Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 14. febrúar 2022
Guggan verður áfram gul ...
Mér líður eins og Verbúðin haldi áfram með tíðindum dagsins.
Af hverju er ekki búið að breyta lögum um stjórn fiskveiða?
Af hverju erum við ekki komin með nýja stjórnarskrá?
Er orkan komin í einkaeigu? Hvað með jöklana?
Ég hef það sjálf gott en við gætum öll lifað í vellystingum praktuglega og þyrftum ekki að vera með undirmannað heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Við gætum haft boðlega vegi alls staðar, göng eftir þörfum og 30 stunda vinnuviku ef við skiptum aðeins jafnar.
En Guggan skipti litum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 10. febrúar 2022
Gróði bankanna
Bankarnir hreykja sér af góðum hagnaði og arðgreiðslum. Fjölmiðill spyr: Getið þið ekki látið eitthvað af hagnaðinum nýtast kúnnunum ykkar, viðskiptavinunum sem borga háa útlánsvexti en fá lága innlánsvexti?
Bankastjóri: Við erum í samkeppni alla daga.
Fréttamaður: ...
Bloggari: Það er bara engin lógík í því að vextir á sparifé séu í kringum 1% en vextir á skuldum allt að 14%, kannski enn hærri. Ég hef ekki nennt og nenni ekki heldur núna að reikna út vaxtamuninn í prósentum, allt læst fólk sér að hann er fáránlegur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. febrúar 2022
Fólkið í kirkjugarðinum
Dreptu mig ekki, hvað Rás 1 er að endurspila skemmtilega þáttaröð seinni partinn á laugardögum. Flest munum við gleymast þegar við verðum horfin yfir móðuna miklu þótt við verðum laufblöð á einhverjum ættartrjám og skiljum jafnvel eftir okkur fingraför á internetinu sem munu varðveitast sem gjálfur í hafi. En Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir spæjaði um legsteina í Hólavallakirkjugarði og las sér til um suma hina látnu og gröfnu. Afraksturinn var spilaður á Rás 1 í fyrrasumar en ég heyrði fyrst einn þátt um daginn fyrir tilviljun.
Og í gær var þáttur um skáldin Jóhann Gunnar Sigurðsson og Sigurð Breiðfjörð sem ég las um báða í íslenskunámi mínu á síðustu öld. Hér bætir Þorgerður óskaplega miklu við æviferilinn hjá þeim báðum og gerir það svo vel að maður næstum hjólar framhjá viðkomustaðnum eða gleymir að maður sé að skúra.
Jóhann varð 24 ára en Sigurður 48 en samt komu þeir miklu í verk ... já, eins og við öll þótt við yrkjum ekki ódauðleg harmkvæði eða verðum dæmd til 20 vandarhagga fyrir tvíkvæni ...
Ég elskaði lífið og ljósið og ylinn.
Nú liggur það grafið í djúpa hylinn.
Og vonirnar mínar, sem voru fleygar,
sumar dánar, en sumar feigar.
JGS
Ástin hefur hýrar brár
en hendur sundurleitar,
ein er mjúk en önnur sár,
en þó báðar heitar.
SB
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. janúar 2022
Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann
Ég veit ekkert um SÁÁ, ég þurfti meira að segja að fletta því upp núna til að sjá hvar þau væru til húsa. Ég trúi að samtökin hafi hjálpað mörgum að brjótast út úr vítahring og verið lífsbjargandi, eins og það var orðað í Vikulokunum í gærmorgun.
En ég á alkóhólskemmdan bróður sem hefur verið í einhverjum samtökum, AA og líklega víðar. Einhvern tímann fyrir mitt minni var ég með í bíl að keyra hann á Vog. Hann drekkur ekki lengur áfengi en hann er núna narsissisti og búinn að ræna, rupla og ljúga sig frá okkur systkinunum. Kannski var hann alltaf narsissisti en kannski var sjálfhverfan alin upp í honum í einhverjum samtökum. Ég þekki sjálf enga jafn sjálfselska manneskju og hann og ég þekki engan annan vel sem hefur verið í sjálfshjálp í 40 ár. Mín mistök í 30 ár voru að halda að hægt væri að hjálpa honum til að verða almennileg manneskja. Hann hefur bara engan áhuga á því, hann vill bara mergsjúga og blóðmjólka fólkið í kringum sig. Allir meintir vinir hans síðustu þrjú, fjögur árin eru fólk sem þekkir hann ekki í raun vegna þess að eins og siðblindra er háttur getur hann komið vel fyrir í skamma stund.
En hann drekkur ekki lengur áfengi og hefur lengi haldið sig frá því. Er þá áfengisvarnastarfið ekki búið að standa sig vel?
Hann var drykkfelldur á æviskeiðinu 11-24 ára og það er tímabil sem ég man ekki gjörla eftir nema svona skítsæmilega síðustu fimm þeirra. Hann er sem sagt búinn að vera þurr alki megnið af fullorðinsævi minni, búinn með sporin, hefur sótt fundi ... en ekki bætt sig. Mesti harmurinn er að mamma og pabbi voru alla tíð á nálum yfir að hann félli og hlóðu þess vegna undir hann.
Kannski eru SÁÁ lífsbjargandi samtök en þau björguðu mér ekki frá því að blindast af fjölskyldukærleik gagnvart snarveikum bróður. Engu sé ég meira eftir í lífinu en að hafa trúað lygunum úr honum. Ég réð bara ekki við ástandið og vissi ekki að ég væri hjálparþurfi. Nú er hann bara ekki lengur í lífi okkar systkina og það er blessun svo langt sem það nær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. janúar 2022
Miskunnarlausi Samverjinn
Vá, hvað spennumyndin sem RÚV sýndi fyrir hálfum mánuði var spennandi. Mér fannst hún vel leikin og það af leikurum sem ég þekki ekki sem er sérstakur bónus. Náunginn sem myndin hnitast um er forhertur glæpon en um leið með undursamlega bjarta og djarfa ásjónu sem fólk hlýtur að falla fyrir þangað til ysta byrðið flagnar af.
Já, hann er auðvitað siðblindur. Sumt var vissulega ótrúverðugt en á hinn bóginn brást fólk við eins og maður myndi reikna með hjá sjálfum sér. Hver fer ofan í myrkvaðan kjallara í húsi sem hann þekkir ekki og kveikir ekki ljósið? Hvaða smákrimmi fer með mikilvægar upplýsingar til lögreglunnar og reiknar með að sér sé skilyrðislaust trúað?
Nei, það gekk vel upp í myndinni.
Hárin rísa og ef þið eruð fyrir þess háttar smáspennu í einn og hálfan klukkutíma eru enn tveir og hálfur mánuður til stefnu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. janúar 2022
Skatturinn: Framhaldssaga
Ég hef sagst ekki skilja stofnunina Skattinn. Ég vil ekki skulda, ég vil ekki svíkja undan skatti en ég vil að hlutir séu skýrir og verkferlar einfaldir. Ég hugsa að ég eigi mörg skoðanasystkini í þessu.
Í vikunni fékk ég sem sagt langt, þurrt og lagakrækjulegt bréf um að ég hefði vantalið fram verktakatekjur á árinu 2020. Ég skulda skatt af því að ég setti í samtölureit ranga tölu en allar tölurnar að öðru leyti voru réttar. Viðskiptagreindu fólki ætti ekki að verða skotaskuld úr því að leiðrétta það án þess að prenta út langhunda í Vestmannaeyjum og senda fótgangandi í Hlíðarnar, næstu götu við Skattinn á Laugaveginum.
En hvað gerðist í dag?! Ég fékk hnipp frá island.is og þar beið mín þetta tilskrif:
Engar frekari skýringar eru á þessum útborgaða virðisaukaskatti. Ég er ekki í virðisaukaskattsskyldum rekstri, hef hvorki rukkað né greitt virðisaukaskatt. Og vitið þið við hverju ég býst næst? Að eftir ár fái ég harðort bréf frá Skattinum um að ég skuldi 19.794 kr.
Viðbót: Í svefni rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerðar á bíl 16. nóvember 2021. Í skýringum með innborguninni er ekkert sem bendir á það. Hins vegar er ekki hægt annað en að mæla með Allir vinna - þá fær maður ÓVÆNTAN glaðning tveimur mánuðum seinna.
Dægurmál | Breytt 27.1.2022 kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. janúar 2022
Gervigreind
Ég er mjög hrifin af gervigreindarhugmyndinni og hef góða reynslu af hugbúnaði sem breytir tali í texta. Svo erum við með heimabankana, stafrænu myndavélarnar, sjálfvirka opnara, afgreiðslukassa í búðum og bókasöfnum - og þvottavélar. Og þá upphefst argið hjá mér. Ég á nýja AEG-þvottavél sem tæmdi sig ekki í síðasta þvotti. Ég tók eftir að affallsleiðslan (veit ekkert hvað hún er kölluð) hafði losnað þannig að ég festi hana aftur en þá var andskotinn þegar orðinn laus.
Og nú er ég með blautan þvott í þvottavélinni sem ég get hvorki sett aftur af stað né opnað tromluna til að taka þvottinn út og bara vinda, a.m.k. þangað til ég finn út úr rest.
En uppþvottavélin sem er a.m.k. 10 ára, sennilega 20 ára, malar eins og nýstrokinn köttur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. janúar 2022
Getuleysi Skattsins
Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu.
Ég taldi fram of litlar verktakatekjur fyrir árið 2020. Ég var hluta ársins í námi og með svolitlar verktakatekjur en ekki fastar launagreiðslur. Svo taldi ég fram og taldi mig gera það allt rétt.
8. desember sl. fékk ég póst frá Skattinum. Hann var dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 30. nóvember sl. Þar var mér gefið að sök að hafa talið of lítið fram og vísað í upplýsingar sem ég gaf sjálf upp í skattskýrslunni. Í einn reit hafði ég skrifað vitlausa samtölu. Ég er ekki vitlaus, ekki einu sinni í tölum, en framtal er nánast það leiðinlegasta sem ég geri þannig að ég kastaði aðeins höndunum til þessa smáræðis.
Ég gengst strax við mistökunum. Nokkrir tölvupóstar fara á milli mín og starfsmanns Skattsins. 7. janúar sl. sendi ég nýja rekstrarskýrslu. Núna áðan, 24. janúar, tek ég úr bréfalúgunni gluggapóst frá Skattinum þar sem mér er gert að greiða meiri skatt, samt ekki nein krónutala nefnd. Sá póstur er dagsettur og póststimplaður í Vestmannaeyjum 17. janúar. Undir skrifar starfsmaður staðsettur á Laugaveginum. Mér er gefinn kostur á að andmæla þessari viðbót sem ég var búin að gangast við að skulda.
Ég skil ekki þessi vinnubrögð. Ég skil ekki af hverju ég fæ bréfpóst sem silast um hverfin og ég skil ekki af hverju ég var ekki bara spurð hvort ég gæti hafa gert mistök í framtalinu án þess að vísa holt og bolt í lagagreinar.
Í svarinu mínu 7. janúar bað ég um að fá að greiða skuldina í einu lagi. Ég spurði líka hvort hægt yrði að rukka framtíðarálögur vegna verktakatekna í einni greiðslu en því var ekki svarað. Það passar líklega ekki í formið.
Ég hef einu sinni átt í útistöðum við Skattinn. Hann gerði mistök og gekkst við því. Það tók ár og daga að fá úr því skorið.
Ég mun héðan í frá aldrei vorkenna Skattinum þegar hann hefur mikið að gera. Hann ber alla ábyrgð á því sjálfur.
Kannski fæ ég bágt fyrir þessa færslu, eins og ég hóf þennan pistil á að skrifa. Kerfið er svo meinlegt að ég trúi því til að pönkast á þeim sem gagnrýna eða andmæla. En ég hef engan áhuga á að svíkja undan skatti, ég hef bara áhuga á að hafa kerfið skilvirkara en það er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. janúar 2022
Höft og bönn
Ég er þæg og löghlýðin, fer meira að segja eftir lögum sem ég er ósammála. Lögin eru mannanna verk og Gummi bróðir er t.d. varinn af fyrningarreglu laganna þótt samband okkar hafi ekki verið viðskiptalegs eðlis heldur drifið áfram af fjölskyldukærleik sem er nú allur fyrir borð borinn.
Nóg um þau hryðjuverk, ég er alltént laus við þann ódám úr lífi mínu.
Ég er að hugsa um veiruna skæðu sem er búin að leggja (tímabundið) að velli ekki færri en níu leikmenn íslenska liðsins á hinu stórkostlega handboltamóti í Ungverjalandi. Það er auðvitað bara stórkostlegt fyrir hvað það er skemmtilegt en forkastanlegt fyrir hvað mótshaldarar standa illa að því.
En leikmennirnir sem dúsa nú í einangrun með félagsskap af veirunni eru ekki veikari en hinn spræki lýsandi Einar Örn Jónsson sem lýsti af sömu einurð og allajafna, fékk sér bara aðeins meira heitt vatn og hunang.
Ef menn mega hópast saman í eina höll í einu landi og fyrirfram er vitað að múgur manna mun handfjatla sama boltann ættu þeir að fá að spila nema þeir veikist og treysti sér ekki í leikinn. Maður hefur nú séð þá nokkra haltra á fjórðungi fótar en þá eru þeir spreyjaðir og látnir endast út leikinn.
Nú finnst mér nóg komið - en mun sjálf auðvitað fara áfram að lögum og reglugerðum. Hef bara verið svívirðilega heppin með sjálfa mig og mitt athafnalíf gjörvöll tvö árin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. janúar 2022
Auglýsing vefmiðils?
Ég er fyrir löngu búin að fela á Facebook allar meintar fréttafærslur frá meintum vefmiðli sem brotist var inn á skrifstofuna hjá í gær. Ástæðan? Ómerkilegur fréttaflutningur í bága við vilja fréttaefnis, ekki síst æsifréttir af slysum og endursögn úr minningargreinum.
Ég tek bara undir tístið sem ég las áðan en passa sjálf að skrifa ekkert upphátt og fullyrða ekki heldur neitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)