Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 22. október 2020
Að nota hverja mínútu tvisvar
Mamma kallaði mig oft múltítösku og okkur fannst það báðum fyndið. Ég hafði einhvern tímann sagt henni frá ensku sögninni multitask og sagst vera að múltítaska.
Við skemmtum okkur oft yfir þessu en núna er ég svo ánægð með að ég hafi ekki lengur þörfina fyrir að nota flestar mínútur tvisvar. Ég er farin að njóta þess meira sem ég er að gera hverju sinni. Get þó sagt með gleði að lagði yfirleitt öll verkefni til hliðar þegar ég var hjá mömmu og pabba. Nú er ég mjög þakklát fyrir okkar góða tíma þótt hann hefði sannarlega mátt vera lengri. Það er nefnilega erfitt að sjá á bak fólki sem manni þykir vænt um þótt það sé komið á tíræðisaldur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. október 2020
Getur tannheilsa valdið heilabilun?
Ég veit ekki hvort ég heyrði skakkt í morgun en hafi ég heyrt rétt getur röng og léleg tannhirða valdið meiru en tannmissi, hún getur valdið alls kyns heilasköðum og á Alþingi í dag var hálft um hálft tekið undir það.
En af hverju er svona dýrt að fara til tannlæknis? Skattborgarar borga menntun tannlækna sem læra í HÍ og ég sé ekki eftir því frekar en öðru samfélagslegu, en ættum við þá ekki að njóta þess í minni kostnaði?
Ég hef heyrt að það kosti 8 milljónir að mennta einn tannlækni. Af hverju borga tannlæknanemar bara hóflega fyrir sína skólagöngu, 75.000 á ári, en listnemar allt að 1 milljón á ári? Og það er ekki eins og listnemar sem útskrifast geti gengið að vinnu vísri en samt viljum við að listir og menning auðgi anda okkar og gefi lífinu fyllingu og lit.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. október 2020
Gert að hætta vegna aldurs?
Ég var að lesa héraðsdóm þar sem sjötug kona kærir skólastjóra fyrir að víkja sér úr starfi vegna aldurs. Ég las dóminn ekki frá orði til orðs en það sem mér finnst sláandi er að kennarinn stefnir að vísu sveitarfélaginu en virðist eiga sökótt við skólastjórann. Er reglan ekki ófrávíkjanlega sú að fólk hættir í ráðningarsambandi í síðasta lagi í lok þess mánaðar þegar það verður sjötugt?
Ég hef mikinn skilning á því að fólk vilji halda áfram í vinnu þótt það nái aldursáfanga, ekki síst ef lífeyristekjurnar hrökkva skammt, en í þessu tilfelli þyrfti annað hvort að breyta lögum eða hún hefði getað verið verkefnaráðin. Vildi skólastjórinn það þá ekki?
Á bls. 13 stendur:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. október 2020
Ein setning sem ég segi aldrei
Setningin er: Ég hef ekki tíma til þess.
Auðvitað getur komið fyrir að maður hafi ekki tíma til að 1) tala í símann, 2) sækja einhvern, 3) lesa eitthvað, 4) fara í búðina, 5) elda steik fyrir einhvern ákveðinn tíma. Einhverjir klukkutímar eru ásetnir, einhverjir dagar, maður er ekki í bænum eða maður er algjörlega upptekinn við eitthvað í einhvern tíma.
En ég hef tíma til að fara í leikhús, lesa bók, stunda hugleiðslu, ganga á fjöll, ala upp barn, fara í nám, vera í vinnu eða taka til ef ég er með einhvern hvata. Þetta er allt spurning um forgangsröðun og val.
Ég var að velta fyrir mér hvort ég hefði tíma til að einhenda mér í pólitík á næsta kjörtímabili ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. október 2020
Netpartar og Terra
Ég fylgdist með þegar umhverfisverðlaun SA voru afhent í morgun. Umhverfið er einhver dýrmætasta eign okkar og brýnt að fara vel með það. Þess vegna vekur það furðu mína að sjá ekki í neinum fjölmiðli umfjöllun um Netparta og Terra eftir daginn. Ég þykist eitthvað vita um Terra (nei, ég er ekki að vinna þar) en viðtalið við Aðalheiði Jacobsen hjá Netpörtum var aldeilis stórkostlegt og um hana vissi ég ekkert. Þvílík framsýni, þvílíkur frumkvöðull.
Einkennisorð fyrirtækisins eru
Minni sóun. Minni urðun. Betra umhverfi
og ég er viss um að nettröllið Vagn sem er aftur farið að gera ómálefnalegar athugasemdir við færslur hjá mér getur ekkert haft á móti því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. október 2020
Ný stjórnarskrá
Ég er þakklát fyrir fjölmiðla. Ég man að fyrir mörgum árum, ég get nefnt árið 2008, talaði fólk um að fjölmiðlar segðu svo lítið og að bloggið segði meira. Þá voru vissulega öflugir og víðlesnir bloggarar sem stungu á kýlum og sögðu það sem stofnanir gátu ekki leyft sér með góðu móti af því að það vantaði herslumuninn í heimildum.
Núna volgnar sem sagt í mér hjartað þegar ég les á RÚV, Vísi og Mbl um þöggunartilburði einhverra þegar stór hópur langþreyttra biður um efnislega umræðu um ákvæði í nýrri stjórnarskrá. Ég sé komment frá nokkrum sem tala um að nýja stjórnarskráin sé ekki stjórnarskrá heldur drög að stjórnarskrá. Já, þau hafa ekki verið samþykkt og þau eru ekki fullkomin frá mínum bæjardyrum séð en þau eru útgangspunktur. Ég vil að fiskurinn í sjónum sé ekki séreign neins heldur sameign þjóðarinnar, ég vil líka að jöklarnir, fjöllin og jarðhitinn séu sameign, ég vil persónukjör, ég vil jafnt vægi atkvæða og ég vil aðskilnað ríkis og kirkju. En ég sætti mig við að fá ekki allt og fyrst og fremst vil ég málefnalega og heiðarlega umræðu þar sem hagsmunaaðilar sleppa takinu af meintri séreign sinni.
Hvar er nýja stjórnarskráin? vísar í mínum huga í nýja stjórnarskrá, ekki endilega drögin óbreytt. Forsætisráðherra segist vilja fá efnisumræðu um málið. Hvað er þá í veginum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. október 2020
Tvö ár og níu mánuðir
Í dag eru í alvörunni tvö ár og níu mánuðir síðan mamma dó. Alveg óskiljanlegt. Grátlegt og næstum ófyrirgefanlegt. Fólk heldur kannski að það sé auðveldara að kveðja ástvini sína þegar þeir hafa náð háum aldri. Það er ekki auðvelt. Ég þakka fyrir að hafa ekki þurft að fylgja neinum bráðungum en það var samt erfitt að sjá á bak mömmu níræðri. Og ef mamma hefði náð pabba í aldri ætti hún enn fimm ár eftir. Ég sakna hennar sárt og allra prakkarastrikanna sem við áttum eftir að fremja saman.
Það sem ég hugga mig við er að við vorum góðar vinkonur og að ég hef ástæðu til að sakna hennar alla daga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. október 2020
Líka og sömuleiðis?
Ég er í námi þar sem tungumálið kemur mikið við sögu og sé þar athugasemdir um að líka og sömuleiðis þyki talmálslegt orðalag, frekar ætti að nota orðið einnig í formlegu ritmáli. Ég kem alveg af fjöllum. Hvorugt orðið truflar mig á prenti og er ég þó bæði frekar gagnrýnin og búin að grúska mikið í muninum á talmáli og ritmáli.
Hefur lesandi minn skoðun á þessu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. október 2020
*Landhelgigæslan
Flestir málfræðingar sem ég þekki eru umburðarlyndari gagnvart alls konar í tungumálinu en þeir sem eru ekki málfræðingar. Margir þeirra sem lyfta fingrum hvað óðast til að benda og gagnrýna orðfæri kunna ekki viðurkenndan málstaðal, þekkja ekki fjölbreytileikann og virða ekki hefðina heldur halla sér að einhverju sem þeir halda að sér rétt. Og hvað er rétt? Það sem fólk hefur alist upp við og því er tamt er ekki vitlaust, það er bara ekki í samræmi við almennan málstaðal. Hvenær verður orðið rétt að segja: *mig hlakkar? Það getur orðið áður en ég verð öll, rétt eins og einu sinni var rétt að segja læknirar í nf. ft. en nú er rétt skv. málstaðli að segja læknar.
Ég hef oft heyrt fólk segja af mikilli vandvirkni athyglivert, sjálfsagt af því að athygli er kvenkyns og tekur ekki eignarfalls-s nema við þessa tengingu. Skyldi það fólk líka tala um *Landhelgigæsluna?
Sýnum umburðarlyndi. Vöndum okkur sjálf en dæmum ekki. Ef við fettum of mikið fingur út í meintar málvillur missum við yngstu kynslóðina úr íslenskri málnotkun af nokkurri tegund og yfir í það sem henni finnst einfaldara, enskuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. október 2020
Kappræður varaforsetaefnanna
Ég sofnaði tvisvar yfir kappræðunum í gærkvöldi. Já, þær voru náttúrlega seint á dagskrá en þegar Kamala Harris var spurð í blábyrjun hvernig ætti að bregðast við heimsfaraldrinum úthúðaði hún þeim aðgerðum sem hefði verið farið í eða ekki farið í nú þegar. Ég held að við séum mörg sammála um að Trump kunni sig ekki og ég held líka að flestir áhorfendur hafi vitað að varaforsetaefni andstæðings Trumps kunni ekki að meta hann þannig að ég hefði viljað sjá uppbyggilegt svar.
En kannski er ég bara ekki nógu góð í ensku ... eða kannski geri ég þriðju tilraunina í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)