Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 15. desember 2024
Blönduð byggð
Ég er enn alveg ofandottin af hneykslun yfir þessu Haga-máli í Breiðholtinu. Hver í veröldinni hélt að það væri í lagi að byggja vöruhús þétt upp við stofuglugga íbúa? Ég næ þessu engan veginn og mér finnst einhver þurfa að axla ábyrgð en augljóslega mun kostnaðurinn falla á borgarbúa að einhverju leyti.
En upp úr 1990 átti ég heima í Ingólfsstræti. Alveg í miðbænum. Þegar ég keypti þá íbúð var svæðið skilgreint sem blönduð byggð. Einhverjum árum síðar voru skemmtistaðir orðnir svo brjálæðislega háværir í þrjár áttir að ég fékk heilbrigðiseftirlitið til að desilbelmæla hann. Hann var yfir mörkum en aðallega var bassinn truflandi. Ég var að bilast.
Ég leigði íbúðina frá mér og flutti. Leigjandinn hafði búið við járnbrautarstöð í New York og endaði á að kaupa hana. Ég varð að slá af kaupverðinu en ég losnaði úr þessari hávaðamengun og veit ekki hvernig staðan er í þessu húsi í dag.
Áður en ég gafst upp hafði ég samband við þáverandi borgarstjóra sem sagði skýrt og afdráttarlaust við mig: Einhvers staðar verða vondir að vera. Einhver annar borgarfulltrúi tók undir með því orðalagi að ég hefði valið mér þessa búsetu.
Ég segi enn og skrifa að ég var í góðri trú þegar ég festi kaup á íbúð í blandaðri byggð og ég er enn á því að borgaryfirvöld hafi á þeim tíma verið of umburðarlynd gagnvart atvinnulífinu. Ég er löngu búin að jafna mig á þessum vondu svörum og vondu stjórnsýslu en nú rifjaðist þetta upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. desember 2024
Þétting byggðar
Ég er hlynnt þéttingu byggðar en ef helmingurinn af því sem maður heyrir um þessa vöruhússbyggingu í Breiðholtinu er sannur yrði ég sturluð þarna. Ég myndi ganga af göflunum og væri reyndar löngu búin að því.
Ég heyrði viðtal við Dóru Björt Pírata í útvarpinu í vikunni og hún var alveg miður sín.
En hver er sannleikurinn í málinu? Stóð þetta alltaf til? Kostuðu íbúðirnar lítið í ljósi þess að þær yrðu hvorki fugl né fiskur? Ég á bágt með að trúa að fólk hafi ekki séð þetta í farvatninu. Ef ég hefði keypt íbúð þarna í góðri trú myndi ég heimta að ábyrgur aðili keypti íbúðina af mér á markaðsverði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 5. desember 2024
Það er ekki nóg að hlutir séu réttir ...
... þeir verða líka að líta út fyrir það. Sá gjörningur að veita leyfi til hvalveiða er svo mikil ögrun að ásetningur valdhafans getur ekki verið góður. Ef þetta er nánast formsatriði vegna þess að lög og reglur mæli fyrir um það hlýtur ráðherra næstu ríkisstjórnar að gera það áður en veiðitímabilið byrjar næsta sumar. Það getur ekki legið svo lífið á að starfsstjórn sem á að slökkva elda og bregðast við aðkallandi málum finni sig knúna til að gera það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. desember 2024
Útstrikanir og uppstrikanir
Nú er búið að birta listann yfir þá þingmenn sem fengu flestar útstrikanir en hvar er fréttin um þá kjósendur sem færðu Dag B. upp fyrir Kristrúnu hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður?
Í óspurðum fréttum skal ég svo segja ykkur að ég vil borgarlínu og þéttingu byggðar. Ég vil fleiri hjólastíga og betri meðferð skattfjár.
Ég vil mannsæmandi laun handa öllum og ég vil að öryrkjum verði gert kleift að vinna eins og þrek þeirra býður.
Ég vil ekki selja gullmolana okkar fyrir slikk.
Ég vil ekki offeita (e. obese) banka sem hækka vexti á útlánum þegar Seðlabankinn lækkar stýrivexti.
Ég vil rafmagn og þess vegna vil ég virkja en ég vil ekki virkja fram í rauðan dauðann til að geta selt stórfyrirtækjum rafmagn á spottprís.
Ég vil að stórútgerðir borgi hærra verð fyrir aflann.
Ef ég væri í pólitík hefði ég lagt mesta áherslu á húsnæðismál og samgöngur vegna þess að ég held að léleg geðheilsa og að sumu leyti líkamleg heilsa myndi skána ef fólk færi ekki stressað að sofa og stressað á fætur. Ég er sjálf vel haldin og get þess vegna leyft mér að hafa áhyggjur af hnatthlýnun, ofsafengnum veðrabrigðum, sökkvandi eyjum og öðru sem fólki finnst ekki tengjast efnahag. En loftslag og listir gera það samt.
Og hvað skyldi ég þá hafa kosið? Ég skipti nefnilega um skoðun kl. 15 á laugardaginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. nóvember 2024
Kvennaveldi
Ég er að horfa á kappræðurnar á Stöð 2. Ef kjósendur eru ekki bölvuð ekkisens fífl verða konur í öllum ráðandi stöðum í næstu ríkisstjórn. Algjörlega óflokkspólitískt álit.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
Prósent eða prósentustig, þar er efinn
Íslandsbanki ríður á vaðið og lækkar vexti. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 50 punkta, þ.e. 0,5 prósentustig, en Íslandsbanki segist lækka um 0,5%. 0,5% af 10% eru 0,05 prósentustig og engan munar um það þegar 10% verða 9,95%.
Þetta kenndi mér Lárus Ingólfsson í 9.LI á sínum tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Ráðherrann II
Ég skil ekki þögnina um Ráðherrann II. Mér finnst þátturinn frábær. Hann sýnir fyrst og fremst keisarann sem er í engum fötum (stjórnvöld) og barnið (ráðherrann) sem hikar ekki við að benda á hið augljósa. Tvö dæmi:
- sú spilling að vilja frekar farga 2,8 tonnum af lambakjöti en að nýta það. Man einhver eftir smjörfjöllunum?
- íslenskir sendiherrar í löndum þar sem þeir tala ekki tungumálið, þekkja ekki menninguna og verða almennt ekki að neinu gagni. Man einhver tímana þegar við höfðum ekki ekki millilandasíma og internet? Við þóttumst hafa lært það af covid að við þyrftum ekki að skjótast til útlanda á fundi, heldur gætum nýtt tæknina. Mér finnst ótrúlega margir búnir að glutra niður þeirri góðu þekkingu.
Nei, Ráðherrann II er ekki gallalaus þáttaröð. Þáttur nr. 2, þegar Gunnar Hansson elti Ólaf Darra um spítalaganga í búningi þunglyndis meðan eiginkonan, leikin af Anítu Briem, lá á sæng, var fulllangur og ósannfærandi. Já, mér fannst ekki trúverðugt að norrænir ráðherrar og starfsmenn þeirra kæmu með hest inn í fundarsal hótelsins eða kysstu karlmann, löðrunguðu svo og fordæmu í kjölfarið ofbeldi. En þessar smávægilegu ýkjur ná ekki að breyta þeirri upplifun minni að þáttaröðin sé fyrst og fremst ádeila á spillingu, sjálfvirkni og sjálftöku í kerfinu. Af hverju eru menn ekki húrrandi yfir þáttunum öll sunnudagskvöld eins og meðan við höfðum Verbúðina, þá frábæru þáttaröð sem deildi á illa rekinn sjávarútveg?
Við erum þrjú sem ég veit um sem kunnum að meta Ráðherrann II.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. nóvember 2024
Hvað ef Trump hefði unnið 2020?
Ef Joe Biden hefði ekki unnið 2020 og Bandaríkjamenn hefðu haft Donald Trump í stafni í átta ár samfleytt, já, hvað þá? Hvaða frambjóðendur hefðum við haft núna í Bandaríkjunum? Í Bandaríkjunum er hámarksseta átta ár og nú fær Trump seinni hlutann af sínum átta árum.
Fólk sem ég tek mark á spáir dómsdegi, afnámi lýðræðis og mannréttinda kvenna. Verður hægt að endurreisa samfélagið eftir fjögur ár af eyðileggingu?
Hvernig manneskja fæst í endurreisnina?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. október 2024
Ráðherrann II
Nú eru búnir þrír þættir af nýju seríunni Ráðherrann II og enginn að tala um hana! Ég var gagntekin eftir fyrsta þáttinn og okkur tveimur systkinum kom saman um að hann væri frábær. Hann var sýndur sama dag og ríkisstjórninni var slitið. Nánast engin umræða varð nálægt mér um þann þátt, aðeins ég og bróðir minn ræddum hann. Svo leið vika og þá var þátturinn þar sem þunglyndið í gervi blaðberans ásótti ráðherrann mjög líkamlega. Við Trausti alveg dolfallin. Engin umræða í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum eða kaffistofum sem við urðum vör við.
Eftir þáttinn á sunnudaginn var fór ég aðeins að spyrja fólk í kringum mig og þá kom á daginn að öllum sem ég heyrði í og öllum sem þau höfðu heyrt í fannst þátturinn óhemjuleiðinlegur, ósannfærandi og klisjukenndur.
Ég er ósammála. Ráðherrann er með geðsjúkdóm sem er erfiður viðureignar en hann heldur honum í skefjum með lyfjum. Það er áhugavert umfjöllunarefni sem mér finnst nálgast á fallegan og nærfærinn hátt. En aðalefnið finnst mér eiginlega vera að þarna á að vera maður í pólitík með einlægan vilja til að hlusta á fólk og taka ákvarðanir byggðar á almannahagsmunum. Af hverju kveikir það ekki áhuga fólks?
Og Ólafur Darri - maður minn, hann er stórkostlegur leikari. Ég hlakka til að horfa næstu fimm sunnudagskvöld á Ráðherrann II. Ég er líka eins spennt og bogi yfir öllum pólitísku hlaðvörpunum sem hellast yfir okkur nú þegar og verða úti um allt næsta mánuðinn.
Komi nóvember fagnandi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. október 2024
Kosningarnar
Flestum finnst sjálfsagt offramboð af pólitískum þáttum, nýjum og eldri frambjóðendum að kynna sig og misgáfulegum loforðum og stefnumálum, en nú er ég í essinu mínu. Og það sem meira er, ég held að þessar kosningar muni marka vatnaskil.
Næsta ríkisstjórn mun leysa húsnæðisvandann, vaxtavandann og samgöngumálin. Vonandi leysist líka kennaradeilan.
Svo er ástæða til að láta meira til sín taka í utanríkismálum en þar stend ég almest á gati.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)