Færsluflokkur: Dægurmál

Kappræðurnar út af forsetakjöri

Postularnir tólf mættust í sjónvarpssal í gær. Ekkert þeirra skandalíseraði. Ekkert þeirra missti málið og gat engu svarað. Öll skildu spurningarnar. Þetta er ekki sjálfgefið í hita leiksins.

Mín spá er að Halla Tómasar fari að kroppa fylgi af einhverjum og að Jón Gnarr endurheimti einhver prósent sem hann var byrjaður að tapa.

Og hvað sem öður líður hafði ég dálítið gaman af Viktori sem handlangaði sig inn á listann.


Ísland í bítið

Ég kveiki alltaf á Bylgjunni þegar ég vakna virka morgna. Heimir og Lilja eru mitt fólk. Í morgun kveikti ég, gekk frá, heyrði rödd sem ég kannaðist við en var ekki viss, kom svo til baka og heyrði Lilju ávarpa Loga og slökkti strax. Logi hefur aldrei gert neitt á minni persónulega hlut en maður sem hrökklaðist frá K100 verður ekki í mínu útvarpi. 

Morgunútvarp Rásar 2 og jafnvel Rásar 1 gerir núna sama gagn og Bítið gerði.


Bláu ljósin í Belfast

Ég held að starf götulögreglunnar sé hroðalega erfitt, sérstaklega í seinni tíð og sérstaklega í borgum þar sem glæpatíðni er mikil og stjórnvöld meðvirk.

Írsku þættirnir sem voru gerðir á síðasta ári, Bláu ljósin í Belfast, og eru núna í línulegri dagskrá á RÚV kalla fram mikla gæsahúð. Fullt af nýrri nálgun, góðum vilja nýliðanna til að hlúa að okkar verst stadda fólki og bévítans meðvirknin í efstu lögum.


Fánadagurinn

Vigdís Finnbogadóttir á afmæli í dag og þar af leiðandi var 15. apríl fánadagurinn á árabilinu 1980-1996. Frambjóðendur sem leiða kosningabaráttuna sem ekki er hafin eiga afmæli 2. janúar, 25. janúar, 1. febrúar og 12. mars. Ég á afmæli í október - eins gott að ég blandaði mér ekki í baráttuna.


Launamunur í læknastétt

Það er ekkert lát á undrunarefnum í henni veröld. Nú kemur á daginn að kvenkyns læknar raðast sjálfkrafa neðar en karlkyns læknar hjá Landspítalanum. Hvernig getur þetta gerst? Sem betur fer eykst hröðum skrefum meðvitund þeirra sem eru órétti beitt.

Ég hef örugglega rifjað þetta hér upp áður en ég geri það samt aftur. Sumarið 1984 var ég sumarstarfsmaður hjá Nóa-Síríus. Vinnan var skemmtileg og samstarfsfólkið líka, ljúfur yfirmaður og vinnutíminn bara ágætur. En þegar ég fékk útborgað sá ég að ég fékk borgað eftir unglingataxta sem var ekki til, fékk sem sagt lægra borgað en var leyfilegt. Ég veit ekkert hvað strákarnir fengu. Að auki tók ég tvo sumarfrísdaga um sumarið og þeir voru bæði dregnir af laununum og orlofinu sem ég hefði annars safnað upp. Ég leitaði til stéttarfélagsins sem stóð með mér og ég fékk leiðréttingu með hjálp þess fyrir mig og þrjár aðrar stelpur sem voru líka sumarstarfsmenn um tvítugt.

Já, ég fékk 918 kr. ávísun - en mér bauðst ekki jóla-, páska- eða sumarvinna þarna framar. Það kostar að standa í afturlappirnar. Mér sveið það þá en mig hefur samt aldrei skort verkefni.  


Forsetakosningarnar

Korteri áður en Jón Gnarr bauð sig fram spáði ég því að hann myndi bjóða sig fram. Ég kýs því að líta svo á að í mér búi ponsulítil spákona, en bara agnarsmá. Ég spáði honum þá 23% atkvæða og ætla ekki að bakka með þá spá að svo stöddu.

Nú eru línur aðeins farnar að skýrast og stjórnmálafræðingur „segir líklegast að Katrín Jakobsdóttir, Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr muni heyja baráttuna um Bessastaði“. Ég vil núna bæta Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra við púllíuna og held að þau verði stoðirnar fjórar, ekki endilega þannnig að atkvæði muni skiptast nokkurn veginn jafnt á milli þeirra en hvert þeirra um sig gæti komið á óvart.

Og ég spái því að forseti verði kosinn með 25% atkvæða. Nú er ég orðin mjög spennt fyrir að fá kosningabaráttuna í maí og sjá svo úrslitin eftir kjördag, 1. júní nk.

 


Auður Haralds 1947-2024

Ég er mjög roggin af að hafa sjálf uppgötvað Auði Haralds á sínum tíma og skrifað BA-ritgerðina mína um Hvunndagshetjuna, að vísu dálítið löngu eftir að hún kom út. Auður bjó þá á Ítalíu og ég sendi henni bréf þangað og fékk annað til baka, átta vélritaðar A4-blaðsíður að lengd ef ég man rétt. Ég hendi ógjarnan pappír þannig að ég hlýt að eiga það einhvers staðar.

En nú er hún öll og ég var loksins að hlusta á drellifínan þátt um hana í spilara RÚV. Hún átti merkilegt lífshlaup og stórkostlegan rithöfundarferil.


Sjálftaka Arion banka

Það hvarflar ekki að mér að Arion banki sé eini spillti og sjálfhverfi sjálftökubankinn en hann er bankinn sem ég lenti hjá. Ég var alltaf í Búnaðarbankanum en flutti mig yfir til sparisjóðs fyrir 20 árum. Viðskiptin fluttust svo aftur í Arion banka án míns vilja en nú er nóg komið. Ekki aðeins það sem ég skrifaði um páskana, heldur fékk ég 

a) ekki svar við póstinum mínum

b) ekki lækkun á útskriftargjaldinu

c) ekki einu sinni helvítis skuldfærsluna sem mér var þó sérstaklega boðin í fyrri pósti.

Nei, ég fékk hnipp í appinu um að ég væri að gleyma mér! Ég er náttúrlega búin að borga skrambans reikninginn og senda annan póst með boðaðri uppsögn. Nú er ég spennt að vita hvort bankinn hefur fyrir því að taka við uppsögninni eða hvort hann mun halda áfram að rukka mig um árgjald og útskriftargjald eftir að ég hætti alveg að nota kortið.

HFF


Arion banki

Dæs. Þetta er leiðinlegt umfjöllunarefni, en bankarnir líta greinilega ekki svo á að þeir séu í þjónustuhlutverki gagnvart kúnnanum sem borgar reikningana. Ég er með VISA-kort og hef í mörg ár borgað 340 kr. í útskriftargjald í hverjum mánuði. Ég hef aldrei vitað fyrir hvað og sendi á endanum fyrirspurn til bankans og bað um útskýringar. Þá var mér sagt að ef ég veldi beingreiðslu, þ.e. að reikningurinn væri greiddur sjálfkrafa út af reikningi, væri hægt að lækka þetta gjald, mig minnir um 200 kr. á mánuði. Ef við hugsum okkur að ég hafi verið með kort í 30 ár, þá 360 mánuði, er munurinn einn og sér 72.000 kr. Og ég kannast ekki við neina þjónustu fyrir þennan pening. Ég borga árgjald og það er jafn hátt hvort sem verið er að útbúa nýtt kort eða ekki. Ef ég skyldi ekki borga á réttum tíma (sem gerist aldrei) væri ekki hikað við að rukka fulla dráttarvexti. Bankinn er alveg tryggður.

Fyrir mánuði fékk ég þau svör að búið væri að setja reikninginn í beingreiðslu en viti menn, ég fæ enn 340 kr. rukkun sem verður þeim mun hlálegri þegar upphæðin sem að öðru leyti er skuldfærð á reikninginn er langt undir 10.000 kr. Auðvitað endar það með því að ég hætti þessum viðskiptum eins og þau leggja sig og ég vildi óska þess að fleiri gerðu það vegna þess að bankinn á að þjóna okkur. 

Ég er búin að skrifa bankanum tölvupóst og tímastilla hann í fyrramálið þannig að hann týnist vonandi ekki í reiðipóstunum sem bankanum hljóta að berast í tugavís alla daga, líka um páska sem ber upp á um mánaðamót.


Gunnar Þórðarson

Guð minn góður, hvað þættirnir um Gunnar Þórðarson eru frábærir. Þeir voru sýndir á RÚV í gærkvöldi og fyrrakvöld. Ágúst Guðmundsson og Jón Þór Hannesson eru skrifaðir fyrir þeim og á einhverri spjallsíðu las ég að Ágúst hefði tekið viðtölin. Þótt ég hefði vel þegið að sjá Ágústi bregða fyrir er ég samt svo þakklát þegar stjórnandi og spyrill heldur sig til hlés.

Og þá að efni máls. Gunnar Þórðarson verður áttræður í byrjun næsta árs og þá verður örugglega eitthvert húllumhæ þannig að það er frábært að vera aðeins á undan skriðunni. Ég get ekki bætt neinu við afrekaskrána hans eða það sem viðmælendur sögðu um hann. Ég er sjálf mjög gefin fyrir talað mál og lítið fyrir að velja mér tónlist. Ég veit þó sannarlega að lífið væri litlausara án tónlistar og þekki auðvitað öll helstu lög Gunna en ekki öll þau 500 sem hann hefur samið. Það sem viðmælendur sögðu og hrósuðu Gunna fyrir var svo dásamlega efnisríkt og laust við mærð að ég varð raunverulega miklu nær um tónlist og manneskju.

Hattinn ofan fyrir þessu páskasjónvarpi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband