Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 11. október 2021
Í símanum í búningsklefanum
Ég var í sundi áðan. Á bekknum í búningsklefanum sat kona drjúglengi og fletti símanum sínum. Ég sagði ekkert af því að ég hef ótal sinnum bent konum á regluna um að símar séu bannaðir í búningsklefum en nú var ekkert skilti.
Er þetta kannski töpuð barátta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 8. október 2021
8. október
Ég á marga afmælisdaga, var áður mikið afmælisbarn en nú orðið nægir mér mestmegnis að hugsa hlýlega til daganna. Ég á fæðingarafmæli eftir þrjár vikur en í dag á ég starfsafmæli. Að vísu hætti ég í þeirri vinnu fyrir rúmu ári eftir tæp 19 ár - sjálfviljug - en fór þaðan með frábærar minningar og fullt farteski af marktækri starfsreynslu.
Það vottar alveg fyrir trega þótt ég sé ánægð þar sem ég er niðurkomin í dag. Kannski er þetta aldurinn ... eða kannski bara græðgi - ég vil vera alls staðar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. október 2021
Vanda eða Ásgrímur, þar er efinn
Ég skil þetta bara eftir hér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. október 2021
Að borga skatta eða ekki
Tvítari spurði þessarar spurningar:
Ef að þið gætuð sleppt því að borga skatta en jafnframt missa allt sem skattarnir greiða... mynduð þið?
Stutta svarið mitt er: Nei, ég trúi á samfélag og samneyslu. Hins vegar finnst mér að við gætum gert ýmislegt betur, upprætt spillingu og jafnað kjör. Ef við værum með borgaralaun þyrfti enginn örorku og atvinnuleysisbætur og þá væri hægt að nota starfskrafta fólks hjá Tryggingastofnun betur.
Ég hef að vísu aldrei sjálf þurft að sækja neitt til Tryggingastofnunar eða Vinnumálastofnunar en hef heyrt nógu margar sögur af því að fólk sem hefur hálfan handlegg þurfi að fara reglulega til að sanna að hann hafi ekki vaxið á og að Vinnumálastofnun haldi meint námskeið til að endurhæfa fólk en brýtur það niður. Því miður hef ég ástæðu til að trúa þessum sögum. Ég trúi hins vegar á að leyfa fólki að gera það sem það getur. Í öllum kerfum eru glufur og alltaf verður til fólk sem nýtir sér glufurnar en ég held að við eigum að trúa á að fólk vilji vel og svo eigum við frekar að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. september 2021
Auðmýkt ... eða ekki
Ég get fyrirgefið fólki ótrúlega mikið ef það sér að sér, biðst afsökunar og sýnir auðmýkt. Það er hins vegar ekki mitt að horfa í gegnum fingur mér þegar fólk brýtur lögin en auðmýkt og samstarfsvilji er ekkert að þvælast fyrir formanni yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. september 2021
Kosningar á Íslandi
Ég ætla ekki að alhæfa, en ég vann í nokkur skipti í kjördeildum í Reykjavík og varð aldrei vör við neina hnökra. Ég vann ekki við talningu, heldur við að taka á móti atkvæðum og eins og ég segi varð ég aldrei vör við að menn gæfu afslátt af fagmennsku.
Mér finnst að við verðum að fara varlega í að hrópa niður almenn faglegheit þótt ég sé á því að Borgarnesdeildin hafi ekki staðið sig. Ef lögin kveða á um að gögnin skuli geymd innsigluð á að geyma þau innsigluð, sbr. lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000:
104. gr.
Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1) eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem [ráðuneytið] 1) leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim.
Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.
Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda [ráðuneytinu] 1) sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim.
Nú er búið að telja aftur í Suðurkjördæmi og þar stemmdi allt. Vonandi skýrast málin í Norðvesturkjördæmi með morgninum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2021
Rafræn kosning
Einu haldbæru rökin gegn því að taka upp rafræna kosningu eru þau að ekki allir geta kosið rafrænt, eru t.d. ekki með tölvu heima hjá sér. Sá hópur er hins vegar minnkandi því að mig grunar að hann tengist aldri.
Ég sá viðtal í gærkvöldi við manninn sem ætlaði að keyra með atkvæðin frá Ísafirði í Borgarnes, fínt viðtal. Hann sagðist njóta ferðalagsins á fjögurra ára fresti og vonaðist til að ekki yrði farið að kjósa rafrænt svo hann missti þetta ekki. Ég er 99% viss um að hann var að grínast (þótt akstursstundin geti vissulega verið notaleg) vegna þess að hagræðið af því að niðurstaða atkvæðagreiðslu liggi fyrir fljótlega eftir að kjörstöðum er lokað, þ.e. þá bara í tíma en ekki rúmi, er augljóst. Þetta árið hefðum við þá t.d. ekki ranglega sent þau skilaboð til umheimsins að konur væru í meiri hluta nýkjörins þings.
Það sýður svolítið á mér við tilhugsunina um að hafna þessum augljósum tækniframförum. Samt horfði ég á kosningasjónvarpið langt fram yfir miðnætti mér til óblandinnar ... skemmtunar. Ég fórna bara þeirri skemmtun og finn mér annað skemmtilegt að gera í staðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2021
Söfnunarþingmenn
Ég heyri og sé að frambjóðendur sem eru ekki kjördæmakjörnir eru kallaðir jöfnunarþingmenn. Ég skil það ekki og legg til að þeir verði kallaðir söfnunarþingmenn. Þeir safna atkvæðum sem annars væru ódauð og ómerk í hinum kjördæmunum.
Steinliggur þetta ekki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. september 2021
Harmageddon hættir
Reiðarslag. Ég hef að vísu ekki hlustað upp á síðkastið en í fyrravetur átti ég oft kost á því og síðustu ár alltaf af og til. Stundum sótti ég þáttinn líka eftir á og hlustaði, a.m.k. á valda kafla. Frosti og Logi spurðu (og spyrja nú sjálfsagt annars staðar) ágengra spurninga og sniðgengu allt mélkisulegt orðalag.
En ég skil sjónarmiðið. Þeir eru komnir yfir fertugt og líta væntanlega svo á að ungu hlustendurnir séu ekki lengur markhópur þeirra.
Ég þakka fyrir samferðina og vona að þeir finni sér góðan farveg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. september 2021
Deilihagkerfið
Það er svo grátlegt að við skulum eiga svona marga bíla. Ég á bíl sem ég nota lítið en finnst gott að hafa einu sinni í mánuði eða svo. Ég keypti hann fyrst og fremst til að snattast með mömmu og pabba en nú eru þau bæði fallin frá. Bíllinn er of gamall til að það taki því að selja hann þannig að ég reikna með að keyra hann út.
Í dag vorum við þrjár vinkonur í hverfinu á kaffihúsi. Ein seldi bílinn sinn í sumar og er að velta fyrir sér hvort hún eigi nokkuð að fá sér nýjan bíl. En hún er í golfi og á gönguskíðum og þær sem hún heldur mest hópinn með í þeim íþróttum búa ekki nálægt henni þannig að þær geta ekki orðið samferða. Ég sagði að hún mætti fá minn bíl hvenær sem er (næstum) og þessi þriðja bauð sinn líka fram. En það væri miklu þægilegra ef svo og svo margir bílar á svo og svo marga íbúa væru til skiptanna og maður myndi bara leggja inn pöntun fyrir ákveðna daga og geta svo gengið að vel umgengnum bíl. Hvert skipti myndi sjálfsagt kosta eins og að taka leigubíl en kostnaður yfir árið myndi snarlækka hjá þeim sem nota bíl lítið.
En þetta kerfi hentar ekki bílaframleiðendum og ekki heldur bensínsölum og það eru hagsmunahóparnir sem halda okkur í kyrrstöðunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)