Sunnudagur, 28. janúar 2007
Glæpur og umbun
Nú er ég búin að átta mig á hvers vegna ég gat ekki annað en haldið áfram með Undantekninguna hans Christians Jungersens, tæpar 600 síður. Hann hefur nútímavætt Glæp og refsingu, uppáhaldsbókina mína. Ég hef að vísu aldrei þorað að lesa hana aftur en fyrst eftir að ég las hana sá ég Raskolnikoff ... víða.
Christian kvað hafa verið 7 ár að skrifa bókina sína og ég þori að hengja mig upp á að honum hefur oft orðið hugsað til Dostóévskíjs á meðan. Munurinn er helstur sá að í Undantekningunni uppsker aðilinn sem fremur glæpinn umbun erfiðis síns. Svo eru smávægileg atriði eins og annað land, annar tími og annar glæpur. Líkindin felast í sálarangistinni og samviskubitinu.
Samt kemst Glæpur og umbun ekki með tærnar þar sem Glæpur og refsing hefur hælana.
Og enn af tillitssemi við Habbý læt ég þýðinguna liggja á milli hluta. En kannski ég fái Krat lánaða á bókasafninu á dönsku, það er bókin sem Jungersen varð frægur fyrir í Danmörku.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. janúar 2007
Mikið að borga og lítið að fá
Ég hef ekki brjálæðislega sannfæringu fyrir þessu en finnst ég skulda sjálfri mér að hugsa upphátt um meðlög eftir að hafa boðað slíkt vers.
Einhverra hluta vegna þekki ég engar einstæðar mæður (nema reyndar eina en það er svo nýtilkomið) þannig að ég veit ekki úr nærumhverfi mínu hvernig mæðrum reiðir af eftir að þær skilja við barnsfeður sína.
Ég þekki hins vegar feður sem ekki hafa forsjá með börnum sínum. Og þeim finnst þeir borga of mikið. Greiðslan með barni til 18 ára aldurs er 18.300 á mánuði (námundað). Á ári eru það þá 220 þúsund, og ef við bætum við sama framlagi frá móður kostar rekstur barnsins (viðskiptalegt orðalag en það verður að hafa það) 440 þúsund kr. á ári, eða það er framlagið öllu heldur.
Og hvað kostar að ala upp barn? Það er sko ekki sama hvort við tölum um 2ja ára eða 12 ára. Fæði og fatnaður, alltaf. Leikskóli eða dagmamma hjá börnum að grunnskólaaldri. Stærri íbúð svo að barnið hafi sérherbergi. Frístundastarf. Sumarfrí. Rekstraraðili barns (les: uppalandinn) þarf að vera til staðar um kvöld og helgar eða útvega pössun. Það foreldri getur ekki unnið eins mikla aukavinnu og það vill og aflað þannig meiri tekna.
Svo skiptir máli hvort einstæða foreldrið annast eitt eða fleiri börn. Með fleiri börnum fylgir magnafsláttur af tímanum sem fer í matseld og innkaup. Börn á svipuðum aldri geta samnýtt eitthvað af fötum, kerrum, leikföngum og tækjum. Meðlag með tveimur börnum er þá 440 þúsund og afkoman kannski bærilegri.
Vitaskuld reyni ég ekki að leggja hið minnsta mat á þau gæði að eiga börn enda eru þau aldrei metin til peninga.
Ég held bara enn að 18.300 sé mikið að borga og lítið að fá.
Og verð æ hrifnari af hugmyndinni um skattkort barna sem foreldrar njóti til 18 ára aldurs barnanna. Við erum bara 307 þúsund í þessu stóra landi, okkur vantar fleira fólk, okkur vantar fleiri börn til að vinna fyrir okkur sem eldumst á undan þeim.
Annars er ég sannfærð um að einhverjir minna góðu vina myndu vilja láta setja barneignir á markað ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)