Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 17. janúar 2022
Klíníkin og Orkuhúsið
Ég er búin að vera að bíða eftir þeirri spurningu frá fjölmiðlamönnum hvort heilbrigðisstarfsfólk í einkageiranum sem er núna lánað Landspítalanum fái ríkislaun meðan það er í láni. Segjum að hjúkrunarfræðingur í liðskiptaaðgerðum Klíníkurinnar fengi 1.000.000 kr. á mánuði (algjört gisk) en sambærilegur hjúkrunarfræðingur fengi 600.000 hjá Landspítalanum - heldur sá fyrri milljóninni og borgar þá Klíníkin mismuninn?
Á Twitter sá ég loks örla á þessari spurningu.
Ef 1.000.000 kr. hjúkrunarfræðingurinn heldur sínum launum, hvað finnst þá 600.000 kr. hjúkrunarfræðingnum sem þarf jafnvel að skóla 1.000.000 kr. hjúkrunarfræðinginn og kenna á búnaðinn?
Er boð Klíníkurinnar eins göfugt og húrrahrópin gefa okkur tilefni til að halda?
Með þessum vangaveltum tek ég auðvitað sénsinn að fólk haldi að ég vanþakki boð einkageirans en ég held að atgervisflóttinn á þjóðarspítalanum hangi saman við laun og vinnuálag, já, og kannski ekki nógu góða stjórn spítalans.
Ókei, þetta eru bara vangaveltur, ég þekki ekkert til á LSH ... en einmitt þess vegna væri gott að fá spurningar frá fjölmiðlunum og svör frá þeim sem hafa þau á takteinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. janúar 2022
Þriðja æviskeiðið
Í minni ætt er langlífi og ég reikna með að verða háöldruð og heilsuhraust. Ég veit að það er ekki á vísan að róa en ég vona að ég verði fjörgömul og, já, heilsuhraust. Eftirlaunaaldur hefst á bilinu 67-70 ára hjá launþegum og eftir það getur maður átt 30 góð ár. En ég ætla ekki að ögra æðri máttarvöldum heldur segja í þriðja sinn, í fullri auðmýkt, að ég vonast til þess. Ég geri auðvitað sitthvað til að auka líkurnar, svo sem að hreyfa mig og umgangast gott og skemmtilegt fólk.
Ein fyrirmynd sem er áhugavert að líta til er Stella í Heydal, nú áttræð og búin að reka ferðaþjónustu við Ísafjarðardjúp síðan hún hóf töku eftirlauna.
Og það er gaman að segja frá því að við í gönguhópnum Veseni og vergangi ætlum um hvítasunnuna að gista í Heydal og ganga yfir Glámu.
Ég sendi ykkur póstkort ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. janúar 2022
Handboltalandslið karla
Sú var tíðin að ég gat romsað upp úr mér nöfnum landsliðsmanna (karla) í handbolta og jafnvel fótbolta. Í gær horfði ég á spennandi leik íslenska liðsins gegn því portúgalska en nú þekkti ég bara Björgvin Pál og Aron í sjón, þekkti nafnið á Gísla Þorgeiri og lagði Sigvalda og Viktor Gísla á minnið.
Ég veit að ég er ekki ein um að upplifa kynslóðaskiptin.
Í næstu leikjum ætla ég að læra fleiri nöfn, númer og andlit. Það er nú einu sinni mitt sérsvið, a.m.k. í fjallgöngum með mörgum ókunnugum.
Áhorfið framundan kemur í stað allra matarboðanna sem ég ætlaði að halda í janúar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. janúar 2022
festi, um festi, frá festi, til festar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. janúar 2022
Je suis atvinnulíf
Ég sé fólk skrifa að atvinnulífið megi fokka sér þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa áhyggjur af efnahagslífinu af því að margir séu frá vinnu vegna veikinda, einangrunar eða sóttkvíar.
Ég skil ekki svoleiðis skoðanir. Ég segist vera atvinnulíf en samt vinn ég hjá hinu opinbera. Ég hef hins vegar verið verslunarmaður og leiðsögumaður og svo verktaki við textarýni. En þótt spítali sé rekinn af ríkinu er hann atvinnulíf sem þarf að halda gangandi. Og starfsfólk þar þarf að komast í búðir, með börn á leikskóla, um ruddar eða saltaðar götur. Og ef atvinnulífið má fokka sér hlýtur allt að fara í hægagang og enda síðan með óbilandi kyrrstöðu.
Þess vegna er ég #teamatvinnulíf og skil ekki þá sem sjá og upplifa atvinnulíf og veikindadaga sem svart og hvítt.
Við hljótum að vilja finna milliveg og þræða hann svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. janúar 2022
#égtrúi
Ég hef áður sagt að ég geti ekki sagt setninguna: Ég trúi þolendum.
Ég trúi samt að þolendur séu til, að þeir séu margir, þeir hafi ekki kært, þeir hafi bælt niður alls kyns tilfinningar, fundist þeir standa einir í baráttunni og ég er algjörlega sannfærð um að margir þolendur hafi átt erfitt líf og svo styttra líf en til stóð.
Ég stend með þolendum. Það er setning sem ég get sagt og staðið með.
Ég er líka sannfærð um að næstum engin manneskja lýgur upp einhverri sögu um hegðun valdamikils fólks, fylgir henni eftir og stendur með henni alla leið. Ég trúi að erfiðleikarnir við að ljúga þvílíku upp trompi einhverja meinta þórðargleði.
Ég trúi að við séum á tímamótum núna. Breytingar verða ekki án aðgerða og þær eru ekki sársaukalausar. Það er undir okkur sjálfum komið, öllum á hliðarlínunni líka, að gæta þess að byltingin sem við höfum horft upp á í vikunni koðni ekki niður. Fjölmiðlar spila stóra rullu því að þeir eru með áhorf, lestur og hlustun en við sem höfum sloppið betur í gegnum lífið berum líka ábyrgð á samborgurum okkar.
Ég á glettilega erfitt með að skrifa þetta á mína lítt lesnu og hljóðlátu bloggsíðu vegna þess að völdin níðast á fólki með skoðanir sem eru líklegar til að breyta kerfinu og afvalda valdamesta fólkið. Og ég vil ekki verða útsett.
Almáttugur, hvað það hlýtur að vera erfitt fyrir þolendurna að stíga fram og skila skömminni. Ég stend með þolendum og kannski á ég eftir að treysta mér seinna til að segja það hærra.
Sem ég er að fara að birta þetta rifjast samt upp fyrir mér árið 2007 þegar ég leyfði mér hér að hafa efasemdir um bankavöldin sem hreyktu sér fyrir takmarkalausa snilld sína. Ég er hófsöm í orðavali en samt birtust einhverjir Jóar og Stjánar og Stebbar í kommentakerfinu og báru á mig öfund. Þeir komu ekki fram undir nafni en fannst samt eðlilegt að væna mig, sem þeir vissu engin deili á, um að öfunda dúddana sem voru þá mest áberandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 6. janúar 2022
Bara ef það kemst upp ...
Eins og á við um marga aðra er mér brugðið við að lesa um atburð sem varð í heitum potti fyrir rúmu ári. Ég hef, út frá málvitund, ekki getað sagt setninguna: Ég trúi þolendum, en ég get sagt að ég trúi frásögn Vítalíu. Ég trúi að hún sé þolandi. Þeir fimm karlar sem hafa verið orðaðir við brot gegn henni hafa líka allir gengist við því eða þannig skil ég það þegar þeir víkja allir úr störfum og stjórnum.
Ég óttast samt að þeir geri eins og norsku Exit-gaurarnir, noti síðan peninga sína og völd til að snúa sig út úr þessu, en mikið innilega vona ég að þetta marki straumhvörf í baráttu gegn ofbeldi.
Mannskepnan er margs konar og ég er ekki svo bjartsýn að halda að glæpir verði upprættir, bara aldrei nokkurn tímann, ekki frekar en að allir verði siðlegir og kurteisir einstaklingar. En af framhaldi þessa máls ræðst hvernig þolendum mun reiða af til lengri tíma. Og hvort þeim fækki.
Enginn þekkir annan til fulls en ég fullyrði að ég þekki ógrynni geðugra karla sem koma vel fram við fólk. Enginn í baráttuhug heldur öðru fram. Baráttan gegn ofbeldi snýst bara um baráttu gegn ofbeldi og ofbeldismönnum.
Það sem ég hnýt um í umræðunni eru orð stjórnarformanns Íseyjar sem höfð voru eftir henni á Vísi um einn af gerendunum:
Við vissum af þessu strax í haust þegar þetta kom á samfélagsmiðlum og við tókum það mjög alvarlega. Þá var gert samkomulag við hann að ef það yrði eitthvað meira úr þessu, kærur eða eitthvað slíkt þá myndi hann óska eftir leyfi.
Í kvöldfréttum RÚV sagði hún að þau hefðu ekki getað brugðist við orðrómi. Nei? En gerandinn, er hann bara sekur ef það kemst upp um hann? Braut hann ekki á henni ef hún hefði veigrað sér við að tala? Og hefði hann þá mátt halda óáreittur áfram hjá Íseyju þótt hann hefði gert nákvæmlega það sem hún ber á hann og hann veit að hann gerði henni?
Það er nefnilega þessi setning: Saklaus uns sekt er sönnuð - hún er svolítið að missa slagkraftinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 3. janúar 2022
Áramótaskaupið 2021
Það væri eiginlega fljótlegra fyrir mig að telja upp atriðin sem mér þóttu ekki góð en að tíunda þau sem mér þóttu vel heppnuð í áramótaskaupinu. Ég hefði að vísu viljað sjá fleiri pólitísk atriði og aðeins færri um covid en ég held að ég sé í minni hluta þannig að ég geri mig ánægða með hitt af því að atriðin voru fín.
Þau sem hittu allra mest í mark hjá mér voru því pólitísku atriðin: Lilja Alfreðs, Birgir Þórarins, Sigmundur Davíð og Inga Sæland. Freyr Eyjólfsson var óborganlegur Jakob Frímann á hljóðfærinu. Ég hef sérstakt dálæti á Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Gunnari Hanssyni. Tónlistaratriðin í upphafi og lokin þóttu mér vel heppnuð. Líka endurgerð á lagi Gagnamagnsins (Halldór Gylfason og Helga Braga Jónsdóttir).
Ég er fyrir löngu búin að átta mig á að mér finnst skaupið betur heppnað ef leikarar eru fleiri, og þá beitur sniðnir að hlutverkunum hverju sinni, en ef þeir eru færri og þurfa þá að bregða sér í hvers manns líki. Hér eru skjáskot af nokkrum góðum atriðum.
Kvíðapróf eða covid-próf?
Einföldu ráðin þegar maður fer til útlanda.
Kristín Þóra líkari Lilju en Lilja sjálf. Og svo kom geggjuð sena úr Brennu-Njálssögu.
Ég þekki ekki þessa fínu leikkonu.
Lífsýnin send sjóleiðis til Danmark - værsågod og mange tak.
Ég þekki að vísu ekki svona geðvonda náttúruhlaupara en atriðið var gott.
Squid Game - við horfum alltaf með kóreska talinu, haha. Veit heldur ekki hvaða fína leikkona þetta er.
Ekki hægt annað en að hlæja að flokksgæðingnum.
Enginn smálistgjörningur.
En fyrirgefið, er ekki árið 1848?
Þið þekkið hann Jakob!
Þið þekkið hann Birgi.
Only Fans!
ÆÐI. Ég entist ekki til að horfa á heilan þátt af Æði í haust en annars er ég mikill aðdáandi þeirra, sem sagt í viðtölum og leiknum auglýsingum.
Og lokalagið var líka æði:
Það er að æra óstöðugan að birta svona mörg skjáskot og mörg aðdáunarupphróp en þýðir samt ekki að mörg önnur atriði hafi ekki verið fín. Skaupið var mjög gott eins og mér finnst yfirleitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. janúar 2022
Drykkja eftir Thomas Vinterberg
Ég á ekki orð til að lýsa hrifningu minni á Drykkju eftir Thomas Vinterberg sem var á RÚV í gærkvöldi. Fjórir reffilegir karlar, þrír á sextugsaldri með engin börn eða uppkomin og einn um fertugt með ung börn, kennarar í framhaldsskóla, fá þá dillu í höfuðið að gera tilraun sem felur í sér að þeir eru með 0,5 prómill áfengis í líkamanum alla virka daga til kl. 20 á kvöldin. Þeir kaupa sér áfengismæli til að fylgjast með og skrásetja árangurinn á sérstökum fundum. Já, nú hætti ég beinni lýsingu því að þetta hljómar svo óáhugavert en almáttugur minn, myndin var svo skemmtileg, svo dönsk og svo stútfull af tilfinningum að hún ætti að vera skylduáhorf.
Rétt áður las ég bók Mána Péturssonar, Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi, sem ég mæli alveg með að menn lesi en helst fleiri saman og ræði kaflana. Ég er mikill aðdáandi Mána í útvarpinu fyrir að vera skýr og skorinorður, og ég held að hann sé eins hreinn og beinn og hann segist vera, en hans beittu og hnitmiðuðu kaflar eru einföldun eins og hann veit sjálfur. Stundum rekast heilræðin á, sbr. það að maður á að segja hug sinn allan og vera heiðarlegur en líka hlusta meira en tala. Ókei, ég sé að þetta virðist ekki rekast á en lesið bara bókina og þið sjáið það. Málið er bara að Máni ætlar sér ekki að bjarga öllum (karl)heiminum á 109 blaðsíðum, hann leggur fyrst og fremst til að við komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Og ég tek hatt minn ofan fyrir honum og hans miklu sjálfsvinnu í gegnum tíðina.
Aftur að myndinni. Ef einhver lesandi skyldi ekki horfa á hana verð ég að segja að tilraun félaganna brotlendir og þeir sjá að sér. Margt annað gerist sem gerir áhorfið þess virði þótt ég sé búin að ljóstra upp um það að þessir fjórir herrar gátu ekki haldið sér mjúkum allan vinnudaginn.
Meðan ég horfði á myndina minntist ég manns sem dó fyrir allmörgum árum á besta aldri. Ég þekkti hann sem unglingur og þekkti hann ekki vel en hélt að ég hefði aldrei séð hann undir áhrifum. Á daginn kom svo einmitt að ég hafði aldrei séð hann edrú, og fæstir.
Áfengisneysla í óhófi er fokkings skaðvaldur, fólk getur auðveldlega misst stjórn á hófdrykkju og flestar fjölskyldur, kannski allar, þekkja einhvern sem er í vandræðum. Þess vegna lít ég meðfram öðru á þessa mynd sem innlegg í forvarnir.
En aðallega var hún svo skemmtileg!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. desember 2021
Ekki sprengja í óhófi
Það að kveikja ekki í flugeldum er ekkert mótlæti fyrir mig þar sem ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á sprengingum. Ég get því trútt um talað þegar ég segi: Ekki sprengja.
En ég sá pistil á Facebook með góðum rökum um hvers vegna við ættum ekki að menga umhverfið og hræða dýr. Til vara vil ég segja: Ekki sprengja í tíma og ótíma. Takið mark á því þegar fólk varar við slæmum áhrifum á dýr, alls konar dýr. Takið mark á því þegar fólk talar um að börn hrökkvi upp af værum svefni. Takið mark á því þegar fólk talar um hvernig flugeldar menga umhverfið og stytta lífaldur jarðarinnar sem við búum saman á.
Ég sá aðra færslu í gær þar sem karl bað aðra karla á Facebook-síðunni Pabbatips að sleppa flugeldum en styrkja björgunarsveitirnar á aðra vegu ef hvatinn væri að láta gott af sér leiða. Pabbarnir sem höfðu hæst í svörum strengdu þess heit að kaupa tvöfaldan skammt, bæta við köku, láta bílinn vera í gangi á meðan og keyra um á nagladekkjum.
Ókei, ég varð mjög hissa á því að menn segi svona hluti og það undir nafni en sé þá að mótspyrnan er enn talsverð. Það er ekki eins og menn séu bara svona áhugasamir um að sjá himininn ljómast upp - sem ég skil að geti verið gaman - þeir eru líka forhertir og algjörlega blindir á þá glötun sem þeir flýta fyrir. Kannski eyðist jörðin sama hvað við reynum en ég er hissa á að sjá menn - sem líklega eiga börn ef þeir eru á Pabbatips - sem er slétt sama um hvernig börnum þeirra reiðir af á jörðinni.
En ég segi aftur: Vinsamlegast hugsið um afleiðingarnar af skammtímagleði. Skjótum fáum flugeldum og njótum þeirra mikið og vel á meðan. Virðum ferðafrelsi dýra. Virðum svefnró barna. Virðum jörðina okkar og framtíðina.
Gleðilegt nýtt ár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)