Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 5. júlí 2020
Hver er fíkill og hver er neytandi?
Ég verð að segja að loksins núna, þegar Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur talaði um neyslu neysluskammta og muninn á fíkn og neyslu, sá ég stóra fíknimálið í öðru samhengi. Sko, ég hef ekki skilið af hverju sá sem fellur fyrir dópi er verri manneskja en sá sem fellur fyrir brennivíni. Vinnuveitendur gefa starfsmönnum veikindaleyfi til að fara í áfengismeðferð og tryggingakerfið tekur þátt í því en þeir sem ánetjast töflum, e.t.v. upp úr verkjatöfluáti, eru úthrópaðir sem glæpamenn. En svo eru auðvitað þeir sem nota dóp bara til hátíðabrigða ...
Þetta er veruleiki sem ég skil ekki en ég hef samúð með veiku fólki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 4. júlí 2020
Það er ekki lengur töff að vera ómissandi
Það er sannarlega umhugsunarefni hversu töff sé að finnast maður vera ómissandi. Við þurfum að hafa jafnvægi í skylduverkum, launuðum og ólaunuðum, og svo hinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. júlí 2020
Grjónagrautur
Það er svo undarlegt að ég eldaði grjónagraut í fyrsta skipti á ævinni í dag. Að minnsta kosti man ég ekki eftir að hafa eldað hann sjálf. En vitið þið hvað, maður þarf að hræra í grjónunum í KLUKKUTÍMA meðan þau sjóða. Það er klikkun fyrir svona einfaldan mat. Ég lét grjónin liggja í bleyti í heilan sólarhring, lét svo suðuna koma upp á grjónunum bara í vatni, þ.e. áður en ég bætti mjólkinni við, og samt var þetta kleppsvinna.
Svo sá ég þessa uppskrift, grjónagraut eldaðan í ofni! Ekkert að hræra, ekkert að vakta. Prófa það næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. júní 2020
Ég misreiknaði
Ég var búin að spá Guðmundi Franklín 12% greiddra atkvæða en hann fékk sem betur fer bara 7,8%. Hann sagðist vilja gera embættið pólitískara og ég hef aldrei viljað hafa pólitíkus á Bessastöðum. Ég skilaði auðu 1996 þegar Ólafur Ragnar var kosinn í fyrsta skipti þótt mér líkaði t.d. ágætlega við Guðrúnu Agnars, ég vildi bara ekki hafa manneskju með miklar flokkspólitískar skoðanir í embætti þjóðhöfðingja, embætti sem á að geta hlustað á sjónarmið allra og komið auga á lausnir. Ég held að við vitum öll að flestir harðsvíraðir pólitíkusar líta á hlutina úr sínum eigin bæjardyrum.
Mér hefur líkað vel við Guðna en hann er auðvitað afskaplega hefðbundinn í starfi. Sem manneskja er hann svo elskulegur og hispurslaus, alúðlegur og umhyggjusamur. Ég var á fjöllum í gærdag og kaus þess vegna utan kjörfundar en viðurkenni að í gærkvöldi þráspurði ég þá sem voru með betra net hver kjörsóknin hefði verið.
Guðni er forsetinn minn en á fjöllum held ég að uppáhaldsstaðurinn sé Morinsheiði. Meðfylgjandi mynd tók ég af henni í gær.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. júní 2020
Veð í heiðarleika
Undanfarin tvö ár eða svo hef ég verið mjög stúrin eftir að ég komst að því að bróðir minn, Guðmundur Steinsson, svokallaður garðyrkjumaður á Sólheimum, ætlaði alveg kinnroðalaust að stela af mér mörgum milljónum.
Ef ég væri að lesa þetta og vissi ekkert um málið myndi ég hugsa: Af hverju, ha, hvað, hvernig gat maður stolið milljónum af systur sinni?
Ég hef rakið það í mörgum bloggfærslum en megininntakið er að ég lánaði honum pening sem hann ætlaði að endurgreiða þegar hann gæti. Lánið var ekki með veði í neinum eignum, ekki þinglýst og ekki undirrituð skuldaviðurkenning vegna þess að 5 milljónir af 7 voru málamyndalán, handveð í bankainnstæðu sem bankinn gekk samt að, og 2 milljónirnar voru skammtímalán til að borga lausaskuldir vegna fyrirtækis.
Ég vorkenndi honum. Hann rak fyrirtæki og það gekk svona upp og niður. Ég var ekki blönk enda hef ég alltaf verið í vinnu og farið vel með. Að auki hefði hann annars beðið mömmu og pabba um lán og ég vildi hlífa þeim. Já, ég er bara drullugóð manneskja.
Veðið var í heiðarleika bróður míns sem reynist þá enginn vera. Og ég hef miklar áhyggjur af því að þegar hann klárar allt illa fengna féð reyni hann að svíða peninga af nytsömum sakleysingjum á Sólheimum. Ég rétt missti af skoðunarferð um Sólheima með Gumma græna á laugardaginn, voðalegt vesen.
Varist þennan mann ef þið viljið komast hjá fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni. Hann er nefnilega útsmoginn og fólk með harðan skráp hefur látið hann féfletta sig með mærðinni um eigin gæði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 24. júní 2020
Moldvarpa í bíl?
Ef hægt er að hraða umferð bíla með því að gera stokk á fjölförnum stöðum og færa bílaumferð niður til þess að auka umferð gangandi, hjólandi og almenningssamgangna ofan á stokknum ætti enginn bílstjóri að þurfa að vera svo lengi niðri í bílnum sínum að hann breytist í moldvörpu.
Áhersla á einkabílinn hlýtur að þjóna helst framleiðendum bílanna og seljendum eldsneytis, já, og kannski þeim verktökum sem gera umferðarmannvirkjaslaufurnar. Ég er svo heppin að geta hjólað flestra minna ferða en skil ekki af hverju kantar eru settir svo víða sem hægja á mér niður af gangstéttum og upp á þær hinum megin. Ég er ekki að tala um neinn ógnarhraða á mér, bara eðlilegan ferðahraða miðað við aðra umferð, en það er verra fyrir dekkin að rekast harkalega á kantana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. júní 2020
Heimilislausir
Getur verið að það sé sama fólkið sem hefur hátt um að Íslendingar hafi nóg með sitt eigið fólk og eigi ekki að hjálpa flóttamönnum og sem vill ekki hafa smáhýsi fyrir að öðru leyti heimilislausa í næsta nágrenni við sig?
Ég hef velt fyrir mér hvort ég sé svona glámskyggn sjálf en ég bý ekki langt frá Konukoti og ég finn aldrei fyrir neinu. Ég var svo óheppin í mínu fyrra lífi að búa í sama húsi og óreiðumaður sem borgaði aldrei í sameiginlegum orkureikningum hússins en ríki pabbinn hans átti íbúðina og borgaði alltaf á endanum. Af þessum manni og reyndar pabba hans var meira ónæði en heimilislausu ógæfufólki sem mér skilst að búi nálægt mér núna. Ég ætla ekki að skrifa nafnið á pabba kjallarabúans en hann er nafntogaður lögfræðingur sem breytti um hluta af nafninu eftir dóm. Ég giska á að hann sé núna nýorðinn 74 ára.
Menntaða og sterkefnaða fólkið er ekki alltaf besti pappírinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. júní 2020
Verslun á Laugaveginum
Ég á oft leið um Laugaveginn gangandi og hjólandi. Ég hef margsinnis verslað á veitingastöðunum, keypt ís, keypt í matinn, látið smíða lykla, keypt hengilás, látið gera við hjólið á Hverfisgötunni, keypt afmælisgjafir allt árið og keypt jólagjafir í desember. Mig vantar hins vegar ekki gallabuxur, gleraugu og skartgripi í hverri viku og aldrei orf og ljá.
Frá mínum bæjardyrum séð er vöruúrvalið helsta vandamálið við verslun á Laugaveginum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 20. júní 2020
Ferðast innan lands
Ég fór hringinn, þ.e. ég fór suðurleiðina til Borgarfjarðar eystra og var í tæpa viku og kom svo norðurleiðina heim. Ég held að við Íslendingar höfum upp til hópa verið mikið á ferðinni það sem af er júní. Ég ætlaði að borða á Hraunsnefi í Borgarfirði í gærkvöldi en þar var allt fullt og líka á tveimur öðrum matsölustöðum í grennd.
Ætlar ferðaþjónustan ekki að senda út tilkynningu um að allt sé á uppleið? Eða Vinnumálastofnunin?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. júní 2020
Forsetakosningar 27. júní
Ég horfði á kappræður forsetaframbjóðendanna í gær, einmitt á vefnum af því að útsendingin rofnaði í miðju kafi. Guðni Th. þarf að gjörbreytast til að ég kjósi hann ekki en ég hreinlega vorkenndi honum að þurfa að standa í þessum skrípaleik. Mig langar að vera málefnaleg en það þyrmdi svo yfir mig að horfa á Guðmund Franklín opinbera skilningsleysi sitt trekk í trekk og sýna dónaskap með frammíköllum. Að vísu finnst mér Heimir þáttastjórnandi mega stilla sig aðeins betur en kannski er það ekki á færi nema dauðra manna að kippast ekki við þegar Guðmundur Franklín byrjar að gjamma.
Guðmundur Franklín er gjammari án málefnalegrar innstæðu. Ég efast ekki um að hann sé gæddur einhverjum kostum en ekki þeim kostum sem prýða forsetann minn. Og það hvarflar ekki að honum að hann verði kjörinn enda vill hann bara kastljósið á sig og orkupakkann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)