Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 23. ágúst 2021
Unglingar vilja sumarfrí
Þegar ég var unglingur þótti sjálfsagt að vinna launavinnu í öllum fríum; páskafríum, sumarfríum og jólafríum. Það þótti líka sjálfsagt að vinna með skóla. Mér finnst sem það hafi heyrt til undantekninga að vinir mínir hafi ekki unnið með menntaskóla, þá helst seinni part viku og um helgar. Eftir stúdentspróf fór ég heilan mánuð til útlanda og fannst ég svolítið hafa tapað þeim vinnumánuði þegar ég loks mætti hjá póstinum til að flokka og bera út. Samt var það auðvitað ekkert tap því að stúdentsferðin var frábær. Frábær! Og árin á undan hafði ég líka byrjað í sumarstörfunum (eitthvað nýtt á hverju ári) í lok apríl eða í síðasta lagi um miðjan maí.
Þetta er breytt. Unglingar vilja sumarfrí og helgarfrí. Ég var aðeins byrjuð að undrast þetta þegar ljósið rann upp fyrir mér. Mér fannst alltaf gaman að mæta í vinnuna; á færibandið í fiskvinnunni og í súkkulaðiverksmiðjunni, flokka og bera út póst og mæta í bankann til að - ég man reyndar ekkert hvað ég gerði sumarið mitt í Búnaðarbankanum. Um helgar var ég í fatahenginu í Leikhúskjallaranum.
Þetta var félagslegt og skemmtilegt, fullt af fólki á mínum aldri. Unglingar í dag þurfa ekki að fara út úr stofunni til að vera í samskiptum og upplifa félagsleg tengsl frekar en þau vilja.
Og sjálf er ég að breytast í 21. aldar ungling. Ég vil stytta vinnuvikuna, reyndar ekki vegna þess að mér leiðist í vinnu, alls ekki, heldur vegna þess að tæknin öll, tæknibylting síðustu 50 ára, hefur létt okkur störfin og auðveldað okkur að njóta frítímans. Frítíminn á ekki að byrja þegar við verðum 67 ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. ágúst 2021
Upplýsingar um skatta
Þegar ég les um opinbera skattheimtu umtalaða fólksins hef ég hugsað: Já, hann er svona tekjuhár. Gott að þetta skuli allt gefið upp.
Ég er svona einföld að ég hef hvorki áhuga né ástæðu til að öfunda tekjuháa fólkið. Ég skil reyndar alls ekki hvernig nokkur getur verið með - og varið - launatekjur upp á 5 milljónir á mánuði. Hvað getur viðkomandi gert til að verðskulda 7.000 kr. á tímann allan sólarhringinn, líka meðan hann sefur?
Fólk fær tilfallandi háar tekjur þegar það selur fyrirtæki en einhverjir eru með háar tekjur - og háar skattgreiðslur - ár eftir ár. Ég skil það ekki og skil alls ekki þann markað sem lætur það viðgangast.
En upplýsingarnar sem ég fagna, gagnsæið og vitundin - það er ekki endilega mikið að marka þetta. Til hvers er þá verið að tína í okkur tekju- og skattaupplýsingar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. ágúst 2021
Ég nota ekki reiðhjólahjálm
Þegar ég hjólaði mjög dömulega í kjól og án yfirhafnar upp Frakkastíginn á leið heim úr vinnu í dag mætti ég stútungskalli um fertugt sem læddi út úr sér um leið og við mættumst: Þú manst hjálminn næst.
Svo fór hvort sína leið og sjálfsagt hugsaði hvort sitt. Ég hugsaði:
Ég hef 40 ára reynslu af að hjóla í umferðinni. Hjálmar voru ekki almennir þegar ég var barn og unglingur. Ég hef áreiðanlega einhvern tímann dottið um dagana en ég hef aldrei slasast. Ég hjóla einhverja kílómetra á næstum hverjum degi en almennt ekki á stofnbrautum og einfaldlega aldrei of hratt.
Í umferðarlögum segir í 1. mgr. 79. gr.:
79. gr. Öryggis- og verndarbúnaður óvarinna vegfarenda.
Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Ég er eldri en 16 ára og mér ber ekki skylda til að nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Margt annað í lífinu er áhættusamt en ég myndi aldrei segja við nokkurn mann, síst bláókunnugan: Þú manst að reykja ekki þessa sígarettu næst. Ekki klára súkkulaðið. Slepptu bjórnum. Leiktu við barnið þitt frekar en að segja því að láta þig í friði. Taktu meiri þátt í heimilisverkunum.
Af hverju finnst ókunnugu fólki í lagi að vanda um við ókunnugt fólk sem er ekki einu sinni að brjóta af sér?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 10. ágúst 2021
Covid-kvíði?
Ég hef það fyrir satt að fjölmiðlar á t.d. Spáni séu ekki með Covid-fréttir fremstar í öllum fréttatímum. Getur verið að þessi sífelldi fréttaflutningur hér auki á kvíðann hjá þessum fjórðungi sem er illa haldinn? Ég er óttalegur fréttasjúklingur en ég er næstum farin að kveikja á fréttunum löngu eftir að þær byrja, þetta eru svo miklar endurtekningar.
Þegar ég var að alast upp voru alltaf aflatölur fyrsta frétt. Er þetta tilhneiging til einsleitni? Ég er bara að velta þessu fyrir mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. ágúst 2021
Skrattakollurinn
Fyrir allmörgum árum var mér kynnt regla sem hljóðaði nokkurn veginn svona: Maður sendir ekki í tölvupósti annað en það sem má rata á forsíðu DV.
Ég hlustaði á Vikulokin á laugardaginn og Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, kom ljómandi vel fyrir. Sigmundur Ernir Rúnarsson, nýráðinn ritsjóri Fréttablaðsins, komst líka vel frá orðahnippingum þeirra tveggja. Það er nefnilega hægt að leggja fram andstæð rök og sjá báðar hliðar.
Ég hefði ALDREI skrifað, hvorki seint né snemma dags, 200-300 manns sem ég þekki misvel tölvupóst þar sem ég gæfi heilli starfsstétt viðurnefni, alveg sama þótt það sé krúttlegt í einhverju samhengi. Ég ætlaði ekkert að hugsa upphátt um þetta upphlaup síðustu viku en nú las ég þráð á Facebook þar sem flestir lýsa yfir ánægju sinni með skrattakolla.
Samkvæmt Snöru er skrattakollur hnjóðsyrði og orð svipaðrar merkingar sem eru gefin upp eru: þrjótur, djöflakollur, djöflamergur, skarfur, skelmir, strákskratti. Snara gefur ekki upp krútt en ég skil alveg að margir málnotendur geti hugsað sér að nota það í góðlátlegri merkingu, sbr. ömmuna sem kallaði barnabarnið litlaskít og allir, eða margir, vöndust því sem gæluyrði.
Ég er hins vegar sammála þessum ummælum á þræðinum:
PS - sé við lestur hér fyrir ofan að fólki finnst þetta "krúttlegt" orð og jafnvel prakkaralegt - held ekki að fólk taki að sér störf blaða- og fréttamanna til að vera "krúttlegt" eða ætlist eða langi til að litið sé á það sem prakkara.
Og:
Ritaður texti svo engin leið að vita hver hugur býr að baki. Í talmáli ræðst það af tóni og tjáningu eins og við vitum öll.
Ég er innilega sammála þessum tveimur.
Fyrir hálftíma bættust svo við frekari rök gegn því að kalla fólk skrattakolla.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. ágúst 2021
Aðskilnaðarkvíði vegna Ólympíuleikanna
Nú eru þeir búnir! Næstu sumar-Ólympíuleikar verða í London eftir þrjú ár og ég efast stórkostlega um að ég fylgist með þeim þá, en djö sem þessir leikar hittu í mark hjá mér. Ingólfur Hannesson sagði líka í síðasta samantektarþættinum að þessir leikar hefðu verið óvenjulega góðir og hann ætti að vita það.
Þegar ég skoða nálægustu fortíð sé ég að yfirleitt hef ég verið á fjöllum á þessum tíma árs, þ.e. þegar Ólympíuleikarnir eru, og ef allt fer að óskum verð ég sjónvarpslaus sumarið 2024 ... nema náttúrlega nú er sjónvarpið í símanum sem er alltaf meðferðis.
Nú byrjar nýr kafli í lífsbókinni og ég er þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar með hroll við tilhugsunina um að leikunum sé lokið. Toppurinn á toppnum var maraþonhlaup sem Arnar Pétursson og Snorri Björnsson lýstu af miklum myndugleik um helgina. Ég hef hlaupið heilt maraþon en ég lærði helling af því að fylgjast með í tvo tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Sjóböð
Ég er búin að synda í sjónum í Nauthólsvík frá 2014. Fyrstu árin synti ég sjaldan og stutt og aðeins á sumrin. Nú um hríð hef ég líka stundað þessa iðju á veturna, og á sumrin er ég farin að vera góðan hálftíma dag eftir dag.
Allt í einu tók ég eftir því í vikunni að exem á olnbogunum er eiginlega horfið! Sjóböðin hafa sum sé líkamlega bætandi áhrif, en hingað til hef ég bara tekið eftir gleðinni sem fylginni þeim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Google á Twitter
Nú er tjáningarþörfin alveg að gera út af við mig. Ég las frétt á RÚV í dag með skrýtinni fyrirsögn. Ég sé oft svona beitur á öðrum miðlum en mér finnst minna um þær á RÚV. Ég tók skjáskot og lagði það frá mér á Twitter sem bauð upp á Google-þýðingu.
Ég skrifaði: Ferlega finnst mér þetta sérkennileg fyrirsögn.
Google þýddi: I really like this peculiar headline.
Þá sjaldan ég legg eitthvað frá mér á Twitter fer það framhjá öllum en nú fékk ég eitt læk frá útlendingi. Ég skil ekki þessa atburðarás ... og er mætt á bloggið að undra mig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. ágúst 2021
Týr og Gísli Marteinn
Ég hnaut um pistil hins nafnlausa Týs um meintar skoðanir Gísla Marteins Baldurssonar. Ég man að Gísli Marteinn var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hann talar fyrir bættum almenningssamgöngum og það höfðar til mín. Týr nýtir ekki vefmiðilinn til að vísa í hin meintu vondu og meiðandi ummæli Gísla Marteins og felur sjálfa/n sig að auki á bak við nafnleysi.
Á Viðskiptablaðinu starfar líka hinn nafnlausi Óðinn sem hefur talað Kristrúnu Frostadóttur niður fyrir það að vera kona. Nú er ég að leggja út af skrifum sem ég hef lesið en ég vísa þó í þau.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. júlí 2021
Ólympíuleikarnir: klæðaburður/hárgreiðsla með meiru
Ég hef ekki verið dyggur áhorfandi Ólympíuleika eða stórra íþróttamóta í gegnum tíðina. Ég man aðallega þegar Sergei Bubka stökk hærra og hærra á níunda áratugnum og smávegis eftir Carl Lewis, kannski af því að pabbi fylgdist vel með, sá gamli glímukappi.
En ég man þegar Jón Arnar Magnússon málaði skeggið á sér í fánalitunum. Ég þurfti reyndar að fletta upp að það hefði verið 1996. Núna er ég búin að horfa frekar mikið á Ólympíuleikana, þá fyrstu eftir að pabbi dó, og ég tek eftir tvennu sem mér finnst hafa breyst: hárið á glettilega mörgum keppendum er úti um allt og sumt í dreddum þótt það sé svo sem ekki í neinum fánalitum og kúluvarparar/kringlukastarar eru ekki eins miklir beljakar og mér finnst þau hafa verið. Já, og núna meðan ég er að fylgjast með spretthlaupi kvenna sé ég að töluvert margar eru húðflúraðar.
Ég byrjaði í hlaupahóp fyrir sjö árum og hef nú mætt í fleiri keppnishlaup en öll árin þar á undan. Keppnisnúmerin þykja mér óþægileg, fest með fjórum nælum framan á bolinn og vindurinn rífur í þau. Þess vegna finnst mér skrýtið að sjá að í Tókíó eru númerin og nöfnin fest svona lauslega á keppendur.
Að lokum: Ég heyrði Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson fallbeygja Kanada eins og kvenkyns væri og verð að segja að lýsingarnar bæta óendanlega miklu við áhorfið. Hreinasta skemmtiefni ... og kveikið núna ef þið eruð ekki búin að því!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)