Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 21. júlí 2020
Leiðinlegi nágranninn III
Þegar ég ólst upp í Goðheimunum vorum við krakkarnir alltaf úti að leika okkur. Það var brennó, teygjó, yfir og feluleikir. Ég er farin að gleyma sumum leikjunum en stundum vorum við líka bara að kjafta. Þessu fylgja góðar minningar. Gatan mín núna er friðsæl og fín en strætó keyrir hana samt og ég sé aldrei krakka leika sér úti á götu, sem betur fer, en ekki heldur í garðinum mínum. Að vísu eru engin lítil börn í húsinu ...
En ég er því miður ekki nágranninn sem dríf alla af stað í götugrill eða eitthvað sameiginlegt. Ég er víða drífandi en ekki sem nágranni.
Svona ef einhver skyldi halda að ég héldi að ég væri fullkomin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. júlí 2020
Hver gefur bróður sínum andvirði eins fjórða úr íbúð?
Gummi bróðir minn, svokallaður garðyrkjumaður á Sólheimum, fékk lánaðan hjá mér pening árið 2008, pening sem hefði dugað fyrir einum fjórða úr íbúð. Ég hefði þurft að hefja innheimtu hjá honum innan fjögurra ára en ég gerði það ekki. Hvers vegna ekki? Ég þekkti ekki fyrningarlögin og mig óraði ekki fyrir því að hann væri svona forhertur þjófur. Hann var ekki borgunarmaður fyrir láninu þá og hefði þurft að fá bankalán sem ég ætlaði einmitt að forða honum frá í upphafi.
Fólk mér vinveitt hefur hvatt mig til að gefa það upp á bátinn að innheimta lánið. Mér finnst það eins og að hvetja fórnarlamb til að draga sig inn í skel og sleikja sárin afsíðis í stað þess að krefjast þess réttlætis sem því ber. Lögin vernda menn eins og bróður minn. Lögin gera ráð fyrir einhvers konar skynsemi. Bróðir minn, Gummi Steins, ætlar í skjóli laganna að hafa af mér einn fjórða úr íbúðarverði og ég get ekki sætt mig við það. Eftir því sem ég kemst næst lætur hann ekki einu sinni dætur sínar njóta góðs af ránsfengnum. Ég veit ekki í hvað hann hefur eytt peningnum því að hann fékk líka arf eftir foreldra okkar en mér hefur helst dottið í hug að hann hafi stofnað til eiturlyfjaskulda. Hann hætti að drekka áfengi fyrir sirka 30 árum en hann er náttúrulegur fíkill eftir sem áður og þyrfti að fá lækningu en ekki eftirgjöf skulda sem hann er borgunarmaður fyrir núna.
Fyrir tveimur og hálfu ári, þegar mamma okkar dó, sýndi hann sitt rétta eðli. Einhverjir voru búnir að átta sig á honum en ekki ég. Þá fór hann fram með offorsi gegn systur okkar og hótaði henni málaferlum. Fyrir hvað? Fyrir að standa vörð um fjármál foreldra okkar.
Pabbi var þá lifandi og nýkominn á Hrafnistu. Á einu ári og níu mánuðum fór Gummi fjórum sinnum til hans og fyrst og fremst til að suða um peninga. Pabbi spurði mig einu sinni með tárin í augunum hvort ég gæti lánað Gumma peninga. Þá var hann búinn að skrúfa fyrir alla velvild mína, góðsemi og einfeldni gagnvart honum og ég hristi bara hausinn. Þá nær það ekki lengra, sagði pabbi og við ræddum það ekki framar.
Pabbi spurði stundum um Gumma og hvers vegna hann kæmi aldrei í heimsókn. Starfsfólkið á Hrafnistu hélt að við værum bara þrjú systkinin. Gummi er fjórði maður og kom aldrei til að stytta pabba stundir. Honum var sama um hann og vildi bara peningana hans. Ég fullyrði það.
Ég veit ekki af hverju ég ætti að þegja um þetta. Ég veit að margt fólk er óheiðarlegt, og margt hvert hærra sett en bróðir minn, og að ég má allt eins þakka fyrir að hafa bara einn skúrk í minni fjölskyldu en ég neita að þegja um það. Og ég ætla ekki að hætta að innheimta lánið. Ég neita að láta kúga mig til að þegja um andlegan ofbeldismann og þjóf. En takið eftir því að þótt mér sé meinilla við lögmanninn sem tók að sér að reka málið fyrir hann hef ég ekki nafngreint hann. Ég samsama hann ekki verkefninu og hann nýtur nafnleyndar. Bróðir minn gerir það ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 18. júlí 2020
Leiðinlegi nágranninn II
Ég er ekki með græna fingur og hef engan sérstakan áhuga á garðrækt, vil bara að gróðurinn renni upp af sjálfu sér og fyrirhafnarlaust fyrir mig. Ég puðast samt á svölunum (bílskúrsþakinu) við að sópa saman laufblöðum og gróum, færi til garðhúsgögnin og lét í fyrrasumar dúkaleggja svalirnar (bílskúrsþakið) af því að það lak niður í bílskúrinn sem ég á ekki. En mér finnst þetta leiðinlegt og ég fresta því eins lengi og ég get. Og ég vorkenni nágrönnunum að geta horft niður á óræktina á svölunum mínum.
Bara svona ef einhver skyldi halda að ég héldi að ég væri fullkomin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. júlí 2020
Leiðinlegi nágranninn
Ég er leiðinlegi nágranninn. Ég slæ ekki grasið, raka það ekki heldur, reyti ekki arfann og grisja ekki skóginn í garðinum. Ég hef ekki rænu á að pússa upp og olíubera útihurðina svo hún verði eins og hjá nágrannanum. Ég fer aldrei út í garðinn af því að ég er með fínar svalir en það er ekki boðleg afsökun. Ég er einfaldlega latur nágranni. Ég á fullt í fangi með að reyta í blómabeðinu á svölunum, umpotta í stóru kerjunum, farga úr sér gengnum húsgögnum og stúta geitungabúum. Þetta er samt ekki boðleg afökun, ég er einfaldlega lati nágranninn sem þarf að segja við: Á sunnudaginn höfum við garðdag. Þá mæti ég og geri það sem fyrir mig er lagt. En það er leiðinlegt að hafa svona manneskju í húsinu sem þarf að segja hvað á að gera.
Bara svona ef einhver skyldi halda að ég héldi að ég væri fullkomin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. júlí 2020
Einkenni siðblindu
Þótt greiningin sé tekin af Stundinni er hún ekki unnin af blaðamanni heldur höfð eftir kanadíska sálfræðingnum Robert D. Hare.
1. Tungulipurð og yfirborðskenndir persónutöfrar - Gummi bróðir getur sannarlega komið vel fyrir.
2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti - Gummi bróðir er haldinn þeim ranghugmyndum.
3. Skortur á eftirsjá eða sektarkennd - Gummi bróðir hefur a.m.k. sýnt mér fullkominn skort á eftirsjá þótt hann stolið af sínu nánasta fólki.
4. Skortur á samhygð - ég hélt að Gumma bróður hefði þótt vænt um mömmu og viljað ýmislegt gera fyrir hana en nú er ég búin að átta mig á að hann var allan tímann að misnota gæði hennar og greiðvikni.
5. Svikulir og stjórnsamir/drottnunargjarnir - mér finnst svikull og drottnunargjarn ekki alveg nógu líkt. Gummi bróðir er svikull en líka lunkinn að fela það.
6. Yfirborðskennt tilfinningalíf - tjah, Gummi bróðir vorkenndi sjálfum sér einlæglega en ég held að aðrar tilfinningar séu yfirborðskenndar.
7. Hvatvísi - Gummi bróðir hefur hlaupið til og keypt sólbaðsstofu, bílaleigu og fleira að óathuguðu máli. Einhverjum finnst það kannski til marks um að vera séður og útsjónarsamur. Allt hefur farið á hausinn hjá honum. Það sem lengst gekk, sjoppan Póló á Bústaðaveginum, gerði það af því að mamma og pabbi voru akkerið hans.
8. Léleg sjálfsstjórn - Gummi bróðir þarf alltaf að hafa fyrsta og síðasta orðið og leyfir aldrei öðrum að komast að. Ég á 20 ára gamalt bréf frá sjálfri mér til hans (sem ég sendi honum ekki) þar sem ég sagðist skrifa honum af því að annars kæmist ég ekki að. Samt dugði það ekki til að ég hætti að greiða götu hans.
9. Spennufíkn - skýrasta einkennið á Gumma bróður. Hann hefur alltaf þurft að kaupa hótel, gallerí, nýjan bíl, bílasölu, lifa hátt og hratt og magalenda ... nema þegar mamma og pabbi spenntu út öryggisnetið, já, og ég sjálf.
10. Ábyrgðarleysi - alltaf hefur allt verið öðrum að kenna, ekki honum. Það var bankinn, það var kúnninn, það var vinnuveitandinn, það var kona, það var hrunið, það var fasteignasalinn, það var einhver annar, aldrei hann.
11. Hegðunarvandi í æsku - þetta kom mér mest á óvart í upptalningunni en á því miður óskaplega vel við Gumma sem byrjaði að drekka vel fyrir fermingu, rændi mörgum árum af mömmu með útstáelsi, uppivöðslusemi í skóla, fylleríi í tímum og smáglæpum hafi ég skilið sögurnar rétt. Ég er yngri en Gummi.
12. Andfélagsleg hegðun á fullorðinsaldri - ég er ekki alveg viss um merkinga þessa punkts en Gummi er búinn að vera í AA næstum frá því að ég man eftir mér. Hann hætti að drekka 24 ára eða svo, hrasaði einu sinni og hætti svo aftur. Hins vegar virðist egóið hans pumpast upp á AA-fundum og ég held að AA næri narsissistann.
Ég hef ekki staðið Gumma bróður að líkamlegu ofbeldi en ég sé ekkert beint um það heldur í punktunum. Allt annað passar. Allt. ALLT. Og þótt ég sé búin að ergja mig mikið yfir honum í tvö ár tengdi ég aldrei við glæpina sem hann framdi sem unglingur. Þegar ég var að verða unglingur var allt heimilislífið undirlagt af því að mamma var á vaktinni allar helgar til að bregðast við símhringingum. Hann byrjaði að drekka áfengi 11 eða 12 ára, flutti inn eða reyndi að flytja inn fíkniefni fyrir tvítugt. Hann kennir alltaf öðrum um allt, öllum vinnuveitendum, öllum mögulegum kærustum, fyrrverandi eiginkonu og ég held svei mér dætrum sínum tveimur líka. Hann dró ekki af sér að hía á mig fyrir að taka ekki námslán heldur vinna með námi, þannig gæti ég ekki haft nógu mikið af hinu opinbera meðan vextir á námslánum voru lágir. Hann híaði á pabba fyrir að hafa allt sitt á hreinu og stökkva ekki á öll tilfallandi fjárfestingarverkefni sem Gummi vildi meina að skiluðu miklum gróða og hratt. Og örugglega. Þegar hann fékk lán hjá mér, áður en stóru mistökin voru gerð, ætlaði hann alltaf að endurgreiða með miklum vöxtum og redda mér hinu og þessu sem ég bað ekki um. Ég bað aldrei um neitt en ég fékk heldur aldrei neitt nema aðfinnslur og háðsglósur.
Og þá er stóra spurningin: Af hverju greiddi ég svona mikið götu hans?
Ég get ekki svarað henni með öðru en þessu: Fjölskyldukærleikur blindaði mig. Ég vildi taka einhver högg af mömmu og pabba.
Hér er nýleg mynd af honum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. júlí 2020
Íslenskusjóðurinn
Aflögufært fólk og áhugasamt um íslenska tungu kom sjóði á koppinn. Ég gleðst óskaplega og vonandi veit þetta á gott.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. júlí 2020
Abilene-þversögnin, með öðru orði: meðvirkni
Þegar ég lærði smávegis um opinbera stjórnsýslu í HÍ fyrir þremur árum var í einhverri námsbókinni lítil rammagrein um Abilene-þversögnina, um fólk sem ákveður að gera eitthvað sem það heldur að hinum sé þóknanlegt í stað þess að ræða málin og finna út hvað fólk raunverulega vildi. Mér hefur oft orðið hugsað til hennar en enginn hefur nokkru sinni kannast við þetta hugtak í nærumhverfi mínu. Svo birtist bara grein í blaði!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 10. júlí 2020
Síminn auglýsir
Ég átti leið framhjá strætóskýli í morgun og sá auglýsingu sem truflaði mig mjög mikið.
Fallið er vitlaust. Það á að standa: Sumarið er þitt með tíföldum gígabætum. Á öðrum flettum frá Símanum var fallið rétt á þeim orðum en ég man ekki hver þau eru.
Hitt sem er ekki síður áhugavert er að efst á skjánum eru upplýsingar um hversu langt er í tiltekna vagna. Frábært. Ég hafði ekki séð þetta enda fer ég næstum allra minna ferða á hjólinu. Áfram Strætó!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. júlí 2020
Lóaboratoríum
Lóaboratoríum birti þessa mynd í gær eftir að hafa séð unglingavinnukrakka að störfum.
Mér er ekki hlátur í hug þegar ég sé þessa skírskotun og það er ekki vegna þess að ég er miðaldra. Þessir krakkar eru í svokölluðum vinnuskóla og þar á að kenna þeim að vinna. Ef þau komast upp með að sofa í vinnunni - einn gamall vinur minn brann á augnlokunum á sínum tíma - fara þau með slæmt veganesti út í vinnulífið. Ég var flokksstjóri tvö sumur fyrir löngu og verkefnin voru ekki næg. Það var basl allt sumarið við að finna þeim eitthvað að gera. Vinnuskóli hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. júlí 2020
Margnota plast
Ég hnoða stundum deig til að gera pítsabotn eða baka ítalskt brauð. Til að þurfa ekki að muna hvað ég notaði mikið af gerinu úr umbúðunum hnoða ég alltaf úr 600 g af hveiti/spelti/heilhveiti en vil ekki baka úr öllu strax. Og nú geymi ég einn skammt í plastdós undan litlum tómötum og er spennt að sjá hvað verður úr þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)