Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 11. júní 2020
Suma brandara er ekki hægt að þýða
to get her
together
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. júní 2020
Fælir skimunargjaldið frá?
Flestir virðast hafa tilhneigingu til að horfa á málin frá eigin sjónarhorni sem er ekkert óeðlilegt. Og hér ætla ég að gera það: Ef ég væri útlenskur ferðamaður á leið til Íslands í frí þætti mér eðlilegt og æskilegt að gæta fyllsta öryggis. Hver ætti frekar að borga fyrir það en ég?
Ferðaþjónustan ber sig illa og segir að skimunargjaldið fæli frá. Þegar við förum til Bandaríkjanna borgum við eitthvert ESTA-gjald, í Evrópu er rukkað gistináttagjald og ég veit ekki til þess að það fæli allan fjöldann frá. Eiga íslenskir skattgreiðendur að borga fyrir skimunina? Á Kári að borga?
Eða eigum við ekki að skima? Ég spyr þess ekki í kaldhæðni, ég veit ekki hvort það tryggir öryggið í raun. Kannski er tímabært að við sleppum veirunni lausri og tökum skellinn.
Ég veit samt að ég er ekki með allar upplýsingarnar og að ég er ekki til þess bærust að ákveða fyrir fjöldann. Þess vegna treysti ég fólkinu sem hefur sýnt að það hugsar um almannahag, þríeykinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. júní 2020
27. júní
Ég er búin að kjósa Guðna af því að mér finnst hann réttur maður á réttum stað. Ég hef alveg haft efasemdir um forsetaembættið en ef við erum með forseta á hann að vera vel lesinn, bæði almennt og í þeim fræðum sem snúast um stjórnsýsluna, koma vel fyrir, koma vel fyrir sig orði og vera grandvör manneskja. Guðni er auðmjúkur og frá mínum bæjardyrum séð maður fólksins. Ég er hæstánægð með hann þótt hann hafi misstigið sig tvisvar eða þrisvar lítillega.
Fleira var það ekki í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. júní 2020
1,1% niður í 0,35% vexti
Ég á sparifé. Innlánsvextirnir voru fyrir helgi 1,1% en núna er búið að lækka þá niður í 0,35%. Fékk ég bréf í pósti? Nei. Fékk ég tölvupóst? Nei. Fékk ég tilkynningu í heimabankanum? Nei, það nýjasta þar er frá 7. júní 2018 um að árgjöld og seðilgjöld muni hækka 1. ágúst. Ég er ekki blankasta manneskjan í landinu en mig varðar það samt þegar verið er að hækka einhver tilbúin málamyndagjöld sem koma ekki til af vinnu eða neinum raunkostnaði.
Nú eru dæmafáir tímar, já, en í góðæri eru bankarnir líka hollastir sjálfum sér. Og hér er engin alvörusamkeppni, ekki í bankaviðskiptum, ekki í viðskiptum með tryggingar, matvöru eða netþjónustu.
Við erum í barbararíki og getum ekki rönd við reist nema fara í annað efnahagsríki. En maður er átthagabundinn að sumu leyti af því að fólkið manns er hér, ræturnar og tengslin. Og eitt hefur Ísland sem er ekki að finna alls staðar og það er frelsi til að vera úti. Ég þakka fyrir að hafa mátt mæta í vinnu og hlaupa í 20 km radíus ef ég vildi. Ég þakka líka fyrir þríeykið og ýmsa aðra fagmenn en því miður er landinu ekki vel stjórnað og hefur kannski aldrei verið vegna mannfæðar. Sjálftökumönnum er ekki settur stóllinn fyrir dyrnar. Aldrei. Menn eigna sér fiskinn og bráðum jökulinn, vatnið og loftið til viðbótar við peningana sem verða hér til.
Ég er mjög gröm. Ég er rænd af bankanum mínum og hann lætur mig ekki einu sinni vita.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 1. júní 2020
Van(t)ar einn staf ...
Ég samdi þetta ekki:
Krabbinn hefur tilhneigingu til að vera of ljótur til að treysta fólki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. maí 2020
Átakasækni?
Fyrir 20 árum var ég komin vel inn í fullorðinsárin og tók að mér kennslu norður í landi. Það voru mikil hlaup hjá mér allan veturinn enda ég nýútskrifaður kennari og var að gera margt í fyrsta skipti. Ég sá þar að auki um vistina þriðju hverju viku á móti tveimur öðrum kennurum. Ég átti ekkert einkalíf enda bjó ég næstum með nemendum. Um vorið króaði skólastjórinn mig af og rukkaði leigu sem hann hafði látið á sér skilja við ráðningu um haustið að væri engin af því að húsnæðið var bara eins og kennslustofa á heimavistinni. Fyrri heimavistarstjórar höfðu ekki borgað leigu.
Eftir álagið um veturinn og við þessa skyndilegu árás fór ég að hágráta og ég fæ enn örari hjartslátt þegar ég rifja upp þessa framkomu. Hitt sem mér er minnisstætt frá stjórnunartækni þessa skólastjóra er þegar hann spurði okkur kennarana á kennarafundi hvernig hann ætti að fara að því að spara fyrir skólann sem þyrfti að skera niður.
Þessi skólastjóri hafði verið í framboði fyrir stjórnmálaflokk sem þurrkaðist út á svæðinu við framboð hans en ég er næstum viss um að þegar hann var sjálfur nýútskrifaður stærðfræðikennari var í honum mikill kraftur sem sást m.a. á því að hann byggði upp skólann að miklu leyti. Þegar ég kom til sögunnar sniðgengu nemendur þó tímana hans ef aðrir kennarar voru í boði, meira að segja þótt þeir þyrftu fyrir vikið að vera í tímum til kl. 18 á föstudegi.
Ég tók ekki slaginn.
Nokkrum árum síðar var ég yfirmaður manns sem hafði ánetjast áfengi mjög illilega. Hann var flinkur í sínu fagi en hafði fengið djobb sem hann réð ekki við, ekki síst fór hann á skjön við allar reglur sem giltu um starfið og hann hafði tekið þátt í að semja. Ég starfaði þarna með pólitískri nefnd og þar var maður sem hélt hlífiskildi yfir hinum ólánsama drykkjumanni. Ég hafði að sumu leyti samúð með undirmanni mínum og hefði alltaf viljað setja honum stólinn fyrir dyrnar en nefndin tók það ekki í mál. Hann var fársjúkur af áfengisneyslu og hefði nefndin viljað honum gott hefði hún einmitt tekið í taumana. Sá sem helst skaðaði hann með því að styðja hann var oft dónalegur við mig - enda ég miklu yngri kona en hann karl. Ég tók ekki slaginn heldur gafst upp. Drykkjumaðurinn græddi ekki á því. Hann hringdi í mig á næturnar til að úthúða mér og sendi síðan einhvern til að skera á öll dekkin á bílnum mínum. Lögreglunni var alveg sama um líflátshótanir hans enda kom á daginn að hann stóð aldrei við þær ... Nú er þessi maður sjálfur nýlátinn, einn og vinalaus, afskiptur af pólitískum vinum sínum.
Fyrirsögnin hjá mér var: Átakasækni? Ég er nefnilega að velta fyrir mér ýmissa hluta vegna hvenær maður er farinn að sækja í eða forðast átök. Ég tel mig hafa réttlætiskennd og ég vil að fólk sitji við sama borð og hafi sömu tækifæri, þó auðvitað ekki án þess að fólk njóti verðleika sinna. Ég vil líka að fólk virði reglur enda búum við í samfélagi manna og verðum að geta gengið út frá sameiginlegum ramma, sbr. umferðarlögin og almennu hegningarlögin.
Ég horfi inn á við og spyr mig hvort ég sé ferköntuð. Mér finnst ekki en enginn er dómari í eigin sök.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. maí 2020
Afsögn eða uppsögn
Ég hef miklar skoðanir á því sem Cummings virðist hafa gert í veikindum sínum en mér finnst vera munur á afsögn, sem á við um kjörna fulltrúa, og uppsögn sem einstaklingar geta fengið ef þeir hafa verið ráðnir.
Er ég ein um þetta? Cummings er ráðinn af Johnson sem ætti þá að segja honum upp, reka hann, tjah, eða rjúfa ráðningarsambandið við hann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. maí 2020
Íslenska sumarið
Mig langar talsvert mikið að búa í heitu landi þar sem ég get gengið að sólinni vísri alla daga. Ég bjó eitt sumar í Róm og fannst geggjað að geta farið út í léttum kjól, verið í léttum kjól allan daginn og farið heim í léttum kjól án þess að þurfa að kasta mér í skjól eða taka með mér peysu eða úlpu í bakpoka fyrir daginn.
Samt finnst mér frábært að hafa íslenska breytilega veðrið. Í dag var t.d. rigningarlegt en í gær var sól og blíða í Reykjavík allan útivistartímann minn. Ég fór út að hlaupa og villtist um Kópavoginn og seinni partinn hjólaði ég í Ikea og villtist um Hafnarfjörðinn. Dýrðin ein.
Í dag var vel hægt að vera úti en allt í lagi að þurfa að vera inni og prófarkalesa ársskýrslu.
Ég er bara frekar kát með lífið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 23. maí 2020
99 umsagnir og svo þessi eina
Ég stend á tímamótum og þá verður mér litið um öxl. Ég man eitt árið þegar ég kenndi íslensku í einhverjum framhaldsskólanum og í lok árs fékk ég nemendamat. Einkunnir og umsagnir voru jákvæðar og fallegar en einn nemandi hafði skrifað: Hún hefur hlustað á Always look at the bright side of life aðeins of oft.
20 árum síðar er ég nú að velta fyrir mér hvað hafi vakað fyrir nemandanum. Þetta var a.m.k. ekki jákvæð umsögn.
Svo er ég að velta fyrir mér átakafælni eða átakasækni. Hvar dregur maður línuna? Hvenær er maður farinn að láta allt pirra sig og hvenær er maður farinn að láta valta yfir sig? Og hvernig á maður að finna jafnvægið á milli þess að sætta sig við of mikið og spyrna of fast við fótum? Hvenær er fólkið farið að skipta of miklu máli miðað við verkefnin sem þarf að vinna? Á að hanna skipurit út frá fólkinu á vettvangi eða út frá verkefnunum sem þarf að vinna?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. maí 2020
Sumarveðrið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)