Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 11. ágúst 2020
,,eiga við skýrsluna
Ég efast ekki um að Helgi Seljan hafi hlaupið á sig í lífinu eins og flestir. Nú er ég búin að horfa á þátt Samherja um skýrsluleysið, þ.e. skýrsluna sem Helgi á að hafa sagst hafa notað en var ekki til en hann átti samt við ... stopp núna. Þessar 12 mínútur af YouTube-mynd ganga ekki upp, allt klippt sundur og átt við.
Ég veit að ég er ekki inni í neinum þessara mála Samherja af því að allar skýrslur og öll gögn eru í öðrum skúffum en ég hef aðgang að en þessi loðmulla með dramatísku tónlistinni sannar hvorki neitt né sannfærir mig.
Hvernig er hægt að eiga við skýrslu sem er ekki til? Og það að eiga við væri að auki líklega helst það að fela persónugreinanlegar upplýsingar.
Ég væri orðlaus ef ég væri ekki svona mikill orðhákur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. ágúst 2020
Ég trúi á álfa
Á laugardaginn týndi ég lykli. Þá beit mig líka köttur en það er önnur saga sem heldur áfram hjá heilsugæslunni á morgun. Lykillinn var aukalykill en mér þótti samt verra að tapa honum og leitaði dyrum og dyngjum og sannarlega víða þar sem ég reiknaði ekki með honum. Ég var farin að þrífa undan dragsíðum ofnum þannig að aukaverkanirnar voru ágætar. Í morgun fann ég síðan lykilinn í vasa sem ég hafði leitað í. Dagsatt. Ég held að hann hafi skilað sér þegar ég byrjaði að tala um að hans væri saknað -- og þar voru álfarnir að verki!
Ég meina, hvað annað gæti það verið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. ágúst 2020
Nettó á Egilsstöðum
Eins og hálf þjóðin hef ég verið fyrir austan í sumar. Ég fór í Stuðlagil, en bara stuttu leiðina þannig að ég mun fara aftur, en ég fór líka í Nettó á Egilsstöðum. Þar keypti ég (því miður bara einar) nærbuxur sem ég var einmitt að hengja upp úr vélinni rétt áðan og ég hugsa með trega til lélegs úrvalsins í Lágmúlanum sem er miklu fátæklegra en á Egilsstöðum. Og fyrir austan keypti ég líka snakk með ediki, því miður líka bara einn poka og hann er löngu búinn ... enda borðuðum við fjögur upp úr honum. Ætli markaðurinn fyrir kartöfluflögur með ediksbragði sé minni á höfuðborgarsvæðinu? Ég sakna bragðsins enn ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Gagnrýnin hugsun
Gagnrýni er ekki alltaf tuð. Gagnrýni er ekki alltaf neikvæð en sá sem er gagnrýndur tekur því stundum þannig. Gagnrýni getur verið góð en henni þarf að beina í réttan farveg. Ég held að Facebook sé ekki sá farvegur, nær væri að hafa samband við framleiðandann ef varan hefur breyst og t.d. rýrnað. Við þekkjum mörg dæmi um súkkulaði sem er minnkað í stað þess að hækka verðið. Súkkulaðigrísir eins og ég hugsa stundum: Jæja, þá borða ég bara minna.
En stundum eru umbúðirnar einfaldlega of stórar, pokar fullir af lofti, og maður kaupir vöruna í góðri trú. Þá er annað hvort að hafa samband við framleiðandann og biðja um breytingu eða skýringu, nú, eða að hætta að kaupa hana. Margir neytendur greiða atkvæði með buddunni og þá eru skilaboðin skýr.
Og afsakið að ég segi það, en alleiðinlegustu viðbrögðin við gagnrýni eru: Hefurðu ekkert annað að gera? Skiptu bara um rás. Ertu áttræð?
Ef fólk vill taka þátt í umræðunni væri ágætt að það tæki þátt á þeim forsendum sem lagt er af stað með. Ef einhver spyr: Hvort skrifið þið grúppa eða grúbba? er ekki rétta svarið: Það á að skrifa hópur.
Já, og eitt enn. Skítkast út í fólk fyrir að skrifa vitlaust er ömurlegt. Ef við ætlum að tala íslensku til lengri framtíðar verðum við að hafa umburðarlyndi gagnvart því að tungumálið breytist. Það er um að gera að vanda sig en sem betur fer býr íslenskan yfir fjölbreytni og sem betur fer þróast hún. Við segjum margt í dag sem var álitið rangt af kynslóðunum á undan okkur. Tvö dæmi: Við sjáumst (var sjáustum). Læknar í fleirtölu (var læknirar). Málfræðingar eru umburðarlyndasta fólkið í þessum efnum og hinir flinku menn Eiríkur Rögnvaldsson og Höskuldur Þráinsson eru óþreytandi við að útskýra uppruna orða og rökstyðja af hverju við eigum ekki að fara fram með offorsi. Það er nefnilega ekki gagnrýni, það er dónaskapur og niðurrif að setja sig á háan hest og drulla yfir fólk fyrir að vera öðruvísi.
Að svo mæltu auglýsi ég eftir fleiri kommum í ritmáli fólks. Þær geta gert gæfumuninn:
Eigum við að borða Einar?
Eigum við að borða, Einar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. ágúst 2020
Heimkomusmitgát
Nú er ég búin að lesa þessa frétt tvisvar frá orði til orðs og ég get ekki fengið það út að það sé sanngirnismál að fólk sem fer í sumarfrí til útlanda eigi að fá heimkomusmitgát í boði vinnuveitandans þegar það kemur heim. Ég hef ekki lesið leiðbeiningarreglurnar sem vísað er í en held að ég skipti ekki um skoðun á því að ef maður skýst til Tenerife í hálfan mánuð og þarf síðan að vera heima hjá sér í fimm daga án þess að mæta í vinnu eigi vinnuveitandinn ekki að borga þá daga og ef eitthvað er að gera í vinnunni vinna hana væntanlega þeir sem ekki fóru í áhættufrí.
Það væri gaman að fá leiðréttingu ef ég misskil hugmyndina eitthvað. Ég tek fram að ég er ekki vinnuveitandi þannig að ég hef enga persónulega hagsmuni af útleggingunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 31. júlí 2020
Yfirvofandi samkomubann
Ég er í þeim hópi sem þarf ekki að kvarta þótt tímabundið samkomubann verði tekið upp aftur. Síðasta samkomubann fór vel með mig, ég mætti alla daga í vinnuna, var yfirleitt ein þar og kom miklu í verk. Ég fór snemma að sofa og var rokin upp kl. 6 á morgnana og henti mér á jógadýnuna, fór svo að hlaupa í örsmáum hópum og leið býsna vel, borðaði hollari mat og var í góðu standi.
Nú er ég heima að skrifa ritgerð sem á að vera tilbúin í lok ágúst. Auðvitað stend ég upp frá tölvunni, geri ýmislegt og umgengst ýmsa, en samkomubannið mun aga mig betur. Já, ég veit að ég er heppin, sumir þurfa að hafa ofan af fyrir börnunum sínum og sinna alls kyns búverkum. En ég veit af því og þakka oft fyrir það. Ég er lukkunnar pamfíll.
Minn aðalvandi núna er að á morgnana finnst mér ég eiga svo mikið eftir ógert en á kvöldin finnst mér ég hins vegar alltaf hafa gert svo góða hluti yfir daginn. Ég held að ritgerðin verði tímamóta ... þótt kominn sé morgun ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. júlí 2020
Sameinum sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu
Ég trúi ekki öðru en að langflestir almennir borgarar í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Álftanesi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi vilji sameinast í eina Reykjavík. Þótt ég búi í Reykjavík er ekkert sáluhjálparatriði fyrir mig að það nafn verði valið á hið sameinaða sveitarfélag en það blasir við vegna stærðar höfuðborgarinnar og vegna þess að annars þyrfti að markaðssetja nýtt nafn í útlöndum. Mér væri slétt sama þótt nafnið breyttist í Hafnarnes eða Mosgarð ef það væri talið praktískt.
Hver er samanlagður fjöldi íbúa í öllum þessum sveitarfélögum? Minni en í mörgum bæjum erlendis. Hver er ávinningurinn af kónga- og drottningaveldinu? Væri ekki betra að reka sorphirðu, slökkvistarf og almenningssamgöngur ef bæjarfélagið væri tiltölulega stórt og ein yfirstjórn? Væri ekki gott að losna við milliliðina? Ef Kópavogur þarf að vera sérstakt bæjarfélag ætti Breiðholtið alveg eins að vera það.
Ég vil sem sagt sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og hef margsagt það. Ég er hins vegar með bannmerki í símaskránni þannig að ég lendi aldrei í þannig úrtaki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. júlí 2020
Þjófnaður er liðinn
Nú gætu einhverjir haldið að ég ætlaði að fjalla um stjórnmál og það er að vissu leyti rétt vegna þess að stjórnmál(amenn) setja lög og skv. lögum er hægt að sneiða hjá réttlæti, sanngirni, heiðarleika og sannleikanum.
Já, ég er enn að tala um bróður minn sem fékk lánaðar hjá mér fúlgur fjár árið 2008, aðallega til að spara vaxta- og lántökukostnað í banka en kannski hefði hann ekki einu sinni fengið lán, gegn því að hann endurgreiddi lánið þegar hann ætti fyrir því, í síðasta lagi þegar við fengjum arf eftir foreldra okkar. Sem betur fer lifðu þau lengi eftir árið 2008, mamma dó 2018 og pabbi 2019 og ég sakna þeirra enn, en ég held að það hafi ekki hvarflað að þeim frekar en mér að hann myndi einfaldlega snúa andlitinu undan, neita að svara póstum, neita að hitta mig og sannarlega neita að borga skuldina - sem hann kallar einmitt fyrnda! Hann gengst við henni en finnst ég nógu rík.
Það orð fer af sjálfstætt starfandi lögfræðingum að þeir kosti hálfan handlegg og þess vegna veigrar venjulegt fólk sér við að leita liðsinnis þeirra. En ekki bróðir minn, nei, þar hafði hann mikinn hvata og einbeittan brotavilja til að svína á mér og í skjóli fyrningalaga er hann varinn af því að ég fór ekki fram af mikilli hörku og með innheimtuaðgerðir þegar árið 2012.
Kannski sleppur hann með ránsfenginn en ég ætla aldrei að hætta að minna fólk á að garðyrkjumaðurinn á Sólheimum sem ætlar að rækta bestu lífrænu eplin og gera besta eplapæ landsins er þjófur og ef hann sér minnstu smugu mun hann stela af fólkinu sem býr þar. Það er öruggt, kannski ekki í ár meðan hann er að sólunda illa fengnu fé en það kemur að því. Og þá vona ég að þeir standi í lappirnar sem geta varist honum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. júlí 2020
Lati nágranninn IV
Ég er meiri maður bókarinnar en tekkolíunnar en í morgun dreif ég mig samt í morgunsólinni í að pússa útihurðina og tekkolíubera til að reyna að vera í stíl við nágrannann. Orð eru til alls fyrst og þegar ég byrjaði að gagnrýna mig á opnu vefsvæði tók ég það til mín og ákvað að taka mig á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. júlí 2020
Bróðir minn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)