Færsluflokkur: Dægurmál

Fyrrverandi kennari

Ég hætti að kenna í grunnskóla 1996 og framhaldsskóla 2001, ekki af því að ég væri komin á aldur heldur vegna þess að mér fannst vinnuumhverfið óboðlegt. Börnin komu ólesin í skólann og álagið var þannig að ég átti aldrei almennilega frí um helgar eða páska. Ég átti frí um jólin vegna þess að þá voru annaskil en um páska sat ég uppi með ritgerðir sem ég varð að lesa þá.

Ég hlustaði á Jón Pétur Ziemsen í síðdegisútvarpinu í gær og hreifst með ákafanum og ástríðunni. Ég veit ekki hvað á að gera til að snúa þróuninni við - ef ég hefði vitað hvað væri til ráða hefði ég sennilega ekki flúið fyrir rúmum 20 árum - en ég held að ráðamenn ættu að hlusta á fólkið í skólunum. Svo þurfum við öll að róa í sömu átt og ekki vera í stöðugum umkenningaleik.


Heimska

Ég er að lesa bók sem heitir Heimska. Hún fær ekki sérlega góðar einkunnir, þar sem ég hef lesið, en ég er ánægð með hana. Ég les hana eins og smásögur, einn kafla á dag, og þar sem ég er í heitu og þurru landi skil ég hana eftir úti á svölum.

Þegar ég fór á fætur í morgun og leit upp á svalir (já, upp hringstigann) var bókin horfin. Ég hafði mávana grunaða eða vindinn en svo reyndist hún hafa lekið aftur fyrir stóran blómapott. En mér finnst ég svolítið heimsk að hafa gónt ofan í húsgrunninn við hliðina á byggingunni í von um að sjá Heimsku bregða þar fyrir.

Mig langar ekki að taka bókina aftur með mér heim en hef ekki rekist á bókasafn hér á Spáni sem myndi fagna henni. Mér finnst óþarfi að eiga margar bækur og allsendis óþarft að eiga aðrar bækur en þær sem höfða eindregið til manns. Og þótt mér finnist sagan af Áka og Lenítu allrar athygli verð er hún ekki eiguleg. Þau eru algjört samtímafólk sem gengst upp í athygli, gjarnan hvort frá öðru en líka frá samfélaginu. Þegar ég leitaði í ofboði að bókinni í morgun bjóst ég næstum við vökulu auga myndavélar að fylgjast með viðbrögðum mínum. En auðvitað var öllum sama, enda er okkur flestum sama um flest fólk.

Við erum föst heima í okkur sjálfum.


Spánn

Ég hef núna verið tæpan mánuð á Spáni. Því miður hef ég ekki lært spænsku á þessum tíma og því miður ekki kynnst Spánverjum. Ég hef bara verið í minni íslensku búbblu og með mitt internet.

En það sem ég hef tekið eftir er:

- hvað spænskt fólk klæðist litríkum fatnaði. Bæði hef ég séð fatnaðinn á fólki en ekki síður þvott á snúrum fyrir utan glugga fólks. Þetta á við um margar byggingar líka, enda engin tilviljum að Almadóvar er spænskur.

- fjöldi leikhúsa en ég hef ekki orðið vör við bíóhús.

- að alls staðar nema í strætó virðist hægt að borga með korti. Ég var þeirrar röngu trúar að í bakaríum, á mörkuðum og jafnvel veitingastöðum væri gerð krafa um peninga. Og það virðist ekkert sérstaklega gert ráð fyrir þjórfé. Og nú er evran komin í 154 krónur, var 148 krónur þegar ég fór út. Óttalega sveiflukenndur gjaldmiðill sem við búum við.

- ótrúlegur fjöldi hunda, bæði lausir og í taumi með gangandi, hlaupandi og hjólandi eigendum sínum, og jafnframt mjög margir og mjög ræðnir kettir sem hafa komið mjálmandi til mín eða mjálmað til mín úr gluggakistum.

- brekkur. Ég var í bæ sem heitir Cala del Moral og þar var hægt að hlaupa á ströndinni en um leið og maður beygði ögn til vinstri var komin svívirðileg brekka. Það virðist eiga við um Malaga líka og sannarlega sáum við brekkur, gil, brýr og göng þegar við keyrðum til Córdoba og Granada um daginn.

- við gátum varpað íslenska sjónvarpinu á spænska skjáinn af því að Orange-myndlykill var við sjónvarpið. Við horfðum því á fréttir og Kappsmál í beinni útsendingu! Og í gær hélt áfram mynd í sjónvarpinu sem var þó kirfilega merkt að væri aðeins hægt að horfa á á Íslandi.

- að í íbúðunum sem ég hef leigt hafa verið hringstigar milli hæða, þótt íbúðirnar séu ponsulitlar.  


Grindavík

Ég hef engar tengingar við Grindavík þannig að ég býð ekki upp á neinar brakandi útlistanir á ástandinu. Ég hef bara undrast að sjá hversu margt áberandi fólk er frá Grindavík, ég var ekki búin að átta mig á því hve margt íþrótta- og stjórnmálafólk er af svæðinu.

Annað sem ég furða mig á er að hafa ekki séð neins staðar áberandi umræðu um millilandaflug. Ég þekki fólk í ferðaþjónustunni sem hefur fengið afbókanir, einkum vegna stórra hópa, sem er alveg skiljanlegt þegar fólk situr í útlandinu og les endalaust um rýmingu bæjar í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöllinn.

Sjálf veit ég um fólk sem hefur flogið burt af landinu eftir að hamfarirnar hófust þannig að ég þykist vita hið sanna í málinu, en það þarf að róa mannskapinn. Eða lokast landið fljótlega eins og Sigríður Hagalín spáði í skáldsögu sinni?


Indó

Ég skal svoleiðis segja ykkur það að ég hef samanburð á Indó-korti og öðrum bankakortum í útlöndum. Það eru engar ýkjur að gengisálag upp á 2,5% hjá hinum bönkunum er ekki hjá Indó, a.m.k. ekki enn sem komið er. Ég veit ekki hvort bankinn heldur þetta út til lengdar, minnug þess að Atlantsolía ætlaði að veita hinum bensínsölunum samkeppni en ég held að henni sé ekki lengur til að dreifa.

Nú prófuðum við að kaupa ís upp á 3 evrur. Hjá Indó kostaði hann 449 krónur en 460 hjá hinum bankanum. 11 krónur gera ekki gæfumuninn en þegar til lengdar lætur fer það að skipta máli - og gírugu bankarnir finna vonandi að þeir missa viðskiptavini. Kannski bæta þeir sig þá, en þá ætla ég samt að muna eftir að halda áfram viðskiptum við bankann sem veitti alvörusamkeppni.


Kvennaverkfallið

Klukkan er að verða eitt og ég sit í sófanum heima hjá mér, baða mig í D-vítamíni sem leggur inn um gluggann og er að fara að tygja mig á samstöðufund.

Ég er forréttindapési. Ég er í skemmtilegri vinnu sem ég menntaði mig til, á vinnustað sem hvetur til samstöðu og er á leið á samstöðufund sem er hugsaður til áréttingar á því að stórir hópar kvenna þiggja lægri laun fyrir sambærilegt starf og karlar vinna. Ég þekki sjálf engan einstakling sem vill að konur fái lægri laun en karlar fyrir jafn verðmæt störf.

En þetta er ekki eins einfalt og það hljómar. Störf við að varsla peninga eru einhverra hluta vegna metin hærra en að varsla fólk. Ég nota viljandi svona ómanneskjulegt orð, varsla. Einhver raðar fólki og stéttum á launaskalann og þótt konur hafi sums staðar hafist til metorða er eins og þær karlgerist í þeim stöðum og beiti sér ekki fyrir jöfnuði.

Ég ætla að mæta á fundinn vegna þess að þessi samstaða skiptir máli þótt ég hafi það persónulega mjög gott.

Svo eru ólaunuðu aukastörfin. Hver skipuleggur sumarfrí fjölskyldunnar? Jólagjafakaup? Skreytingar? Hver tekur til nestið? Þið þurfið ekki að horfa langt til að sjá að í obba tilvika sér konan um þessa aukavakt, ásamt því að líta til með fullorðnum foreldrum. Ég held að flest fólk, sem sagt konurnar líka, sé til í þessi aukastörf en vilji deila með hinum á heimilinu.

Áfram, jafnrétti!


Fækkum kóngum og drottningum

Vá, hvað mér líst vel á þessa tillögu um að sameina Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbæ. Mér hefur löngum fundist smákónga (og -drottninga)blætið kjánalegt. Hvað gerir Mosfellsbæ frábrugðinn Breiðholtinu? Hann er aðeins fjær miðbæ Reykjavíkur. En Kjalarnes er enn fjær og það tilheyrir Reykjavík.

Sameining myndi auðvelda almenningssamgöngur, sorphirðu og alls kyns þjónustu. Og, já, auðvitað ætti svo að stíga næsta skref og sameina til suðurs líka og fá Kópavog, Garðbæ og Hafnarfjörð í sömu sæng.


Eru sykursýkislyf grennandi?

Ég var að heyra að fólk sem er ekki með sykursýki taki sykursýkislyf sem megrunarlyf. Ég er nú svo gömul sem á grönum má sjá en ég hafði ekki heyrt þetta fyrr en í gærkvöldi. Getur það verið satt? Það fylgdi sögunni að fólk með aukakíló sækti svo í þessi lyf að raunverulegir sjúklingar fái ekki lyfið.

Getur þú staðfest þetta?


Minnistap

Mögnuð leikin mynd um Alzheimer var í sjónvarpinu um helgina. Fimmtugur háskólakennari finnur að hún byrjar að gleyma og áður en hún segir nokkrum í fjölskyldunni frá pantar hún tíma hjá taugalækni og fær skoðun á heilanum. Þegar hún segir manninum sínum frá og svo uppkomnum börnunum er hún þegar farin að sjá framtíðina skýrt og sendir framtíðarsjálfi sínu skilaboð um að þegar hún muni ekki lengur nöfnin á börnunum sínum skuli hún sækja töflur á vissan stað í kommóðunni og gleypa þær allar með vænum skammti af vatni.

Læknirinn segir að sjúkdómurinn sé langt genginn vegna þess að hún hafi notað heilann svo ótæpilega, þannig hafi einkennin ekki komið fyrr í ljós en fyrir vikið sé minna hægt að meðhöndla.

Myndin var svo átakanleg og vel gerð að ég hágrét yfir henni sums staðar. Ég get bara ímyndað mér einhvern mér nákominn sem hættir einfaldlega að muna það sem var sagt rétt í þessu. Það reynir á þolinmæðina en samt vita allir að við þessu er ekkert að gera. Minnisglapamanneskjan er sannarlega ekki að leika sér að þessu.

Og ég get líka sett mig í spor manneskjunnar sem veit að hún tapar öllum minningum og mestallri færni og verður í raun kannski byrði á sínum allra nánustu.

Mögnuð mynd. Grátlegur veruleiki sem ég vona að sem fæstir upplifi en óttast að of margir upplifi.


Kostnaður við réttarfar

Í fréttayfirlitinu heyrðist rétt í þessu setningin: Dómstjóri segir kostnaðinn hlaupa á milljónum.

Þá er bara verið að tala um þinghaldið sjálft, það að koma upp dómsal í Gullhömrum. Þetta er fórnarkostnaðurinn við að vera með réttarríki þar sem sakborningar eru leiddir fyrir dómara, 25 í þessu tiltekna máli sem er auðvitað fáheyrður fjöldi.

Nú þætti mér gaman að vita hvort háværu raddirnar sem gagnrýndu hvalveiðimótmælendurna vegna kostnaðar við lögreglu sem fór þrisvar upp í mastrið til þeirra eru líka þeirrar skoðunar að fella eigi kostnaðinn við málið á sakborningana 25.

Launþegar borga skatta og þeim er varið í alls konar, þ.m.t. löggæslu og réttarfar. Við viljum sjálfsagt öll að peningunum sé vel varið en sumt kostar einfaldlega ef við viljum vera siðað ríki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband