Færsluflokkur: Dægurmál

Hinn seki

RÚV sýndi í gærkvöldi alveg magnaða danska mynd, Hinn seka. Lögreglumaður sem hefur gerst sekur um agabrot er látinn svara neyðarsímanum, 112, og leysa þau verkefni sem hann fær frá almenningi í gegnum símann.

Öll bíómyndin er leikin inni í þessari stjórnstöð. Einn leikari ber myndina uppi, Jakob Cedergren. Hann talar við margt fólk í símann, fólk sem við fáum aldrei að sjá. Þetta hljómar sjálfsagt frekar leiðinlega en myndin er svakalega spennandi.

Mér varð í sífellu hugsað til Snörunnar eftir Jakobínu Sigurðardóttur þótt hún sé reyndar bara helmingur samtalsins. Í Snörunni talar maður í síma en lesandinn veit aldrei hvað viðmælandinn segir, lesandinn þarf að geta sér þess til.

Í Hinum seka heyrum við í viðmælendum lögreglumannsins en vitum ekki nóg um kringumstæður til að meta ástandið. Hvað er með Iben? En Mathilde? Hvað með lögreglukonuna sem svarar í hinni stjórnstöðinni og þarf að senda lögreglubíla af stað? Og svo lögregluþjónana sem mæta á heimilið þar sem börnin eru?

Tekur lögreglumaðurinn á símanum réttar ákvarðanir þegar hann ætlar að bjarga Iben? Eða bitna ráðleggingar hans á einhverjum öðrum?

Úr öllu þessu raknar smám saman þegar líður á myndina og við hugsum sannarlega um sekt andspænis sakleysi.

Ég mæli svo innilega með þessari mynd vegna þeirrar hugvekju sem ég upplifði. Og ekki spillir að heyra hið undurfagra tungumál, dönskuna.


Deig

Í spilara RÚV er núna sænsk þáttaröð sem heitir Deg á sænsku. Samkvæmt orðabók er deg deig, já, en það er líka slangur fyrir peninga. Það er bara ekki alltaf hlaupið að því að þýða tvíræðni. Mér finnst báðar merkingarnar jafngildar þegar ég horfi á þáttinn.

En hvað um það, Deig er spennuþáttur sem spilar á spennu, húmor og síðan auðvitað hið vandmeðfarna (ó)siðlega eðli. Hvað gerir maður ef maður finnur 700 milljónir íslenskra króna á víðavangi? Hvað gerir maður með vitneskjuna og peninginn ef maður er um það bil að missa húsið sitt af því að hugmyndin að fyrirtækinu var að floppa og tekjustreymið er ekkert? Hvað gerir maður ef maður á unglingsson sem maður vill að passi í hópinn en hefur ekki efni á að gefa honum allt sem mann langar til? Hvað gerir maður ef maður á fyrrverandi maka sem hefur enga trú á manni?

Hvað gerir sá sem stal peningunum og faldi í holu á víðavangi þegar hann kemst að því að peningarnir eru horfnir og allir fyrrverandi samverkamennirnir ætla ekki að láta mann komast upp með það?

Hvað gerir pabbi þess sem stal peningunum og kom þeim undan en situr sjálfur í fangelsi?

Hvað gerir litli frændi þegar honum er fengið það ógeðfellda verkefni frá einhverjum sér nákomnum að skjóta einhvern sér nákominn?

Og hvað gerir gamli kærasti hennar sem fann peningana í fyrsta þætti?

En kannski langar mig mest að spyrja: Hvað myndum við, venjulega fólkið, gera í þessum sporum?

Fyrir nokkrum árum spurði ég ýmsa í gríni hvað þeir myndu gera ef þeir fyndu 30 milljónir í poka undir steini í Laugardalnum og enginn grunur væri um glæp. Fólk ætlaði strax að hætta að vinna!

Fólk getur auðvitað verið þjakað af álagi og of miklum skyldum en ef maður skyldi nú hafa menntað sig til einhvers og vera í vinnu við hæfi - langar mann þá að hætta allri vinnu - og gera hvað? Kaupa börnin sín af vinnumarkaði líka? Leika við barnabörnin, spila golf, liggja í bókum? Er ekki jafnvægi best á öllum hlutum?

Ef ég fyndi 700 milljónir í íþróttatösku yrði ég skíthrædd. Og þótt siðferðið væri kannski ekki að þvælast fyrir manni má spyrja: Hvernig ætlar maður að nýta sér nýja féð án þess að grunsamlegar breytingar verði á lífsstílnum? Væri það ekki dæmt til að mistakast?


Kveikur

Ég horfði á Kveik á þriðjudagskvöldið. Fyrstu 10 mínúturnar hafði ég samúð með Þóri og ég held að hann hafi einlæglega beygt af þegar hann talaði um hlutskipti sitt og sona sinna. Eftir kannski korter fór ég að upplifa þáttinn eins og atvinnuumsókn. Ég hef oft hugsað og sagt að mér finnist að fólk eigi að fá að vinna fyrir sér, ef ekki þess sjálfs vegna þá vegna allra hinna. Varla viljum við framfleyta fólki sem hefur þrek og færni til að vinna fyrir sér sjálft. Ef fólki er varla treystandi til að vera án eftirlits verða atvinnutækifærin að taka mið af því. 

Þegar þátturinn var að verða búinn var viðmælandinn búinn að fyrirgera allri trú minni á að hann teldi sig hafa gert nokkurn skapaðan hlut sem var óviðeigandi. Mér fannst hann upplifa sjálfan sig sem mesta fórnarlambið. Steininn tók úr þegar hann sagðist aðeins hafa val um tvennt, að flýja til útlanda eða verða glæpamaður.

Hvað gekk Kveik til? Þórir var þarna einn til frásagnar. Ungu stúlkurnar sem sendu honum mynd/ir og báðu um mynd/ir - að sögn - vildu ekki koma í viðtal. Var þá virkilega enginn annar í boði til að sýna hina hliðina? Auði Lilju detta nokkrir aðilar í hug.

Ég er búin að lesa nokkra þræði síðan í fyrradag. Sums staðar gagnrýnir fólk foreldra stelpnanna fyrir að ala þær ekki betur upp, fyrir að leyfa þeim að vera á Tinder (eða banna þeim það ekki) og fyrir að egna fyrir leikarann gildru. Það er alveg umhugsunarefni, en dettur því fólki ekki í hug að gera þá kröfu til 36 ára mannsins að hann sýni af sér betri dómgreind?

Umræðan um (glæp og) refsingu, umræðan um hvenær nóg er orðið nóg, hvort menn eigi aldrei að fá uppreisn æru og hvort menn skuli dæmdir til ævarandi atvinnuleysis á sannarlega rétt á sér. Skiljanlega stækka líka augun í fólki þegar við rifjum upp að dæmdir barnaníðingar eru í umferð en leikarinn fær ekki að vinna fyrir sér. 

Einn vinur minn sagði að Þórir væri beittur ofbeldi af því að hann fengi ekki að vinna. Mig rak í rogastans. Mér þætti mótlæti að fá ekki að vinna ef mig langaði til þess og þyrfti á tekjunum að halda en ég legg það ekki að jöfnu við ofbeldi eins og ég skil það. Og hver væri gerandinn í því ofbeldi? Atvinnurekendur sem vilja ekki ráða hann? Væri fólk þá ekki að sama skapi beitt ofbeldi þegar það fengi ekki vinnuna sem það langaði mest í eða teldi sig hæfast til að gegna og þá jafnvel með tilhlýðilega menntun?

Í íslenskri samheitaorðabók er þessi skýring gefin á ofbeldi:

ofbeldi

afl, gerræði, ofráð, ofríki, ójafnaður, vald, valdbeiting, valdníðsla, yfirgangur;

beita e-n o. beita e-n ofríki, beita e-n valdi, misbjóða e-m, neyða e-n, neyta aflsmunar, sitja yfir hlut e-s
 

En ég er líka hissa á því að framhaldsskólakennari sem varð uppvís að því að misnota stelpur sem voru vissulega orðnar 18 ára en komu frá brotnum heimilum og voru auðveld fórnarlömb sjarmerandi manns í valdastöðu gagnvart þeim sé núna leikskólakennari. Ég má ekki segja nafnið á honum vegna þess að þá er ég farin að brjóta persónuverndarlög!

Ég er ekki þolandi. Ég hef farið í gegnum lífið umvafin bómull. Samt get ég rifjað upp að þegar ég var 15 ára og vann nokkur kvöld við að selja miða inn á skemmtistað spurði mig gamall maður - líklega þá um fertugt - hvort ég væri orðin mannbær. Þegar ég varð bara eitt spurningarmerki flissaði hann svolítið og fór inn á staðinn. Voru foreldrar mínir ábyrgðarlausir að leyfa mér að vinna þarna? Aldurstakmarkið var 20 ár og ég var bara 15. Pabbi minn var líka að vinna þarna. Átti maðurinn eitthvað með að tala svona við mig? Ég man þetta en þetta hefur ekki markerað mig. Ekki frekar en bílstjórinn sem strauk handarbakinu um kinnina á mér, þegar okkur var úthlutað sama smáhýsinu í ferð með túrista, og sagði: Ég hefði ekkert á móti því að liggja með þér. Ég hafði hins vegar heilmikið á móti því og staflaði bókum fyrir dyrnar á mínu herbergi þegar ég fór að sofa vegna þess að enginn lykill fylgdi.

Í mannlegu samfélagi verða alltaf einhverjir sem fara yfir mörk. Glæpir eru framdir, mistök eru gerð, fólk er sært, en það er hægt að lágmarka það með því að tala um vandann, viðurkenna hann og reyna að snúa hann niður.

Þórir Sæmundsson lagði ekkert gott til málanna og ýfði bara fjaðrir þeirra sem hafa orðið fyrir misrétti eða þekkja einhverja sem hafa orðið fyrir barðinu á fólki sem beitir ofbeldi. Fyrir þáttinn hafði ég heldur ekki hugmynd - ekki minnstu hugmynd - um að hann héldi úti nafnlausum Twitter-aðgangi þar sem hann jós úr sér. Einhver sagði að hann hefði rakkað þar niður #MeToo en ég fann það ekki þótt ég fletti býsna langt aftur. Ég sá bara rant manns sem hundleiddist.

Hér var ég að hugsa upphátt. Kannski skipti ég eitthvað um skoðun á næstu dögum ef rök hníga til þess en ég hef sannarlega reynt að uppræta meðvirkni hjá sjálfri mér síðustu ár.


Skortflugferðablæti

Heimurinn er í umhverfisvoða, bróðir minn (71) orðinn vegan af því að tvítug dóttir hans hefur áhyggjur með obbanum af sinni kynslóð, slagurinn við plast og aðrar óþarfar umbúðir heldur áfram ... og 50 manna sendinefnd FLÝGUR frá Íslandi á umhverfisráðstefnu

Það er ekki hægt að taka mark á stjórnmálamönnum samtímans ef þeir ætla ekki neitt að nýta sér af lærdómi síðustu ára. 

Ég er hrifin af sól og hita og ég minnist hinna þungu vetra æsku minnar með hrolli en ef við spyrnum ekki við fótum verðum við öll umflotin vatni innan tíðar. Við verðum að sýna ábyrgð og hætta að skjótast á flugvélum út um hvippinn og hvappinn af því að okkur finnst við taka okkur svo vel út á mynd með fyrirmennum.

Ég ætla ekki að hætta að fljúga en ég er til í að fækka ferðum og lengja dvölina í hvert skipti.  


Einkavæðing almannaþjónustu

Ég er að spekúlera í meintri sölu á Mílu af því að ég er ekki nógu vel að mér um þetta. Veitir Míla í alvörunni grunnþjónustu, sbr. það sem segir á vef ASÍ?

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar sterklega við sölu á grunnneti íslenska símakerfisins úr landi. Innviðir fjarskiptakerfisins eru dæmi um starfsemi sem í eðli sínu ber helstu einkenni náttúrulegrar einokunar þar sem mikill kostnaður við að setja upp slíkt kerfi kemur í veg fyrir samkeppni. Slík einokun getur verið mjög kostnaðarsöm fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera aðila þar sem ákvarðanir um verðhækkanir eru teknar einhliða og neytendur eiga ekki í önnur hús að venda. Áhrifin geta oft margfaldast í tilfelli dreifðari byggða.

Um allan heim leitast fjármagnseigendur við að komast yfir samfélagslega innviði þar sem innkoman er stöðug en einnig mögulegt að draga fjármagn út með einföldum hætti. Þar geta skapast óeðlilegir hvatar til að draga úr fjárfestingum og viðhaldi, selja eignir og skilja eftir lítið annað en skel utan um starfsemina. Slík hætta er raunveruleg og í tilviki Mílu er ljóst að íslenskt samfélag sæti uppi með kostnaðinn, auk þess sem röskun á starfsemi Mílu gæti hamlað eðlilegu gagnverki samfélagsins. Áhættan liggur því hjá íslenska ríkinu og þar með íslenskum almenningi, ekki hjá erlendum fjárfestum. Gróði eigenda Símans getur orðið skammgóður vermir, en þar á meðal eru nokkrir lífeyrissjóðir sem samanlagt fara með meirahlutaeign og bera skyldur gagnvart samfélaginu öllu.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja almannahagsmuni í málinu og bæti þannig fyrir fortíðarmistök þegar grunnnet símakerfisins var einkavætt samhliða sölu á Símanum. Hagsmunir sem varða þjóðaröryggi eru aðeins einn hluti af stærra vandamáli. Ekki nægir að vísa til umræðu á vettvangi Þjóðaröryggisráðs sem fram fer fyrir luktum dyrum, enda snertir þetta mál samfélagið allt, uppbyggingu þess og atvinnulíf. Stjórnvöldum ber að standa vörð um grunninnviði landsins og tryggja að þeir séu í samfélagslegri eigu.

Ég man þegar Síminn var seldur úr ríkiseigu og síðan hef ég skipt við ýmis fjarskiptafyrirtæki. Nú er ég hjá Hringdu og sé ekki betur en að ég spari mér um 5.000 kr. á mánuði. Telst það ekki samkeppni á þessum markaði? Ef franska fyrirtækið ætlar að rassakastast eitthvað og hlunnfara viðskiptavini sína, geta þeir þá ekki forðað sér og þá er fyrirtækið búið að glata viðskiptavildinni?

Ég átta mig ekki á þessum markaði. Ef við framseljum grunnnetið með sölu á Mílu til Frakklands stjórna fáráðlingar fyrirtækinu og ættu ekki að koma nálægt rekstri.


Hvernig kók áttu? (í gæsalöppum)

(Gæsalappir breytast alltaf í skrýtin tákn í fyrirsögnum, þess vegna hef ég fyrirsögnina eins og hún er.)

Ég er aðdáendaklúbbur GMB, ekki bara af því bara heldur af því að mér finnst hann tala fyrir sjónarmiðum sem ég aðhyllist í almenningssamgöngum. Svo er ég hrifin af því þegar fólki fer fram og mér finnst GMB hafa tekið augljósum framförum á lífsleiðinni. Og hann hjólar í alvöru, segist ekki bara gera það.

En að fyrirsögninni: Ég heyrði einhvern segja einu sinni í sjoppu: 

Hvernig kók áttu? Aa, já, ég ætla að fá appelsín.

Gísli Marteinn skrifaði á Twitter:

Það er bæði betra fyrir umhverfið og íbúa að við minnkum akstur frekar en að niðurgreiða Teslur oní mannskapinn. Tesluteppurnar verða jafnvondar og hinar. En minni akstur þýðir minna svifryk, færri slys, minni hávaði, fleiri gangandi/hjólandi, betri heilsa, ódýrara samgöngukerfi.

Ég skildi þetta umsvifalaust þannig að bíll teppi umferðina jafn mikið hvernig sem hann er. Kók er appelsín er Fiat er Tesla (þú skilur hvað ég meina).

En, nei, Twitter-notandinn Bensínlaus valdi að snúa út úr og rakka Gísla niður.

Ég get alveg verið sammála því að Gísli hefði gjarnan mátt skrifa um rafmagnsbílateppu en Tesla er stór á markaðnum, alveg eins og kók er stór gosdrykkur, þannig að hann notaði sérnafnið sem hluta fyrir heild (eins og ég skil það).

Aðalatriðið er samt að við þurfum ekki að keyra alla metrana sem við þurfum að fara og við gætum vel hugsað meira í samfélagslausnum en einstaklingsfrekju.

En ég viðurkenni hér með að ég hjóla sem mest og man ekki alltaf hvar bíllinn minn er niðurkominn.

 


Umræða um geðheilbrigði

Ég bara verð að geyma þessa sturluðu tilvísun í Pál Vilhjálmsson, sem ég hef oft séð Staksteina hefja til skýjanna, þótt það auki e.t.v. umferðina um síðu hans um nokkra smelli.

Ég er ekki hissa á að sjá Pál sýna inn í sína svörtu sál, svo oft hefur hann opinberað sinn innri mann. 

Ég hef verið að lesa fallega og vandaða bók um samfélagshjúkrun þar sem höfundur fjallar einmitt á nærfærinn hátt um geðheilbrigði. Allt venjulegt fólk á misgóða daga, er stundum dapurt og stundum glatt og svo stundum í einhverri lægð sem er hugsanlega tímabundin og stundum vegna ytri aðstæðna.

Ég stend 100% með Helga Seljan, horfði einmitt á þátt Gísla Marteins og dáðist að honum fyrir hugrekkið vegna þess að ég sá í hendi mér að einhverjir myndu bregðast kjánalega við. 


Aðskiljum ríki og kirkju

Ég veit að sumt fólk talar við presta sem rukka ekki fyrir viðtölin. Ég veit líka að sumt fólk vill tala við sálfræðinga eða geðlækna en hefur ekki efni á því. Þjónar kirkjunnar eru tengdir trú á tiltekinn guð og ekki vilja allir sáluhjálparleitendur fara til þeirra.

Af hverju aðskiljum við ekki bara ríki og kirkju og látum prestana sýna að eftirspurn eftir þeirra þjónustu sé meiri en þjónustu hinna sálusorgaranna?

Ég hef verið þessarar skoðunar lengi, sagði mig úr kirkjunni fyrir óralöngu vegna ógeðfelldra mála sumra prestanna og finnst tímabært að kirkjan hætti að fá 5 milljarða á ári á fjárlögum. Og nú kemur á daginn að sumir prestar fá sérstakar greiðslur fyrir verkin sín!

Mér finnst þetta jafn undarlegt og að veita opinberum starfsmönnum fálkaorðuna fyrir að sinna vinnunni. Mér finnst að fálkaorðuna eigi að veita sparlega og þá aðeins þeim sem hafa ómakað sig í þágu almennings eða þeirra sem eiga um sárt að binda í sínum eigin frítíma.

Ég væri næstum til í að ganga í SUS til að tala fyrir þessu sjónarmiði af því að þar er stemning fyrir því.


Frestur er á illu bestur? Bond, James Bond

Ég á eftir að sjá nýjustu Bond-myndina. Ég fer ekki oft í bíó en nú er búið að tala það upp að sjá No Time to Die (163 mínútur) á stóru tjaldi. Og þá er spurningin: Hvað á barnið að heita? Twitter veltir fyrir sér hvernig RÚV muni þýða myndina í fyllingu tímans.

Á dauða mínum átti ég von?

Dauðans óvissi tími?

Vant við látinn?

Feigðinni frestað?

Hvorki staður né stund til að látast?

Dauðinn ekki á dagskrá?

Engin dauð stund?

Eigi dugar að drepast?

Dauðanum slaufað?

Dagar ekki taldir?

Listinn hér er fjarri því að vera tæmandi. Enginn annar stakk samt upp á: Frestur er á illu bestur.

 

 

 


Lokaður Facebook-hópur um meinta karlmennsku

Ég þekki ekki miðilinn 24.is en ég kannast við blaðamanninn sem skrifar fréttina um netsamfélag karla sem sækja sér innblástur og orku í að rakka niður fólk sem berst fyrir jafnrétti og veit að hann er skólagenginn blaðamaður. Nokkrir karlanna á fordómasíðunni puðra fordómum sínum yfir opnar síður líka þannig að ég hef séð sumt af orðbragðinu áður. Samt var mér brugðið við að sjá hversu grímulaust þeir tala niður vitsmuni og skaphöfn kvenna.

Við megum ekki líta undan og láta sem við vitum ekki af heimskulegum ummælunum en það er erfitt að blanda sér í umræðu í lokuðum hópi. Og kannski er það eins og að berjast við vindmyllur vegna þess að það er öruggt að allir þessir 700 karlar þekkja einhverjar vitibornar manneskjur. Þeir kjósa bara að hlusta hver á annan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband