Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 12. janúar 2007
Álverið hefur ekki tíma til að standa í málaferlum
Álverið hlýtur samt að vera sannfært um að það myndi vinna málaferli, ha, úr því að Hrannar segir að tíma álversins sé betur varið í annað en málaferli? Bara spursmál um tíma. Þess vegna ákveður það að láta líta út sem það stingi dúsu upp í mennina sem var sagt upp - og þeir mega ekki segja frá samkomulaginu.
Ja, ekki finnst mér Hrannar fá prik fyrir góða ímyndarsköpun þarna. Róður Alcans hefur ekki lést við þetta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Fasteignaverð
Já já, það er að bera í bakkafullan lækinn að tala um fasteignaverð en Stöð tvö var rétt í þessu að fjalla um leiguverð fasteigna. Það er náttúrlega skandall hvað fasteignaverð hækkaði skart á skömmum tíma - sem auðvitað kemur fram í leiguverði - en mér finnst að kaupendur eigi líka að vera svolítið þrjóskir. Kannski á mér eftir að hefnast fyrir þrjóskuna mína en ég gerði tilboð í tvær íbúðir í fyrra og ekki gekk saman með okkur. Nú, hálfu ári síðar eru þær báðar enn til sölu og hafa verið nýskráðar nokkrum sinnum. Önnur hefur verið lækkuð niður í það verð sem ég bauð.
Svo veit ég um seljendur sem fengu langtum hærra en þeir reiknuðu með af því að fasteignasalarnir verðlögðu eignirnar og agiteruðu fyrir sölunni. Þegar söluþóknunin er hlutfall af söluverði fá þeir náttúrlega meira ... en ég myndi aldrei fara að gera þeim upp neina græðgi.
Fasteignaverð hefur snarhækkað í mörgum evrópskum borgum á undanförnum árum en mér er til efs að það hafi gerst eins afgerandi og hér - enda innkoma bankanna á fasteignamarkaðinn á haustmánuðum 2004 algjört óráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Næstu dyr við Ísland ...
Ússj, þvílíkt skrípi, þessi fyrirsögn. En skv. Ferðamálastofu vitjuðu okkar 48.153 fleiri ferðamenn í fyrra (og sumir fóru til næstu dyra við Ísland, Grænlands). Við stefnum óðfluga í hálfa milljón, og einhverjir hafa talað um milljón árið 2015. En er það svo gott?
Ég held að við ættum ekki að reyna að fjölga ferðamönnum í óðagoti - inni í tölunni 422.280 eru vel að merkja ekki farþegar af skemmtiferðaskipunum, um 55.000 á síðasta ári - reyna kannski frekar að fá meiri dreifingu, nýta betur kostinn sem við höfum, t.d. í gistingu, og hafa ferðalangana lengur.
Það verður alveg dásamlegt þegar virðisaukaskatturinn lækkar á mat og gistingu og gestir Íslands fá ekki lengur hland fyrir hjartað þegar þeir eiga að borga fyrir sig. Hvatahópunum fjölgar kannski - einmitt á jaðartímum - og verða alveg syngjandi kátir allan tímann.
Þetta er sko framtíðarsýn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Nýi bæjarstjórinn á Akureyri
Mér er sama hvaðan gott kemur en það leggst afskaplega vel í mig að Sigrún Björk Jakobsdóttir sé orðin bæjarstjóri Akureyrar. Hún var reyndar ekki orðin bæjarstjóri þegar hún tilkynnti um að ókeypis yrði í strætó og kannski er það ekki beinlínis hennar framkvæmd. Í mínum augum fær hún samt heiðurinn og ég hlakka til að fylgjast með frekari afrekum hennar.
Og enn spenntari verð ég þegar Reykjavíkurborg sýnir þann metnað að rukka ekki sérstaklega fyrir salíbununa með SVR. Sjáum til, við borgum útsvar - og ég sé ekki eftir mínu - og það er notað til að borga fyrir gatnagerð. Einkabílarnir sem eru keyrðir eftir götunum nýta sér það án þess að borga sérstaklega fyrir kílómetrann eða ferðina - nema að einhverju leyti í gegnum eldsneytið.
Hvað innheimtir sveitarfélagið með fargjöldunum? Einhver sagði 200 milljónir á ári. Hvað spörum við samfélagslega á því að nýta SVR (AVS?) betur en nú er gert? Ég er ekki í færum til að reikna það út en ef við tökum slit á götum, slit á farartækjum, færri umferðarmannvirki og færri slys inn í útreikningana verður okkur varla skotaskuld úr því að fá hagstæða útkomu.
Og hversu hátt hlutfall í tekjum borgarinnar eru 200 milljónir? Hvað kostaði vatnsskaðaslysið á varnarsvæðinu um daginn? Hvað kosta starfslokasamningar ýmissa? Hvað er borgin tilbúin að borga háar skaðabætur vegna spilakassanna?
Já neinei, reynum nú að skoða tölurnar í samhengi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Er kímni gáfa?
Oo, ég er alltaf svo hrifin af þessari fyrirsögn, eða titili eftir atvikum. Ég notaði hann á BA-ritgerðina mína fyrir 12 árum og nú gengur texti ritgerðarinnar að litlu leyti í endurnýjun lífdaga á næstunni. Blaðamaður á Vikunni hringdi í mig í gær og vildi taka við mig viðtal um húmor. Fyndið? Hoho. Ritgerðin var um beittan tilgang húmors í Hvunndagshetju Auðar Haralds.
Ó, þeir tímar.
Niðurstaðan varð sú að húmor hafði meira en skemmtigildi. Fyndið? Ja, það er alltaf hægt að skemmta skrattanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
John Cleese í alþjóðaeigu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Gettu miklu betur
Nú er gósentíð framundan. Ég hef ævinlega haft góðan bifur (eins og við í klíkunni segjum gjarnan) á Gettu betur og vegna trygglyndis held ég alltaf með MS, bæði af því að ég var þar sjálf í skóla og vegna þess að ég kenndi þar líka í eitt ár.
Og nú er sem sagt Gettu betur byrjað að rúlla á Rás tvö. Kjörið að taka til á meðan maður hlustar - og svarar útvarpinu. Jájá, ég hefði getað svarað urmuli af spurningum. Spennt að vita hvernig ég stend mig í kvöld.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Evra pevra
Mér þykir svo vænt um sjávarútveginn að mig langar mest að taka miðin öll í fangið og passa þau þannig. Ég stend í þeirri meiningu að sjávarútvegurinn sé undirstaða hagsældar okkar og er alveg á tauginni yfir mögulegri inngöngu í Evrópusambandið. En það hjálpar kannski ekkert að breiða út faðminn.
Kannski er ég líka á villigötum. Kannski er fjármálaútrásin lykillinn að öllum hagvexti og kaupmætti. Ég þarf að hugsa meira um þetta.
Hins vegar er ég ekki alveg viss um að lestur um hagfræði hjálpi mér mikið - nema ég sé bara komin fram úr fyrstu lexíu og þurfi að fara í flóknari bækur. Ég er nefnilega búin með nokkra kafla í Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt og hann segir bara sjálfsagða hluti. Hann uppástendur að vondir hagfræðingar segi að brotin rúða hjá bakaranum sé góð vegna þess að hún búi til störf. Svo útskýrir hann að góðir hagfræðingar sjái lengra og átti sig á að ef rúðan hefði ekki brotnað hjá bakaranum hefði hann getað eytt peningunum í jakkaföt og þannig hefði frekar orðið til starf í fataiðnaði.
Hvaða meðalhálfvita þarf að segja að brotin rúða sé ekki ávísun á velsæld? Nema þá glerskurðarmannsins?
Þetta minnti mig samt á setningu úr Draumalandi Andra Snæs um það að hagvöxtur minnki við það að einhver skrái sig í skóla, þ.e. hætti í einhverju starfi til að fara í nám. Og þar sem þetta komst nýlega til tals var bætt við að hagvöxtur jykist líka við árekstur sem kæmi fólki á spítala.
??
Ég þarf hvorki að vera hagsýn né húsmóðir til að sjá hvað þetta eru fáránlegir útreikningar á hagvexti. Raunverulegur hagvöxtur hlýtur að felast í uppgötvun nýrra auðlinda, bætts verklags og hagkvæmni í rekstri. Til dæmis er óumbeðinn ruslpóstur ekki hagvöxtur þótt ljósmyndarar fái ónauðsynlegt starf við að taka myndir af leirkrúsum og veggklukkum.
Og hver borgar?
Svo er það evran - á maður að biðja um launin sín í evrum og fara að gera sig upp eins og Straumur - burðarás? Ég er í svo mikilli dílemmu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 9. janúar 2007
Konungsbók Arnaldar
Athygli mín var vakin á nokkru í gær. Í nýjustu skáldsögu Arnaldar Indriðasonar sem ég las skömmu fyrir jól er Halldóri Laxness gerð upp þekking á glæpsamlegu athæfi. Ég gaf því engan sérstakan gaum en sú vangavelta kom sem sagt upp í gær hvort þetta mætti yfirleitt. Kannski ályktar maður fullfljótt að allir geri sér grein fyrir að sagan er skálduð - kannski les þetta einhver eftir segjum 20 ár sem staðreynd.
Hvað ef einhver rithöfundurinn léti t.d. stjórnmálamann fremja glæp í skáldsögu? Stela ... fiskikvóta eða sölsa undir sig kvótann á veraldarvefnum? Fremja morð? Breytast í flagð undir fögru skinni? Lofa einhverju og svíkja síðan?
Humm humm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. janúar 2007
Mogginn er svo góður
Hvað í veröldinni hangir á spýtunni? Af hverju skaffar Mogginn okkur pláss á veraldarvefnum? Hvað vill hann fá í staðinn? Ég er búin að hafa áhyggjur í heilan mánuð ... og hef ekki borgað túskilding með gati. Svoleiðis rekur sig ekkert fyrirtæki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)