Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 26. nóvember 2021
Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson
Það er algjör tilviljun að ég kláraði hina stórkostlegu bók Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson í svörtu innkaupavikunni. Kaupagleðin er nú ekki að sliga neinn á Sjöundá og í grennd, hvorki nú né árið 1802 þegar helstu atburðir sögunnar urðu. Sagan er sönn, náttúrlega eitthvað skálduð eins og vera ber þegar sögumaður hefur bara heimildir frá öðrum og að auki heil öld liðin og rúmlega það frá atburðunum. Gunnar skrifaði söguna í Danmörku og gaf út þar og á því tungumáli 1929.
Hvert er söguefnið? Söguefnið er sá mikli harmur sem kveðinn var að Bjarna (41 árs) og Steinunni (33 ára) sem bjuggu á Sjöundá á Rauðasandi, hann með Guðrúnu (35 ára) og hún með Jóni (41 árs). Til þess er tekið í heimildum að bæði Bjarni og Steinunn hafi verið glæsileg og að sama skapi voru Guðrún og Jón (orðin) heldur ótótleg. Og Bjarni og Steinunn skutu sig hvort í öðru og fengu bágt fyrir í sveitinni, þótt einhverjir hafi haft samúð með hlutskipti þeirra. Hvor hjónin áttu fimm börn sem koma lítið við sögu.
Harmur Bjarna og Steinunnar var ekki eingöngu sá að vera ekki ætlað að eigast heldur að fyrir hálfgerða slysni fyrirkomu þau mökum sínum. Það sannaðist reyndar aldrei en þau játuðu eftir ótrúlega atburðarás í réttarhöldum. Strangt til tekið vitum við ekki enn hvort þau voru sek um það sem á þau var borið og sem þau meðgengu. Hljómar næstum kunnuglega þótt oft og iðulega heyrist setningin: Saklaus uns sekt er sönnuð.
Meðan ég var að lesa bókina hugsaði ég um forgengileika lífsins. Yfirvaldinu þótti ekki tilhlýðilegt að Bjarni og Steinunn gætu svo gott sem lógað Jóni og Guðrúnu - og hver getur andmælt því? Á hinn bóginn varð ekki vart við neina sérstaka meðlíðan þótt þrjú barna Bjarna og Guðrúnar króknuðu á árbarmi eða drukknuðu í ánni þegar þau ætluðu að læðast heim til sín. Eða þótt almúginn drægi varla fram lífið þrátt fyrir þrotlausa vinnu. Fólk var orðið gamalt og slitið um fimmtugt og þess vegna ímynda ég mér jafnvel að Bjarna hafi ekki þótt mikill fórnarkostnaður að gjalda fyrir framhjáhaldið með lífi sínu. Steinunn bar sig aumlegar þegar allt virtist stefna í líflát fyrir glæpinn.
Guðmundur Scheving sýslumaður sem dæmdi í þessu máli var kyndugur karakter. Sjálfsagt hefur hann verið vel haldinn í mat og drykk og þess umkominn að benda holdugum fingri á vesalingana á Sjöundá sem eygðu vott af gleði í öðru fólki en mökum sínum. Ég veit ekki hvernig sýslumaðurinn var í hátt, kannski var hann spengilegur og matgrannur, en á þessum árum þótti það samt til marks um velgengni að vera vel í holdum. Sýslumaðurinn hafði alla þræði í höndum sér en þegar ég segi kyndugur er ég svolítið að hugsa um að þrátt fyrir yfirlæti og oflæti var hann ekki ósanngjarn með öllu. Hann hlustaði á mótbárur, eða þannig kom hann mér fyrir sjónir, þótt hann hafi verið staðráðinn í að koma sakborningunum í gapastokkinn.
Fyrir margt löngu las ég Glæp og refsingu eftir Dostóévskíj og sá í nokkra daga á eftir Raskolnikoff í öllum skúmaskotum. Ég veit ekki hvort þetta fortíðarfólk á eftir að skjóta upp kollinum í sundi eða Bónus en vangaveltur um viðeigandi refsingu fyrir glæp verða ábyggilega áleitnar á aðventunni.
Ég held nefnilega að samviskan sé harðasti húsbóndinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. nóvember 2021
Ó, Hugleikur
Ég er að tala um leikfélagið mitt, Hugleik, sem er að sönnu tengt teiknaranum. Mér var bent á amatörlega (skárra væri það!) mynd um áhugaleikfélagið sem ég átti sjö góð ár með fyrir ríflega 20 árum og er enn sterkkur hluti af mér.
Ég lék nokkur hlutverk á þessum árum og söng einsöng, laglausa ég. Mikið var þetta frábær tími og góðir vinir sem ég eignaðist þarna.
Myndin sem var einhverra hluta vegna sýnd í dag er í spilara RÚV í þrjá mánuði. Gagnrýnendur voru, og eru kannski enn, hrifnastir af hinum ferska áhugamannablæ og mikilli leikgleði. Leikarar voru ekki síst á sviðinu fyrir sjálfa sig og Sigrún Óskars segist í myndinni hafa orðið mjög hissa þegar ókunnugt fólk mætti á fyrstu sýninguna.
Á mínum tíma voru flestir Hugleikarar utan af landi en ég er alin upp í 104 Reykjavík ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. nóvember 2021
Nýja leiðin í strætó
Ég er búin að skoða nýja klappið til að kaupa far með strætó. Ég er alltaf hlynnt aukinni skilvirkni og mjög áfram um að innleiða gervigreind þar sem það liggur beint við. Það á líka við um strætó. En mér hefur fundist í kynningarherferðinni sem þetta snúist mest um að uppræta svindl.
Dæs.
Á Akureyri hefur verið ókeypis í strætó í meira en áratug. Bæjarstjórninni hefur ekki þótt ástæða til að bakka með þá ákvörðun þannig að væntanlega hefur hún þótt sanna sig.
Mín kenning er sú að ef fleiri nota strætó en einkabílinn sinn fækki slysum, mengun minnki, bæði á götum og í lofti, viðhaldskostnaður minnki og fólk fái gæðatíma í þægilegu sæti í stað þess að sitja stressað undir stýri.
Að sjálfsögðu virði ég sjálfsákvörðunarrétt fólks og ef það vill og verður að vera á bíl set ég mig ekki upp á móti því en borgaryfirvöld gætu komið til móts við fólk með því að bjóða ókeypis í strætó í einhver ár í tilraunaskyni. En auðvitað þyrftu leiðirnar að vera skýrar og eins fljótfarnar og hægt er. Auðvitað gengur ekki að fólk bíði í kulda og trekki í allt að hálftíma eftir næsta vagni.
Ég tek sárasjaldan strætó, eingöngu af því að ég er með næstum allt í göngu- og hjólafæri við mig. Skokkhópurinn minn hefur samt stundum tekið strætó, og ég þar með, í Mosó eða Fjörðinn til þess að skokka til baka. Með appinu hefur það verið þægilegt, allt í símanum, og væntanlega verður það ennþá handhægt með nýja klappinu en ég væri svo miklu meira til í að borga aðeins hærra útsvar og þurfa ekki að borga fyrir hvert far með gula bílnum.
Ég trúi ekki að ég sé í minni hluta með þessa skoðun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. nóvember 2021
Ég er tvíbólusett
Ég rek ekki fyrirtæki en ef ég gerði það fyndist mér ég mega ráða því hvaða fólk ég hefði í vinnu. Ef ég legði mikið upp úr því að starfsfólkið mitt væri bólusett finnst mér að ég ætti að mega segja upp óbólusettum einstaklingi, þó að sjálfsögðu með samningsbundnum uppsagnarfresti.
Ég hlustaði á Bylgjumenn tala við bæði Láru V. Júlíusdóttur og Magnús M. Norðdahl í dag og varð undrandi á hvað þau tvö, tveir lögfræðingar, voru afdráttarlaus í sínum svörum, bara fullkomlega ósammála.
Það er ekki hægt að vinna öll störf heima eins og virðist vera mantran alls staðar. Ég gæti það mikið til, en hvað með afgreiðslu- og lagerstörf? Hvað með heilbrigðisstarfsmenn?
Ég veit ekkert hvort bólusetningar leysa þennan vanda. Ég get bara sagt að ég treysti sérfræðiþekkingu Þórólfs betur en þekkingu þeirra sem láta ófriðlega í athugasemdakerfum vefmiðlanna.
Ef Landspítalinn væri í betri málum deildum við hins vegar kannski ekki svona hástöfum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 17. nóvember 2021
Christopher Belter
Tvítugur maður sem gekkst við nauðgun sætir ekki fangelsisvist af því að dómaranum fannst það ekki við hæfi.
Ég las þetta í Washington Post.
Although Belter faced a maximum sentence of eight years in prison, Murphy concluded that jail time for the man would be inappropriate in a ruling that shocked the courtroom.
Gerandinn iðrast, fórnarlambið kastar upp og dómarinn hefur samúð með gerandanum.
Þetta gerðist víst í New York.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. nóvember 2021
Ég vildi að ég kynni að forrita
Ég tók einn valáfanga í menntaskóla þar sem við spreyttum okkur á forritun. Enn hríslast um mig sæluvíma þegar ég rifja upp eitt skiptið sem mér tókst að kóða eitthvað sem virkaði. Það var reyndar eina skiptið enda sneri ég mér í aðrar áttir eftir þetta.
En ef ég kynni að forrita myndi ég hraða stafrænu byltingunni. Ég hef ekki áhyggjur af að störf tapist við það eða að kapítalisminn kaffæri litla fólkið. Það er sjálfstætt úrlausnarefni að tryggja öllum jöfn tækifæri og að við getum öll blómstrað á okkar kjörsviðum.
Ég tók þátt í að innleiða talgreini - sem breytir tali í texta - á fyrri vinnustað og það var bylting sem ég er ógurlega stolt af. Ég ræ nú að því öllum árum á mínum núverandi vinnustað að sjónum verði beint að þess konar þróun sem hentar þar. Sagt er að góðir hlutir gerist hægt - en er það eitthvert lögmál? Mega þeir ekki gerast hratt? Af hverju ættum við ekki að fara vel með tíma og mannauð?
Til hamingju með dag íslenskrar tungu og okkar kæra Jónas Hallgrímsson sem drollaði aldeilis ekki við hlutina - eins gott því að hann varð bara 38 ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. nóvember 2021
Rafrænar teikningar
Ég þekki arkitekta sem hafa þurft að prenta út hrikalega stórar teikningar til að fá þær stimplaðar til að geta skilað inn til skipulagsyfirvalda. Við höfum spjallað um óhagræðið af þessu, sóunina, tímann sem tapast, óþörfu ferðirnar og kostnaðinn sem fellur á kúnnann, kostnað upp á einhverjar milljónir í stórum verkefnum. Ég skil ekki af hverju einhver er ekki fyrir löngu búinn að fá þessu breytt. Ég er að sönnu breytingasinni í eðli mínu og þoli síst af öllu meintu rökin: Þetta hefur alltaf verið svona.
Ég er ekki nógu vel að mér í tæknimálum, kann ekki að forrita eða finna ólöglegar rásir í sjónvarpinu, en ég er alltaf fremst í röðinni þegar talið berst að framförum í tæknimálum sem hafa þær jákvæðu afleiðingar að raðir styttist og ferðum fækki. Mér finnst frábært að afgreiða mig sjálf í búðunum og á bókasafninu, í heimabankanum og að framkalla mínar eigin myndir, að ekki sé minnst á sjálfvirku þvottavélarnar!
Nú hefur borgin loksins stigið það stafræna umbreytingskref að koma teikningum á rafrænt form (sjá 7. lið):
Útboð á verkefninu átak í teikningaskönnun er hluti af stafrænu umbreytingarátaki Reykjavíkurborgar. Með því munu sparast um 4000 heimsóknir árlega í þjónustuver til að sækja eða skoða teikningar. Mikil eftirspurn er eftir teikningum á rafrænu formi. Fyrir nokkrum árum var farið í að skanna aðaluppdrætti og gera aðgengilega á netinu, sem nú er gert jafnóðum. Yfir milljón teikninga eru einungis aðgengilegar á pappírsformi og mikilvægt að koma á stafrænt form. Ávinningurinn af þessu átaksverkefni er ótvíræður fyrir alla notendur; íbúa, fagaðila, borgarstarfsmenn og aðra hagaðila. Mikill tími, kostnaður og mengun munu sparast með auknu aðgengi að þessum teikningum, auk þess sem tryggð er langtímavarðveisla teikninganna.
Óskiljanlega seint en betra er seint en aldrei.
Svo vil ég að borgin fari að nýta raddgreiningu til að skrifa upp fundina eins og farið var að gera af miklum þunga á Alþingi fyrir næstum þremur árum. Hönnunin og aðlögunin kostar eitthvað í byrjun en sparar til lengri tíma peninga og mannauð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 13. nóvember 2021
Efling
Ég þekki ekkert til í Eflingu frekar en obbinn, held ég, af hinum sem hafa tjáð sig. Þess vegna ætla ég að tjá mig óskaplega óbeint með 20 ára sögu frá sjálfri mér sem ég er nýlega búin að rifja upp. Ég skrifa almennt, margir munu geta getið sér til um hvar þetta var og það er mér að meinalausu en ég ætla ekki að skrifa nöfn í þessa færslu:
Árið 2000 átti ég í stríði við myndhöggvara sem skemmdi fyrir menningarstarfi bæjarfélags. Ég var embættismaður og hann forstöðumaður listamiðstöðvar í bænum. Reglur giltu um úthlutun dvalar í listamiðstöðinni sem pólitísk nefnd og hann höfðu samið í sameiningu.
Hann fór endalaust á svig við þessar reglur. Ég var yfirmaður hans og fór fram á að við færum eftir reglunum, mætum umsóknir og úthlutuðum plássum á grundvelli þeirra. Allt kom fyrir ekki, hann hleypti vinum sínum inn og guð má vita hvað gerðist þar innan dyra.
Hann kvartaði undan afskiptaseminni í mér og fékk hljómgrunn hjá sumum sveitarstjórnarmönnunum. Umræddur myndhöggvari var með langan starfstíma hjá bænum.
Þetta veit ég, þetta man ég og þessi staðreynd setur ýmislegt í verkalýðsbaráttunni í visst samhengi í mínum augum.
Ég ítreka að ég veit ekkert annað um Eflingarmálið en það sem ég les í blöðunum en ég skoðaði færslu mannsins, sem Sólveig segir að hafi hótað sér ofbeldi, eftir að nýi formaðurinn mun hafa sagt honum upp störfum í vikunni. Hún er svona, fyrir og eftir:
Af hverju skrifaði hann Ég galt þess að vera íslendingur og karlmaður. og af hverju eyddi hann því nokkrum klukkutímum síðar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. nóvember 2021
Ég trúi
Ég skráði mig úr þjóðkirkjunni fyrir löngu. Mér ofbauð skinhelgin og sjálfgræðgin eða þannig komu sumir prestar mér fyrir sjónir, skinheilagir og gráðugir. Ég segi eins og Siggeir sagði á Bylgjunni í gærmorgun, ég er sannfærð um að margir prestar vinna gott verk fyrir þá sem vilja fá þjónustu þeirra, en alls konar spilling hefur líka þrifist í guðshúsunum.
Og þótt við vildum hafa presta í vinnu hjá þjóðinni er verðmiðinn alveg fráleitur.
Ef ég þarf þjónustu prests við að hola mér niður í fyllingu tímans er ég borgunarmaður fyrir því. En hef ég eitthvert val? Er þetta kannski einokun? Má einhver annar jarða mig?
Það eru ótal þættir í samneyslunni sem ég tek glöð þátt í að borga með sköttunum mínum. Nærtækt er að nefna heilbrigðiskerfið, menntakerfið og vegakerfið. En þeir sem þurfa sálfræðing - frekar en prest - skulu gjöra svo vel að borga um 18.000 krónur fyrir heimsóknina.
Nei, nú þarf að standa í ístaðinu og tryggja að lágmarki - að lágmarki - að grefils kirkjujarðasamkomulagið verði ekki endurnýjað þegar það rennur sitt skeið 2034. Ég gæti næstum hugsað mér að lofa að kjósa þann flokk sem hefur það eina mál á stefnuskrá sinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 9. nóvember 2021
Hroki og forgengileiki
Ég held að ég verði á endanum að fá mér áskrift að Viaplay. Nú var ég að enda við að horfa á frábæra norska seríu, Stolthet og forfall. Merethe er hjúkrunarfræðingur í litlum, norskum bæ þar sem allir þekkja alla og flestir vita allt um alla. Eða þeim finnst það. Eða þeim finnst að þeir eigi að vita það. Merethe gengst upp í almenningsálitinu og hleypur stundum á sig. Almáttugur, hvað það er stundum vandræðalegt en líka hrikalega fyndið.
Ég þekkti engan af leikurunum og skemmti mér konunglega í litlum skömmtum. Og þá má ekki sleppa því að nefna hina hljómfögru norsku. Mæli innilega með þessum kósíheitum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)