Færsluflokkur: Dægurmál

Svínshöfuðið

Nú er ég búin að lesa Svínshöfuð og skil ekki alla hrifninguna sem ég hef lesið um. Væntingar skipta alltaf máli en mér finnst sagan detta of mikið í sundur. Ég skil að þau eru þrjú í fjölskyldunni með hvert sitt sjónarhornið en mér finnst það samt of sundurleitt.

Auðvitað fannst mér bókin fín, hún segir áhugaverða sögu þeirra sem þurfa að berjast við djöfla, vanmátt, uppgjöf, mistök, rangar ákvarðanir og ósigra og saga þess fólks heyrist oft ekki af því að yfirleitt er það sigurvegarinn sem segir söguna, sbr. mannkynssögubækur. Mér finnst hún bara ekki eins stórkostleg og má skilja á fólki.

Af Svínshöfði er t.d. gefin í byrjun allt, allt, allt önnur mynd en kemur síðan á daginn. Mér finnst eins og höfundur hafi ekki gert upp við sig fyrr en eftir nokkra tugi blaðsíðna hversu mikill tapari hann hafi átt að vera í lotteríi lífsins. Svo kemur öll hans harmþrungna barnæska sem endar í dapurlegri elli.

Sagan af Helenu er frekar einföld en sagan af stráknum nær sér aldeilis á strik eftir ákaflega hundleiðinlega byrjun. Þegar ég átti 30 blaðsíður eftir var ég næstum búin að gefast upp á bókinni en þá var öll marktæka raunasagan hans eftir. Og endirinn kom sannarlega á óvart.

Kannski yfirsést mér eitthvað í bókinni og kannski sæi ég eitthvað markvert við annan lestur en það aláhugaverðasta finnst mér vera það kastljós sem fólkið fær sem er vant að standa utan kastljóssins. Sögupersónurnar eru yfirleitt bara aukapersónur í annarra manna sögum og það var vel gert í Svínshöfði.


Samviskubitið

Ég hef nokkrum sinnum fjallað um Gumma bróður hérna. Hann er fjórum árum eldri en ég, drakk sig út úr grunnskóla, tolldi hvergi í vinnu og alls ekki í námi fyrr en hann kláraði garðyrkjuskólann fyrir tveimur árum og hreykti sér af því við mann sem ég þekki að hann hefði svindlað sér í gegnum hann með því að tilkynna sig veikan í prófum og taka svo prófin þegar hann var búinn að skoða þau hjá öðrum.

Ég lánaði honum iðulega peninga og það þótt hann híaði endalaust á mig fyrir að taka t.d. ekki námslán þegar ég var í háskólanum heldur vinna með námi. Hann híaði á mig fyrir að standa í skilum en sjálfur kom hann sér undan því að borga með dætrum sínum þegar hann skildi við mömmu þeirra. Saga hans er sennilega óslitin svika- og lygasaga en steininn tók úr hjá mér þegar ég asnaðist til að lána honum SJÖ MILLJÓNIR árið 2008. Ég hafði oft lánað honum peninga til að borga reikninga fyrir sjoppu sem hann átti og rak um tíma. Auðvitað endaði sá rekstur með því að hann missti hann úr höndunum á sér.

Ég er fyrir löngu búin að átta mig á að ég var meðvirk. Hann átti bágt og ég lánaði honum. Ég vissi líka að annars myndi hann biðja mömmu og pabba um lán og ég vildi hlífa þeim. Ég var að reyna að vera artarleg systir og dóttir. Og ég er það. Ég er traust manneskja og get verið það áfram þótt ég láti ekki misnota mig.

Ljósið sem rann upp fyrir mér í síðustu viku þegar ég sat og talaði öðru sinni við fagmann um málið var að ég er þjökuð af samviskubiti yfir að vera honum svo miklu fremri; vitsmunalega, fjárhagslega og félagslega. Hann byrjaði að drekka áfengi 11 ára, stal bíl og velti, var til vandræða í skólanum, hélt vöku fyrir mömmu viku eftir viku þegar hann var einhvers staðar úti á randi og svo hringdi lögreglan og bað mömmu að sækja hann. Þá vældi hann og var ósköp lítill. 

Þetta er veganestið mitt í æsku. Ég var hins vegar stillt og prúð, góður námsmaður, fór vel með peninga, algjör andstæða Gumma – og ég hef verið með samviskubit yfir því.

Ég er búin að glutra niður svolitlum tíma og kannski fæ ég aldrei skuldina greidda en ég skil betur hvað gerðist og get varað mig eftirleiðis. En Gummi hefur sannarlega aldrei spilað vel úr sínum spilum, sá dauðans aumingi sem hann var, er og verður. Ég er bara hætt að vorkenna honum því að hann hefur aldrei gert neitt til að bæta sig og ég get ekki borið ábyrgð á honum. Einhver hefði átt að taka eftir mynstrinu hjá mér og kippa í taumana en meðvirknin er víða.


Að vera í símanum

Egill Helgason spurði kl. 10.40 í gærmorgun (ég get ekki hlekkjað á færsluna eina) hvort það ætti að banna snjallsíma á Alþingi. Hann svarar svo spurningunni fyrir sína parta og margir eru sammála honum um að það sé virðingarleysi að „vera í símanum“ á meðan aðrir þingmenn flytja ræður. Ég hef skoðun á þessu af því að ég á sjálf auðveldara með að einbeita mér þegar ég geri tvennt í einu, sem sagt að skrifa ef ég hlusta á eitthvað þótt ég heyri ekki allt, ganga milli hverfa meðan ég er í símanum og ég get alls ekki tekið til nema ég hlusti á eitthvað. Ef ég ætla að hlusta á Sprengisand, Silfrið eða Víglínuna og gera ekkert annað á meðan er öruggt að ég dett út. 

Síðan er sjónarmiðið um að gera hlutina rétt og/eða að þeir líti rétt út og það skiptir líka máli. Ég myndi þess vegna aldrei, ALDREI, fletta í símanum meðan einhver talar yfir mér í raunheimum, ekki vegna þess að ég taki betur eftir heldur af virðingu við þann sem er að einbeita sér að því að tala við mig, og aðra eftir atvikum. 

Tillagan um að banna símana á vinnustað finnst mér samt hlægileg og held að stór hluti af þeim sem svöruðu Agli í gærmorgun hafi einmitt verið að því í vinnutímanum. Auðvitað eiga allir rétt á neysluhléi en ég er ekki sannfærð um að allir sem tjá sig um aðra á þennan hátt hafi efni á því.

Kannski er rétt að bæta því hér við að ég hef óþarflega oft setið á fundum eða fyrirlestrum og horft á fólk sitja beint fyrir framan fyrirlesarann og skrolla í símanum án þess að um þingmenn sé að ræða þannig að gólið um óþekka krakka er órökrétt.

Það er líklega rétt að gera eina játningu. Ég hef gagnrýnt það á vinnustað hvað fólk sem vinnur við tölvu sé óagað og bregðist við miklu á Facebook og þá fæ ég svarið: 30-40% allra skrifstofumanna gera þetta. Þá spyr ég: Er ekki rétt að skoða þá heildarmyndina? Af hverju er fólk svona óagað? Er vinnan of leiðinleg? Er vinnan ekki nógu krefjandi? Er vinnudagurinn of langur? Eða er fólk bara svona óuppalið og virðingarlaust gagnvart vinnuveitanda og vinnutíma? 


25. september 2021

Kosningabaráttan fyrir næstu alþingiskosningar hófst í gærkvöldi á stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana. Ég hef alltaf kosið þegar kosningar hafa verið í boði og aðeins einu sinni skilað auðu, í forsetakosningunum 1996 þegar aðeins pólitískir frambjóðendur voru í boði. Mér finnst nefnilega pólitíkin eiga heima á Alþingi.

Ég hef miklar skoðanir almennt og veit nokkuð hvað ég vil sjá í flokknum sem ég kýs. Ég vil jöfnuð í tækifærum en umbun til þeirra sem nýta þau vel og skara fram úr, ég vil að skatttekjur séu nýttar vel og að lykilstarfsfólk, fólk í mennta-, heilbrigðis-, samgöngu-, framleiðslu- og nýsköpunargreinunum, uppskeri vel. Ég vil að tíma fólks sé vel varið og liður í því er að stytta vinnuvikuna hressilega. Svo ég fari ofan í meiri smáatriði vil ég að við framleiðum eins og við getum á Íslandi, svo sem grænmeti og ávexti, en þá þarf að lækka rafmagnsverð til garðyrkjubænda. Þar með sparast kolefnisspor og gjaldeyrir.

Svo ég fari aftur í stóru myndina vil ég loks segja: Burt með spillingu, frændhygli og sóun. 

Hvaða flokk á ég að kjósa? Ég ætla að fylgjast vel með í vetur.


Trump og Biden

Ég horfði út undan mér á kappræður forsetaframbjóðenda í gærkvöldi. Ég hef aldrei áður haft svona mikið úthald til að horfa á Trump og leyfði holskeflu undrunar að ganga yfir mig aftur og aftur. Hver kýs svona mikið yfirlæti? Ekki þeir Bandaríkjamenn sem ég þekki og skrifaðist á við meðan ég horfði. En óháð því hvað frambjóðendur gengu fram af áhorfendum fór ég að hugsa hvort ekki væri hægt að slökkva á hljóðnemanum hjá þeim sem á ekki að hafa orðið. Ef það dygði ekki væri hægt að setja báða (eða alla þegar fleiri eru) í glerbúr og líka slökkva á hljóðnemum. Stjórnandinn var ekki nógu afgerandi og ég skil ekki hvers vegna hann sat til fóta hjá þeim. Hann hefði átt að standa í sömu hæð og viðmælendur hans, kannski hefði hann þá orðið röggsamari.

Ég spái því að Trump vinni og leiði sorg yfir heimsbyggðina í fjögur ár til viðbótar. Gapuxar ná eyrum vissra hópa og vissir hópar mynda stundum meiri hluta.


Að taka hrósi

Sumum finnst erfitt að fá hrós. Mér finnst t.d. að það sem ég fæ hrós fyrir þurfi að vera 101% en er það ekki fullmikil kröfuharka hjá mér? Ég held að mér finnist ekki erfitt að hrósa öðru fólki en ég segi ekki við eins árs barn að það sé SNILLINGUR þótt það geti stungið upp í sig kexköku. Það þarf að finna jafnvægi í hróssamfélaginu.


Alþjóðadagur þessa og hins

Í gær var meintur alþjóðadagur dætra sem margar konur túlkuðu sem dag mæðgna og Facebook fylltist af mæðgnamyndum, mér að meinalausu. Mér finnst samt skrýtið með alla þessa múgsefjun því að þetta er ekki bundið við þennan ófélagslega tíma sem við lifum. Og við getum fundið alþjóðlegt eitthvað flesta daga ársins ef við eltum internetið. Ég ætti því að stökkva á það á afmælinu mínu en þá er einmitt alþjóðlegur dagur internetsins sjálfs!


Munaðarlausir geisladiskar

Hver tekur við geisladiskum sem ég ætla aldrei framar að hlusta á? Ég hef aldrei valið mikið tónlistina ofan í mig hvort eð er en nú er leitun að „diskadgeisladiskarrifum“ á heimilinu.

 

 

 

 

 

 


Eplaedik

eplaedik

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrir nokkru keypti ég eplaedik – sem kvað vera meinhollt – og sá þegar ég kom heim að á upplýsingamiðanum stóð með míkróletri: „Geymist í kæli eftir opnun og neytist innan 5 daga.“ Samt eru neysluleiðbeiningarnar: „Setjið 1-2 msk af eplaediki í 1 dl af vatni ...“ og í flöskunni eru 750 ml sem ættu að duga í margar vikur á venjulegu heimili. Þetta er ekki drykkur sem maður stelst í, þið vitið, hann er mjög beiskur og bragðvondur en á sem sagt að vera hollur.

 

Ég sendi framleiðandanum fyrirspurn um geymsluþolið og hann sagði að það væri meira en fimm dagar eftir að innsiglið er rofið (geymsluþolið er annars gefið upp til maí 2022). Nú er ég í heila viku búin að fá mér slurk úr flöskunni daglega, auðvitað blandaðan við heilt vatnsglas, og er rétt komin niður í axlir. Og ég er öll orðin grettnari en ég var ... foot-in-mouth


Skatturinn

Þetta var að gerast og ég er svo dolfallin að ég verð að tjá mig. Ég átti að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af bílaviðgerðum. Gott mál. Ég fékk tölvupóst frá Skattinum þar að lútandi í lok ágúst. Í gær rankaði ég við mér og ákvað að gá að greiðslunni. Hún hafði engin borist. Ég sendi þá tölvupóst á Skattinn sem svaraði mér í hádeginu, dálítið hryssingslega, og sagði mér að hringja í Skattinn. Ég gerði það þá og talaði við afar almennilega konu sem sagði mér að upphæðin hefði verið lögð inn í lok ágúst og bað mig að skoða heimabankann. Ég opnaði heimabanka Arion þar sem aðalreikningurinn minn er. Þá sagði hún að þetta væri reikningur í Íslandsbanka sem ég nota sáralítið, þ.e. þann banka. Við kvöddumst en ég fann ekki endurgreiðsluna og hringdi aftur í Skattinn og fékk bankanúmerið hjá annarri almennilegri konu og sá reikningur var alls ekki í heimabankanum!

Þá hringdi ég í Íslandsbanka og afar almennilegur karl virkjaði umræddan reikning. Ekki aðeins voru þar 11.028 kr. heldur nokkrir tíuþúsundkallar sem hafa verið í dái því að þetta er reikningur sem ég stofnaði 1994 og hef greinilega misst sjónar af.

Skilaboð sögunnar: Lengi er von á einum OG margt gott fólk verður til svara hjá stofnunum sem við leitum til. Samt: Af hverju leggur Skatturinn ekki inn á reikning sem ég gef upp?

Ég er bara frekar hress. laughing


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband