Færsluflokkur: Dægurmál

Orðabúrið

Sprenging hefur orðið í hljóðbókaútgáfu undanfarið en á Spotify er líka stórskemmtilegur þáttur tveggja manna um síður úr orðabók. Pétur og Kristján spjalla saman um áhugaverð orð á einni orðabókarsíðu í senn, mynda setningar með skringilegum orðum og hafa svo gaman af því sjálfir að það er ekki hægt annað en að hrífast með. Sjálfri finnst mér það skemmtilegra en að hlusta á sögur sem ég get lesið sjálf.


Sundabraut

Alla mína ævi hefur verið talað um nauðsyn Sundabrautar en mönnum ekki borið saman um hvort efri eða neðri gerð væri heppilegri, hvort hún ætti að koma inn á Langholtsveginn eða vestar, hvort vistkerfinu stæði hætta af framkvæmdinni og ég man ekki lengur hvað og hvað. En nú er kannski nauðsynlegt að hrinda henni í framkvæmd og hvernig standa málin með flugstöðina? Er verið að stækka hana núna meðan aðsókin er lítil og búa í haginn fyrir framtíðina? Ef ég væri blaðamaður ...


Punktur í lok setningar á netinu (í spjalli)

Það eru alls konar tákn í gangi alls staðar og stundum sendir maður sjálfsagt ómeðvituð skilaboð. Í spjallinu á Facebook er ég óformlegri en í öðrum textum og byrja setningar yfirleitt á lágstaf og enda ekki með punkti. Ef ég er að skrifa í símanum kemur sjálfkrafa hástafur fremst og þá enda ég á punkti. Mér finnst það rökrétt.

Ég hef heyrt að þau sem eru núna um tvítugt taki punkti í lok setningar sem skömmum. Dæmi: Foreldri skrifar: Mér finnst að þú ættir að fara að sofa núna.

Afkvæmið segir að foreldrið sé að skammast og ætti frekar að skrifa, þá mildilega: Mér finnst að þú ættir að fara að sofa núna

frown

Mér finnst óþægilegt að sjá heilar setningar sem byrja á stórum staf enda í lausu lofti en ég held að sú breyting hafi byrjað á því að í símum þarf fólk að skipta á milli lyklaborða til að ná í greinarmerki. En punktur þýðir ekki að ég sé reið og alls ekki öskureið ef ég set þrjá punkta ...


Fyrirvinna

Merkilegt. Í aldanna rás hefur verið talað um karla sem fyrirvinnur fjölskyldna sinna ... og svo er orðið kvenkyns. Ég tók allt í einu eftir þessu.


Svarthvítur glæpur

Ég var mikill lestrarhestur á mínum yngri árum en nú kalla ég mig góða ef ég les heila skáldsögu í hverjum mánuði. Í síðustu viku þurfti ég að skila skólabókum á bókasafnið og ákvað að grípa Glæp við fæðingu og taka með mér heim. Á laugardaginn ákvað ég að hringa mig með hana á svölunum og las næstum alla. Hún er sársaukafull og um afskaplega erfiða bernsku og æsku í glæparíkinu Suður-Afríku, þar sem sögumaður ólst upp. Ástæðan fyrir því að hann sendi þessa bók frá sér rúmlega þrítugur er að hann komst út úr hverfinu, „húddinu“, og hann segir sjálfur að hann eigi allt mömmu sinni að þakka sem skammaði hann blóðugum skömmunum ef henni þótti ástæða til með það fyrir augum að skóla hann til svo löggan gerði það ekki. Hann var líka nógu glúrinn til að koma alltaf standandi niður og þess vegna varð hann ekki innlyksa í húddinu og koðnaði niður eins og eru örugglega örlög margra.

Sagan er um þungt efni en æsispennandi og fljótlesin vegna stílsins. Og Trevor Noah kvað vera vinsæll uppistandari og hlaðvarpsstjórnandi í dag.


22. ágúst 2019

Í dag er gleðidagur. Í dag er ígildi menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons og í dag skín sólin. Engu að síður kýs ég nú að líta um öxl og rifja upp 22. ágúst í fyrra þegar pabbi minn skildi við. Hann var orðinn 98 ára og búinn að eiga gott líf. Síðustu tvö árin voru samt sársaukafull af því að þá var hann svo hjálparvana, maðurinn sem hafði alltaf rétt öðrum hjálparhönd, maðurinn sem ég gat alltaf reitt mig á. Ég var orðin hjálparhellan hans og það var auðvitað sjálfsagt mál en það tók á að sjá hann missa sjálfstæði sitt en halda skýrri hugsun. Í dag kýs ég því að horfa inn á við og minnast pabba skriflega.

Lýs, milda ljós.

Hann var „bara“ rafvirki svo notuð séu hans orð. Við ræddum þetta alloft og ég varð alltaf jafn forviða á að hann skyldi tala sjálfan sig og starfið niður. Rafmagn er einhver merkilegasta uppfinningin og það að hafa vald á vinnu við það er algjörlega stórkostlegt. Pabbi var iðinn við kolann, stofnaði eigið fyrirtæki, var alltaf vinsæll í vinnu og kom rafmagni í margar stórbyggingar um miðja 20. öld. Þar fyrir utan var hann rafvirki allrar fjölskyldunnar og alltaf bóngóður. Því miður heldur ekkert okkar systkinanna kyndlinum á lofti.

Það er bara ár síðan hann dó, samt svo langur tími og allan þennan mánuð hef ég fundið ógnarsterkt fyrir nærveru hans. Ég vona að hann hann hafi fundið mömmu í græna landinu og fái bæði púðursykurstertu og pönnukökur eins og hann getur í sig látið.

Ég ætla að njóta veðurblíðunnar í hans anda því að meiri sólarfíkill er vandfundinn. 

Mynd gæti innihaldið: 4 mannsEs. Ég sá hann næstum aldrei svartklæddan.


17.104

Í júlí voru víst rúmlega 17.000 manns án atvinnu. Fallið úr kannski 800.000 kr. tekjum í 290.000 er býsna hátt og launamenn eiga enga sök á því. En í stað þess að einblína á að hækka atvinnuleysisbætur finnst mér við þurfa að hugsa atvinnulífið upp á nýtt. Fyrir mestu er að fólk hafi framfærslu og að ákveðin verk séu unnin. Nú er lag að stytta vinnuvikuna og jafna störfin þannig að allir vinnufærir menn eigi kost á vinnu og afkomu. Auðvitað eru sum störf svo sérhæfð að það tekur mörg ár að ná færni í þeim en hvaða skynsemi er í 40 stunda vinnuviku núna þegar tæknin hefur leyst marga af hólmi? 

Störf tapast, segir fólk, þegar kaupendur geta skannað vörurnar í búðinni og borgað án þess að manneskja afgreiði þá. Já, en þá ætti að stytta vinnuvikuna án þess að lágu launin í búðinni skerðist. Enginn tapar á því. Enginn. Hins vegar verða til önnur verk við viðhald á móti en þau er ekki endilega hægt að vinna á gólfinu.

En afsakið að ég segi upphátt að meðfram styttingu vinnuvikunnar þarf að taka fyrir skrepp fólks. Á vinnutíma á fólk aðeins að geta farið til læknis, tannlæknis, í jarðarfarir nákominna og foreldraviðtöl vegna barna. Fólk á ekki að fara í klippingu á vinnutíma, ekki í búðir, ekki í tveggja tíma mat með vinunum, ekki með bílinn í skoðun – ekki upp á það að skilja verkefnin eftir hjá vinnufélögunum.

Afsakið að ég sé ekki búin að finna og forma einu réttu lausnina en orð eru til alls fyrst og samfélagið þarf sameiginlega að finna jafnvægið í vinnu og afkomu. Ég valdi – en valdi samt ekki – að vinna mér til húðar í 25 ár og valdi svo í fyrrahaust að taka skref til baka og vona að mér lánist að halda mig við hóflegan vinnutíma í framtíðinni. Þótt vinnan sé skemmtileg er hún ekki lífið eins og það leggur sig.


Samgöngustyrkir

Algjörlega að þarflausu fór ég að velta fyrir mér samgöngusamningum. Þeir eiga að hvetja fólk til að koma ekki á bíl í vinnuna og t.d. hjá Reykjavíkurborg voru þeir upp á 6.000 kr. á mánuði 2017. 6*12 eru 72 enda hljóðaði samningurinn upp á 72.000 á ári og var líka greiddur í sumarfríi.

Í spurningum og svörum hjá Landspítalanum er beinlínis spurningin:

Fæ ég samgöngustyrk meðan ég er í sumarfríi?

Svarið er: Já.

Ég þekki núna dæmi um annað og það gengur fram af mér.

 


Smáatriði eru mínar ær og kýr

Ég er með BA í smásmygli. Nei, ég hef haft lífsviðurværi mitt af því að fara yfir mál annarra og laga að málstaðli og mér hefur þótt það skemmtilegt og áhugavert. Í því felst að leita að villum og þá þarf maður að vera smásmugulegur.

Í sumar hef ég verið að skrifa MA-ritgerð um muninn á talmáli og ritmáli. Það er aðallega skemmtileg stúdía en dálítið lýjandi af því að maður fær efasemdir. Er ég á réttri leið? Er þetta of mikið smáatriði? Hefur einhver annar en ég áhuga á þessu?

Ég vildi bara létta þessu af mér af því að mér líður betur þegar ég er búin að segja suma sjálfsagða hluti. Hver fær ekki efasemdir um rannsóknirnar sínar? 

Should You Use Emoticons and Emojis at Work? - HR in ASIA

 

 


Peningar tala

Ég hef mikla ást á sannleikanum. Illa fengnir peningar hafa mikinn áhuga á að leyna sannleikanum. Ég ítreka að ég hef ekki aðgang að öllu sem aðilar máls í Samherjamálunum hafa og tek þannig ekki afstöðu til þeirra að öðru leyti en því að ég finn hvaða rök virka á mig.

Í mjög langan tíma hef ég verið sannfærð um að auðlindum þjóðarinnar sé ójafnt skipt. Ég er millistéttartútta og hef það gott. Ég átti foreldra sem gátu veitt mér gott atlæti og hvöttu mig til að læra það sem mig langaði til að læra. Ég hef alla ævi unnið fyrir mér og haft ásættanlegar tekjur sem er ekki hægt að segja um allt gott fólk með góða menntun. Stórum stéttum er haldið í launalægð og á sama tíma er peningum dælt til puntustétta og barnanna þeirra. Tiltekinn hópur Íslendinga þarf nákvæmlega ekkert að hafa fyrir lífinu, ja, nema þá að verjast sannleikanum.

Þegar menn eiga svo mikla peninga að þeir sofa ekki vært á næturnar af ótta við að þurfa einhvern tímann að borga fyrir þau gæði sem streyma til þeirra á gott og sannleikselskandi fólk að taka upp hanskann fyrir þá sem leita sannleikans og réttlætisins logandi ljósi.

Áfram RÚV.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband