki veit ég.
Mér fyndist samt koma til greina hugarfarsbreyting. Mér finnst galið að fólk kaupi og eignist hluti bara til að eignast hluti þótt það langi ekkert í þá. Og það á sama tíma og sumt fólk hefur ekki efni á nauðsynjum. Erum við ekki öll sammála um að slíku sé til að dreifa á Íslandi?
Ég þori ekki að skrifa það sem ég er að hugsa núna en treysti því að lesandinn geti í eyðuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 3. janúar 2007
Ég elska Heimi Karlsson
Bara svona í sjónvarpinu, Íslandi í bítið. Hann spyr fólk svo mikið eftir lausnum: Hvað þarf að hækka mikið? Hverju þarf að breyta? Hvað myndi duga? Ég viðurkenni að hann fær ekki alltaf svör en hann reynir að hugsa í lausnum frekar en vandamálum.
Við erum of gjörn á að velta okkur upp úr vandanum í stað þess að horfa fram á veginn og spyrja hver lausnin gæti verið.
Áðan voru þau Sirrý með Arndísi Björnsdóttur hjá sér sem hyggur á þingframboð fyrir eldri borgara og hann reyndi að fá fram lausnarhugmyndir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Jólaólesning, nýárshorf
Ja, ekki eru allir á eitt sáttir um bækur. Að vonum. Nú er ég búin að lesa Gaddavír eftir Sigurjón Magnússon, skáldsögu svo stutta að hún jaðrar við nóvellu. Hann gerir þau ógurlegu mistök að byggja upp spennu fyrir einhverju sem er ekki. Það frumlegasta og kannski besta er að söguhetjan er drykkfelldur prestur austur í sveitum. Það grátlegasta er tónlistin sem ég giska á að höfundur hafi sérstakan áhuga á en tekst ekki að flétta inn í söguþráðinn.
Ég þorði ekki að viðra þessa skoðun mína fyrr en Kjartan var líka búinn að lesa bókina. Mér heyrðist hann vera sammála mér en kannski er ég að gera honum upp skoðanir.
Svo verð ég að úttala mig um Strákana okkar sem ég sá ekki fyrr en í gærkvöldi. Ég var búin að heyra að hún væri alveg skelfilega misheppnuð, ætti að vera ádeila á hommafóbíu en félli sjálf í allar gryfjurnar. Það er alltaf alveg meinhollt að heyra einhvern óskapnað, þá finnst manni verkið ekki eins slæmt. Ég verð víst samt að játa að mér þótti hún óttalega klisjukennd en verra var þó að persónusköpunin var ræfilsleg - Óttar kemur út úr skápnum á fótboltaæfingu, í musteri karlmennskunnar, og umsvifalaust tekur hann upp einhvers konar náið samband við annan homma, biður alla að slappa af og ætlar að þvo andúð manna af sér í sturtu. Ég veit reyndar ekki hvort hún átti að gerast 1994 eða hvort þarna kom bara fyrir upprifjunarmót manna sem höfðu verið saman í boltanum 1994. Skiptir svo sem ekki miklu máli.
Kannski var eitthvað raunsatt í myndinni, ég þekki hvorugan heiminn, en eru menn í 3. og 4. deild að gefa leiki hægri og vinstri af því að ekki tekst að manna 11 manna fótboltalið á leikjum?
Og myndatakan var svo gleið að maður sá oft ekki hver var að tala og vissi ekki um hvað málið snerist fyrir vikið.
Hins vegar verð ég að segja að mér þótt Lilja Nótt Þórarinsdóttir algjör meistari sem fyrrum fegurðardrottning og núverandi alki. Þegar hún dissaði kærustu bróður Óttars, fyrrum svilkonu sína svo að segja, með því að segja að hún gæti aldrei komist áfram í fegurðarheiminum af því að hún væri ekki nógu sæt var eins og hún væri að hugsa þetta á staðnum og stundinni. Líka þegar Óttar sagði við son þeirra: Hey, ég er nú pabbi þinn, og hún sagði: Hann fór meira að segja í blóðprufu, var Lilja Nótt eins og í góðum spuna. Hún átti fleiri gullsetningar sem ég er of feimin til að skrifa hér en hún er stjarnan sem ég myndi gefa myndinni.
Til allrar sanngirni verð ég þó að segja að mamma Óttars fékk líka góða línu (um rjómann neðst í ísskápnum þegar hún var að farast úr sorg yfir að sonurinn væri hommi).
Nauðsynlegt að horfa á þessar íslensku myndir, humm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Byrgismatur
Byrgismálið er allt sorglegra en tárum taki. Ég hef ekki hugmynd um hvað er satt í þessu máli en ólyginn sagði mér að þrátt fyrir allt væri Byrgið rekið fyrir lítinn pening með miklum árangri. Nú er talað um 180 milljónir frá 1999, innan við 30 milljónir á ári, en áður fannst mér talað um rúmar 200 milljónir frá árinu 2000. Hvað kostar að reka eitt hefðbundið rúm á hefðbundnum spítala? Ég er alveg viss um að sama hvernig á málið er litið er Byrgið ódýrt úrræði sem hefur virkað fyrir marga.
Sama ólygna heimild sagði mér hins vegar líka að Guðmundur Jónsson væri siðblindur, lygi beint upp í opið geðið á fólki og hreinlega vissi ekki hvenær hann færi með rangt mál. Hann er þá veikur, ef þetta er rétt, og á ekki að vera í forsvari fyrir meðferðarstofnun, ekki heldur þótt hún sé meint líknarstofnun og rekin fyrir lítið fé af því að starfsmennirnir eru allir fyrrum vistmenn og ekki hálaunaðir háskólamenn eða viðskiptaspekúlantar.
Í öllu falli finnst mér að við ættum að dæma varlega, líka við sem erum svo heppin að hafa aldrei átt erindi inn á Efri-Brú.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 1. janúar 2007
Villi segir, Villi segir (þessi gamli góði, að eigin sögn)
Fyrir helgi heyrði ég á skotspónum að til stæði að hækka aðgangseyri í sund. Það er nú staðfest. Einhvern veginn finnst mér líka að ég hafi heyrt haft eftir borgarstjóra að hækkunin stafaði af því að
ÚTLENDINGUM ÞÆTTI HLÆGILEGA ÓDÝRT AÐ FARA Í SUND Á ÍSLANDI!
Ja hérna, ja hérna.
Ef það er rétt eftir haft og mönnum þykja það rök hlýtur áfengi að lækka snarlega þar sem útlendingum finnst grátlega dýrt að kaupa sér rauðvínsglas með steikinni.
En kannski heyrði ég bara annað rétt. Kannski finnst borgarstjóranum í Reykjavík afstaða útlendinga til sundlaugarferða ekki gefa honum ástæðu til að hækka gjaldið. Annars gæti maður haldið að bókasafnsskírteinið hækkaði bráðlega í 1.500 - í vissum skilningi er bráðfyndið að maður geti lesið óteljandi margar bækur fyrir andvirði eins teiknaðs Tinna.
Í Finnlandi man ég m.a.s. eftir að hafa fengið ókeypis bókasafnsskírteini - nú deyr maður úr hlátri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)