Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 2. júní 2024
Ég kaus í gær
Öll tólf höfðu eitthvað með sér, flest miklu minna en ég vildi sjá og eiginlega ekkert þeirra meira en 80%. Ég er greinilega svo blinduð af Guðna að ég bar frambjóðendur alltaf saman við hann og hans mannkærleika og gáfur.
Allan maímánuð var ég að máta frambjóðendur við embættið og mörg komu til greina á mismunandi stigum. Ég fór á sex kosningaskrifstofur og las og hlustaði heil ósköp.
Hatur og heift í kosningabaráttunni fór algjörlega framhjá mér nema þar sem fólk kvartaði undan hatri og áróðri. Ég sá bara kvartanirnar, ekki áróðurinn. Samt las ég mikið á vefnum og horfði á umræður og viðtöl.
Í gær kaus ég svo með hjartanu, ég kaus frambjóðandann sem ég vildi helst og hann blandaði sér ekki í toppbaráttuna. Sá frambjóðandi getur gengið beinn í baki frá sinni kosningabaráttu og haldið áfram þeim verkum sem hann hefur unnið fyrir þjóðina.
Ég trúi að forsetinn sem varð fyrir valinu muni venjast vel en bíð eiginlega spenntust eftir að sjá hvernig fólk ætlar að tala um Björn heilsukokk. Verður hann kallaður forsetamaki eða verður hann Björn eða Bjössi? Verður forsetinn hann eða hún (í ljósi umræðunnar um kynhlutleysi orða) og verður forsetinn mætt eða mættur?
Ég hef engar sérstakar skoðanir á skoðanakönnunum en minni á að skoðanakannanir hafa áður litað umræðuna. Ég kaus minn frambjóðanda með hjartanu og höfðinu og hefði verið til í miklu meiri hlátur næstu árin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. maí 2024
Skoðanakannanir
Ég fylgist spennt með skoðanakönnunum og kappræðum. Ég sé líka að obbi frambjóðenda vill að svipað fyrirkomulag verði haft á í síðustu kappræðunum, á morgun, og var 3. maí. Þær þóttu mér líka heppnast vel og er margbúin að segja það við fólk í kringum mig. Það var byrjað á mismunandi stöðum í hópnum, spurningar voru persónulegar, við fengum hraðaspurningar og frambjóðendur fengu að spyrja hvert annað.
Ég var ekki eins hrifin af forystusætinu á mánudag og margar vinkonur mínar, en Steinunn Ólína benti sannarlega á ákveðna þversögn í sambandi við skoðanakannanir. Ef ekkert mark er takandi á 40-50% landsmanna í könnun, af hverju eru þá kannanir látnar ráða hvaða frambjóðendur fá að mæta í aðalsettið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. maí 2024
Kosningarýni
Kosningarnar núna eru einstakar og ekki hægt að bera þær saman við neinar fyrri forsetakosningar. Ég veit um fólk sem kaus ekki Guðna fyrir átta árum þótt það vildi gjarnan fá hann af því að það taldi hann svo öruggan að því væri óhætt að kjósa annan sem fengi þá ögn betri kosningu. Örn Úlfar Sævarsson nefndi líka svona dæmi í Pallborðinu áðan, ég held um sig sjálfan.
Ég spái Katrínu sigri af ýmsum ástæðum, aðallega þeirri að hún er hokin af reynslu og mjög margt fólk vill forseta sem kann á fólkið og kerfið, er með tengslanet, á auðvelt með að koma fyrir sig orði - og er með húmaníska menntun, íslensku.
Þau sem ekki vilja fá rútineraðan pólitíkus á Bessastaði geta ekki kosið taktískt af því að það er ekki hægt að sjá út úr kosningaspám hvaða frambjóðandi er í 2. sæti.
Mín spá er að Halla Tómasdóttir eigi ekki eins mikið inni og hún átti á sama tíma árið 2016.
En hvaða forseti sem velst verður varla með meira en þriðjung atkvæða og mér finnst það dálítið dapurlegt. En svo ég haldi áfram að dansa í hring verð ég að rifja upp að okkar heittelskaða Vigdís vann með rúmlega þriðjungi atkvæða 1980 og varð mjög fljótt forseti okkar allra. Ég fæ kusk í augun þegar ég rifja upp þá djörfung sem hún sýndi með því að bjóða sig fram. Eftir því sem ég kemst næst bjóst hún alls ekki við að sigra, vildi bara sýna að kona gæti boðið sig fram.
En ég er svo mikill meðspilari að forsetinn sem kemur upp úr hattinum á sunnudagsmorguninn verður forsetinn minn, hvað sem ég exa við á laugardaginn. Ein vinkona mín á afmæli sama dag og einn frambjóðandinn og hún vonar að 11. október verði næsti fánadagur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. maí 2024
Lúxusvandi kjósandans
Ég er búin að líta inn á sex kosningaskrifstofur í mánuðinum og hlakka til að mæta á kjörstað á laugardaginn en er samt ekki búin að ákveða hver fær atkvæðið. Ég væri til í mörg þeirra og er búin að hafa stórkostlega gaman af kosningabaráttunni.
En hvert er vald forsetans? Ég held að það sé flesta daga, og í mörgum tilfellum allt fjögurra ára kjörtímabilið, svo lítið að forsetinn sem ég vel mér verður einhver sem kemur vel fyrir og er líklegastur til að senda jákvæð skilaboð til umheimsins. Og þar er úrvalið sannarlega mikið og gott.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. maí 2024
Forsetakosningarnar 1. júní
Ég er sólgin í allt upplýsingaefni um frambjóðendurna til embættis forseta. Ég er eiginlega ekki búin að gera upp við mig hvert atkvæðið fer en finnst þau næstum öll hafa eitthvað til síns máls. En akkúrat núna fá Ásdís Rán, Ástþór og Steinunn Ólína stærsta kúdosið fyrir boðaðan fund sameiginlega á Græna hattinum í kvöld. Ef ég byggi á Akureyri myndi ég mæta í síðasta kl. 19, fá mér að borða og bíða svo spennt eftir flugeldasýningunni. Það er svo mikil gleði í þessu.
Þessi (meinta) kosningabarátta er MJÖG skemmtileg. Hreinasta afbragð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. maí 2024
Pétur Gunnarsson rithöfundur á RÚV
Ó, þessi þáttur. Ég horfði alveg dolfallin á Pétur Gunnarsson, rithöfund og heimspeking, svara af svo mikilli hæversku öllu möguluegu um lífshlaup sitt og ferilinn og rauk svo á bókasafnið og sótti Punktinn og Ég um mig frá mér til mín. Hlakka mikið til að rifja upp kynnin af Andra.
Svo. Mikið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. maí 2024
Elías Auðar Haralds (1947-2024)
Nú er ég búin að lesa þrjár af Elíasarbókunum eftir Auði Haralds heitna. Ég var, og er, mikill aðdáandi hennar en hafði einhvern veginn samt ekki lesið hinar svokölluðu unglingabækur hennar. Guð minn góður, ég hló upphátt á hverri síðu. Elías er ábyrgi einstaklingurinn í þriggja manna fjölskyldu þar sem mamma hans og pabbi eru bæði mikið úti á þekju og til viðbótar stinga þau höfðinu í sandinn ef hætta steðjar að, þá helst þegar Magga frænka boðar komu sína eða - það sem er auðvitað hálfu verra - þegar hún birtist óforvarandis með kúst og kassa til að hjálpa þeim að pakka þegar þau flytja til Kanada.
Lýsingarnar eru náttúrlega óborgaralega fyndnar en á sinn lymskulega hátt tekst Auði að stinga að lesendum heilræðum og uppeldisráðum, allt í gegnum leik og glens.
Þvílíkur hvalreki sem Auður var fyrir bókmenntirnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. maí 2024
Meðvirkni er núna ofnotað hugtak
Horfið á kappræðurnar á Stöð 2 (ef þið hafið áhuga á forsetakosningunum og eruð ekki búin að horfa). Öll sex stóðu sig vel. Öll. Heimir spyrill fær verstu einkunnina fyrir að sýna einn viðmælanda úti á götu mæra einn frambjóðanda. Úrtakið var lítið og það var fáránleg mismunun að birta lofrulluna. Ekki samt víst að sá frambjóðandi græði á því.
Hálfur mánuður eftir og ég er ossa spennt.
Já, meðvirknin? Það er stutt á milli þess að trúa og treysta fólki og að vera meðvirkur. En við megum ekki glata tiltrú á fólki. Einn frambjóðandinn benti á þessa hættu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. maí 2024
Leyfð dánaraðstoð?
Ég hlustaði áðan á umræðu um hvort leyfa eigi dánaraðstoð eða ekki. Það er 100% að eitthvert fólk óskar eftir dánaraðstoð af því að lífsgæðin eru orðin engin. Ég átti vinkonu sem þjáðist svo af krabbameini og aukaverkunum þess að síðustu vikurnar af ævi hennar voru algjört kvalræði fyrir hana. Ég finn sárlega til þegar ég hugsa til hennar síðustu daga.
Svo get ég ímyndað mér að hlédrægt fólk, fullorðið fólk sem er orðið háð öðrum um margt, gæti orðið meðvitað (með réttu eða röngu) um að aðstandendum finnist það baggi og lætur þá í veðri vaka að það myndi þiggja svona aðstoð.
Ég er mjög tvístígandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. maí 2024
Bakgarðshlaupið
Ég skil ekki hvernig á því stendur að RÚV gerir bakgarðshlaupinu, sem er auðvitað sturlaður íþróttaviðburður, varla nokkur skil á meðan einkamiðillinn er með beina útsendingu frá upphafi til enda. Frá upphafi til enda er frá kl. 9 á laugardagsmorgni fram á miðjan mánudag. Starfsmaður Vísis er á staðnum með viðtöl og textalýsingar en mestmegnis bara mynd af ráslínu sem jafnframt er marklína. Ég sat í sófanum með verkefni hálfan sunnudaginn með kveikt á þessu spennandi sjónvarpi. Ekki kaldhæðni.
Af hverju getur ríkismiðillinn ekki gert þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)