Færsluflokkur: Dægurmál

Bakgarðurinn í Heiðmörk

Mér finnst alveg magnað að einkamiðillinn Vísir sjái um beina útsendingu á Bakgarðinum sem við mörg úr hlaupasamfélaginu höfum áhuga á. Ég segi nú ekki að ég hafi vakað yfir þessu í nótt en að öðru leyti hef ég fylgst frekar vel með útsendingunni í djúpu gluggakistunni minni. Ég er ekki að öllu leyti hrifin af því hvað fólk gerir skrokknum á sér með þessum miklu vökum og nánast ómennsku álagi en ég er ekki búin að sjá neitt um að þetta hafi skaðleg langvarandi áhrif.

Og ég ætla fljótlega í Hlaupár að kaupa mér nýja skó og annað úr þar sem það fyrirtæki stendur þétt við bakið á útsendingunni. 

Enn hlaupa sex hlauparar (af 215). Hlaupið hófst kl. 9 í gærmorgun. Og Garpur Ingason Elísabetarson fær risastórt kudos frá mér fyrir íþróttalýsinguna sem er bæði upplýsandi og hófstillt, ekki neinar upphrópanir eða tilgerð. 


Nýtt merki Alþingis

Mér finnst það flott. Ég er vinur breytinga og mér finnst alveg ástæða til að breyta til þótt ekki sé endilega verið að laga eitthvað bilað eða ónýtt.


Claire Keegan

Nú er ég búin að lesa tvær bækur eftir hinn rómaða írska höfund sem m.a. fékk mikið uppklapp í Kiljunni í fyrra. Þær voru svo leiðinlegar og fyrirsjáanlegar og óáhugaverðar að ég þurfti að pína mig til að klára þær þó að þær voru hvor um sig bara um 100 síður.

Ef ég væri að skrifa um þær fyrir eitthvert blað eða tímarit myndi ég rökstyðja þessa skoðun en nú læt ég duga að segja að það er ekkert lögmál að við séum öll hrifin af sömu bókunum. Hún Ingibjörg Iða í Kiljunni sem geislar af áhuga, lestrargleði og mildi hefur bara annan smekk en ég. Ég hrífst oft af hennar hrifningu en það dugir ekki til. Mig minnir að hún hafi líka verið hrifin af DJ Bamba sem mér finnst búa yfir áhugaverðum söguþræði en stíllinn svæfði mig trekk í trekk.

Vandinn er samt væntingastjórnun. Nú fer ég að vara mig ...


Höfundurinn Hildur Knútsdóttir

Ég las Möndlu um daginn og varð alveg hugfangin. Hún er örstutt skáldsaga, rúmar 100 síður, og ég gat ekki lagt hana frá mér. Ég er frekar mikill lestrarhestur þannig að ég er dálítið hissa á mér að hafa ekki lesið fyrri bækur Hildar. Kannski er það af því að ég hélt að hún væri unglingabókahöfundur. Okkur systkinum kom saman um að hún væri ungmennabókahöfundur, þ.e. skrifaði fyrir þau sem kallast á ensku young adults. Og ég er þá líklega þar ...


Prisons and jails

Kappræður Donalds Trumps og Kamölu Harris voru að byrja. Hún skelfur að sönnu meira í röddinni en hann talar um fólk sem kemur úr prisons and jails. Ég er ekki fullnuma í ensku, hehe, og spyr: EDT og KHr einhver munur á prison og jail? 

...

Já, þetta var lærdómsríkt. Jail er fangelsi þar sem fólk stoppar stutt en prison er fangelsi þar sem fólk er lengur en eitt ár. Af hverju er gerður greinarmunur á þessu í ensku?


Línuskiptingarstrikið sem hverfur

Nei, þetta er ekki upphafið að sakamálarannsókn. Þegar maður skrifar texta í word verða línur ójafnar ef maður hefur vinstri línujöfnunarstillingu eða stundum gisnar þegar maður hefur miðjulínujöfnun. Ég er svo mikill fagurkeri, hoho, að ég get ekki horft upp á þetta og skipti þá orðum á milli lína. Ef textinn skyldi svo breytast seinna, já, eða línurnar leggjast ólíkt í annarri tölvu (ég treysti mér ekki til að útiloka það) er trixið að halda Ctrl niðri á lyklaborðinu um leið og maður ýtir á bandstrikið. Þá hverfur línuskiptingarstrikið ef allt orðið skyldi rúmast í einni línu.

Mér finnst að þetta ætti að vera kennt á öllum word-námskeiðum ...


Guð - eða ekki

Á Facebook fylgi ég einhverjum dúdda sem kallar sig God og gerir stólpagrín að trú og guði. Flestir fylgjendur hans, a.m.k. þau sem tjá sig, virðast vera bandarískt fólk og það er líka ýmist kaldhæðið eða bara meinfyndið.

Í kvöld spurði hann hvað væri til á sérhverju bandarísku heimili. Sumir drógu í efa að allir hefðu yfirleitt þak yfir höfuðið og margir sögðu, með grátbólgnu tjákni, að byssa væri á öllum bandarískum heimilum. Einn sagði að bragði: 32 Tupperware-ílát og níu lok á þau. Margir tengja augljóslega við þetta miðað við viðbrögðin sem hann fær.

Sumir tala um macaroni (and?) cheese sem er hálfgerður þjóðarréttur (eins og pylsa kannski hér) og ein talar um útrunna baunadós aftast í búrskápnum. Einn talar um sterkt límband (duct tape) og annar um fullt box af alls konar snúrum sem passa ekki lengur við neitt.

Nú eru bara þrjú korter síðan færslan birtist þannig að listinn á eftir að lengjast, en mér finnst þetta litla innlit næstum daglega segja mér heilmikið um húmorinn hjá hinum almenna Bandaríkjamanni. Og þarna ætlar enginn að kjósa Trump ...


Phileas Fogg umhverfis jörðina 1872

Jules Verne, sá sami og skrifaði um ferðalag ofan í jörðinni sem hófst á og í Snæfellsjökli og endaði í Strombólí, skrifaði líka sögu um vísindamann sem ekkert hafði lifað á eigin skinni en ákvað að ferðast í kringum jörðina með þeim fararskjótum sem buðust. Nú er í spilara RÚV átta þátta röð um þetta ævintýri hans og samferðafólks hans, Abigail og Passepartouts, og þótt þetta sé mögulega hugsað sem barnaefni er þetta stórkostlega skemmtilegt efni fyrir fullorðna. Auðvitað er sumt órökrétt og ósannfærandi en skemmtigildið og sagan sjálf ryður því öllu úr vegi. Og ég er farin að elta leikarana á Instagram ...


,,Vindurinn veit hvað ég heiti"

Ég var að klára bók eftir Isabel Allende sem var gefin út á síðasta ári en kom út í íslenskri þýðingu á þessu ári. Fyrstu hughrif voru mjög mikil, ég hágrét yfir vissum köflum sem vísuðu beint í sögulegar staðreyndir um morð á heilu þorpi og almennt ofbeldi. Isabel er núna nýorðin 82 ára og alls ekki dauð úr öllum æðum en þegar á bókina leið varð hún þurrari og þurrari. Ég ræddi hana við bæði systkini mín sem voru búin með hana og þeim fannst hún lala sem mér fannst skiljanlegra þegar upp var staðið.

Höfundur er of mikið að flétta saman sögulega harmleiki þannig að söguþráðurinn geldur fyrir það. Engu að síður verð ég mér alltaf meðvitaðri eftir lestur á bókum af þessu tagi að ég bý við mikil forréttindi, friðsælan heimshluta og örugga lífsafkomu. Stór hluti heimsins getur ekki gengið að því vísu, og núna vissulega ekki ríki í Evrópu og guð hjálpi okkur ef appelsínugula viðrinið verður kosið í Bandaríkjunum eftir rúma tvo mánuði.

Ekkert er sjálfgefið, gleymum því ekki.


Helvítis lögmenn?

Fyrirsögnin endurspeglar ekki mína skoðun. Ég trúi alveg að í lögmannastétt eins og mörgum öðrum stéttum séu rotin epli en skoðun mín og reynsla af lögmönnum er ekki að þau séu helvítis neitt.

Ég er að hluta til verktaki og á dálítið erfitt með að rukka sanngjarnt verð. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í fyrra að Skatturinn rukkar mig um 6,35% tryggingagjald sem dekkar Fæðingarorlofssjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð. Mér finnst meira en sjálfsagt að taka þátt í samneyslunni en ég hafði sum sé ekki leitt hugann að þessu. Tekjuskattsprósentan hækkar með hækkandi tekjum en ef ég námunda tekjuskattinn í 35% borga ég 4.135 kr. af hverjum 10.000 kr. í skatt og tryggingagjald. Svo þarf ég sem verktaki að draga 8% af upphæðinni til að leggja í lífeyrissjóð og sem minn eigin launagreiðandi þarf ég að bæta við 7% þannig að ég þarf að taka 1.500 kr. af 10.000 kr. tímagjaldinu til hliðar fyrir lífeyrissjóð sem okkur finnst sumum ekki sérlega áreiðanleg ávöxtunarleið. Svo þarf ég að gera ráð fyrir orlofi (sem er að lágmarki hugsað sem 10,17%) og veikindum sem ég þarf sjálf að mæta af tekjunum mínum. Sá búnaður sem ég nota úreldist og ég þarf að endurnýja, aðallega tölvu og síma, svo og svo oft.

Þetta er ekki hugsað sem kveinfærsla, ég er bara að átta mig á þessu þetta árið. 

10.000 kr. tímagjald er þannig ekki hátt tímagjald í verktöku.

En í fyrra þurfti ég að byrja að leggja 24% virðisaukaskatt ofan á tímagjaldið og mér leið eins og ég væri að hækka tímagjaldið MITT um 24%. Mér fannst það óþægilegt en þau sem ég dæsti yfir þessu við töluðu um *helvítis lögmennina* sem gætu vel borgað og ættu fúlgur fjár.

Þó að lögmenn rukki 25.000 kr. á tímann eða mögulega meira er það ekki upphæð sem rennur öll í vasa viðkomandi. Til viðbótar því sem ég tel upp (og ég veit að hægt er að telja fram kostnað á móti) eru lögmenn með skrifstofur og yfirbyggingu, starfsmenn og aukinn rekstur. Lögmenn með mikil umsvif hafa væntanlega góðar tekjur en allt er þetta samt óvissu háð. Vinnan er öll verkefnadrifin (og, jú, ég veit að það á líka við um ýmsar aðrar stéttir) og tekjur geta dottið niður en kostnaðurinn ekki.

Ef mér á ekki að finnast óþægilegt að leggja 24% ofan á reikninga til lögmanna og ráðuneyta (sem þarf ekki að gera með fyrstu 2 milljónir ársins), má mér þá finnast það ef ég vinn fyrir fátækt bókasafn? Og ef vinnan er virðisaukaskattsskyld, af hverju er hún það ekki fyrr en eftir fyrstu 2 milljónirnar? Og ef það á að vera eitthvert krónuviðmið, af hverju hækkar það ekki á milli ára eða a.m.k. á tveggja ára fresti?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband