Færsluflokkur: Dægurmál

Embla > Alexa og Siri

Nú þokast Embla nær markmiði sínu, sem er að geta svarað spurningum okkar munnlega, af því að verið er að kenna henni íslensku. Hún er takmörkuð af því að hún er í vinnslu en hún verður bara betri ef við leyfum henni að spreyta sig.

Nú ættum við öll sem eigum snjallsíma að sækja Emblu í gagnabankann og þjálfa hana með notkun.

Lifi fjórða iðnbyltingin! Lifi gervigreind! Lifi framtíðin!


Ef persónukjör ...

Ég er komin með efasemdir um persónukjör. Ég hef verið höll undir það af því að ég myndi vilja velja fólk af ýmsum framboðslistum en nú er ég sem sagt komin með bakþanka. Ég held auðvitað að ég myndi velja vandað og gott fólk sem væri staðráðið í að vinna fyrir þjóðina ... svona eins og Benedikt Ríkarðsson ... en þótt ég myndi vanda mig í alvöru eru aðrir kjósendur sem væru vísir með að skemma fyrir mér með því að velja áberandi áhrifavalda, sjónvarpsstjörnur sem vinna við að villa á sér heimildir og þá sem læra frá blautu barnsbeini að vaða yfir aðra, já, Trumpa þessa heims.

Ég væri alveg til í að vinna svona samfélagsstarf, að vera á þingi eða í borgarstjórn, en ég held að það þurfi mjög sterk bein, hrikalega réttlætiskennd, bjargfasta sannfæringu og mikla þekkingu á mörgum málaflokkum til að láta hvergi og aldrei glepjast til að skara eld að eigin köku. Ég þekki gott fólk í pólitík sem er einmitt svona en mér segir svo hugur að hitt fólkið sé líka í áhrifastöðum.

Viljum við ofbeldi? Viljum við fórna umhverfinu? Viljum við menga? Viljum við mismuna? Viljum við halla réttu máli?

Enginn með fullu viti segir já við þessum spurningum en samt býr fólk við ofbeldi, loftslagsvá, mismunun og ranglæti. Af hverju ætli það sé? Ég held að það sé af því að mannskepnan er ístöðulaus og velur mjög oft auðveldu leiðina sem er ósjaldan sú að snúa blinda auganu að vandanum og þykjast ekki sjá hann. Rétta leiðin er of tímafrek og fyrirhafnarmikil.

Nú er orðið víst að Joe Biden verður næsti forseti Bandaríkjanna og ég hrósa happi eins og stór hluti samborgara minna en samt er ég ekki viss um að hann sé góður kostur. Hann hefði fengið óánægjuatkvæði mitt ef ég hefði mátt kjósa, rétt eins og ég var kosin formaður Félags leiðsögumanna á fyrsta fundinum mínum í því félagi af því að fólk vildi alls ekki hinn frambjóðandann. Ég stóð mig ekkert illa árið sem ég gegndi starfinu og ég vandaði mig sannarlega við að gera félaginu gagn en ég hefði getað gert miklu betur. Ég þurfti því miður að eyða ómældum tíma í að berjast við drauginn sem ég vann í kjörinu af því að hann gerði allt til að skemma fyrir mér. Og hann kom úr stjórnmálum þótt hann væri svo sem hvergi kjörinn.

Ég er alveg með hjartað í brókunum yfir næstu vikum. Hvað getur Trump valdið miklum skaða til 20. janúar? Af hverju getur stærsta lýðræðisríki heims ekki haft hemil á úrillum kalli? Hvernig er stjórnsýslan ef hægt er að handvelja félaga sína í Hæstarétt?

Jæja, þessi helgi var algjör rússibani og ég er kát með að hún skuli næstum vera um garð gengin.

 


Trump hressir og kætir ...

... nú þegar maður trúir að hann sé á förum.

 


Joe Biden með 264 kjörmenn skv. RÚV

Ég er með hjartslátt yfir kosningunum í Bandaríkjunum. Þetta klippti ég af New York Times rétt í þessu:

NYT

Og Guardian:

Guardian

Sigurvegarinn þarf 270 kjörmenn en þeir koma inn í kippum þannig að sigur Bidens er alls ekki í höfn.

 


Zoom á Chrome eða Edge

Við lifum áhugaverða tíma. Einu sinni marggekk ég á vegg á Internet Explorer þegar ég ætlaði að uppfæra einhverja vefsíðu. Ég varð að færa mig yfir í Chrome. Í morgun lenti ég í vandræðum með að komast á zoom-fund, eins og ég var þó á í gær, af því að Chrome dugði ekki heldur varð ég að færa mig yfir í Edge.

Þetta er kannski trumpíska.


Bévítans guðhræðslan

Brimbrot! Átakanlega mögnuð mynd. Auðvitað ástarsagan, en hvað er hægt að segja um þessa tegund trúar? Hina ótrúverðugu trú Bess á guð sinn sem sprettur upp í trúarofstækissamfélaginu sem hún elst upp við? Og yfirlæti hinna trúuðu sem leyfa sér að sparka í þá sem eru þeim ekki þóknanlegir? Þvílíkur yfirdrepsskapur. Ég held að þennan yfirdrepsskap sé ekki að finna hér, a.m.k. ekki í mínu nærsamfélagi, og ég trúi að hann sé á undanhaldi.

Mögnuð mynd sem ég hafði séð en mundi ekki hvernig endaði. Gæsahúð. 


Hugarheimur skipstjórans

Ég ákvað að reyna að setja mig í spor skipstjórans á Júlíusi Geirmundssyni. Auðvitað er hann til frásagnar og mun segja einhverjum í rannsókninni hvað hann var að hugsa en það er alls óvíst að ég fái að sjá það.

Ég var einu sinni leiðsögumaður og fór með hópa á jökul. Það var aldrei mín ákvörðun hvort ætti að fara eða ekki og ég lenti heldur aldrei í neinum reginvillum eða hættuástandi. En ég ætlaði að reyna að komast inn í heilabúið á manni sem ber ábyrgð á 25 manns á fjarlægum slóðum. Ef ég hefði verið með 25 manns á jökli eða annars staðar úr leið og einn farþegi hefði meitt sig á fingri hefði ég kannski boðið plástur og eftir atvikum verkjalyf. Ef hann hefði stigið ofan í gjótu og snúið sig hefði ég kannski spurt: Geturðu gengið? Ef hann gæti alls ekki gengið væri mér vandi á höndum. Það væri leiðinlegt ástand af því að hinir 24 væru kannski í fínu formi og vildu halda ferðinni áfram.

Ég lenti aldrei í neinu svona og þurfti aldrei að hringja út þyrlu en get alveg ímyndað mér að það sé erfið staða. Ef 22 af 25 farþegum hefðu á hálfum mánuði verið búnir að stíga í gjótuna eða brenna sig eða missa móðinn, einhver blanda af ýmsu, hefði ég verið löngu búin að finna spegil til að horfa í augun á mér og spyrja hvað gengi að mér.

Ég vil alltaf leyfa fólki að njóta vafans og nú bíð ég spennt eftir að heyra nothæfar skýringar vegna þess að ég get alls ekki látið mér detta neitt annað í hug en kjarkleysi. Það kostar pening að snúa skipi við og það kostar pening að hringja út þyrlu eða sjúkrabíl. Það kostar augljóslega kjark að taka réttar ákvarðanir og hlífa mannslífum.


#ÉgerArnarHilmarsson

Ég saup hveljur þegar ég horfði á viðtalið við Arnar Hilmarsson í gærkvöldi, 21 árs skipverja á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni. Hann var yfirvegaður og vel máli farinn og ég trúi honum. Ef hann færi með fleipur væri ábyggilega bæði auðvelt að hrekja það, t.d. með því að mennirnir væru ekki með Covid, og væri búið að hrekja það. En þvert á móti er núna framkvæmdastjórinn leiður yfir að aðstæður hafi verið vanmetnar.

Arnar Hilmarsson fór því ekki með fleipur.

En það sem mér finnst samt ekki síður sláandi er þöggunin í samfélaginu og hvað okkur finnst hún sjálfsögð. Fréttamaður spyr hvort hann óttist ekki um plássið sitt.

Tjáning mín á málinu er óendanlega verðmætari en starf mitt.

Hann er ungur og óhræddur og ef samfélagið er ekki gegnrotið eru honum allir vegir færir. Hann er greinilega vel gefinn og ég ætla að hann sé stútfullur af réttlætiskennd. Ég vildi óska að fleiri hefðu þennan kjark því að sjálf er ég litla músin sem tekur ekki slaginn. Ríkir tjáningarfrelsi í raun?

Framkvæmdastjórinn er núna voða leiður en hann hafði þrjár vikur til að láta verkin tala. Og greinilega hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Gunnvör fékk verðlaun TM fyrir að sinna forvörnum og öryggismálum. Það var 2012. Mér ofbýður.

Til að kóróna maðkinn í mysunni virðast síðan Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi hafa lagt framkvæmdastjóranum til afsökunarbeiðnina. Þarna á milli er greinilega enginn eldveggur.


Maður og verkefnið sem hann tekur að sér

Ég átti í útistöðum við lögmann bróður míns. Bróðir minn, Gummi, er siðlaus og hafði mikla peninga af mömmu og pabba, í og með af því að hann er óvirkur alkóhólisti og spilaði oft út því spili. Þau gerðu margt til að halda honum frá vímugjöfum og létu hann í því skyni hafa mikinn pening sem ég get aldrei reiknað nákvæmlega út. Þau voru fjár síns ráðandi og máttu gefa honum það sem þau vildu en að auki lánuðu þau honum 10,5 milljónir sem eru til pappírar fyrir, bara ekki þinglýstir og/eða undirritaðir af Gumma. Hann veit þetta sjálfur og hlær að því eins og þvi að hann fékk lánaðar hjá mér 7 milljónir árið 2008 sem hann ypptir bara öxlum yfir og segist ekki ætla að borga. Og ég lánaði honum líka í þeirri góðu trú að undirskriftir væru óþarfar og að hann myndi borga mér þegar hann gæti.

Bróðir minn er svona og flestir sem þekkja hann aðeins dýpra en á yfirborðinu hafa séð í gegnum hann.

Hann réð sér lögmann þegar mamma dó af því að hann ætlaði að ná meiri peningum út úr hennar hluta og út úr pabba. Fyrsti lögmaðurinn sem hann talaði við tók verkefnið ekki að sér. Næsti gerði það hins vegar. Sagt er að maður megi ekki samsama manninn verkefninu og lögmenn leggja mikið upp úr orðspori sínu. Gott og vel, en ef lögmaður tekur að sér að ganga erinda manns sem hann veit að er siðlaus en hefur einhverja peningavon sem hann fær hlutdeild í finnst mér hann a.m.k. ekki vandur að virðingu sinni. Maður sem ver harðsvíraðan morðingja sem kemst undan refsingu vegna tæknivillu finnst mér ómerkilegur maður. Þetta er myndmál og mér finnst meiri glæpur að drepa en stela.

Ef ég tæki að mér að prófarkalesa nákvæmar leiðbeiningar um hvernig konu skyldi nauðgað fyndist mér ég vera að blessa verknaðinn og myndi þar af leiðandi augljóslega ekki taka verkið að mér þótt ég gæti unnið framúrskarandi fagvinnu. Af hverju má ekki ætlast til þess að menn afþakki ógeðsleg verkefni? Má peningavonin sín alltaf meira og erum við bara dús við það?


Opinberir starfsmenn

Ég hef verið opinber starfsmaður og mér hefur alltaf fundist augljóst að ég yrði að gæta hófs í því hvernig ég bæri mig og hvað ég bæri. Að vísu finnst mér það bara yfirleitt. Þess vegna skil ég ekki að lögreglumenn festi á sig nokkurn skapaðan hlut sem getur varpað rýrð á þá eða fagið eða valdið öðrum tjóni eða uppnámi.

Að sama skapi finnst mér ótækt að fólk segi, hvort sem er í hópi eða á netinu, að lögreglumenn séu upp til hópa rasistar eða eitthvað í þá veru. Eitt rotið epli - og ég er ekki að fella neinn dóm um neinn einstakling með þessu - þýðir ekki að allur kassinn sé skemmdur. Ef rotna eplið fær hins vegar að liggja í kassanum til lengdar skemmir það út frá sér.

Dómsmálaráðherra finnst mér hafa talað af skynsemi og það hlýtur að vera hægt að lenda þessu fánamáli ... svo við getum aftur farið að tala um smit og kórónur. 

tongue-out


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband