Færsluflokkur: Dægurmál

Fyrsta maraþonið

Ég get ekki lagt þennan tengil á Facebook-vini mína þannig að ég ætla að geyma hér hina stórkostlegu minningu um klukkutímana fimm sem ég varði á hlaupum um Kaupmannahafnarborg á sunnudaginn. Auðvitað hefði ég getað lagt mig aðeins meira fram en 1) maður á að byrja verr en vel, 2) ég vildi njóta umhverfisins og 3) ég er svo gott sem harðsperrulaus. Það var heitt, sólin skein, fólk hvatti mann meðfram brautinni, meðhlaupendur peppuðu og stemningin var í alla staði algjörlega frábær.

 


10 sinnum lægri laun?

Ég þurfti að horfa tvisvar á 10-fréttatíma RÚV til að trúa eigin eyrum. Haraldur Teitsson hjá rútufyrirtækinu Teiti Jónassyni sagði að útlendu bílstjórarnir sem keyrðu hér með túrista í vaxandi mæli væru með 10 sinnum lægri laun.

Ég skil að hann hafi mismælt sig en hvað vildi hann sagt hafa? Að útlendu, undirborguðu bílstjórarnir væru með 10 kr. lægra tímakaup? 10.000 kr. minna á mánuði? 10% lægra kaup?

Datt fréttamanninum ekki í hug að staldra við þetta?

Íslenskir rútubílstjórar voru á smánarlaunum meðan ég vann sem leiðsögumaður. Vonandi eru þau orðin skárri þótt ég leyfi mér að efast um það. Ástæðan fyrir að þeir tolla í starfinu er að þeir búa þó við nokkurt atvinnuöryggi og ég held að þeim finnist innan um og saman við dálítið næs að vera á kaupi tímunum saman í bílnum eða á spjalli við aðra í ferðaþjónustunni meðan leiðsögumaður gengur upp að fossum, upp á jökla og niður með ám með túristunum sínum. Þeir eru bundnir í vinnunni en geta aðeins um frjálst höfuð strokið. Ég vona að enginn lesi öfund úr orðum mínum, ég þekki marga frábæra rútubílstjóra og mér hefur mest sviðið að þeir séu ekki á samkeppnishæfum launum. Þeir hífa upp launin með yfirgengilegri aukavinnu.

En 10 sinnum lægri laun þýðir líklega að útlensku bílstjórarnir borga með sér og það dálítið ríflega -- og þá er von að Halli eigi erfitt með að keppa við þá.


Klíníkin

Ég hlustaði á Sprengisand í morgun og heyrði forsætisráðherra mæra einkarekna heilbrigðisþjónustu. „Mega menn sem vinna verkefni sem ríkið ræður ekki við ekki borga sér góð laun og jafnvel arð?“ Eitthvað á þessa leið féllu orðin.

Ég veit þess dæmi að viðskiptavinur í einkarekinni heilbrigðisþjónustu - sem borgaði fyrir hana - hrökklaðist þaðan á þjóðarsjúkrahúsið þar sem vandanum var mætt í alvöru. Ætli það sé eina dæmið?

Ef einkarekin heilbrigðisþjónusta á að toppa ríkisreknu heilbrigðisþjónustuna, rukka fyrir hana og borga sér góð laun verður hún að geta sinnt öllum þeim þáttum sem sú ríkisrekna gerir núna. Er það ekki eðlileg krafa?


Greiða niður skuldir

Já, ég er að hlusta á Silfrið. Já, ég er líka skynsemin holdi klædd og vil greiða niður skuldir til að eyða ekki 10% af tekjunum í vaxtagjöld. Hvað með að safna ekki svona miklum skuldum? Í ríku landi eins og okkar ættum við öll að geta unnið 20 tíma vinnuviku og samt lifað eins og blómur í eggi. Af hverju nær þá fólk (sumt) ekki endum saman þótt það vinni myrkranna á milli (nema á sumrin þegar sól sest ekki)?

Hrunið varð fyrir níu árum og þá var ríkissjóður svo gott sem skuldlaus, segir sagan. Af hverju erum við ekki komin lengra?

Og meðan ég man, ég er hlynnt einföldun skattkerfis, líka í ferðaþjónustunni. Ég heyrði nefnilega viðtal við Þóri Garðarsson á Sprengisandi áðan. Burðaratvinnugreinarnar væla mest en eru trúlega aflögufærastar. Nú ætla ég bara að hugsa um stjórn fiskveiða en ekki segja neitt ...


Sumar fréttir verður maður að geyma

Maður gæti haldið að ég hefði gert þetta viljandi en svo er ekki. Hoho. Ég heyrði m.a.s. fréttina í morgun í útvarpinu en tók hana ekki til mín. En auglýsingin er góð. Og okkur er öllum skemmt.

Til hamingju með daginn,
Berglind


mbl.is Hver er Sóley sem fermdist 2008?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En að innheimta kvótann?

Ég er krossbit. Vilja SFS ekki bara veiða fiskinn í Svartahafinu líka?


338.349!

Mér varð litið inn á vef Hagstofunnar áðan og krossbrá. Þar stendur:

Hinn 1. janúar 2017 voru landsmenn 338.349 og hafði þá fjölgað um 5.820 frá sama tíma árið áður eða 1,8%. Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru eigi að síður 3.717 fleiri en konur.

Við sátum tvö íslensk í flugrútunni í gær á leið í bæinn eftir skíðafrí í útlandinu og spjölluðum við aðkomumenn. Einar: Og við erum bara 300.000. Ég: Hey, við erum 330.000, bannað að draga úr.

En við erum að nálgast 340.000! Ekki nema von að innan um og saman við sé fólk sem ég hef bara aldrei séð.

Ef ég skyldi aftur fara í leiðsögn er vissast að hafa staðreyndir á hreinu.


Á fjórða degi í alþjóðlegu hrósi

Það er varla að ég þori að segja þetta upphátt en mér finnst fólk ekki hrósa of lítið. Á miðvikudaginn var alþjóðlegi hrósdagurinn og íslenski bjórdagurinn og þeir fóru báðir framhjá mörgum sem ég þekki. Ég veit það því að ég kom þeim á tal við marga. Og það var í sjálfu sér ágætt.

Kannski hrósar fólk of sjaldan þó að mér líði ekki þannig. Mér finnst fólk oft hrósa yfirborðslega og af samviskusemi. Ég er alls ekki að tala um þegar fólk segir öðru fólki að peysan sé falleg eða klippingin klæðileg. Ég trúi að það sé sjálfsprottið. Ég er að tala um þegar fólki er sagt að það sé SNILLINGAR fyrir það að eiga afmæli, komast óbrotið niður skíðabrekkur eða bara fara í skíðaferð til útlanda. Hrós er bólgið. Einkunnir hafa tilhneigingu til að verða óþarflega háar og þannig nýtist ekki skalinn. Ég er ekki viss um að þetta örvi fólk til góðra verka eða bætingar í neinu.

Að sama skapi veigrar fólk sér við að setja fram heilbrigða gagnrýni af því að hún er túlkuð sem tuð og neikvæðni. Ef heilbrigðisstarfsmaður gagnrýnir það að lyfta á Landspítalanum sé biluð í heila viku fussa sumir yfir gagnrýninni en gaumgæfa ekki það sem gagnrýnin beinist að. Gagnrýni er túlkuð sém árás en felur kannski fyrst og fremst í sér upplýsingar sem ætti að vinna úr. Og ef lyftan er óstarfhæf kemst sjúklingur ekki á milli hæða eða önnur lyfta verður ofnotuð og gengur líka úr sér.

Kannski er hluti af vandanum sá að stjórnmálamenn virðast eiga erfitt með að gútera að andstæðingar í pólítik geti bent á skynsamlegar leiðir eða komið með góðar tillögur. Menn rífa niður hugmyndir annarra -- en á móti er fólki hrósað fyrir algjört getuleysi.

Kannski.

En frábært veður úti núna ... sólin er SNILLINGUR ...


Sjómannalíf

Undarlega lítið fór fyrir 10 vikna löngu verkfalli sjómanna. Auðvitað fundu hlutaðeigendur vel fyrir því en í nærumhverfi mínu heyrði ég fáa lýsa yfir áhyggjum. Af hverju?

Verður auðvelt að vinna markaðina til baka?

Verður lítið mál að sækja fiskinn sem hefur nú synt óáreittur í rúma tvo mánuði? Hefur hann e.t.v. fjölgjað sér betur og verður meira af honum?

Er landverkafólk kátt með óumbeðið launalítið frí?

Áttu menn sjóði?

Ef ég ætti núna eina ósk væri hún sú að menn (les: útgerðir) gætu ekki selt sjálfum sér aflann heldur yrði að setja hann allan á markað. Skyldi ég fá uppfyllta ósk mína um að aðskilja veiðar og vinnslu?


Leiðsögumenn fá ekki dagpeninga

Ég er að hlusta á viðtal í sarpinum á Rás 1 við sjómann sem segir að allar stéttir sem fara að heiman fái dagpeninga nema sjómenn. Leiðsögumenn fá ekki dagpeninga. Ég vil að kjaradeilan leysist en menn græða ekki á því að halla réttu máli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband